Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
29.12.2007 | 13:51
'Í fjötrum'
Í fjötrum
Í haustgulu kvöldskini
gengu elskendurnir
að fossinum.
Komdu, sagð´ann
og stökk út á stein
í miðri ólgandi ánni.
Komdu, sagð´ ann aftur,
biðjandi og rétti út höndina.
Hann stendur enn
einn á hálum steini.
Svellbólstruð áin.
Fossinn í fjötrum
- ísköldum fjötrum.
27.12.2007 | 20:19
GALDRATUNGL
TUNGLIÐ, TUNGLIÐ, TAKTU MIG
Tunglið tunglið taktu mig
og berðu mig upp til skýja.
Hugurinn ber mig hálfa leið
í heimana nýja.
Mun þar vera margt að sjá
mörgu hefurðu sagt mér frá,
þegar þú leiðst um loftin blá
og leist til mín um rifin skjá.
Litla lipurtá. Litla lipurtá.
Komdu litla lipurtá langi þig að heyra.
Hvað mig dreymdi, hvað ég sá
og kannski sithvað fleira.
Ljáðu mér eyra. Ljáðu mér eyra.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.12.2007 | 00:47
'Á enda veraldar' Ljóð dagsins 6.desember á Ljóð.is
Þótt ég villtist
út á enda veraldar
og yrði að dúsa þar
til dauðadags,
þá skiptir það ekki máli,
þrátt fyrir allt,
því ég hef fengið,
að elska þig.
Ég var að fletta í gegnum Ljóð.is og rakst þá alveg óvænt á það, að þetta ljóð mitt hafði verið kosið ljóð dagsins 6.des. sl.
En ég læt líka fljóta hér með, eitt annað ljóð eftir mig, það er jólaljóð sem ég held mikið uppá og sem var á sínum tíma líka kosið ljóð dagsins á Ljóð.is
Jól
Ert þú -í raun og veru - sonur Guðs?
Spyr fréttamaðurinn í sjónvarpinu
Jesúm Krist.
Það eru þín orð, svarar Frelsarinn,
með bros á vör.
Jólatréð er sofnað,
það hallast ískyggilega á aðra hliðina
og mér flýgur í hug
- hvort það hafi líka stolist í sherryið
sem var falið í þvottavélinni
á jólanótt.
Rauð könguló
er snyrtilega bundin um topp þess
en gulir götuvitar lýsa dauflega
á slútandi greinum.
Úti sitja hrafnar á ljósastaurunum
krunkandi eftir feita hangikjötinu
sem við hentum í ruslið á aðfangadagskvöld.
Á svörtum himni skín einmana
- óljós - stjarna?
Ljóð | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.12.2007 | 13:06
Lungnabólga í jólagjöf
Svo byrjaði takið í lungunum í gær. Og ég sem er búin að vera reyklaus í rúma 14 mánuði.
En læknirinn sagði að lungun væru lengi að jafna sig eftir svona langvarandi reykingar eins og voru í mínu tilfelli. Svo hættið að reykja, þið sem reykið!! Þegar ég fékk lungnabólgu síðast fyrir rúmum 14 mánuðum þurfti ég að fá súrefni á sjúkrahúsinu, því súrefnismettunin var komin niður fyrir 85 % og eftir það hætti ég loksins að reykja. Já, var ég búin að segja það? Hættið að reykja, þið sem reykið!!
Annars er ég hrædd um að þetta geti alllt eins verið út frá hjartanu, því verkurinn er ekki bundinn eingöngu við öndunina og hann eykst ef ég hreyfi mig eitthvað. Mér finnst nefnilega svolítið skrýtið að Elísa 6 ára ömmustelpan mín, sagði við mig um daginn. 'Þú verður dauð fyrir 20. maí'! Vá maður, ef stelpan skyldi nú vera skyggn eða með dulræna hæfileika eins og ég. amman.
En einkennilegt að ég skuli þá ekki líka hafa fengið fyrirfram vitneskju um væntanlegan eigin dauðdaga. það hlýtur að þýða það að ég sé ekkert feig og þetta sé bara bull í Elísu. Alla vega vona ég það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
21.12.2007 | 01:01
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla með þakklæti fyrir liðið ár
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.12.2007 | 23:58
Ég er með hríðir, því það er að fæðast þessi mynd eftir langvarandi verki
'Jöklar munu hverfa'
En ég á eftir að vinna mjög mikið í henni. þetta er stór mynd sem ég vona að seljist, en það er nú meiningin að reyna að selja eitthvað á komandi sýningu. Það er ennþá of mikið rautt í myndinni og ég á eftir að bæta við gulu og fjólubláu. Svo er himininn heilmikill höfuðverkur, því ég er ekki ennþá viss um hvernig ég á að hafa hann á litinn. En þetta kemur allt saman.
Svo eru víst að koma jól og ætli maður verði þá ekki að taka pásu í þessu málarastússi. Ekki svo að segja að mikið verði um að vera hjá mér á jólunum. Við verðum líklega ein í mat á aðfangadagskvöld, sonur minn og ég. Barnabörnin koma ekki einu sinni í kaffi hvað þá meir. Foreldrar þeirra eru svo stressaðir að mér skilst að þau ætli helst ekki að halda jól. Hún ófrísk að fjórða barninu, það elsta 6 ára og sonur minn búinn að vera í ströngum prófum.
Ég held að dóttir mín og tengdasonur ætli norður yfir jólin, til foreldra hans svo ekki koma þau heldur til mín yfir jólin.
En ég ætla nú að skreppa í kaffi til systur minnar á jóladag og hafa það huggulegt þar. En á gamlaárskvöld verður fjör, þá er mér og minni fjölskyldu og bróður mínum boðið í mat og áramótapartý til systur okkar, eins og venjulega.
Annars fór ég með Tító til dýralæknisins í dag, eina ferðina enn. Hann er bara fastagestur uppá Dýraspítala. Samt er ekki nema hálfur mánuður síðan hann fékk þriðja sterakúrinn í röð. En undanfarna daga hefur hann verið svo slappur, með ógleði og kastað upp og sofið mikið.
Gosi hefur auðvitað notfært sér ástand Títós og legið í leyni fyrir honum við svaladyrnar þegar hann ætlar á kattaklósettið og stokkið svo á hann. Skrýtin þessi dýr að níðast á veikum vinum sínum. Það er sagt að náttúran sé svona grimm, enda hefur maður svo sem séð myndir af Tjörninni þar sem margir fuglar ráðast í einu á veikburða önd.
En ég hélt að gæludýr sem er dekrað við af mönnum, ættu að vera búin að losa sig við þetta 'óeðli' Það var tekinn blóðprufa úr Tító og ég fæ að vita á morgun hvernig ástatt er með veiku nýrun hans. Svo fékk hann líka kröftuga sprautu til að hressa hann aðeins við.
Sprautan virkaði svo vel að síðan hann kom heim hefur hann hvað eftir annað farið uppá Gosa og riðlast á honum eins og honum sé borgað fyrir það. Hann er að hefna harma sinna og sýna að hann sé ennþá húsbóndinn á heimilinu.
Ég má þakka fyrir að vera ekki í læðulíki þegar hann lætur svona greddulega. En svei mér þá, mér þykir svo vænt um Tító, að ég væri svo sem alveg til í að bregða yfir mig læðuhamnum, ef það gæti vakið gleði hans. Verst að ég lét gelda hann hér um árið. Allavega verða þetta gleðileg jól ef hann Tító minn fær að lifa þau.
Menning og listir | Breytt 20.12.2007 kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.12.2007 | 22:05
Ég hló mig máttlausa...
yfir auglýsingunni frá Brunamálastofnun um manninn sem er að elda jólamatinn í góðum gír og allt í lagi með það og kjaftar á meðan á honum hver tuska við konuna sína í símann. Þetta er sko karl í krapinu sem getur allt í einu. Talað í símtækið, meðan olían hitnar á pönnunni og sett á sig jólabindið í forbifarten.
Slær svo út öryggin í húsinu þegar kviknar í jólaseríunni og gripur þá til þess bragðs að lýsa sér, með kveikjara til að sjá á reykskynjarann. En missir þá kveikjarann ofan á gæruskinnið á gólfinu fyrir neðan, sem fuðrar náttúrulega upp á einu augabragði.
Þegar hann kemur svo fram í eldhús skíðlogar olían á pönnunni og hann bætir þá gráu ofan á svart með því að skvetta vatni á eldinn.
Auglýsingin endar svo á því því, að honum er bjargað af svölununum á húsinu sem stendur þá í björtu báli.
En kallkrúttið heldur samt alltan tímann talsambandi við konuna, sína, auðvitað, alveg sallarólegur, þó að hún sé í rauninni orsakavaldur að eldsvoðanum með málæðinuí símtólið.
Segir svo ekki eitt einasta styggðaryrði við kellinguna, þar sem hún tekur á móti honum, sótsvörtum í framan, þegar hann stígur út úr björgunarkörfu slökkviliðsmannanna.
Svona eiga karlmenn að vera, æðrulausir fram í rauðan dauðann og láta sér hvergi bregða, þó kellingin kjafti frá þeim allt vit.
17.12.2007 | 10:31
Horft af bjargbrúnnni á brimrótið
Ég er að fara að steypa mér niður í brimrótið í enn eitt atvinnuviðtalið klukkan tólf á hádegi í dag. Í þetta sinn er það starf móttökuritara hjá Barna og unglingageðdeildinni á Dalbraut. Ég er nú orðin ansi þreytt á þessu atvinnuleysi. Bráðum búin að vera atvinnulaus í heilt ár. En það er ljós punktur í myrkrinu að ég hef aldrei verið virkari við að mála og er með tvær sýningar framundan á næsta ári. Please wish me luck with the job?
13.12.2007 | 15:06
Ég stóð í stórræðum vegna roksins í nótt
Ég var komin upp í rúm í gærkvöldi og gat ómögulega sofnað fyrir öskrandi vindinum fyrir utan gluggann. Það var eins og húsið væri að fjúka í sundur í frumeindir sínar í mestu hviðunum.
Okkur þremur, mér Tító og Gosa var ekki rótt og mér varð ósjálfrátt hugsað til úlfsins sem blés hús gríslinganna þriggja um koll, þar sem við kúrðum þarna skjálfandi af hræðslu í rúminu.
Gosi var auðvitað taugaveiklaðastur af okkur þremur, hann er alltaf svo mikil veimiltíta, blessaður. Hann mjálmaði öðru hvoru í hræðslutón og var alltaf að koma upp að andlitinu á mér til að tékka á því hvort ég væri nú alveg róleg, því hann treystir á mig. Og ef að ég er alveg sallaróleg þá finnst honum auðvitað að allt hljóti að vera í lagi.
Þetta er svona svipað og með lítil börn sem treysta alfarið á mömmu sína. Ég var annars ekkert okey inni í mér þó ég léti sem ekkert væri til að hræða ekki blessuð börnin, eða kattarskammirnar eins og ég kalla þá stundum. Mér var satt að segja um og ó og kettirnir urðu æ órólegri, þar til Gosi þoldi ekki álagið lengur (að ég hélt) og rak upp ramakvein eitt mikið og þaut eins og byssubrenndur fram úr rúminu.
Ég kallaði á hann en Gosi lét sér ekki segjast heldur gólaði eins og brjálæðingur frammi í stofu. Svo ég skreiddist fram úr rúminu til að ná í kattarkvikindið. En Gosi lét ekki ná sér heldur hljóp beint að svaladyrunum. þá sá ég hvers kyns var og að Gosi litli vissi svo sannarlega hvað hann söng. Svalaglugginn tvöfaldi sem er opnanlegur í miðjunni hafði fokið upp og úti á svölum var hreint og beint fárviðri.
Ég var bara á nærbuxunum og í stuttum bol en lét það ekki aftra mér og reyndi að loka glugganum. Það gekk vægast sagt illa, en eftir mikla raun tókst mér að setja gluggana í falsið.
En ég sá að það myndi ekki lengi duga, því gluggarnir svignuðu inn á víð og hristust eins og lauf í vindi. Allt hafði fokið um koll úti á svölunum, pálmatréð lá á hliðinni og kattaklóru standurinn hafði dottið og brotnað í tvennt. Þess utan flóði allt svalagólfið í vatni svo ég var rennblaut í lappirnar og líka niður ringd svo hárið og fötin límdust við mig og mér var skítkalt.
Ég hringdi í 112 titrandi á beinunum. Já, sagði þurrleg karlmannsrödd.' Getið þið komið hingað heim til mín, einn glugginn á svölunum opnaðist og allt er fokið um koll og...' , sagði ég óðamála. Ertu búin að loka glugganum´? greip röddin þurrlega fram í fyrir mér. 'Já, en hann svignar allur og opnast örugglega aftur.....' Heldur hann?, spurði röddin en þurrari en áður. ' Já, í augnablikinu en það þarf örugglega að halda honum svo hann fjúki ekki upp aftur.' 'Og á ég að standa hérna úti á svölum í alla nótt, til að halda við gluggann'? ' Ja. hver á að gera það' ?, svaraði röddin. '
Ég vil ekki vera dónalegur fröken, (vá hann kallaði mig fröken) en þú verður að gera þér grein fyrir því að það er óveður um allt land og þú verður bara að gera þetta' sjálf'
Svo lagði hann á. 'Jesús minn hvað á ég að gera'! 'Og helvítis löggan alltaf'!, Var það fyrsta sem kom upp i æstan hug minn eftir þetta snubbótta samtal sem snerist um ógn við líf mitt og katta- krakkana minna tveggja.
En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Því skyndilega laust því eins og eldingu niður í huga mér að ég átti kúst og tvær moppur inni í þvottahúsi. Kannski væri hægt að skorða þetta einhvern veginn þannig að það héldi andsk... glugganum?
Það tók mig óratíma að skorða kústinn og moppurnar þannig að þetta virkaði, en til öryggis setti ég tvo stóla ofan á hvor annan og skorðaði þá líka undir handföngunum á gluggunum.
Ég þorði samt ekki fyrir mitt litla líf, að fara strax að sofa, heldur fylgdist með ástandinu í smátíma áður en ég skreið skjálfandi, en ekkert smástolt yfir dugnaði mínum, aftur upp í rúm með köttunum mínum, sem nú voru orðnir rólegri.
Gosi fékk knús og kjass fyrir að hafa gert viðvart um ástandið á svölunum. Og svo steinsofnuðum við öll þrjú, dauðþreytt eftir hamaganginn.
Rúður brotnuðu í 11 bílum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
11.12.2007 | 00:58
Það er af sem áður var, það má ekki blaka við börnunum, varla að það megi líta á þau.
Óttalegur óhemjugangur er í þessum börnum nú til dags. Ekki var mér fylgt til tannlæknis þó ég væri bara sjö ára gömul. í þá daga voru gömlu borarnir notaðir og maður var ekki deyfður.
Það tók því ekki að deyfa þessa krakkagrislinga var viðhorfið.
Enda svo ég víki nú að öðru, þá man ég enn eftir mér þriggja ára gamalli standandi á gólfinu hjá háls nef og eyrnalækni sem gerði sér allt í einu lítið fyrir og stakk á hljóðhimnunni á vinstra eyranu á mér, þar sem ég stóð þarna glaðvakandi og grunlaus með öllu. En mikill ígerð var í eyranu.
Ég hef aldrei á ævi minni fundið eins til. Og þó, einu sinn, þegar ég var 10 ára, þá sat ég í tannlæknastól og tannsi að bora með hæggenga bornum.
Það var hryllilega sárt, en samt var engin mamma til að halda í höndina á mér. Og það fór ekki vel í það sinnið, því skyndilega varð sársaukinn svo óbærilegur þegar borinn snerti rótina í tönninni, að það steinleið yfir mig.
Ég man ekkert hvað gerðist eftir það, hvort tannsi hélt eins áfram þar sem frá var horfið, þegar ég raknaði úr rotinu eða deyfði mig á eftir og hélt svo áfram.Ég man bara nístandi sársaukann og óminnið sem kom yfir mig þegar ég lognaðist útaf inn í myrkrið.
Þegar ég sagði svo mömmu frá þessu atviki, þótti henni það ekkert tiltökumál, því hún hafði látið draga úr sér allar tennurnar í den, ódeyfð, til þess að spara pening.
Ég var líka slegin utan undir af kennaranum mínum, blásaklaus í 1. bekk, aðeins 7 ára gömul smáhnáta. Kennararnir voru strangir í þá daga og þar sem það voru einhver ólæti í bekknum, gerði kennarinn sér lítið fyrir og rak þeim nemenda sem næstur honum var rokna kinnhest. Og það var ég, ég sem alltaf var svo stillt og prúð.
Samt man ég að einu sinni hafði þessi sami kennari slegið mig með reglustiku á fingurna og þá átti ég það víst skilið. En í þetta sinn var ég algjörlega höfð fyrir rangri sök og mér leið ekki vel. Og ég held að kennarinn hafi tekið eftir því og séð hálfpartinn eftir kinnhestinum. Því undir lok tímans þegar ég stundi því upp með mjóróma röddu. hvort ég mætti fá frí, því mér væri svo illt í munninum þar sem ég væri að taka endajaxla, þá leyfði hann mér umsvifalaust að fara heim.
En endajaxlarnir létu bíða eftir sér þar til ég var orðin tvítug.
Ég er ekki að mæla þessum barsmíðum á börnum bót, allavega ekki ef þau eru saklaus. En getur það kannski verið tilfellið, að agaleysið sem ræður ríkjum hjá börnum og unglingum nú til dags, sé til komið vegna þess, að það má ekki ekki sinni skella létt á bossann á þeim?
Tannlæknir rassskellti sjúkling | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Eldri færslur
- Desember 2014
- Apríl 2013
- Janúar 2013
- Nóvember 2012
- Ágúst 2012
- Október 2011
- Júní 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- September 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Nóvember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Júlí 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Tenglar
http:www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson, texti eftir Kerst
- http://
- Halldór Guðjónsson lagasmiður og Kerst textahöf. Flott lög eftir Halldór Guðjónsson og textar eftir Kerst
- http://
http://www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson og texti eftir Kerst
http://www.diadems.no/
Ragdoll kettir. En ég er búin að ákveða að fá mér svoleiðis kött þegar Tító minn er farinn. Þessi Xantos sem er í x gotinu verður væntanlegur forfaðir nýja kisans mín
- Ragdoll kettir Ég ætla að fá afkomanda Xantosar þegar Tító er farinn frá mér.
Tenglar
- http://
- Halldór Guðjónsson sem gerði lagið við ljóðið mitt ´ Huggun' og fleiri ljóð eftir mig Hann er góður
- Ljóð á Tíu þúsund tregawött Framúrstefnuleg ljóð
- Myndir Katrínar K. vinkonu Flottar ljósmyndir
- Myndir Rebekka Frábær og fræg
- Ljóð.is
- Allra veðra von
Bloggvinir
- katrinsnaeholm
- zordis
- katlaa
- jonaa
- halkatla
- ormurormur
- martasmarta
- steina
- gudnyanna
- zoti
- ragjo
- diesel
- estersv
- alit
- toshiki
- kaffi
- svartfugl
- jenni-1001
- laufabraud
- stormsker
- svanurg
- guru
- ingo
- lindagisla
- bjorkv
- prakkarinn
- agny
- bergruniris
- raggibjarna
- maple123
- saethorhelgi
- vglilja
- johannbj
- partners
- vitinn
- zeriaph
- gudrunmagnea
- birtabeib
- iador
- gudrunfanney1
- ibb
- kolgrimur
- skjolid
- bene
- coke
- hux
- nonniblogg
- heringi
- hjolaferd
- amason
- joiragnars
- steinibriem
- rafdrottinn
- siggith
- vefritid
- ljosmyndarinn
- poppoli
- perlaoghvolparnir
- vitale
- skordalsbrynja
- lindalea
- bidda
- manisvans
- scorpio
- haddih
- gattin
- korntop
- brahim
- klarak
- laugatun
- konur
- panama
- sigurfang
- joklamus
- valdimarjohannesson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar