Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Hafgúan

 

 

                                     

 

 

       
 


Skemmtilegur eftirmiðdagur

140707 005 (1) 'Hafgúan' Olíu- prentlitaþrykk og olíulitir

 

                  

                   Eftirminnileg heimsókn

 

 

Katrín Karls vinkona mín og fyrrum samkennari hjá Fjölmennt kom hér í dag til að taka ljósmyndir af nokkrum stóru myndunum mínum. 

Katrín er listagóður ljósmyndari fyrir utan það að vera líka myndlistarkona og kennari og leirlistamaður og fl. Hún var með stærðarinnar myndavél á þrífæti með sér og það voru miklar tilfæringar við myndatökuna.

Ég náði í trönurnar inn í vinnustofu og stillti myndunum upp á þær frammi í stofu. Svo lagfærðum við kastarann og drógum loks sófaborðið sem næst myndunum og þar  kom hún vélinni fyrir á fætinum . Svo klifraði hún sjálf upp á borðið og smellti af í gríð og erg.

Ég var alveg á nálum og  dauðhrædd um að hún myndi steypast á hausinn niður af borðinu þa´og þegar.  En  Katrín stóð þarna  föstum fótum enda alvön að  klifra  upp  um fjöll  og  firnindi  til þess að ná  góðum myndum.

Katrín er frábær ljósmyndari og sýnir myndirnar sínar á flickr.com. Það er linkur á síðunni minni á myndirnar hennar þar.

Ég sá eitt sinn ljósmynd eftir hana, sem hún hafði tekið nálægt hraunyfirborði, eða það hélt ég, þar til hún upplýsti mig um það að þetta væri nú bara steikarfeiti á pönnu.

Við spjölluðum heillengi og drukkum te eins og enskar hefðarfrúr á meðan,  eftir að myndatökunni lauk og m.a. bar tilvist Guðs á góma og fleiri háheimspekileg efni.

Hommarnir Tító og Gosi voru voða hrifnir af Katrínu og Tító flaðraði upp um hana eins og hundur, en Gosi var dálítið feiminn eins og venjulega.

Rétt áður en hún fór tók hún myndir af þeim félögunum þar sem þeir kúrðu sitt í hvoru lagi í sófasettinu og myndirnar eru vægast sagt þrumugóðar.

Það er ekki amalegt að eiga svona vini. 140707 0189 small Tító






 

 

 

 

 

 

 

 


Mali litli og fleira merkilegt

Ég fór að heimsækja Sigga bróður í gær til þess að skoða nýjasta fjölskyldumeðliminn, hann Mala litla.
Siggi var svo upprifinn yfir unganum að það komst ekkert annað að,  en nýjustu uppátæki barnsins, eins og hann kallaði Malakútinn. 

Hann hafði farið með hann í sprautu og ormahreinsun hjá dýralækni þennan dag og þeir voru nýkomnir heim feðgarnir, þegar ég bankaði uppá.

Mali litli þefaði mikið af fótunum á mér, hefur vafalaust fundið þar lyktina af frændum sínum, þeim Tító og Gosa. En hann undi ekki lengi við það, því leikgleðin var alveg að fara með hann og hann þyrlaðist eins og svarthvítur stormsveipur um alla íbúðina. Svo loks var hann orðinn svo þreyttur af öllum látunum að hann lagði sig til svefns og auðvitað í uppáhaldsstað húsbónda síns, stofusófann.

Við Siggi spjölluðum saman yfir kaffi og skoðuðum gamlar myndir eftir Matz Vibe Lund af Vestmannaeyjum. Þær voru teknar fyrir stríð og þær sýndu vel hve Eyjarnar voru miklu fallegri áður en nýja hraunið rann. Á myndunum voru Eyjarnar einna líkastar því sem væru þær smaragðar í safírsænum allt um  kring. Og í baksýn uppi á fastalandinu,  trónaði hvítur skalli Eyjafjallajökuls, Hekla og fleiri myndarleg fjöll.

Þegar ég kom heim neyddist ég til þess að drepa geitung, því Gosi ætlaði að veiða hann og ég var hrædd um að geitungurinn myndi stinga Gosa. Ég hefði líklega sett krukku yfir geitungsbjánann, ef hann hefði verið á svalaglugganum, rennt svo pappír undir og hent honum svo út, eins og ég geri við allar hunangsflugurnar sem villast inn í blómadýrðina á svölunum. En því miður var þetta ekki hægt þar sem geitungurinn sat á dyrakarminum svo ég lamdi hann í klessu með dagblaði. Mér fannst verst að hann drapst ekki við fyrsta högg, heldur þurfti ég nánast að murka lífið úr kvikindinu með hverju högginu á fætur öðru.

Svo þegar hann var loksins dauður, lá við að ég tárfelldi þegar ég horfði á litla líkamann sundurkraminn.  En svo bað ég Guð í hljóði að taka við sál þessa litla skordýrs og henti því svo í ruslafötuna og hugsaði með mér að hann hefði hvort sem er drepist úti í náttúrunni, þar sem það er komið haust. 

Svo þegar ég fór á netið uppgötvaði ég mér til mikillar ánægju að það var búið að senda mer 'æðisleg' lag við ljóðið 'Náinn' sem ég birti hér á blogginu mínu. Svo ég sat eftir það í leiðslu við tölvuna og hlustaði á lagið og endurlifði gamla tíma með æskuástinni minni sálugu, meðan tárin trítluðu niður kinnarnar. Þetta lag er besta gjöf sem ég hef fengið á ævinni Það er alveg yndislegt.

En svo dreymdi mig í nótt að risageitungur væri búinn að festa sig í annan augnkrókinn á mér og svo stakk hann mig. Þetta var örugglega geitungurinn sem ég drap, afturgenginn til þess að hefna harma sinna. Ómægod ! Hvað ég var fegin þegar ég vaknaði.


Svanavatnið á Reykjavíkurtjörn Gagnrýni

Reykvísku álftirnar sýndu ballettinn Svanavatnið á Reykjavíkurtjörn s.l. sunnudag .
Hlutu þær góðar undirtektir áhorfenda sem voru mestmegnis fólk að gefa öndunum brauð.
Má því með sanni segja,að álftirnar hafi komið mönnum þægilega á óvart með þessum óvænta 'performance'.

Með eðlislægum þokka og óaðfinnanlegri tækni lyftu þessir tignarlegu fuglar verkinu í sínar hæstu hæðir svo unum var á að horfa. Tónlistin við verkið var í höndum lúðra lögreglubifreiða í bland við flaututóna strætisvagnanna og stöku hljóma í Dómkirkjuklukkunni.

Helblár himinninn og grámóskuleg rigningin mynduðu síðan hina fullkomnu umgjörð um þetta sígilda meistaraverk.

Hæstaréttardómur yfir nauðgara til skammar ! ' Til eru fræ sem fengu þennan dóm'

Fimm hæstaréttardómarar:, Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson, milduðu dóm Héraðsdóms yfir nauðgara úr fjórum árum niður í þrjú og hálft ár og lækkuðu miskabætur verulegar.
Konur og börn eru léttvæg fundin hjá dómstólum landsins. Ef að karlmaður hefði orðið fyrir svona hrottalegu ofbeldi og nauðgun er ég viss um að dómurinn hefði orðið þyngri. Ég tala nú ekki um ef að fórnarlambið hefði verið hæstaréttarlögmaður, eða þá barn einhvers af þessum dómurum sem kváðu upp þennan óforskammaða dóm.
Hvað þarf til, til þess að opna augu dómarana fyrir alvarleika nauðgana og afleiðingum þeirra??? Kannski að fórnarlambið láti lífið vegna áverkana sem það hlýtur?
Annars má til sanns vegar færa að fórnarlömb nauðgana láti lífið við nauðgunina, því ævi þeirra verður aldrei söm.
þolendur nauðgana þurfa að berjast fyrir lífi sínu bæði andlega og líkamlega, eftir svona hryllilega árás og niðurlægingu á líkama þeirra og sál allt sitt líf.
Við fólkið, almenningur í þessu landi, þurfum að koma skýrum skilaboðum til dómstóla landsins um að svona skammaleg vinnubrögð verði ekki liðin framvegis.

           

             Til eru fræ

 

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.

 
  Davíð Stefánsson frá  Fagraskógi


Stjörnuspáin mín í dag

Ljón:

Alheimurinn lætur þig vita þegar þú hefur villst af bestu leiðinni fyrir þig. Í stað þess að verða pirraður skaltu þakka fyrir þig og hlusta á viðvörunina.

Hvernig í fjandanum á ég að skilja þessa stjörnuspá?  Er ég að villast af leið með því að mála þessar myndir mínar í gríð og erg? Ég sem að stefni loksins að einhverju af viti í áraraðir.
Og er alheimurinn að fyljgjast með mér við þessa iðju mína? Og hvernig lætur hann mig vita að ég sé á rangri leið?
Mér er satt að segja um og ó. Og svo er ég bara alls ekkert pirruð, svo þetta hlýtur að vera einhver misskilningur. Eða ég ætla rétt að vona það. Annars skal ég ....


Náinn Birt aftur

Brástjörnur bláar man ég
blika mót sjónum mínum.
Bros líkt og ljómuðu perlur
leiftraði á vörum þínum.

Þín nálægð var neistandi elding
er nam ég frá verund þinni
Þitt nafn eins og ómfagur söngur
yljar enn sálu minni.


 

Hann var mín hreina og saklausa æskuást.
Hann dó átján ára gamall.


Þetta er fyrsta jákvæða fréttin sem ég hef lesið um Paris Hilton

Og þetta er líka eina myndin af henni þar sem mér hefur fundist hún beinlínis falleg. Það er geislandi brosið hennar þar sem hún heldur á einum af hundunum sínum. Og hún virkar svo lífsglöð og hjartahlý persóna á myndinni.
Hingað til hefur mér þótt Paris bæði vera ljót og fýld manneskja og ég hélt að það væri fátt gott sem hún hefði til að bera. En fyrst hún elskar dýr þá hefur hún vaxið stórlega í áliti hjá mér.
Ætli þessi mynd birti ekki hennar eina sanna andlit?
Ég gæti bara trúað því að það væri sterkur leikur hjá henni til þess að finna hamingjuna og losna við ólifnaðinn úr lifi sínu, að gerast dýralæknir.
mbl.is Paris Hilton ræður dýrahirði til starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvika

 

Ég nota allar frístudir ítil að mála. Ekki seinna að vænna að að eiga eitthvað til af myndum ef af maður fer að sýna þetta. Mig vantar bara pening. það kostar minnst 300.000 krónur að sýna í galleryi ef maður tekur allt með í reikningin. En maður vonar að þetta reddist, ég fái styrk og svoleiðis. Svo er bara málið að allir gagnrýnendur á Mogganum verði ekki í fríi þegar sýningin verður haldin, eins og þegar ég hélt síðustu sýningu.  Það kemur sér andskoti illa að fá ekki gagnrýni. En mér var allavega lofað af fulltrúa menningar og lista á Mogganum að ég fengi almennilega umfjöllun næst. 


Óttalegt rokrassgat er þetta alltaf úti !

Svo er sífelld rigning í þokkabót. Mann langar mest til þess að kúra undir sæng með hommunum sínum og fara ekki út úr húsi.
Það endar illa sumarið, eins og september getur oft verið ljúfur mánuður.
Svo er bráðum kominn október og þá er pottþétt komið haust og sumarið alfarið til andskotans.
Þessi rigning og rok er svo spælandi eftir góðviðrið í sumar. Svo eru blómin í garðinum öll vindblásin og niðurrignd og ég sem hef svo gaman af að dunda mér í garðinum. Ætlaði meira að segja að setja niður meira af limgerðisplöntum, en moldin er alltaf svo mígandi blaut að mér hryllir við að fara að drullumalla í henni. Maður getur bara ekkert verið úti við og það er hundfúlt.
Það eru svo miklar öfgar í veðrinu orðið, að ég spái því í fúllyndi mínu, að veturinn verði óvenju harður með grimmdarfrosti allt upp í 20 stig og öskrandi snjóbyljum sem færa allt á bólakaf og hananú!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband