Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

'Sumri hallar hausta fer'

Haustvísa

Sumri hallar, hausta fer,

heyrið snjallir ýtar,

hafa fjallahnjúkarnir

húfur mjallahvítar.

dsc1_winter_watercolor_696077.jpg

                     'Vetur'. Vatnslitir.

 Það hefur haustað snögglega hérna á Landinu okkar góða undanfarið og það í tvennum skilningi . Laufin hafa visnað og fallið af trjánum og verðgildi krónunnar og hlutabréfin hafa visnað enn hraðar og fallið líka. Og fall þeirra var mikið.

Nú getum við aðeins vonað og treyst því, að líkt og vorið kemur til okkar aftur og trén skarta enn á ný grænum laufum, muni jafnframt fjárhagur lands og lýðs vænkast og grænka til samræmis við það. 


Jæja, þá er ríkisstjórnin komin á koppinn ..

..og þá er bara að vona að hún geri eitthvað í hann.
En mikil skelfing er maður fegin að vera laus við Framsókn úr ríkisstjórninni. Ég vona bara til Guðs að Samfylkingin falli ekki í sömu gryfjuna og frammararnir og endi líka sem aftanívagn á limmósínu sjallana.
Ég er ánægð með að Jóhanna Sigurðardóttir hafi loks fengið sinn langþráða tíma og ég held bara að hún komi til með að gera góða hluti sem velferðarráðherra. Ekki veitir af að bæta hag barnafjölskyldna og lífeyrisþega.

Guðlaug Þór heilbrigðisráðherra er ég ekki jafn viss um að geri það eins gott í heilbrigðiskerfinu með fullri virðingu fyrir honum sem persónu. Það sópar að honum og ég vissi það um leið og ég sá hann í fyrsta sinn að þessi strákur ætti eftir að ná langt.
En ég er hrædd um að hann einkavæði  heilbrigðiskerfið og það fari á versta veg.
Vonandi endar það samt ekki með því að láglaunafólk missi allt sitt fyrir utan heilsuna, ef það veikist alvarlega,  eins og tíðkast í Amríkunni.

Þorgerður Katrín er náttúrulega eins og hinn hvíti stormsveipur í menntamálunum. Hún mætti  samt alveg huga betur að endurmenntun öryrkja og annars fatlaðs fólks til þess að koma því aftur út á vinnumarkaðinn.
Það myndi spara ríkinu stórfé fyrir utan það að bæta andlega og líkamlega heilsu  þeirra sem á þyrftu að halda.

Ingibjörg Sólrún sjálfur höfuðpaurinn í Samfylkingunni skín eins og sólstafur í gegnum góðviðrisský í sínu nýja hlutverki sem utanríkisráðfrú og ber nafn með rentu.
Ég vona svo sannarlega að hún hugi alvarlega  að  Evrópumálunum.  Það myndi kannski verða til þess að Ísland verði ekki lengur einna frægast fyrir það að vera það ríki, þar sem fæði og húsnæði er hvað dýrast í  hinum vestræna heimi. 

Geir H. Haarde hef ég lítið um að segja, annað en það, að ég hefði heldur viljað sjá Ingibjörgu í hans sæti og öfugt. Einnig finnst mér stórskrýtið að maður á hans aldri skuli svína svona á konunum í sínum flokki.  Hann er með sex ráðherra og þar af er ein kona.
Það hefði heldur betur verið rekið um ramakvein meðal karlanna í flokknum ef hann hefði fyrir utan sjálfan sig sem forsætisráðherra skipað konur í öll hin ráðherraembættin.

Það liggur við að í jafnréttismálum lifi Sjálfstæðisflokkurinn enn þá á steinöld og hananú!

 


Ég ætla að svíkja græna litinn

Ég horfði á vefvarpið um fylgi flokkanna þar sem Elva Björk Sverrisdóttir stjórnmálafræðingur spáir í fylgi flokkana og hvers vegna t.d.Vinstri grænir séu að tapa fylgi.

Hún segir að ráða megi að margar vinstri sinnaðar konur sem stutt hafi VG séu að velta fyrir sér að kjósa Samfylkinguna. Líkleg skýring sé sú að þar sé kona í forystu.

Ég var undrandi þegar Elva sagði þessi orð því ég er einmitt ein af þeim konum sem er búin að vera að pæla í því undanfarið að svissa aftur yfir á Samfylkinguna úr Vinstri grænum og skammast mín ekkert fyrir það.
Já og ástæðan er einmitt sú sem Elva talar um, að í Samfylkingunni er kona við stjórn og mér finnst hreinlega tími til komin að við kjósum fyrstu forsætisráðfrú Íslands.

Jafnrétti kynjanna hefur ekki enn komist á í þessi tólf ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við stjórn og mér finnst einfaldlega miklu líklegra að Samfylkingin standi sig betur í þeim málum en allir aðrir flokkar til samans.

Þar kemur tvennt til, í flokknum sjálfum er jafnrétti á milli kynjanna og síðast en ekki síst er formaðurinn sjálfur, kona, Ingibjörg Sólrún sem stjórnaði Reykjavíkurborg á röggsaman hátt í sínu borgarstjóraembætti fyrir nú utan það að vinna það afrek að velta Sjálfstæðisflokknum úr áratuga valdasessi í borginni.

Það er kominn tími til að kjósa konu sem 'forsætisráðfrú' Íslands, já og í raun að titla hana sem forsætisráðfrú en ekki forsætisráðherra.
Mér er alvara með það þó ég sé ekki viss um að sú ósk mín nái fram að ganga. Hvers vegna ekki að slá tvær flugur í einu höggi kjósa konu í þetta virðulega embætti og afnema í leiðinni karltengda einokun á nafni embættisins?

Síðast en ekki síst var ég áður dyggur stuðningsmaður Samfylkingarinnar en villtist af leið. Nú er ég aftur komin á rétta braut.


mbl.is „Kosningamálin hafa dottið dauð niður"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt ljóð á nýjum belg

Stórmál e. Guðnýju Svövu Strandberg 8. júní, 2006 : í Almennt og Íslensk ljóð. 0 komment

Aðalmálið er
að hafa eitthvað
til málanna að leggja

og það er mitt hjartans mál
að ekki verði mikið mál
að leysa vandamál
varðandi málefni
og stefnumál
flokksins

eða máls málanna

sem er bundið mál

því tók ég til máls
um mál málanna
meðal málsmetandi manna


gerður var góður rómur að máli mínu
enda er ég rómuð fyrir
að vera vel máli farin
og hafa sannfærandi málróm

kvisast hefur út orðrómur um það
að málið sé í höfn

enda er það málið

er það mál manna
að ég hafi alfarið tekið málin í mínar hendur

og þar með leyst málið

- sem er mjög gott mál



Guðný Svava Strandberg


Upplýsandi umræður milli Íslendinga og innflytjenda

það var mikið fjör á síðasta húsfundi og margt spjallað á íslensku, ensku, litháísku og  pólsku. Albanarnir á neðstu hæðinni sem ollu mér þungum búsifjum þegar þeir puðruðu drullunni úr loftræstikerfinu yfir þvottahúsið mitt létu ekki sjá sig. þess vegna var engin albanska töluð á þessum fundi.
 Við ræddum um nauðsyn þess að láta mála stigaganginn og teppaleggja og fleira.
 það fussaði í litháísku konunni þegar við töluðum um að láta mála. það svo expensive láta mála, í Litháen fólk gera svona sjálft saman, sagði hún. 
Það varð smá þögn við þessi orð konunnar en svo sagði formaðurinn þungur á brún. Og hver á svo með leyfi að labba á milli íbúða og fá fólk til þess að vera samtaka í því að mála sjálft the stigagang ?  Ekki geri ég það, bætti hún svo við í fússi. 
Allt í lagi, ég vera húsvörður. Ég gera þetta, sagði sú litáíska. Formaðurinn missti andlitið en leit samt spurnaraugum á okkur hin. Hverjir eru samþykkir þessu, spurði hún svo í uppgjafartón.
Allir réttu upp hendina og þar með kusum við fyrsta 'innflytjandann' í húsinu í þetta virðingarverða embætti. 
það líka þarf laga the roof, sagði nýji formaðurinn. það leka hjá okkur efst uppi.
Jahá, hún ætlaði aldeilis að færa sig uppá skaftið, eyða bara öllu um efni fram um leið og hún var búin að taka við embættinu.
Jaá það verður náttúrulega að láta laga það. Fáum einhvern iðnaðarmann til að líta á þetta, önsuðum við.
Nei, nei allt í lagi maðurinn minn gera það. Gera hvað? Tala við iðnaðarmanninn.? Spurðum við eins og hálfvitar.
Nei hann maðurinn laga the roof, svaraði nýji formaðurinn. Það svo cheap gera það sjálf. Ekki láta gera það, expensive
Hann bara þarf vita hvar kaupa the stuff for the roof, bætti hún við.
 Við samþykktum þetta auðvitað eins og skot náttúrulega gegn því að borga manninum eitthvað fyrir verkið.
Við vorum búin að átta okkur á því að innflytjendurnir sem bjuggu í blokkinni okkar vissu hvernig átti að fara að hlutunum. Okkur rámaði líka eitthvað í það að hér áður fyrr hefði fólk á Íslandi vitað það líka.
Ég minntist meira að segja á það með stolti að þegar ég var  einbýlishúss eigandi á mínum yngri árum hefði ég sjálf múrað útidyratröppurnar og fleira og málað húsið mitt að utan upp undir þakskegg á annarri hæð. 
Það þurfti líka að skipta um ljósarofa á ganginum og bauðst Pólverjinn til að taka það að sér gegn pay en auðvitað cheaper en the electrician.

Svo upplýsti hann okkur um það að hann væri búinn að leigja út íbúðina sína í stigaganginum og væri að flytja í aðra íbúð sem hann hefði keypt í Fossvogshverfi.


mbl.is Helmingur umfjöllunar um innflytjendur á síðasta ári var hlutlaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ba(r)nvæn sjúkrahús í Rússlandi

Á mannvonskan sér engin takmörk eða hvað? Fyrir stuttu var sagt frá því í fjölmiðlum að starfsfólk á öðru sjúkrahúsi í Rússlandi hefðu límt fyrir munninnn á ungabörnum til þess að þurfa ekki að hlusta á grátinn í þeim þar sem þau höfðu ekki tíma til að sinna þeim vegna mannfæðar.
Gráturinn er eina tjáningarleið ungbarna til þess að láta vita að þeim líði illa eða að þau þurfi að fá einhverja hlýju. Hvað verður eiginlega um þessi börn? Þau hljóta að missa allt traust til alls og allra og eigið sjálfstraust fyrst. þeim mun finnast þau einskis virði og eiga ekkert gott skilið þar sem komið er fram við þau eins og þau væru ekki til.
Börnin sem eru bundin við rúmið sitt er hægt að segja það sama um. Við þau er komið fram eins og skepnur sem eru bundnar á bása sína.  Að líma fyrir munn ungbarna og binda þau niður! Er ekki næsta skref að skera tunguna úr börnunum þegar þau byrja að tala til þess að losna við að hlusta á kvartanir þeirra eða til þess að þurfa ekki að þola hávaða og læti þegar þau leika sér.
Fjötruðu börnin verða svo að öllum líkindum sett í búr þegar þau stækka ef svo heldur fram sem horfir.
Guð minn góður á hvaða leið er mannfólkið eiginlega? Allstaðar að berast hörmulegar fréttir af illskunni sem viðgegnst á þessarri jörð fyrir utan hin hefðbundnu mannsmorð í stríðum og hryðjuverkum, pyntingar í fangaklefum, sýru hellt á konur og þær brenndar, barnungum stúlkum og drengjum nauðgað og þau síðan drepin. 40 konur í Mexíkó myrtar og líffæri úr þeim seld, rán, dópsala, ungt fólk aðallega stúlkur seldar í vændi og fl.og fl.
Ísland er ekki undanskilið  mannvonskunni því ekki er langt síðan að hryllilegir atburðir áttu sér stað í Breiðuvík, á Bjargi og fl.stöðum. Þar voru það börn og unglingar sem urðu fyrir barðinu á afbrigðilegum hvötum starfsfólksins.
Eða eru þetta kannski ekki afbrigðilegar hvatir hjá mannfólkinu að vera vont við börn og unglinga? Eða þá sem á einhvern hátt eru minnimáttar eins og átti sér stað í Byrgismálinu?  

Er þetta ógeð kannski það sem innra býr og fær útrás þegar enginn sér til? það er ekki ólíklegt þar sem það er talið fullkomlega löglegt að myrða konur, börn og karlmenn í  þeim óteljandi stríðum sem geisa á okkar ógæfusömu jörð.

Ég er að missa trúna á hið góða í mönnunum.


mbl.is Starfsmenn rússnesks sjúkrahúss sakaðir um að binda börn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ ég veit það ekki...

Maður er bara orðin svo þreyttur á svona fréttum!!Pinch


Og svei mér þá, ég held bara að eina ráðið sé að hverfa aftur til miðaldarefsinga gegn þessum barnaníðingumBandit

og þess vegna sé best að setja svona menn berrassaða í gapastokk.
Svo getur hver og einn valið um það hvort hann vilji gefa þeim þrumuskot í rassgatið eða  einn velútilátinn 'gúmoren' á greppitrýnið.
Einnig mætti vel splæsa spældum fúleggjum á smettið á þeim eða þá ofþroskuðum út tútnuðum tómötum ef ekki vill betur til. 
Láta þá dúsa svona í viku minnst og stinga þeim svo inn í þúúúúsund ár.  Devil 

                                                                                                                          


mbl.is 800 ára fangelsi fyrir kynferðislegar misþyrmingar á þrem börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju í fjáranum fæddist ég ekki á undan Pollock?


Ég hélt þegar ég var 14 ára að ég hefði fundið upp þá aðferð að hella málingunni á myndflötinn í stað þess að bera hana á með penslum.
En svona er lífið. Pollock var á undan.
(þó ég hefði á þessum tíma ekki hugmynd um að hann hefði verið til,  hvað þá að hann væri dauður.)
Þess vegna er ég ekki heimsfrægur listmálari sem getur selt myndirnar sínar fyrir milljarða, heldur aðeins fátæk myndlistarkona á Íslandi.
En teiknikennarinn minn var allavega hrifinn af fyrstu 'Pollock' myndinni minni. Hann hélt henni hátt á lofti, skoðaði hana í krók og kring og sagði svo andagtugur að 'þetta væri sannkalllað listaverk'
Myndin fór meira að segja á skólasýninguna um vorið.
Ég var rosalega montin af verkinu og fór aldrei langt frá því við opnunina. Ég hlakkaði svo til að heyra alla dást að þessarri dýrindis mynd minni.
En ég varð fyrir miklum vonbrigðum ALLIR sem létu svo lítið að berja listaverkið augum,  hristu annað hvort hausinn eða hlógu hæðnislega.
Ég var orðin ansi lítil í mér út af þessum óvæntu viðbrögðum svo þegar strák kvikindi nokkurt spurði mig  hreint út, hvort ég hefði málað þetta klessuverk, var mér allri lokið og lúskraðist heim háskælandi. 
Svona er að vera vitlaus manneskja á kolvitlausum stað. 


mbl.is Frekari efasemdir um umdeild Pollock-verk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband