Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Heimþrá (Brot)

scan0004 Stjarna

 

Þegar hrossin höfðu velt sér og kroppað um stund, tók Stjarna sig ein út úr og brokkaði niður að ánni. Hún stóð ekki mikið fyrir, þótt straumhörð væri, köld og hrokasund landanna milli. Brattabrekka tafði hana lítið , og hefur þó margur sporþungur klár tafist við hana. svitnað og runnið.  Heimþráin bar hana fljótt yfir, strokið beggja skauta byr.
Hún stefndi mun sunnar en leiðin liggur í áttina til hrossafjöldans heima og gleðinnar í afréttarfrelsinu , - og fallega folaldið horfna - . Hátt hnegg kvað við, aðeins eitt - og hún rásaði þegjandi vestur eftir,  yfir grjót og ása, mýrarflóa og fen.

 Þorgils gjallandi


Karlmenn

'Tími karlmannsins er liðinn.  Karlmanninum hefur tekist gegnum aldirnar að gera sig að algerlega þekktri stærð.  Konan er hins vegar enn á stigi hinnar óþekktu stærðar.  Hún er algebra sköpunarverksins.  Hún er X .  Öll mikilmenni vilja verða konur leynt eða ljóst.  Með ellinni kemur þetta greinilega fram hjá karlmönnum.  Takið eftir hvað afburðamenn verða ævinlega kerlingarlegir með aldrinum.  Rakið skeggið af mikilmennum nítjándualdarinnar og sjá :  Þarna situr ljóslifandi ströng amma.'

 

                                 Guðbergur Bergsson: TÓMAS JÓNSSON METSÖLUBÓK 


Gullkorn fyrir svefninn

'Ég:  Óli hefurðu tekið eftir því hvað dúfurnar eru með litla hausa.  Heldurðu að þær séu ekki með neinn heila?
Óli:  Nei þær eru með vængi. Til hvers ættu þær að vera með heila?
Ég:  Meinarðu að það sé betra að vera með vængi en heila?
Óli:  Ég held að það væri best að vera með vængi á heilanum.

 

 

Einar Már Guðmundsson:  VÆNGJASLÁTTUR Í ÞAKRENNUM. 


Jökulsporður Þrykk, blek og akrýl

scan0008

Ég er...


Ég er
rósin
sem blómgast að hausti
ég er
unglingsins
elliglöp
ölið sem alkinn
ei smakkar
og ástin
sem kann bara rök
ég er
marglytta
í fjörunnar sandi
ég er
fjúkandi bylur
í sól
ég er
saga sem löngu er liðin
ég er
álfur
sem kom út úr hól.

Álög

Á miðnætti í Huliðsheimum
er álagastund.
Allt verður kyrrt og rótt 
og það er sem tíminn hverfi
inn í eitt óendanlega stutt
andartak
sem virðist líða hjá, áður
en það hefst.

Fossinn í gjánni fellur þegjandi
fram af bjargbrúninni
og áin streymir eftir farvegi sínum
hljóð eins og andardráttur
sofandi ungabarns.

Þyturinn í laufinu hægir á sér
og skógurinn er þögull
og þrunginn leyndardómum
sem leynast bak við sérhvert tré 
fullir ólgandi ástarþrár.

Og innan þessa eilífðaraugnabliks
og án þess að nokkur verði þess var
er þessi töfrum slungna stund liðin hjá.

Og allt er sem fyrr - en samt öðruvísi.

Líkt og náttúran sjálf sé að dansa í skóginum
íklædd dimmbláum, draumfögrum kjól.


Manndómsbrekkan þrykk og blek

Manndómsbrekkan

Ilmvatnið Prósaljóð

Ég hallaði mér út um opinn svefnherbergisgluggann og starði tómlega út í auðan húsagarðinn.
Ég var í þungu skapi. Enn ein ömurleg djammhelgin framundan því það var ekki venja að nokkur karlmaður liti tvisvar á mig þegar ég fór út að skemmta mér.
Ég myndi örugglega enda ævina sem ellidauð piparjúnka. Engin von um börn, hvað þá heldur barnabörn, að ekki sé minnst á syrgjandi eiginmann við mitt dánarbeð.
Ekki sála myndi fella tár þegar ég gæfi upp öndina og það yrði áreiðanlega ekki ein einasta minningargrein í Morgunblaðinu sem greindi frá minni gleðisnauðu ævi.
Það myndi jafnvel verða óframkvæmanlegt að lesa dánarfregnina, því ekki nokkur maður myndi hafa  grænan grun um hver ég hefði eiginlega verið.
Líkast til yrði ég jörðuð á laun og presturinn eini maðurinn við jarðarförina.

Ég var djúpt sokkin í þessa ógnvekjandi framtíðarsýn og sá enga glætu framundan í lífi mínu.
En ég kom skyndilega til sjálfrar mín þegar ógurlegt öskur skar sundur myrkrið sem umlukti mig.
Mér varð ljóst á einu augabragði að  nú væri ég loksins dauð og að  þetta væri Andskotinn sjálfur sem með þessum hætti væri að bjóða mig velkomna til sín í Neðra.
Ég var sem lömuð af skelfingu en með ofurmannlegum kröftum tókst mér að hrista af mér doðruna og beina skelfdum sjónum mínum í þá átt sem óhljóðin bárust úr. Og mér til ævarandi sáluhjálpar komst ég að raun um að þessi ógnvekjandi hvæsandi öskur voru ekki runnin úr barka Myrkrahöfðingjans heldur stöfuðu þau frá dulitlu sjónarspili sem átti sér stað í garðinum fyrir utan gluggann minn.

Þarna á miðri grasflötinni var spikfeitur fressköttur að athafna sig blygðunarlaust við það að bíta breima læðu í hnakkadrambið, auðsjáanlega með ákveðna athöfn í huga.
Ég fylgdist grannt með áframhaldandi uppákomu og þegar hún stóð sem hæst sló niður í huga mér yfirnáttúrlegri hugljómum sem átti eftir að gjörbreyta öllu lífi mínu.
Ég áttaði mig á því í einni sjónhendingu að það myndi skipta sköpum fyrir mig þetta kvöld að bera ilmvatn á háls minn aftanverðan, áður en ég færi út á lífið. 


Þetta er ekkert nýmæli myndi Hrói Höttur segja

Ég veit ekki betur en að Hrói Höttur og allt hans lið hafi verið í sokkabuxum, að vísu voru þær grænar. En hver veit nema við eigum eftir að sjá karlana spranga um göturnar í lauf-grænum sokkabuxum. Ég er viss um að það verður næsta  'trendið.' Og þá er bara eftir að koma fjaðrahöttum í tísku líka og við munum sjá Hróana út um allar trissur. Vonandi samt ekki rænandi og ruplandi.
mbl.is Sokkabuxur fyrir karlmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband