Leita í fréttum mbl.is

Barbiehestar?

Hvað er orðið um imynd hins harðgerða íslenska hests? Nú þegar tekið er uppá því að skreyta hófa hans með glimmer og mála hann, eins og t.d. blesuna, að hvítta hana. Svo er komið sérstakt fax shampó til þess að faxið glansi sem mest. Já og allskonar stenslar eins og hjörtu t.d. til þess að klessa á hestana. Mér finnst þetta rugl og ekkert annað en niðurlæging fyrir okkar sérstaka íslenska hestakyn. Hvað verður næsta númer að lita fax og tagl bleikt eða fjólublátt eins og á 'The little pony', hestunum, sem voru og eru vinsæl leikföng barna?

Það er sagt í fréttinni að þetta snyrtidót hestana, sé sérlega vinsælt hjá ungum stúlkum, mér finnst líklegt að það séu einhverjar Barbie týpur sem fíla þessa vitleysu.  Það verður gaman eða hitt þó heldur að sjá hesta með glimmerhófa tölta hérna um Elliðaárdalinn í næsta nágrenni. 

Mér finnst íslenski hesturinn fallegur eins og hann er frá náttúrunnar hendi, enda vinsæll víða um lönd og óþarfi að skreyta hann með glansi, glimmer og hjörtum, eins og einhverja leikfanga fúgúru, nóg er nú vitleysan samt.  


mbl.is Glimmerhófar og glansandi fax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ertu loft, jörð, eldur eða vatn?

Hver af þessum fjórum myndum höfðar mest til þín? Ertu kannski skýjaglópur, eða með báða fæturna á jörðinni? Eða ertu kannski eldhugi og brennandi hugsjónamanneskja eða þá síbreytilegur eins og sjórinn og vatnið?

Einn góður fyrir svefninn

Guðrún fór einn daginn til prestsins í kirkjunni sinni: - Séra, sagði hún - ég á við dálítið vandamál að stríða. Eiginmaður minn steinsofnar alltaf í messunum þínum. Það er orðið ansi vandræðalegt. Hvað get ég eiginlega gert?

- Ég er með hugmynd, svaraði presturinn. Taktu þessa saumnál með þér næst og þegar ég tek eftir því að hann er að sofna, gef ég þér merki með því að kinka kolli og þú stingur hann í lærið með nálinni.

Næsta sunnudag tók presturinn eftir því að Einar, maður Guðrúnar var að sofna og ákvað að setja planið í gang.

Og hver var það sem fórnaði sér fyrir syndir ykkar? Spurði presturinn kinkandi kolli til Guðrúnar.
Jesús Kristur! Öskraði Einar þegar Guðrún stakk hann í lærið. - Mikið rétt hjá þér Einar, sagði presturinn brosandi.

- Presturinn tók svo eftir því þegar Einar var að dotta aftur. - Hver hefur gefið ykkur frjálsan vilja og mun gefa ykkur eilíft líf? Spurði hann söfnuðinn og gaf Guðrúnu merki. Guð minn góður! Skrækti Einar þegar hann fékk nálina í lærið. - Rétt hjá þér á ný, sagði presturinn skælbrosandi.

Presturinn hélt áfram að predika, en tók ekki eftir því að Einar sofnaði eina ferðina enn. Hann gleymdi sér síðan í ræðunni og þegar hann lagði áherslu á orð sín, kinkaði hann óvart kolli.

Og hvað  sagði Eva við Adam eftir að hafa fætt honum 99 punda son hans? Spurði hann söfnuðinn hátt og snjallt.

Nálin stakkst í lærið á Einari sem öskraði: -  EF ÞÚ STINGUR ÞESSUM HELVÍTIS HLUT Í MIG EINU SINNI ENN, ÞÁ BRÝT ÉG HANN Í SUNDUR OG TREÐ HONUM UPPÍ RASSGATIÐ Á ÞÉR! 


Ef við nú..

scan0008 Dansmær

Ef við nú
í veröld markmiða
og athafna, hefðum
glatað hugarflugi,
nautn hins fagra
litadýrð og skrauti,
værum við,
þrátt fyrir allt
það sem umlykur
okkur, fátækar
manneskjur.

 

Hesse


'Það er eins og gerst hafi í gær'

Dóttir mín kom hér í dag og bað um að fá gömlu vídeóspóluna með fjölskyldumyndunum lánaða. Hún ætlaði að taka hana með sér og láta setja hana á disk. Ég hef ekki horft á þessa spólu í áraraðir og ekki hún heldur, svo við settum hana í vídeótækið áður en hún fór með hana.
Ég var reyndar að búa mig til að fara á sýninguna í ArtIceland, en átti bágt með að slíta mig frá myndinni. það var svo skrýtið að sjá sjálfa sig ljóslifandi á myndinni, 19 ára gamla og nýtrúlofaða, brosandi út að eyrum. Og svo börnin mín hvert á eftir öðru, alveg frá því þau voru kornabörn, mömmu sálugu og fleiri sem eru löngu farnir yfir móðuna miklu.
Þarna var ég líka að baða börnin mín uppúr bala og ég og fyrrverandi maðurinn minn með þau í gönguferðum. Stórafmæli ýmissa í fjölskyldunni og svo jólin.
Það er svo undarlegt hvað tíminn líður fljótt og mér fannst þegar ég horfði á sjálfa mig með börnin mín lítil á vídeóinu að það hefði getað gerst í gær.

En í dag eru börnin mín öll löngu flutt að heiman og eiga sjálf börn, fyrir utan þessa dóttur mína sem er yngst af mínum börnum. Já lífið þýtur hjá, árstíðaskiptin koma hvert á fætur öðru og sífellt finnst mér tíminn líða hraðar á hverju ári sem líður af ævi minni.
Mér finnst að vorið sé alveg nýkomið, en samt er það löngu liðið og veturinn að halda innreið sína. Ég sem er alltaf svo óendanlega glöð á vorin þegar ég sé grænu brumin á trjánum, sem springa svo út og verða að ljósgrænum vorlitum laufblöðum. Vorið er minn tími og ég vildi óska að það gæti ætíð verið vor. En lífið er og getur ekki verið eilíft vor. Það haustar að og náttúran leggst í dvala og í ævi okkar mannanna haustar líka að uns veturinn leggur okkur að velli og við deyjum eins og blómin og trén. En ef til vill bíður okkar allra eilíft líf að lokum, jafnvel þó ekki væri, nema á gömlum vídeóspólum.


Gáta?

Ég byrjaði á að æfa mig í því að teikna blindandi fyrir fjórum árum. Stundum teiknaði ég einnig með báðum höndum. Fyrstu viðfangsefni mín í þessari tilraun voru nemendur mínir, sem aldrei höfðu grænan grun um að ég væri að teikna þá í laumi, þar sem ég sat við kennaraborðið.
Svo fór ég að teikna hesta á hreyfingu. Fyrstu myndirnar voru skrýtnar, en samt svolítið skemmtilegar, en smátt og smátt náði ég tökum á þessari tækni og gat orðið teiknað  hesta ágætlega og nemendur mína og ýmsar aðrar persónur blindandi, þannig að fólkið þekktist vel á myndunum.

Síðan útfærði ég þessa tilraun mína með því að fara að teikna fólk eftir minni, blindandi. Ég hafði uppgötvað nokkrum árum áður að ég hafði eins konar ljósmyndaminni,  þannig að ef ég sá eitthvað áhugavert, starði ég á það og myndin eins og brenndi sig inn í huga mér. 

Svo ég fór að æfa mig í að teikna ýmsar þjóðþekktar persónur blindandi eftir minni. Þessi mynd er ein af þeim og mig langar til að spyrja ykkur hvort þið þekkið manninn á myndinni? 

 

 

scan0034 Laxnes, teiknað eftir minni, blindandi


Breiddu verndar væng yfir vinu þína

Og nóttin kom til mín
í stjörnubjörtum
draumi
eins og ljósvængjaður
engill
hinna löngu liðnu daga.

Milda nótt,
engill í alheimsgeimi,
breiddu verndar væng
yfir vinu þína.

 


Ég er líka með nækvæð viðhorf til Mjólkursamsölunnar

síðan ég fór á fund þeirra fyrir nokkrum árum og sýndi þeim teikningar af íslensku jólasveinunum og lagði til að Mjólkursamsalan skyldi myndskreyta mjólkurfernur fyrir jólin með þeim félögum. Ég sat langan fund, þar sem ég meðal annars lagði einnig til að þjóðlegur fróðleikur eða einhverjar jólasveinavísur yrðu líka á fernunum. 

Markaðsfræðingurinn sem var einn af þeim sem sat fundinn með mér og sem er reyndar náskyldur föður barnanna minna var voða líklegur við mig meðan á fundinum stóð og tók vel í allt sem ég sagði. 

En svo leið og beið, margir mánuðir liðu og svar til mín dróst á langinn, en látið var í veðri vaka að verið væri að hugsa málið. Það næsta sem ég svo vissi um þetta mál var svo frétt í fjölmiðlum um það að Mjólkursamsalan ætlaði að setja íslensku jólasveinana á mjólkurfernur fyrir jólin.

Ég hafði samband við formann Félags íslenskra teiknara og sagði honum mínar farir ekki sléttar. Formaðurinn ráðlagði mér að skrifa Mjólkursamsölunni ábyrgðarbréf þar sem ég færi að minnsta kosti fram á höfundarréttarlaun fyrir hugmynd mína. Sagði formaðurinn að hann hefði brennt sig  á svona svipuðum vinnubrögðum og ég varð fyrir og hann léti væntanlega viðskiptavini sína ætíð skrifa undir plagg áður en hann sýndi þeim hugmyndir sínar og teikningar, þar sem þeir hétu því að láta ekki aðra útfæra hans hugmyndir. 

Ég sendi ábyrgðarbréfið en fékk í hausinn, til baka bréf frá lögfræðingi Mjólkursamsölunnar þar sem m.a. sagði að öllum væri frjálst að sækja í íslenskan sagnasjóð.
Sagði þar ennfremur þá fyrst eftir allan þennan tíma, að þeir vildu ekki nota mínar myndir á fernurnar.

Þeir höfðu sem sagt dregið mig á asnaeyrunum allan þennan tíma. 

Þetta var í annað sinn sem hugmynd frá mér var notuð án míns samþykkis og í það skiptið var dæmið enn grófara. Því þá var tekin fígúra sem ég hafði teiknað og sem birst hafði bæði á bolum og plöttum og henni breytt örlítið og hún síðan notuð sem lukkudýr á ákveðinni barnasíðu í dagblaði einu. Ég kærði það mál, en af því fígúran var svona 30% öðruvísi útfærð var málið talið tapað fyrirfram.

Svona var nú það. 


mbl.is Mjólkursamsalan fagnar úrskurði héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Feit kona í vindi' Teiknað blindandi með báðum höndum

scan0062 Teiknað blindandi með báðum höndum

Það er svo mikið rokrassgat úti að mér fannst upplagt að birta þessa mynd á blogginu mínu. Hún er ein af mörgum myndum sem ég hef teiknað blindandi og sumar eins og þessa með báðum höndum.

Það sést á myndinni að ég hef beitt hægri hendinni sterkar enda er ég rétthent. Svona feit kona eins og þessi er skemmtilegt myndefni finnst mér. það er ekkert verra að hafa smá hold utan á sér. Það er þá eitthað til að klípa í eins og sumir karlmenn segja stundum.

Ég hef ekki farið út fyrir hússins dyr í dag, því það hvín svo ofboðslega í vindinum hér fyrir utan að það er eins og maður sé staddur inni í miðri hryllingsmynd, eða það fannst mér allavega þegar ég var að vakna og nudda stýrurnar úr augunum í morgun. Ég er búin að vera að útrétta ýmislegt í tölvunni í dag og hef tekið því rólega.
Á morgun er mér boðið á opnun sýningarinnar Hús plús hönnun í Laugardagshöll og dóttir mín ætlar að koma með því boðsmiðinn gildir fyrir tvo. Svo á laugardaginn er mér boðið á opnun sýningar hjá Álfheiði í ArtIceland á Skólavörðustíg, þar verður hljómsveit og svaka stuð. Svo það verður örugglega gaman hjá mér um helgina. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband