Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Nú blika við sólarlag sædjúpin köld... Vatnslitir

 Sólarlag við sæinn

 

 NÚ BLIKA VIÐ SÓLARLAG

 

Nú blika við sólarlag sædjúpin köld.

Ó, svona' ætti að vera hvert einasta kvöld,

með hreinan og ljúfan og geislandi blæ

og himininn bláan og speglandi sæ.

 

Og fjallhnjúka raðirnar rísa í kring

sem risar á verði við sjóndeildarhring.

Og kvöldroðinn brosfagur boðar þar drótt

hinn blíðasta dag eftir ljúfustu nótt.

 

Texti: Þorsteinn Erlingsson

 

Það eru margar ljúfar minningar sem tengjast þessu lagi frá þjóðhátíð í Eyjum. 


'Stúlkan með græna hattinn' Þrykk og akrýl. Og vélmenni fyrir kærasta.

   Stúlkan með græna

 

hattinn er eksotísk

 

tískudrós


Ég ætla að fá mér kærasta

Ég ætla að fá mér kærasta
sem allra, allra fyrst
og ekki verður vandi að finna ha-ann.
Því vélmenni ég kaupi sem ég leik mér við af lyst og í leikhús bæði og bíó munum fa ra. Svo duflum við og dönsum alveg fram á rauða nótt
og dútlum smá, við 'hitt' af firna þrótti...

 
En svo þegar hann er búinn, þá býtta ég honum út,

því bara fjör er það að standa í svona stússi. 

 

 

 


'Umberðu annmarkana'

'Ég hef ekki enn kynnst kröfuharðri manneskju sem býr yfir innri sálarró. Fullkomnunaráráttan og þrá eftir innri ró geta ekki farið saman. Í hvert sinn sem við erum ákveðin í að eitthvað geti aðeins verið eins og við höfum hugsað okkur það og helst betra en það er fyrir, er baráttan í raun fyrirfram töpuð. Í stað þess að þakka fyrir það sem við höfum og sætta okkur við það, einblínum við á annmarkana og þörf okkar til að lagfæra þá. Þegar við höfum einskorðað okkur við það sem er að, hljótum við að verða óánægð og vansæl.
Hvort sem við eigum sjálf í hlut (óreiðan í skápnum, rispa í bílflakinu, eitthvað sem okkur tókst ekki að koma í verk, fáein aukakíló), eða, 'vankantar', annarra ,(útlit hegðun eða lífsmáti), færir það eitt að einblína á annmarkana okkur frá markmiðinu um að vera hugulsöm og nærgætin. Með þessari aðferð er ekki verið að fá fólk til að hætta að gera sitt besta, heldur að hætta því, að vera með hugann við það sem miður fer.
Í henni felst að þrátt fyrir, að alltaf sé hægt að gera betur, hafi það ekki í för með sér að við getum ekki notið hlutanna eins og þeir eru. Lausnin felst í því að standa sjálfan sig að verki þegar maður fellur í þá gömlu gryfju, að krefjast þess að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru. Minni ykkur hæversklega á að tilveran er alveg ágæt einmitt eins  og hún er núna. Allt verður  betra ef þið hættið í sífellu að fella yfir því dóma. Og um leið og þið komist uppá lagið með að draga úr fullkomnunaráráttunni á öllum sviðum lífsins uppgötvið þið líka smám saman hversu stórkostlegt lífið er í sjálfu sér'.

(Gömul færsla birt á ný) Ljóðið 'Náinn', sagan á bak við ljóðið og lag eftir tónlistarmanninn Halldór Guðjónsson, við ljóðið 'Náinn' Æskuástin mín heita og söngvakeppnin í kvöld

scan0003 Svava 17 Í tilefni þess að ég fékk leyfi til þess hjá Halldóri Guðjónssyni lagahöfundi til þess að birta lagið sem hann samdi við ljóðið mitt 'Náinn´ sem er hér í tónlistarspilaranum á síðunni minni, birti ég hér gamla færslu á ný. Halldór sem er búinn að gera fjögur lög við ljóð eftir mig sagðist hafa gert nokkur lög í viðbót við ljóð mín. Hann sagðist ekki mega sjá ljóð þá kæmu lög.

 

Hann sendi mér líka jólalag eftir sig 'Jólabærinn' af plötunni 'Jól á ný' við texta eftir Íris Kristinsdóttur.

 

Svona leit ég út sautján ára gömul þegar við hittumst fyrst æskuástin mín og ég.

 

Halldór bað mig að teikna mynd af sér og textahöfundinum sem hann vinnur með og heitir hann Kerst og býr í Illinois. Ég á að hafa þá saman á myndinni, sem þeir ætla að nota í auglýsingaskyni eða framan á diska, en það er enginn mynd til af þeim saman. 
Ég er með tengil inn á MySpace síðuna hans Halldórs hérna á blogginu mínu. Endilega kíkið á hana. Halldór er góður lagahöfundur

 

Náinn

 

Brástjörnur bláar man ég
blika mót sjónum mínum.
Bros likt og ljómuðu perlur
leiftraði á vörum þínum.



Þín nálægð var neistandi elding
er nam ég frá verund þinni.
Þitt nafn eins og ómfagur söngur
yljar enn sálu minni

 

 Æskuástin mín heita

 

Ég horfði á söngvakeppnina í kvöld og þegar ljóshærði
strákurinn söng, mig minnir að hann hafi verið annar í
röðinni þá fékk ég sting í hjartað. Hann minnti mig svo
á æskuástina mína sem ég fékk aldrei að njóta, að
hluta til vegna eigin heimsku en einnig vegna þess að
hann lést þegar hann var aðeins átján ára gamall
.


Hann var fimmtán ára og ég sautján þegar við hittumst fyrst á sveitaballi og það var ást við fyrstu sýn hjá okkur báðum. Hann var svo fallegur með ljósa hárið sitt og bláu augun en þó var það brosið hans sem prýddi hann mest, því þegar hann brosti þá ljómaði hann upp og tennurnar hans voru eins og röð af mjallahvítum perlum.

En við vorum bæði svo feimin að illa gekk fyrir okkur að ná saman. Við vönguðum samt öðru hvoru á böllum þegar hann þorði að bjóða mér upp en þegar dansinn var á enda var vandræðagangurinn á okkur svo mikill að hvorugt þorði að fylgja hinu, eftir að síðasta dansinum lauk. En á endanum mannaði hann sig þó upp í að biðja mig að hitta sig eitt föstudagskvöldið niðri á gamla Hressó. En ég þetta erkifífl sem ég var hegðaði mér óafsakanlega illa og ég skil ekki enn þann dag í dag af hverju.

Ég sveik hann og mætti ekki niðrá Hressó, því í einhverju bríaríi vangaði ég annan strák á balli í millitíðinni og ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fara á stefnumótið við vin minn.
Já ég var svo sannarlega ung og vitlaus. Enda gat hann ekki fyrirgefið mér í tvö löng ár.
En þó vissum við bæði að við vorum ástfangin af hvort öðru upp fyrir haus. En ég var of huglaus til biðja hann fyrirgefningar og hélt líka að það myndi ekki þýða neitt fyrir mig.
Hann hefndi sín líka rækilega á mér og sló sér upp með bestu vinkonum mínum, beint fyrir framan nefið á mér og horfði þá oft storkandi á mig.
Ég reyndi að láta hann halda að mér stæði á sama og borgaði í sömu mynt og daðraði við vini hans. En oft mættust augu okkar úti á dansgólfinu þegar við vorum í fangi einvers annars eða annarrar.

Það var ekki fyrr en ég hitti minn tilvonandi eiginmann að ég jafnaði mig á þessu, að ég hélt.
Við kærastinn héldum okkur mikið út af fyrir okkur og fórum lítið út í marga mánuði
daginn sem við trúlofuðum okkur fórum við á ball um kvöldið.
Meðan kærastinn var að kaupa okkur drykki kom vinurinn minn fyrrverandi. Hann gekk beint strik til mín þar sem ég sat í sófa við barinn og bauð mér upp í dans. Ég var svo hissa að ég var sem lömuð og þegar ég dansaði við hann fann ég sömu töfrana á ný sem enn neistuðu á milli okkar.
Hann hvíslaði í eyra mér. 'Hvar hefurðu verið allan þennan tíma'? En ég gat með engu móti svarað því ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð lengur, svo lauk þessum alltof stutta dansi og hann fylgdi mér til baka til sætis í sófanum, en stóð sjálfur þar sem ekki var pláss fyrir fleiri.

Kærastinn minn var ekki enn kominn til baka með drykkina okkar og strákurinn sem sat við hliðina á mér í sófanum fór að gera sér dælt við mig og lagði handlegginn utan um mig axlir mér. Þetta þoldi vinurinn minn ekki, hann rauk upp og hrópaði á strákinn. ´Láttu hana vera, hún er mín'!!
Þá stóð ég upp og gekk á brott, gekk í burtu með blæðandi hjarta, frá honum sem ég fann að ég elskaði heitt, en ég elskaði líka kærastann minn.

Þetta eina ár sem leið frá þessu kvöldi og þar til vinurinn minn dó, hittumst við oft fyrir tilviljun, ég var þá með kærastanum mínum, en hann með einhverri annarri stúlku og í hvert skipti áttum við erfitt með að slíta augun hvort af öðru. Augu okkar leituðu ætíð uppi augu hvors annars eins og seglar og alltaf var jafn sárt að sjá hann með annarri stúlku og sífellt nagaði efinn mig svo nístandi sár.

Það stendur mér enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum kvöldið sem mér var sagt að vinurinn minn væri dáinn, það var verslunarmannahelgi og hann hefði fundist látinn uppi í brekku í Þórsmörk. Hann varð aðeins átján ára gamall, elsku æskuástin mín
Ég var svo frosin að ég gat ekki grátið en ég man að ég hugsaði, þetta átti að fara svona, hann var ekki ætlaður mér í þessum heimi.

Í dag er ég löngu skilin við manninn minn því hjónabandið var ekki hamingjusamt en þessi leið var mér ætluð og ég þakka Guði fyrir börnin mín þrjú og barnabörnin fjögur.
Enn ennþá minnist ég æskuástarinnar minnr heitu og ég trúi því að við hittumst aftur hinu megin við gröf og dauða.


Ég er að springa úr piparkökuáti. Í DJÚPINU mixed media.

DSC000255 Í Djúpinu

 

 

Það var mikið stuð hjá mér og barnabörnunum Elísu Marie og Daníel í dag. Við hnoðuðum piparkökudeig og flöttum það út og gerðum svo kalla og kellingar, stjörnur og hjörtu og allt mögulegt.
Svo sungum við af hjartan lyst við baksturinn, hvert jólalagið á fætur öðru og Tító tók undir og gólaði eins og vitleysingur. Honum leist ekkert á þessi læti, greinilega.
Það var gaman að sjá hvað þessi litlu skott 6 ára og 5 ára voru dugleg og áhugasöm við baksturinn. Þau voru eiginlega klárari en ég. Svo skreyttum við piparkökurnar með rauðum og grænum glassúr. Ég hafði sett jólalagadisk á, rétt áður en börnin komu, með Frostrósum . Diskurinnn var eitthvað bilaður svo við hlustuðum á sama lagið klukkutímum saman, en við vorum svo önnum kafin að við nenntum ekkert að vera að hafa fyrir því að skipta um disk enda heyrðist varla neitt í laginu fyrir söngnum í okkur sjálfum.
Ég hafði líka kveikt ljósin á litla jólaþorpinu sem ég hafði útbúið ofan á kommóðunni í andyrinu og það var rosa jólastemning sem sveif yfir vötnunum.
En köttunum þeim Tító og Gosa fannst ekki neitt gaman. Þeir voru skíthræddir við börnin og hávaðann í okkur. Tító sat og spangólaði eins og hundur, við svefnherbergis dyrnar mínar og vildi komast þangað inn og fela sig, en Gosi faldi sig eins og venjulega undir kommóðunni í ganginum, þar sem jólaþorpið var. Greyinu leið ekki vel að troða sér þarna undir lága kommóðuna. Svo voru börnin öðru hvoru að koma að kommóðunni og dást að jólaþorpinu og hann hefur séð fæturnar á þeim alveg upp við trýnið á sér þar sem hann lá eins og skata í felum.
Svo kom Guðjón sonur minn með yngsta barnið Jónatan til að sækja bakarana sína og Jónatan var mjög hrifinn af piparkökunum og spændi þær í sig eins og við hin, sérstaklega ég.
Guðjón sonur minn var að flýta sér þar sem hann er önnum kafinn við að lesa undir próf í viðskiptafræðinni, en gaf sér samt tíma til þess að bjóða mér á jólaball með barnabörnunum hjá ÍR þann 7.des.
En þau Elísa Marie og Daníel æfa þar og eiga að koma þar fram og sýna dans og íþróttir.
Eftir að börnin voru farin með afgangsdeigið og eitthvað að piparkökunum horfði ég yfir eldhúsið mitt. það var algerlega í rúst. Deig út um allt gólf og glassúr uppum alla veggi. En eg yppti bara öxlum og hugsaði: , þetta var vel þess virði.
Svo fleygði ég mér í stofusófann og fékk mér smálúr með Tító og Gosa sem voru búnir að taka gleði sína að nýju.
Rafn sonur minn hafði komið fyrr um daginn og tekið fyrir mig myndir af nýjustu verkunum mínum og ég ætla að setja eina hér inn. Hún heitir 'Í Djúpinu' Að lokum ætla ég að benda ykkur á þennan link hér fyrir neðan,þar er þarft málefni á ferðinni. Góða nótt elskurnar mínar og sofið rótt.
http://hross.blog.is/blog/hross/entry/380019/#comments


Tvær myndlistarsýningar á einum degi

Við Katrín vinkona skelltum okkur á tvær myndlistarsýningar í dag. Fyrst fórum við á opnun hjá 'Kaffi' Berg Thorberg sem sýnir í Art-Iceland á Skólavörðustig. Þar var rosa stuð og ég rauk á Berg og kyssti hann á kinnina til að óska honum til hamingju með sýninguna sem var hin glæsilegasta. Hann galt í sömu mynt á sinn riddaralega hátt með því að kyssa á hönd mér með glæsibrag.
Kormákur vinur hans var að spila og syngja fyrir gesti við góðar undirtektir. Svo gerði Bergur sér lítið fyrir þegar Kormákur fór í reykpásu og tók við gítarnum og hóf upp raust sína og söng elginn texta, en lagið veit ég ekkert um hver átti.
Álfheiður eigandi galleríisins skenkti okkur Katrínu hvítvín og við skáluðum fyrir sýningunni og Berg að sjálfsögðu. Bergur sýndi okkur svo hvernig hann blandar akrýl saman við kaffið til þess að geta látið það fljóta léttilega á strigann. Reyndar sagðist hann hafa byrjað að mála með kaffi fyrir einskæra slysni. Hann hefði verið að teikna með bleki og óvart hellt úr fullum kaffibolla yfir teikninguna. Honum fannst útkoman svo skemmtileg að síðan hefur hann haldið sig við að mála eingöngu með kaffinu.
Hann seldi eina af flottustu myndunum sínum, meðan við vorum þarna og kaupandinn borgaði út í hönd eins og ekkert væri. Ég talaði við Álfheiði og spurði hana hvort hún ætti teikningar af galleríinu svo ég gæti áttað mig á plássinu sem ég kem til með að hafa sjálf í febrúarlok. En ekki átti hún þær en sagði að mér væri velkomið að koma með tommustokk og mæla rýmið sjálf upp, sem ég ætla að gera þegar líður að sýningunni minni.
Svo kvöddum við alla með virktum og löbbuðum niður ljósum prýddan Skólavörðustíginn og Bankastrætið til að fara á sýninguna hennar Katrínar Snæhólm í Aðalstræti. Það var svo mikil jólastemning í bænum og þetta fína veður og bara gaman að labba þetta í góða veðrinu.

Þegar ég kom inn í Uppsali á Hótel Reykjavík tók kona á móti mér sem mér fannst ég þekkja þó ég hefði aldrei séð hana fyrr. Það var náttúrulega Katrín Snæhólm sjálf lifandi komin og ég sagði við han að hún væri alveg auðþekkt af myndinni sem hún er með á blogginu sínu í staðinn fyrir mynd af sjáfri sér. Svo kyssti ég hana á kinnina og óskaði henni til hamingju með sýninguna.
Myndirnar hennar Katrínar voru mjög fallegar og það var gaman að sjá þær með eigin augum en ekki bara á blogginu hennar.
Svo komu þarna tvær konur sem mér fannst ég kannast  eitthvað við og gekk til þeirra og kynnti mig. þá voru þetta Guðný Anna bloggvinkona mín og Marta smarta bloggvinkona mín. Þær buðu okkur að setjast við borðið hjá sér og við Katrín vinkona fengum okkur auðvitað jólaglögg og ljúffengar piparkökur.
Börnin og barnabörnin hennar Katrínar Snæhólm voru þarna líka og ég sá litlu fallegu Alice Þórhildi í eigin persónu í fanginu á mömmu sinni dóttur Katrínar. Alice Þórhildur er rosalega mikil dúlla.

Við áttum þarna skemmtileg stund en svo var mér orðið svo heitt af jólaglögginu og Katrínu vinkonu líka að við ákváðum að láta þetta gott heita og halda heim á leið.

Katrín kom aðeins inn með mér heima hjá mér og skoðaði myndirnar mínar og við spáðum og spekúleruðum í þeim fram og til baka. það eru myndir og málningardót út um alla borðstofu hjá mér því þó ég hafi þrjú önnur herbergi finnst mér best að vinna bara í stofunni. Kisurnar verða líka alveg brjálaðar ef ég loka mig inni í herbergi til þess að vinna. Þær þurfa að fylgjast með öllu sem ég er að gera og halda að þær séu ómissandi.

Við Katrín ákváðum svo að fara í bíó fljótlega og sjá American Gangster með sjarmatröllinu Russel Grove. 

Dagur er að kvöldi kominn og á morgun verða bakaðar piparkökur með ömmubörnunum. 


Á enda veraldar

Þótt ég villtist


út á enda veraldar


og yrði að dúsa þar


til dauðadags,


þá skiptir það ekki máli,

 

þrátt fyrir allt,


því ég hef fengið,


að elska þig.


« Fyrri síða

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband