Leita í fréttum mbl.is

Þú varst stormur...

Þú varst stormur
sem geisaði um nótt.
Þú varst hvirfilbyls
hringiðudans.
Þú varst skýfall
með ástríðuþrótt.

-Þú varst ástin
í líkingu manns.


mbl.is Búist við stormi fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðlaunin valin í verðlaunagetrauninni

140707 Hafgúan small,þrykk blek og olía Stór mynd 006

 

Verðlaunahafinn í verðlaunagetrauninni minni, hún Zordís, valdi sér þessa mynd, sem heitir Hafgúan,  í verðlaun, eftir miklar pælingar. Þetta er dálítið stór mynd. Ég mun senda henni hana til Spánar og vona bara að hún verði ánægð með hana. Svona eftirprentanir kosta 6000 kr. ef einhver hefur áhuga á góðri jólagjöf fyrir jólin.

Ég er að fara í bíó í kvöld með vinkonu minni og sjá myndina Elizaheth, The Golden Age, ég hlakka til að sjá þessa mynd því ég hef ódrepandi áhuga á sögu Elísabetar fyrstu.

Svo á morgun ætlum vð á sýningu og kynningu silfurleir og námskeiðum í gerð skartgripa úr honum. kynningin verður í Handverkshúsinu. Þar verður örugglega gaman líka. 


Vatnadísir Vatnslitir Við texta eftir Nýdönsk Myndin sést ekki alveg öll

 

Nydonsk: Foss lyrics


'Flæða flóð
orka ekki að bera
Farna slóð
leita uppi átt
Flæða flóð
sverfa bakka svera
Aðra slóð
flæða gegnum gátt
Flæðir flóð
bylur fullum þunga
Blýþung lóð
sliga smátt og smátt
Þyrmir yfir fyllir vitin - vatnið
Altekur Umlykur
Umlykur Heltekur
Heltekur foss Altekur oss
Flæðir flóð
lamar veikar varnir
Slekkur glóð
dregur til sín mátt
Heyri
vatnadísir kalla dett í foss
Vatnsfallseljan er þrúgandi
þokan másandi og móð
Rök er nepjan og nístandi
grenjandi óð
Altekur...'


þegar haustar að sækja mýsnar í hús

 

      Gildran

Þau sækja á hug minn
svörtu augun
er spegluðu ótta
og angist dauðans.

Svo þreytt var hún orðin
og þjökuð af hræðslu
þó reyndi hún að synda
því hún elskaði lífið
og óttaðist dauðann.

Ég var tólf ára telpa
sem trúði á hið góða.

- Í sveit þetta sumar.

Hún synti til dauða
þó svörtu augun
mig sárbændu um líf.
En ég mátti ekki hjálpa.

Þau sækja á hug minn svörtu augun
- Svörtu litlu músaraugun.


Verðlaunagetraun. Hver málaði þessa mynd og hvers konar 'ismi' er þetta?

PICT0131 Getraun 1

 

Sá sem fyrst/ur kemur með svarið fær að velja sér mynd úr gallerí

albúminu á síðunni minni. Eftirprentun og verður hún prentuð

á góðan pappír í ca. A3 stærð. 


Ég segi nú eins og fleiri, hvað eru þeir að rífast við ASÍ?

Auðvitað eiga þeir að rífast við toppkallana í ríkisstjórninni og fá þá til að tengja örorkubæturnar aftur við launavísitöluna.
En eins og allir vita var það Bubbi kóngur, alias Dabbi, sem sleit örorkubætur úr öllu sambandi við launavísitöluna. Hann hefur engan og hafði aldrei neinn skilning á málefnum öryrkja.
Hann var svo önnum kafinn við að hækka sín eigin laun og koma á þessum alræmdu eftirlauna eða lífeyrislögum fyrir sjálfan sig.
Eins er um stjórnina í dag. Fjöryrkjar eða öryrkjar skulu stéttvísir vera og láta sig ekki dreyma um að komast upp úr sinni stétt þ. e. hinni alræmdu stéttlausu stétt sem einnig mun vera til á Indlandi.
mbl.is Öryrkjabandalagið lýsir furðu á yfirlýsingu ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við fjallavötnin fagurblá. Þrykk og málað ofan í með þynntum prentlitum. Hluti af mynd.

scan0006 small

Við fjallavötnin fagurblá

er friður, tign og ró;

í flötinn mæna fjöllin há

með fannir, klappir, skóg.


Þar líða álftir langt í geim

með ljúfum söngvaklið,

og lindir ótal ljóða glatt

í ljósrar nætur frið.

 

 (Hulda)


Á þetta virkilega líka við um Ísland?

'Samdráttur í framleiðslu skýrist hins vegar af versnandi veðurfarsaðstæðum, vöntun á landi til matvælaframleiðslu og að vatnsforði jarðar fer óðum minnkandi. Óhjákvæmilega mun því verð halda áfram að hækka og það á við um Ísland ekki síður en önnur lönd.´

Er ekki lambakjötið nógu andskoti dýrt, eða hvað? Og hvers vegna er það svona dýrt, ganga ekki lömbin sjálfala á íslenskum gróðursælum heiðum, fyrir utan það að lifa einnig á móðurmjólkinni?
Það þarf því ekki að borga fóðrið ofan í þau þetta eina sumar sem þau lifa. Nóg vatn hafa þau líka til drykkjar í silfurtærum fjallalækjum, svo ekki hrjáir þau vatnsskorturinn.
Svo hefur heyjast ágætlega á Íslandi undanfarin góðviðrisár svo búpeningurinn hefur nóg að éta þann tíma ársins, sem hann er lokaður inni í fjárhúsum eða fjósum og vatnið sem við höfum eins og allir vita nóg af er leitt heim í peningshúsin í tugþúsunda lítratali.

Kjúklingarnir sem aldrei koma undir bert loft og lifa inni í stórum skemmum frá útungun til slátrunar er varla hægt að segja um að skorti mikið landrými. Og þeir hafa líka nóg af vatni.

Svo veit ég ekki betur en bændum sé borgað fyrir það af almannafé að halda búum sínum gangandi. Það er asnalegt að almenningur borgi bændastéttinni stórfé fyrir að framleiða ofan í sig fæðu sem ekki stendur undir kostnaði og punga svo út með fleiri þúsund krónur í viðbót ef bara er keypt eitt andskotans lambalæri.

Hvar liggur hundurinn grafinn með leyfi, var hann e.t.v. heygður í bónusvinnu fyrir krónu á tímann? 


mbl.is Maturinn dýrari á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því leiðir skildu á lífsins braut

þín lá um hafsins strauma.

En  ég sat  heima  og  bað

og  beið

í bríma ástar drauma.


Tító er æði svona, ekki satt? Og listmálari á listráðstefnu

Small Tító 40507 018

Þegar ég var að skoða myndirnar mínar sem ég teikna blindandi, mundi ég allt í einu eftir skemmtilegri sögu um landsþekktan listmálara, sem er fyrrum kennari í Myndlista og handíðaskóla Íslands.

Þessi tiltekni listmálari missti heyrnina þegar hann var ungur drengur, svo hann getur talað nokkuð eðlilega og les hann auðveldlega af vörum manna.

Eitt sinn var heyrnarlausi listmálarinn beðinn um að vera fulltrúi íslenskra listamanna á mikilli og fínni listráðstefnu erlendis, þar sem listamenn frá ólíkum löndum komu saman og gekk það auðvitað vel og fór ráðstefnan fram með miklum sóma.  

Ráðstefnunni lauk svo með kvöldverði þar sem listaspekúlantarnir gæddu sér á dýrindis réttum og eðalvínum.

Íslenski listmálarinn, heyrnarlausi, skemmti sér hið besta við matarborðið og lét ljós sitt skína ótæpilega í umræðum manna á milli um hinar fögru listir og talaði hátt og mikið með sinni drynjandi röddu . Fannst einum boðsgestanna sem var fulltrúi frá einu Norðurlandana nóg um vaðalinn í hinum heyrnarlausa  listamanni og hugðist lækka í honum rostann. 

Vék hann sér að því að hávaðaseggnum og spurði meinfýlslega. 'Hvernig í ósköpunum stendur á því að  Íslendingar sendu heyrnarlausan mann á listráðstefnu'?

En hinn íslenski gleðimaður lét ekki stinga uppí sig frekar en venjulega. 'Það er af því þeir höfðu engan blindan',  svaraði hann stuttur í spuna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband