Leita í fréttum mbl.is

Ég stóð í stórræðum vegna roksins í nótt

Ég var komin upp í rúm í gærkvöldi og gat ómögulega sofnað fyrir öskrandi vindinum fyrir utan gluggann. Það var eins og húsið væri að fjúka í sundur í  frumeindir sínar í mestu hviðunum.
Okkur þremur, mér Tító og Gosa var ekki rótt og mér varð ósjálfrátt hugsað til úlfsins sem blés hús gríslinganna  þriggja um koll, þar sem við  kúrðum þarna skjálfandi af hræðslu í rúminu.
Gosi var auðvitað taugaveiklaðastur af okkur þremur,  hann er alltaf svo mikil veimiltíta, blessaður. Hann mjálmaði öðru hvoru í hræðslutón og var alltaf að koma upp að andlitinu á mér til að tékka á því hvort ég væri nú alveg róleg, því hann treystir á mig. Og ef að ég er alveg sallaróleg þá finnst honum auðvitað að allt hljóti að vera í lagi.
Þetta er svona svipað og með lítil börn sem treysta alfarið á mömmu sína. Ég var annars ekkert okey inni í mér þó ég léti sem ekkert væri til að hræða ekki blessuð börnin, eða kattarskammirnar eins og ég kalla þá stundum. Mér var satt að segja um og ó og kettirnir urðu æ órólegri, þar til Gosi þoldi ekki álagið lengur (að ég hélt) og rak upp ramakvein eitt mikið og þaut eins og byssubrenndur fram úr rúminu.
Ég kallaði á hann en Gosi lét sér ekki segjast heldur gólaði eins og brjálæðingur frammi í stofu. Svo ég skreiddist fram úr rúminu til að ná í kattarkvikindið. En Gosi lét ekki ná sér heldur hljóp beint  að svaladyrunum. þá sá ég hvers kyns var og að Gosi litli vissi svo sannarlega hvað hann söng. Svalaglugginn tvöfaldi sem er opnanlegur í miðjunni hafði fokið upp og úti á svölum var hreint og beint fárviðri.
Ég var bara á nærbuxunum og í stuttum bol en lét það ekki aftra mér og reyndi að loka glugganum. Það gekk vægast sagt illa, en eftir mikla raun tókst mér að setja gluggana í falsið.
En ég sá að það myndi ekki lengi duga, því gluggarnir svignuðu inn á víð og hristust eins og lauf í vindi. Allt hafði fokið um koll úti á svölunum, pálmatréð lá á hliðinni og kattaklóru standurinn hafði dottið og brotnað í tvennt. Þess utan flóði allt  svalagólfið í vatni svo ég var rennblaut í lappirnar og líka niður ringd svo hárið og  fötin límdust við mig og mér var skítkalt.
Ég hringdi  í  112 titrandi á beinunum.  Já,  sagði  þurrleg  karlmannsrödd.' Getið þið komið hingað heim til mín, einn glugginn á svölunum opnaðist og allt er fokið um koll og...' , sagði ég óðamála.  Ertu búin að loka glugganum´? greip röddin þurrlega fram í fyrir mér. 'Já, en hann svignar allur og opnast örugglega aftur.....' Heldur hann?, spurði röddin en þurrari en áður. ' Já, í augnablikinu en það þarf örugglega að halda honum svo hann fjúki ekki upp aftur.'  'Og á ég að standa hérna úti á svölum  í alla nótt, til að halda við gluggann'?  ' Ja. hver á að gera það' ?, svaraði röddin. '
Ég vil ekki vera dónalegur fröken, (vá hann kallaði mig fröken) en þú verður að gera þér grein fyrir því að það er óveður um allt land og þú verður bara að gera þetta' sjálf'
Svo lagði hann á. 'Jesús minn hvað á ég að gera'!   'Og helvítis löggan alltaf'!, Var það fyrsta sem kom upp i æstan hug minn eftir þetta snubbótta samtal sem snerist um ógn við líf mitt og katta- krakkana minna tveggja.
En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Því skyndilega laust því eins og eldingu niður í huga mér að ég  átti kúst og tvær moppur inni í þvottahúsi. Kannski væri hægt að skorða þetta einhvern veginn þannig að það héldi andsk... glugganum?
Það tók mig óratíma að skorða kústinn og moppurnar þannig að  þetta  virkaði,  en til  öryggis  setti ég tvo stóla ofan á hvor annan og skorðaði þá  líka undir handföngunum á gluggunum.
Ég þorði samt ekki fyrir mitt litla líf, að fara strax að sofa, heldur fylgdist með ástandinu í  smátíma áður en ég skreið skjálfandi, en ekkert smástolt yfir dugnaði mínum, aftur upp í rúm með köttunum mínum, sem nú voru orðnir rólegri.
Gosi fékk knús og kjass fyrir að hafa gert viðvart um ástandið á svölunum. Og svo steinsofnuðum við öll þrjú, dauðþreytt eftir hamaganginn.


mbl.is Rúður brotnuðu í 11 bílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Kæra Guðný! Í nótt er von á annari og dýpri lægð en þessari!

Guðrún Magnea Helgadóttir, 13.12.2007 kl. 18:20

2 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Sæl og blessuð Svava mín. Þú hefur greinilega staðið þig vel í nótt. Mér varð á að hugsa , að þú ættir nú kannski að hafa rokið í æðunum vegna uppruna þíns og þar kæmi skýringin, af hverju þú stóðst þig svo vel í rokinu í nótt. Sendi þér mínar baráttu kveðjur, ef til frekari átaka kemur við hann Kára.  Kveðja.

Þorkell Sigurjónsson, 13.12.2007 kl. 18:21

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þá verður maður að vera á verði og vera við öllu búin. Annars treysti ég á Gosa.

Það er skrýtið hvernig kettir finna ýmislegt á sér. Ég hef heyrt að í seinni heimstyrjöldinni þá hafi fólk í London athugað hvernig kettirnir þess hegðuðu sér þegar loftárásir stóðu yfir. Ef þeir voru alveg rólegir þó að loftvarnarflauturnar færu í gang og héldu bara áfram að sofa, þá vissi fólk að öllu var óhætt og að húsið þeirra yrði ekki fyrir sprengju. 

Svava frá Strandbergi , 13.12.2007 kl. 18:25

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Það á víst að vera 'Stórhöfðarok' á landinu öllu næstu nótt, Keli minn.
Ég er enn með kústinn, moppurnar og stólana fyrir glugganum og vona að það dugi áfram.
Ég skil bara ekkert í þessu rokrassgati alltaf orðið. Jú, ætli það séu annars ekki loftslagsbreytingarnar. Hamfarir út um alla jörð.
Ég rétt slapp nú vð að vera steikt lifandi í 42 til 47 stiga hita þegar ég skrapp til Krítar í sumar. Það var bara 32 til 34 stiga hiti meðan ég stoppaði þar,
  en svo rauk hitinn upp aftur um leið og ég var farin. Það voru byrjaðir skógareldar þegar ég var þarna samt.Svo er sums staðar allt á kafi í flóðum eða fellibyljir leggja heilu borgirnar í rúst.

Svava frá Strandbergi , 13.12.2007 kl. 18:33

5 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ég er svo veðurhrædd það er ekki venjulegt Elsku Tító og gosi litli og þú að vera svona hrædd en það er svona að vera veðurhræddur. Það er spáð brjálaðu veðri í nótt. knús.

Kristín Katla Árnadóttir, 13.12.2007 kl. 18:53

6 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Vonandi verður þetta allt í lagi í nótt Krisín Katla mín, svo við getum sofið rólegar . Knús til baka.

Svava frá Strandbergi , 13.12.2007 kl. 18:58

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ó mæ god, og þeir segja að það versni, heppin er ég að vera með tvíelfda á mínu heimili, þeir redda málunum.

Ásdís Sigurðardóttir, 13.12.2007 kl. 19:55

8 Smámynd: www.zordis.com

Mikið getur nú veðrið verið hrottalegt ... vona að þetta sé að verða búið hjá ykkur! 

Jólaknús

www.zordis.com, 13.12.2007 kl. 20:43

9 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Þú ert dugnaðarforkur og hetja Guðný  mín

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 13.12.2007 kl. 20:54

10 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég breytist í sannkallaða grumpy old lady í svona veðurofsa, þykist ekki vera það öðrum stundum auðvitað. Hárin á mér rísa og þau leggjast ekki aftur. Nánustu ættingjar sem mæta mér í þessu ástandi þekkja mig ekki og það er vel.

Marta B Helgadóttir, 13.12.2007 kl. 23:24

11 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Það hefði nú verið allfyndið að sjá aðfarirnar hjá þér líka, Tryggvi.

Svava frá Strandbergi , 16.12.2007 kl. 09:48

12 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Æ, þú hefur nú verið krúttleg þarna í baráttunni á brókinni einni saman og með hárið klístrað - og kattarafmánirnar stjáklandi í kring. Flott hjá þér og mikið hefur svefninn verið sætur eftir átökin.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 17.12.2007 kl. 00:02

13 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já, ég man að ég var að hugsa meðan á þessu stóð. ' Hvað skyldu nágrannarnir hugsa að sjá mig svona klædda eða réttara sagt vanklædda úti á svölum'? En svo bætti ég við í huganum. 'Æ mér er andskotans sama, ég verð að bjarga þessu ekki seinna en strax'.

Svava frá Strandbergi , 17.12.2007 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband