Leita í fréttum mbl.is

'Það er eins og gerst hafi í gær'

Dóttir mín kom hér í dag og bað um að fá gömlu vídeóspóluna með fjölskyldumyndunum lánaða. Hún ætlaði að taka hana með sér og láta setja hana á disk. Ég hef ekki horft á þessa spólu í áraraðir og ekki hún heldur, svo við settum hana í vídeótækið áður en hún fór með hana.
Ég var reyndar að búa mig til að fara á sýninguna í ArtIceland, en átti bágt með að slíta mig frá myndinni. það var svo skrýtið að sjá sjálfa sig ljóslifandi á myndinni, 19 ára gamla og nýtrúlofaða, brosandi út að eyrum. Og svo börnin mín hvert á eftir öðru, alveg frá því þau voru kornabörn, mömmu sálugu og fleiri sem eru löngu farnir yfir móðuna miklu.
Þarna var ég líka að baða börnin mín uppúr bala og ég og fyrrverandi maðurinn minn með þau í gönguferðum. Stórafmæli ýmissa í fjölskyldunni og svo jólin.
Það er svo undarlegt hvað tíminn líður fljótt og mér fannst þegar ég horfði á sjálfa mig með börnin mín lítil á vídeóinu að það hefði getað gerst í gær.

En í dag eru börnin mín öll löngu flutt að heiman og eiga sjálf börn, fyrir utan þessa dóttur mína sem er yngst af mínum börnum. Já lífið þýtur hjá, árstíðaskiptin koma hvert á fætur öðru og sífellt finnst mér tíminn líða hraðar á hverju ári sem líður af ævi minni.
Mér finnst að vorið sé alveg nýkomið, en samt er það löngu liðið og veturinn að halda innreið sína. Ég sem er alltaf svo óendanlega glöð á vorin þegar ég sé grænu brumin á trjánum, sem springa svo út og verða að ljósgrænum vorlitum laufblöðum. Vorið er minn tími og ég vildi óska að það gæti ætíð verið vor. En lífið er og getur ekki verið eilíft vor. Það haustar að og náttúran leggst í dvala og í ævi okkar mannanna haustar líka að uns veturinn leggur okkur að velli og við deyjum eins og blómin og trén. En ef til vill bíður okkar allra eilíft líf að lokum, jafnvel þó ekki væri, nema á gömlum vídeóspólum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk fyrir þessa fallegur færslu Guðný

Jóna Á. Gísladóttir, 21.10.2007 kl. 02:28

2 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Það segi ég sama og Jóna takk fyrir Guðný mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 21.10.2007 kl. 10:45

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Falleg færsla sæta kona.

Marta B Helgadóttir, 21.10.2007 kl. 21:12

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Takk fyrir öll sömuleiðis, að lesa þetta.

Svava frá Strandbergi , 22.10.2007 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband