Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Ef við nú..

scan0008 Dansmær

Ef við nú
í veröld markmiða
og athafna, hefðum
glatað hugarflugi,
nautn hins fagra
litadýrð og skrauti,
værum við,
þrátt fyrir allt
það sem umlykur
okkur, fátækar
manneskjur.

 

Hesse


'Það er eins og gerst hafi í gær'

Dóttir mín kom hér í dag og bað um að fá gömlu vídeóspóluna með fjölskyldumyndunum lánaða. Hún ætlaði að taka hana með sér og láta setja hana á disk. Ég hef ekki horft á þessa spólu í áraraðir og ekki hún heldur, svo við settum hana í vídeótækið áður en hún fór með hana.
Ég var reyndar að búa mig til að fara á sýninguna í ArtIceland, en átti bágt með að slíta mig frá myndinni. það var svo skrýtið að sjá sjálfa sig ljóslifandi á myndinni, 19 ára gamla og nýtrúlofaða, brosandi út að eyrum. Og svo börnin mín hvert á eftir öðru, alveg frá því þau voru kornabörn, mömmu sálugu og fleiri sem eru löngu farnir yfir móðuna miklu.
Þarna var ég líka að baða börnin mín uppúr bala og ég og fyrrverandi maðurinn minn með þau í gönguferðum. Stórafmæli ýmissa í fjölskyldunni og svo jólin.
Það er svo undarlegt hvað tíminn líður fljótt og mér fannst þegar ég horfði á sjálfa mig með börnin mín lítil á vídeóinu að það hefði getað gerst í gær.

En í dag eru börnin mín öll löngu flutt að heiman og eiga sjálf börn, fyrir utan þessa dóttur mína sem er yngst af mínum börnum. Já lífið þýtur hjá, árstíðaskiptin koma hvert á fætur öðru og sífellt finnst mér tíminn líða hraðar á hverju ári sem líður af ævi minni.
Mér finnst að vorið sé alveg nýkomið, en samt er það löngu liðið og veturinn að halda innreið sína. Ég sem er alltaf svo óendanlega glöð á vorin þegar ég sé grænu brumin á trjánum, sem springa svo út og verða að ljósgrænum vorlitum laufblöðum. Vorið er minn tími og ég vildi óska að það gæti ætíð verið vor. En lífið er og getur ekki verið eilíft vor. Það haustar að og náttúran leggst í dvala og í ævi okkar mannanna haustar líka að uns veturinn leggur okkur að velli og við deyjum eins og blómin og trén. En ef til vill bíður okkar allra eilíft líf að lokum, jafnvel þó ekki væri, nema á gömlum vídeóspólum.


Gáta?

Ég byrjaði á að æfa mig í því að teikna blindandi fyrir fjórum árum. Stundum teiknaði ég einnig með báðum höndum. Fyrstu viðfangsefni mín í þessari tilraun voru nemendur mínir, sem aldrei höfðu grænan grun um að ég væri að teikna þá í laumi, þar sem ég sat við kennaraborðið.
Svo fór ég að teikna hesta á hreyfingu. Fyrstu myndirnar voru skrýtnar, en samt svolítið skemmtilegar, en smátt og smátt náði ég tökum á þessari tækni og gat orðið teiknað  hesta ágætlega og nemendur mína og ýmsar aðrar persónur blindandi, þannig að fólkið þekktist vel á myndunum.

Síðan útfærði ég þessa tilraun mína með því að fara að teikna fólk eftir minni, blindandi. Ég hafði uppgötvað nokkrum árum áður að ég hafði eins konar ljósmyndaminni,  þannig að ef ég sá eitthvað áhugavert, starði ég á það og myndin eins og brenndi sig inn í huga mér. 

Svo ég fór að æfa mig í að teikna ýmsar þjóðþekktar persónur blindandi eftir minni. Þessi mynd er ein af þeim og mig langar til að spyrja ykkur hvort þið þekkið manninn á myndinni? 

 

 

scan0034 Laxnes, teiknað eftir minni, blindandi


Breiddu verndar væng yfir vinu þína

Og nóttin kom til mín
í stjörnubjörtum
draumi
eins og ljósvængjaður
engill
hinna löngu liðnu daga.

Milda nótt,
engill í alheimsgeimi,
breiddu verndar væng
yfir vinu þína.

 


Ég er líka með nækvæð viðhorf til Mjólkursamsölunnar

síðan ég fór á fund þeirra fyrir nokkrum árum og sýndi þeim teikningar af íslensku jólasveinunum og lagði til að Mjólkursamsalan skyldi myndskreyta mjólkurfernur fyrir jólin með þeim félögum. Ég sat langan fund, þar sem ég meðal annars lagði einnig til að þjóðlegur fróðleikur eða einhverjar jólasveinavísur yrðu líka á fernunum. 

Markaðsfræðingurinn sem var einn af þeim sem sat fundinn með mér og sem er reyndar náskyldur föður barnanna minna var voða líklegur við mig meðan á fundinum stóð og tók vel í allt sem ég sagði. 

En svo leið og beið, margir mánuðir liðu og svar til mín dróst á langinn, en látið var í veðri vaka að verið væri að hugsa málið. Það næsta sem ég svo vissi um þetta mál var svo frétt í fjölmiðlum um það að Mjólkursamsalan ætlaði að setja íslensku jólasveinana á mjólkurfernur fyrir jólin.

Ég hafði samband við formann Félags íslenskra teiknara og sagði honum mínar farir ekki sléttar. Formaðurinn ráðlagði mér að skrifa Mjólkursamsölunni ábyrgðarbréf þar sem ég færi að minnsta kosti fram á höfundarréttarlaun fyrir hugmynd mína. Sagði formaðurinn að hann hefði brennt sig  á svona svipuðum vinnubrögðum og ég varð fyrir og hann léti væntanlega viðskiptavini sína ætíð skrifa undir plagg áður en hann sýndi þeim hugmyndir sínar og teikningar, þar sem þeir hétu því að láta ekki aðra útfæra hans hugmyndir. 

Ég sendi ábyrgðarbréfið en fékk í hausinn, til baka bréf frá lögfræðingi Mjólkursamsölunnar þar sem m.a. sagði að öllum væri frjálst að sækja í íslenskan sagnasjóð.
Sagði þar ennfremur þá fyrst eftir allan þennan tíma, að þeir vildu ekki nota mínar myndir á fernurnar.

Þeir höfðu sem sagt dregið mig á asnaeyrunum allan þennan tíma. 

Þetta var í annað sinn sem hugmynd frá mér var notuð án míns samþykkis og í það skiptið var dæmið enn grófara. Því þá var tekin fígúra sem ég hafði teiknað og sem birst hafði bæði á bolum og plöttum og henni breytt örlítið og hún síðan notuð sem lukkudýr á ákveðinni barnasíðu í dagblaði einu. Ég kærði það mál, en af því fígúran var svona 30% öðruvísi útfærð var málið talið tapað fyrirfram.

Svona var nú það. 


mbl.is Mjólkursamsalan fagnar úrskurði héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Feit kona í vindi' Teiknað blindandi með báðum höndum

scan0062 Teiknað blindandi með báðum höndum

Það er svo mikið rokrassgat úti að mér fannst upplagt að birta þessa mynd á blogginu mínu. Hún er ein af mörgum myndum sem ég hef teiknað blindandi og sumar eins og þessa með báðum höndum.

Það sést á myndinni að ég hef beitt hægri hendinni sterkar enda er ég rétthent. Svona feit kona eins og þessi er skemmtilegt myndefni finnst mér. það er ekkert verra að hafa smá hold utan á sér. Það er þá eitthað til að klípa í eins og sumir karlmenn segja stundum.

Ég hef ekki farið út fyrir hússins dyr í dag, því það hvín svo ofboðslega í vindinum hér fyrir utan að það er eins og maður sé staddur inni í miðri hryllingsmynd, eða það fannst mér allavega þegar ég var að vakna og nudda stýrurnar úr augunum í morgun. Ég er búin að vera að útrétta ýmislegt í tölvunni í dag og hef tekið því rólega.
Á morgun er mér boðið á opnun sýningarinnar Hús plús hönnun í Laugardagshöll og dóttir mín ætlar að koma með því boðsmiðinn gildir fyrir tvo. Svo á laugardaginn er mér boðið á opnun sýningar hjá Álfheiði í ArtIceland á Skólavörðustíg, þar verður hljómsveit og svaka stuð. Svo það verður örugglega gaman hjá mér um helgina. 


Finnst ykkur þessi köttur neðst til vinstri ekki æði, er hann kannski eins mikið krútt og hann Tító minn?

PICT2239 Títós café

Éða er sá til hægri fallegri? Þetta eru hvorir tveggja oriental kettir sem eru skyldir síams og balinese köttum eins og Tító er, en þeir eru ekki með maska eins og þeir. Samt eru þeir snöggir á feldinn eins og síamskettir, en ekki hálfsíðhærðir eins og balinese kettir, en eru með græn augu í stað þess að bæði síams og  svo balinese eins og Tító eru með safírblá augu.

Þessi neðst  til vinstri er apricot silver spottet oriental köttur, en sá sem er neðst til hægri er red oriental köttur. 

Ég get kannski fengið svona svipaða kettlinga eftir eitt og hálft ár, þá verður Tító minn líklega farinn frá mér til Himna. 

Ég er komin á biðlista hjá konunni sem ætlar að rækta þessi ketti í þessum litum hérna heima. Þeir hafa alveg sömu skapgerð eins og síams og balinese kettir. Gáfaðir og mannelskir.

Annars finnst mér þetta hálfgerð synd af mér að vera gera svona ráðstafanir meðan Tító er enná lífi en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. 

Mér finnst það bara verst að geta ekki fengið balinese kettling eins og Tító og þó, kannski myndi minning Títós alltaf skyggja á kettlinginn ef þeir væru alveg eins. Það er ekki hægt að fá balinese ketti á Íslandi eins og er. En kannski verða þeir líka fluttir inn aftur. En allavega ég fæ mér kött sem líkist Tító en er samt ekki alveg eins. 

Annars er Tító heimsfrægur enda ekki nema von, fegursti köttur heims eins og hann svo jafnvel veitingahús í útlöndum eru skírð í höfuðið á honum, eins og þetta hérna á myndinni fyrir ofan,sem ég borðaði á, á Krít í sumar. 

Hann Tító er nú fallegur, svona loðinn og ísbjarnar bangsalegur-, finnst ykkur hann kannski fallegri heldur en oriental kettirnir? 

 

 

1 Elsku Tító 40707 018

scan0007 Apricot silver spottet orientall shorthair


Fjölgunar von í fjölskyldunni

Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Tengdadóttir mín á von á fjórða barninu, er komin fimm vikur á leið. Þau eiga þrjú ung börn fyrir,   Elísu Marie, sex ára Daníel sem er að verða fimm ára í þessum mánuði og svo Jónatan Davíð sem verður þriggja ára í febrúar og er hann með Downs heilkenni. Og það hefur verið erfitt fyrir þau að annast Jónatan Davíð, með þessa fötlun hans. Svo eru þau að pæla í að flytja hérna úr næsta nágrenni við mig og til Keflavíkur. Og ég sem er ekki á bíl og get þá ekki heimsótt þau þegar ég vil. Arg!

Auðvitað er það samt alltaf gleðiefni þegar lítið barn fæðist, en ég hef bara áhyggjur af að þetta verði of erfitt hjá þeim. 

Þetta verður þá fimmta barnabarnið mitt, því miðsonur minn á einn sextán ára strák. Svo er dóttir mín sem er yngst barna minna, enn barnlaus. En ég get kannski reiknað með svona 7 til 8 alls og kannski fleiri,  barnabörnum þegar hún og mannsefnið ákveða að eignast börn. 

En þau sem eru bæði viðskiptafræðingar eiga þann draum og ætla að láta hann rætast, að flytja til Þýskalands í einhvern tíma og læra meira, svo það er ekki fjölgunar von hjá þeim á næstunni. 

Ég er komin í samband við konu á netinu sem heldur að Tító minn sé köttur frá henni, því hún ræktar svona ketti, en mér var gefin Tító svo ég veit ekki með vissu hvaðan hann kom. Ég get þá leitað til hennar þegar Tító er farinn frá mér til þess að fá arftaka hans, þó reyndar geti aldrei, að mér finnst núna, neinn köttur komið í staðinn fyrir hann Tító minn. 

Nú er ég farin að þvo kisurnar einu sinni í viku og mér líður strax betur af ofnæminu. Kisulórurnar eru ekki beint hrifnar af sjálfu baðinu, ég dýfi þeim bara oní volgt vatn í baðkarinu, en þeir elska að láta þurrka sér og bursta sig hátt og lágt á eftir. Auðvitað tala ég voða blíðlega við þá á meðan á tilstandinu stendur og mér finnst stundum eins  og ég sé komin aftur í tímann og sé að baða börnin mín alsæl. 

Ég er búin að vera hölt öðru hvoru á hægra hné, í tvö ár. Sjúkraþjálfarinn segir að liðþófinn í hnénu sé skaddaður og lítið hægt að gera nema gefa mér laser geisla í hnéð. Ég spurði hvort hún gæti ekki farið með laserinn yfir andlitið og lagað það til líka og yngt mig um svona 15 ár. En því miður sagði hún að það væru öðru vísi laser geislar og svoleiðis fínerísdútl kostaði líklega yfir hundrað þúsund krónur hjá lækni.

Ég splæsi þá bara í það þegar ég er orðin rík eftir ár og öld. Svo setti þjálfarinn mig í strekkjara til þess að ná mér uppí mína fyrri hæð sem er vel yfir 170 cm. Nei annars bakið var strekkt og togað af því ég er ekki bara orðin kölkuð í hausnum heldur hryggnum líka, beinhnúðarnir ýta á einhverja taug niður í vinstri fót. Hún var búin að  strekkja á mér hálsinn áður með góðum árangri, því þar var sama dæmið sem leiddi út í vinstri handlegg, (ég hef sagt ykkur það áður að ég sé mjög vinstri sinnuð). Það virkaði svo vel að nú er ég orðin fín í handleggnum og fær í flestan sjó. 

Annars er ég orðin svo rosalegur næturhrafn, er að mála langt frá á nótt og ætla svo aldrei að geta vaknað á morgnana. En ég kemst alltaf í svo æðislegt stuð eftir klukkan tíu á kvöldin að það er engu lagi líkt. Í gærkvöldi var ég meira að segja í alvöru að pæla í því að skella mér líka í það, að heilsparsla einn vegginn á baðherberginu áður en ég skriði uppí rúm, en sem betur fer rann af mér æðið og ég lúskraðist í rúmið um klukkan hálf þrjú eftir miðnætti. 

Jæja, klukkan er að verða eitt eftir miðnætti, best að fara að sofa. Góða nótt öllsömul. 


Hver málaði þessar fyllibyttur??

PICT0645 Fyllibyttur

 Og á hvaða búllu eru þær að fá sér í glas? Frá hvaða landi var þessi listamaður og hverskonar stefnu (isma) málaði hann í ?  Hvenær var hann uppi og hvað einkenndi sérstaklega  þennan listamann, fyrir utan list hans?

Já, það er satt ég hef ekki farið á neina svona krá eða  búllu í meira en ár til þess að fá mér í glas og djamma. Það er kannski komin tími til að maður fari að skella sér út og skemmta sér eitthvað svolítið. 


Hvaða heimsfrægi listamaður málaði þessa mynd?

1360081L Monet

Hvers lenskur var hann og hvað hét stefnan (isminn) sem hann málaði í?  Afhverju er hún og fyrir hvað er hún sérstök? Nefnið tvennt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband