Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Fæðing gyðjunnar, ort undir áhrifum af myndinni, Venus eftir Bottichelli.

PICT0052 Venus

 
Ég gleymi því aldrei þegar ég stóð fyrir framana þessa heimsfrægu mynd eftir Bottichelli. Ég var blátt áfram uppnumin. Löngu seinna reyndi ég að koma tilfinningunni sem ég varð fyrir á blað og úr varð lítið ljóð sem á fátæklegan máta túlkaði stemninguna sem ég las út úr þessu mikla listaverki, ljóðið, Fæðing gyðjunnar.



     Fæðing gyðjunnar

 

Í safírblárri nóttinni
hljómar söngur vindanna
rósbleik hörpuskel ristir
blíðlega flauelsmjúkt haf

marbárur rísa og hníga
í örum hjartslætti sjávarins

röðulglóð lýsir hauður og haf
er lofnargyðjan stígur fullsköpuð
úr skínandi djúpinu
getin af sævi, borin af perlumóður.

Nývöknuð veröldin nýtur í fyrsta sinni
- ástar gyðjunnar.


Einvígið við ófreskjuna og fleira

scan0014Einvígið við ófreskjuna

 

Ég var að dunda mér í dag við hitt og þetta, en þó aðallega þetta. Ég var að gera þessa mynd sem ég kalla 'Einvígið við ófreskjuna'.
Ég  er  búin að  tala við gallery á Skólavörðustíg. Reyndar sendi ég myndir þangað líka í tölvupósti. Gallerys eigandinn var mjög hrifin af myndinni Stúlkan í græna kjólnum, myndina Sólheimajökull og Manndómsbrekkan, já og svo nefndi hún líka að Ísilagt vatnið væri fín.
Ég get víst fengið sýningarpláss hjá henni í febrúar á næsta ári. En ég er samt ekki viss hvort ég verði komin með nægar myndir til  að sýna, né næga peninga, því vikan hjá henni kostar 72 þúsund krónur, en það er reyndar með öllu. Það er að segja yfirsetu, boðskortum og hún sér einnig um að hóa í fjölmiðla og svoleiðis stöff.
Svo er galleryið með alþjóðlega  heimasíðu sem er mikið heimsótt af kaupendum erlendis. Þarna er líka boðið uppá vaxtalaus lán til þess að fjárfesta í myndlist.

Jæja ég sé bara til, en vona  samt að  ég  geti  haldið  þessa sýningu hjá  henni eftir 4 mánuði.

Nú ef ekkert verður af þessu hef ég þó alltaf fyrirhugaða bloggvinkvennasýningu í Ráðhúsinu upp á að hlaupa, en hún verður opnuð 29. ágúst á næsta ári.

Ég er búin að segja upp í leikskólanum. Það var alltof mikið álag á bakið á mér að bogra yfir 7 börnum í einu, til að kenna þeim myndlist við svona pínulítil borð og stóla sem þau sátu á.
Ég er með kölkun í baki og mænuþrengsli og einnig í hálsi. Taugaverkir leiða niður í vinstri fót og vinstri handlegg. Ég hef alltaf verið svo vinstri sinnuð, þess vegna er ég með náttúrulega með vinstri verki. Þessi seinni helmingur af síðustu setningu, eða partur úr henni, er stolinn frá Sigga bróður, úr bókinni 'Í leit að sjálfum sér'

Ég sótti um vinnu í dag á netinu sem aðstoðarmaður iðjuþjálfa á geðsviði Landsspítalans. Æ, ég vona að ég fái þá vinnu, eða þa´vinnu sem skólaritari sem ég ætla að sækja um á mánudag.

Annars fékk ég smá aukavinnu í gær við að skrautskrifa á skjöl fyrir Halaleikhópinn. Það var þrælgaman að gera þetta. Mér þótti verst að þurfa að taka pening fyrir, því það var ein bloggvinkona mín sem bað mig um þetta. En ég er alltaf blönk svo ég tók við borgun fyrir verkið. 

Svo slappaði ég af yfir sjónvarpinu í kvöld eftir sameiginlega máltíð okkar Títós og Gosa. Ég eldaði kjúkling og þeir vomuðu yfir mér frammi í eldhúsi, meðan ég var að elda. Mér fannst verst að geta ekki lagt á borð fyrir þá svo við hefðum getað haft það huggulegt við borðstofuborðið og snætt kjúklinginn saman í bróðerni.

En því miður tóku þeir ekki í mál að gera mér þann heiður, svo ég borðaði bara ein,  fyrir framan sjónvarpið en þeir af skálinni sinni frammi í eldhúsi. En mikið lifandis skelfing sleiktu þeir mikið út um eftir að hafa hámað í sig kjúklinginn. Ég gerði það reyndar líka, svona fyrst að enginn sá til mín.

Á morgun ætla ég á kaffihús með vinkonu minni í Kringlunni. Skoða smá föt í leiðinni og svona.

Well best að fara að sofa  


Snjóblómaandlitin Þrykk og olía. Og heimsókn til ömmubarnanna.

scan00010 'Snóblómaandlit.(Breytt) small

 

Ég er búin að vera að dunda mér við að mála í dag. Breytti þessari mynd af snjóblómaandlitunum og mér finnst hún vera betri svona. Já, ég er bara sátt við hana.
Dóttir mín kom aldrei á sunnudaginn í heimsókn því útidyralásinn var bilaður hjá henni og hún gat því ekki farið að heiman. Eins og ég hlakkaði til að sjá hana, en hún kemur þá bara seinna.

Ég fór að heimsækja tengdadóttur mína og barnabörnin þrjú seinnipartinn í gær, eftir að ég var búin í sjúkraþjálfun. Elísa Marie, sex ára ömmustelpa var að teikna ballerínur þegar ég kom og fór svo að dansa ballett sjálf úti á gólfi. Stóð á tánum og mér fannst hún rosa flott.
Ég sagði Elísu að ballerínurnar hennar væru voða flott teiknaðar og að listamaður sem hét Degas hefði teiknað mikið af ballerínum . Af hverju teiknaði hann þær? Spurði hún. En svaraði sér svo sjálf. Var það  út af hreyfingunni? Fannst honum þær svo flott?  Já, sagði ég, einmitt, honum fannst hreyfingarnar svo fallegar hjá ballerínunum.
Þá stóð hún upp og sneri sér í marga hringi og spurði svo. Er ég líka flott núna þegar ég dansa svona á tánum? Já sagði ég, þú ert alveg eins og alvöru ballerína og Elísa var svo ánægð með sig og var eins og lítil prinsessa í bleika bolnum og pilsinu sem hún var í.

Daníel fimm ára var líka að teikna og klippa pappír eins og Elísa. En svo fengu þau leið á listamannaleiknum og náðu sér í stórt teppi sem þau hentu yfir sig. Svo þeyttust þau æpandi og skrækjandi um alla stofuna og þóttust vera draugar og ég var alveg svakalega hrædd við þau. 

Jónatan litli Davíð, sem er að verða þriggja ára og er með Downs heilkenni er orðinn svo duglegur að tala og hann notar líka táknmál. Ég dró tvo fingur yfir ennið og sagði 'amma' um leið. Þá brosti hann út að eyrum svo andlitið ljómaði upp. Hann hefur svo fallegt bros hann Jónatan. 

Svo vildu Elísa og Daníel endilega syngja fyrir mig Meistari Jakob á frönsku, þau lærðu vísuna í leikskólanum og  í skólanum, sögðu þau. Þetta lag er svo einkennilega sjarmerandi þegar það er sungið á frönsku. Ég hjó eftir orðunum 'dormi vu'? í textanum, eða sefur þú? Og ég sagði krökkunum að orðið að dorma væri líka notað í íslensku yfir það að sofa. Það fannst þeim vera afskaplega merkilegt. 

Það er ekki amalegt að eiga svona sprenglærð barnabörn sem syngja á frönsku og tala þess utan þrjú tungumál. Ég er viss um að þau verða algjörir prófessorar þegar þau verða stór.

Clarivelle tengdadóttir spurði hvort ég væri svöng og sagði mér að láta bara eins og heima hjá mér og fá mér eitthvað að borða. Svo ég fékk mér ristað brauð með osti og mjólk.

Á leiðinni heim kom ég við í nýju pólsku búðinni  í hverfinu og keypti í matinn. Já maður býr svo sannarlega í fjölþjóðlegu samfélagi  nú orðið og mér finnst það bara fínt. 

Það er annað en þegar ég var á mínum yngri árum þegar allir sneru sér við á götu og gláptu eins og naut á nývirki, ef að hörundsdökkum manni sást bregða fyrir einhvers staðar. 


'Umbrot undir jökli' og ástamál manna og katta

140707 0023 small  Umbrot undir jökli

 

Ég er búin að vera að rolast ein í dag við að ganga frá myndum og standa í  öðru smádútli. Smærri myndir sem ég vinn á gljákarton sprayja ég lími aftan á úti á svölum og bíð svo i 20 sec þangað til ég skelli þeim á kartonið. Ég var komin með hausverk af límlyktinni þó ég hefði gluggann opinn uppá gátt.

Ég harðbannaði köttunum að stíga fæti sínum út á svalir meðan úðamökkurinn réði þar ríkjum. Þeir komust ekki einu sinni á klósettið, en það var mesta furða hvað þeir gátu haldið í sér greyin.

Tító er allur að hressast af sýklalyfjagjöfinni eftir að ég tvöfaldaði skammtinn samkvæmt ráði dýralæknisins. Hann var meira að segja að leika sér í dag og í gærkvöldi var svo hátt uppi á honum typpið þegar hann var kominn uppí rúm hjá mér að hann rak Gosa framúr rúminu með harðri kló og var alveg öskuþreifandi illur.

Það hefur líklega verið búin að safnast fyrir í honum reiðin út í Gosa.  Því  meðan Tító var sem slappastur varnaði Gosi honum þess að komast á kattaklósettið með því að ráðast á hann og riðlaðist svo á honum þess á milli, til þess að sýna hver væri nú húsbóndinn á heimilinu. Svo reyndi hann að einoka mig og leyfði Tító varla að koma nálægt mér.

Annars er Tító ekki eins leitt og hann lætur,  því í þessum pikkuðum orðum leyfir hann Gosa að skakast á sér, liggjandi á púða við fætur mér, þar sem ég sit við tölvuna.

Já, hún er skrýtin þessi ást milli katta og manna svona yfirleitt. Ég bý með tveimur hommum og er ástfangin af ungum manni sem dó fyrir áratugum síðan, því mín forna ást blossaði uppá ný eftir að ég fékk sent lagið við ljóðið mitt um æskuástina mína sálugu, sem aldrei fékk að blómstra. 

Svei mér þá, þetta er bara ekki hægt að vera svona rugluð eins og ég er í þessu máli. Ég verð  að hætta að lifa svona í fortíðinni og fara og finna mér einhvern gaur sem er ennþá á lífi. 

En hvar ég finn hann er stóra spurningin, því ég vinn við að kenna smábörnum á leikskóla og fer frekar litið út. Annars er ég strax orðin skotin í einum litlum polla á leikskólanum,  sem heitir Jói. Hann er svo mikið krútt og allir á leikskólanum elska hann eins og ég. 

Jæja, ég verð víst að fara að sofa því ég er orðin ansi þreytt eftir daginn. Á morgun ætlar dóttir mín að koma í heimsókn og ég hlakka til að sjá hana. 

Góða nótt öll sömul og sofið rótt. 


Kvika

 

Ég nota allar frístudir ítil að mála. Ekki seinna að vænna að að eiga eitthvað til af myndum ef af maður fer að sýna þetta. Mig vantar bara pening. það kostar minnst 300.000 krónur að sýna í galleryi ef maður tekur allt með í reikningin. En maður vonar að þetta reddist, ég fái styrk og svoleiðis. Svo er bara málið að allir gagnrýnendur á Mogganum verði ekki í fríi þegar sýningin verður haldin, eins og þegar ég hélt síðustu sýningu.  Það kemur sér andskoti illa að fá ekki gagnrýni. En mér var allavega lofað af fulltrúa menningar og lista á Mogganum að ég fengi almennilega umfjöllun næst. 


Ljóðið, Gallery ást, Ást við opnun myndlistarsýningar. Olíupastel

Ást



Augu mín
drukku í sig andlit þitt.
Nutu kitlandi tilfinningar
-unaðsvímunnar
og freyðandi fullnægingar
-svalaðs lostans.
Töfrandi táldræga kampavín
- árgerð ´52.
Hve ég - elska þig!

 

Ort 1989.


Snert hörpu mína himinborna dís

scan0001

Snert hörpu mina himinborna dís
svo hlusti englar Guðs í paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf
og festi á hann streng og rauðan skúf.

Úr furutré sem fann ég út við sjó
ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í því líf.

Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt
um varpann leikur draumsins perluglit.

:,:Snert hörpu mína himinborna dís og hlustið englar Guðs í paradís:,:

 Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.


Ég sá hann í dag ' Vitfirrt ást'

Ef þú kæmir til mín

myndi ég ráðast á þig

og rífa utan af þér fötin.

Svo myndi ég leggja þig flatan

á fínpússsað eldhúsgófið

og fleka þig með bestu lyst.

 

Það er nú það,  ljúft er að láta sig dreyma. Það verður víst hvort sem er aldrei neitt meira úr þessu.
En það getur líka verið ágætt að vera ástfangin í leyni.

En hvað með það,  ég er loksins búin að fá vinnu. Eiginlega samskonar vinnu og ég vann á síðasta vinnustað,, þ.e. að kenna myndlist, nema í staðin fyrir að kenna fólki í framhaldsskóla, mun ég nú fara að kenna leikskólabörnum.
Ég fer niður á við í aldri nemenda minna, úr fullorðnu fólki og niður í smábörn. Ætli það endi ekki bara með því að ég fari bara að taka á móti börnum og gerist ljósmóðir? 

Ég fór í bankann minn í dag og sótti um styrk til að halda einkasýningu. Ætla að reyna að halda smásýningu á undan samsýningunni okkar bloggvinkvennanna sex í Ráðhúsinu eftir ár, ef allt gengur að óskum. Til vara sótti ég reyndar um yfirdráttarlán líka. Ég sagði þjónustufulltrúanum að mig vantaði líka pening til þess að gefa út ljóðabók sem ég ætla að myndskreyta sjálf, en við urðum ásáttar um að taka bara eitt fyrir í einu.

Nú er Tító kominn á lyf við ógleðinni sem hrjáir hann vegna þess að þvagefnið í blóðinu hefur aukist. Nýrun hans eru að bila smátt og smátt. Lyfin verka vel á hann, allavega er hann hættur að kasta upp út um öll gólf,  en ég held að þessi lyf hafi slævandi verkun því hann er alltaf dormandi. Svo er hann eiginlega alveg hættur að borða. Ég man ekki til að hafa séð hann borða í marga daga.

Gosi graðnagli finnur og sér hve Tító er orðinn lítill bógur og leggur hann í einelti. Hann varnar honum þess að komast á kattaklósettið sem er úti á yfirbyggðu svölunum. Ég vaknaði einn morguninn við ofboðsleg hræðsluvein í Tító og rauk fram, þá sat hann skíthræddur við svaladyrnar og þorði ekki út, því Gosi réðist á hann ef hann dirfðist svo mikið að reyna að stíga fæti út á svalirnar. Svo ég neyddist til þess að láta kattaklósettið  inná  bað.

Tító sem hingað til hefur verið kóngurinn á heimilinu og hátt yfir Gosa hafinn í goggunarröðinni er nú undir hælnum á Gosa graða. Náttúran er grimm, því ef að dýr finna að eitthvert annað dýr er orðið mikið veikt leggjast þau á það. Þó hefur Gosi verið góður vinur Títós í gegnum árin.

Þegar Tító er ekki sofandi þá eltir hann mig vælandi um allt og vill láta halda á sér og bera sig um. Ég hef smá áhyggjur af því þegar ég fer að vinna að skilja Tító og Gosa eftir eina heima þegar ástandið er orðið svona .

Ég vona bara að allt muni koma til  með að ganga vel hjá mér í nýju vinnunni.


Lag gert við ljóðið mitt 'Í fjötrum.'

Það á eftir að vinna lagið meira og líklega verður það ekki birt hér á blogginu.

 

Í fjötrum

 


Í  haustgulu kvöldskini
gengu elskendurnir
að fossinum.

Komdu, sagði ´ann
og stökk  út á stein
í miðri ólgandi ánni.

Komdu, sagði ´ann aftur
biðjandi
og rétti út höndina.

Hann stendur enn
einn á hálum steini.                            
scan0008

Svellbólstruð áin.

Fossinn í fjötrum,
- ísköldum fjötrum.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband