Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Þrjú andlit Evu (Hugrof) Mixed media

 

 

scan0003 þrjú andlit Evu 1 small

 

Hugrof er röskun sem lýsir sér með því að einstaklingur upplifir mikla truflun á sjálfi sínu, minni eða meðvitund. Það felur í sér orsakir sálrænna erfiðleika, sem tengjast einhverjum hliðum á sjálfi einstaklingsins. Þrjár gerðir eru: 1. Óminni (amnesia). 2. Minnistap (fugue), og 3. Margklofinn persónuleiki (multiple personality disorder).

Þessi mynd mín er gerð með kvikmyndina Þrjú andlit Evu í huga,  sem var sýnd hér á landi fyrir tugum ára við  góða aðsókn og mikið umtal. Kvikmyndin fjallaði um líf konu sem hafði þrjá persónuleika, sem henni gekk illa að samræma hvor öðrum. Þetta var typisk Hollýwood kvikmynd þar sem heilbrigðasti persónuleiki sjúklingsins sigrar að lokum.

En í raun átti persónan í myndinni sér til raunverulega fyrrimynd. Það var kona sem við skulum kalla Önnu. Anna var með 32 persónuleika og saga hennar endaði ekki eins vel og í sögu persónunnar  Evu, í kvikmyndinni.

Oft klofnar persónuleiki manna við það að þeir verða fyrir miklum áföllum í lífinu, oftast nær í bernsku.
Í dag eru til lyf og einnig samtalsmeðferðir fyrir hendi, sem gera þessum sjúklingum kleyft að lifa þokkalega góðu lífi. En fyrr á  öldum nutu þeir vægast sagt  ekki velvildar og voru  oft  álitnir  andsettir. Þar af leiðandi urðu til margar óhugnanlegar sögur um þá sem þjáðust af klofnum persónuleika.
Ein frægasta sagan um tvíklofinn persónuleika er þó tvímælalaust, sagan af  Dr. Jekyll og Mr.Hyde.

Oft hefur geðklofa verið ruglað saman við tvískiptan eða margskiptan persónuleika. En hér er um tvo ólíka sjúkóma að ræða. Þar sem geðklofi einkennist af ranghugmyndum, ofsóknarkennd og á stundum mikilmennskubrjálæði. Sem betur fer geta geðklofa sjúklingar nú til dags flestir lifað góðu lífi með hjálp lyfja og samtalsmeðferða og geta allflestir stundað vinnu svo lengi sem þeir taka lyfin sín.

 

Það er mikilvægt að gæta vel að geðheilsunni með því að hugsa vel um sjálfan sig. Því enginn veit sína ævina fyrr en öll er og geðsjúkdómar gera oft ekki boð á undan sér.

 

Geðorð Geðræktar eru byggð á því sem einkennir farsælt fólk og eru þannig ábendingar til þeirra sem sækjast eftir velgengni og vellíðan í lífinu. Geðorðunum hefur verið dreift víða um land á undanförnum árum á veggspjöldum og póstkortum. Sumarið 2002 skrifaði Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, þáverandi verkefnisstjóri Geðræktar, neðantaldar greinar í Morgunblaðið um einstök geðorð undir merkjum Heilsunnar í brennidepli.

 

             Geðorðin tíu
 

1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara

2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir

4. Lærðu af mistökum þínum 5.

Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina

6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu 7.

Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig

8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína

10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast


Hjarnið lá yfir hrauninu eins og hrímhvít blúndusæng

Ég sit hérna með Tító minn í kjöltunni við tölvuna og blogga. Úti er allt á kafi í snjó og spáð er miklu frosti í Reykjavík á næstunni. Maður verður þá bara að búa sig vel svo kuldaboli bíti mann ekki alltof fast.

Það er enn einu sinni búið að breyta tímanum á sýningunni minni, af því að fyrir misskilning var tvíbókað í sýningarplássið. Ég fæ þá ekki húsið fyrr en í fyrsta lagi 14. apríl. En það er bara betra. Farið að vora og fleira fólk á ferli í bænum.

Ég get þá slappað betur af við að klára myndirnar mínar svo þær verði frambærilegar. Og gefið Tító og Gosa meiri tíma. Burstað þá og leikið við þá. Þeir voru eiginlega lagstir í andleg áföll vegna þess að ég skipti mér of lítið af þeim. Alltaf að mála og svoleiðis.
Ég var meira að segja farin að halda að Tító ætti ekki langt eftir ólifað. Hann lá alltaf í bælinu sínu og kom varla þó að ég kallaði á hann.  Hann hefur líka horast þó nokkuð.
Svo í dag eftir að ég vissi að ég hefði nógan tíma fram að sýningunni tók ég mér ærlegt tak og dekraði við vini mína í bak og fyrir. Burstaði þá og lék við þá og hélt á þeim í fanginu til þess að leyfa þeim að kíkja út um gluggann á snjókornin sem flögruðu hjá eins og hvítu fiðrildin.

Það var eins og við manninn mælt að  Tító hresstist allur við og hafði mjög gaman af að leika sér að pípuhreinsaranum sem ég dinglaði fyrir framan nefið á honum og allt í kringum hann. Það var eins og hann gengi í endurnýjun æsku sinnar 63 ára gamall kötturinn.

Og ég áttaði mig á því að í fánýtum eltingaleik mínum við glæstar vonir um framabraut,  hafði ég gleymt mínum bestu vinum, sem ekki einu sinni geta séð af mér þegar ég fer á klósettið.  

Ég ætla svo sannarlega að láta mér þetta að kenningu verða framvegis. 


Sem gimsteinar í kórónu landsins

DSC00018 Sem demantar í kórónu landsins small

Við dóttir mín brugðum okkur í bæinn á laugardaginn. Kíktum fyrst inn í flottu hönnunarbúðinni baka til í elsta húsi Reykjavíkur við Aðalstræti. Skórnir sem mig langaði svo í og kostuðu einar litlar 35 þúsund krónur voru seldir. Ekki svo að það skipti neinu mál, ég hefði aldrei haft efni á að kaupa þá hvort sem er Svo hefði ég heldur aldrei tímt að ganga í þeim, heldur sett þá upp á hillu sem stofuskraut.

Þar sem við erum þarna að skoða vörurnar, kemur ein afgreiðslustúlkan sem við höfðum talað mest við til okkar og segir. 'Fyrirgefðu, en ég get ekki annað en dáðst að þessari kápu sem þú ert í, má ég spyrja hvar þú fékkst hana'?  Ég áttaði mig í snarheitum á því að stúlkan átti ekki við mig, því ég var bara í gömlu leðurúlpunni minni. Það var dóttir mín sem var þessa heiðurs aðnjótandi að hljóta aðdáun afgreiðslustúlkunnar, enda kom upp úr dúrnum að hún var í kápu eftir einhvern frægan íslenskan fatahönnuð.
Ég hafði ekki hugmynd um að stelpan væri svona fín í tauinu þennan dag, hélt að hún væri bara í venjulegri mosagrænni 'popplín' stuttkápu. En popplín kápur voru mjög eftirsóttar þegar ég var ung og falleg.

Svo skelltum við okkur í Geysis húsið til þess að skoða sýningaraðstöðuna sem ég fæ á vegum Art-Iceland. Mér leist ekkert á þetta, það var dimmt og drungalegt þarna inni, enda er þetta veitingarstaður. Og það var bara einn ljóskastari sem lýstu upp stærstu myndina en hinar voru allar hjúpaðar hálfrökkri. Stóra upplýsta myndin var líka seld, en ekki sá ég fleiri seldar myndir.

 Ég kallaði í framreiðslustúlkuna og spurði hana um eigandann, en hann var ekki við. Ég sagði við stúlkuna að ég væri að fara að sýna þarna á staðnum í mars og mér litist illa á ljósleysið. 

Stúlkan var hin almennilegasta og lét mig hafa miða með gemsanúmeri eigandans og sagði að ég gæti hringt í hann á mánudaginn.  Ég vona bara til guðs að ég fái leyfi til að settar varði upp fleiri kastarar á myndirnar mínar.
Dimman þarna inni hafði svo þau áhrif á mig að ég er búin að liggja í svartsýniskasti í bælinu í allan dag. En ég kláraði þó að mála eina stóra mynd seint í gærkvöldi af snjóflóði.
Ég er svona að pæla í að setja þá mynd á upplýsta staðinn í sýningarplássinu, ef svo illa fer að ég fæ ekki fleiri kastara. En ég krossa bara fingurna.


Stórmál

Aðalmálið er
að hafa eitthvað
til málanna að leggja

og það er mitt hjartans mál
að ekki verði mikið mál
að leysa vandamál
varðandi málefni
og stefnumál
flokksins

eða máls málanna
sem er bundið mál

því tók ég til máls
um mál málanna
meðal málsmetandi manna

gerður var góður rómur
að máli mínu
enda er ég rómuð fyrir
að vera vel máli farin
og hafa sannfærandi málróm

kvisast hefur út orðrómur um það
að málið sé í höfn
enda er það málið

er það mál manna
að ég hafi alfarið tekið málin
í mínar hendur

og þar með leyst málið

- sem er mjög gott mál


Allt á leiðinni til andskotans!

Allt á leiðinni til ... 049 Allt á leiðinni til andskotans!

Ég er komin með bloggstíflu

 Er  eins og  galtóm tunna, sem ekki bylur hátt í.

Gott að hafa í huga

Ef ekkert regn væri myndi sólin ekki skína
svo skært.

Ef engin nótt væri myndi dagurinn missa
ljóma sinn.

Og til þess er sorgin að við metum gleðina réttilega.


Litla ömmustelpan mín, hún Elísa Marie

Elísa Marie

Mér finnst hún yndisleg. Hún er í 1. bekk og er að læra að lesa og skrifa  og sitthvað fleira. 

Svo er hún í íþróttum og dansi hjá ÍR og finnst voða gaman. 

Hún er með svo fallegt bros og er svo ljúf og góð, en er samt mjög ákveðin ef hún ætlar sér eitthvað. Hún er litla krúttið mitt.


Það er feitt að vera feit

scan0002 Falleg og feit kona

 Þessi mynd af þessari fallegu konu sem barst mér í hendur framan á bæklingi frá líkamsræktarstöð einni, bjargaði mér frá þeirri bölvuðu vitleysu að efna áramótaheitið og fara í megrun.
Myndin af konunni varð mér sem opinberum. Hún var í mínum augum,  eins og listaverk eftir gömlu meistarana og ég hugsaði, ' Þetta er falleg kona með fallegar línur'. Hún er í raun listaverk náttúrunnar í sjálfu sér og svona eiga konur að vera í laginu. 'Ég fer ekkert í neina megrun'.


Hvernig stendur á því að allar konur vilja vera tágrannar og tálgaðar, svo hinar kvenlegu línur njóta sín ekki?  Og hver stjórnar því? Jú, það er tískan, fatahönnuðir úti í útlöndum. sem ráða því hvernig við eigum að vera í laginu.  Þeir eru eins og brúðuleikhússtjórnendur og við 'brúðurnar' dönsum svo sannarlega eins og  þeir kippa í spottana. Margar dansa svo mikið á líkamsræktarstöðum að þær verða í laginu eins og vöðvastæltir karlmenn, eða þá að þær svelta sig til bana til þess að þóknast hinum ströngu tískuherrunum.


Er ekki komin tími til að hætta þessari vitleysu og vera bara ánægðar með okkur þó við séum með einhver hold á beinunum. Það er allt í lagi að hreyfa sig og borða hollan mat, en að gera það af svo miklum krafti að þú gengur of nálægt sjálfri þér og ætlun náttúrunnar er bölvað rugl.
Við konur láta kröfuna um grannan líkama leiða okkur í ógöngur. Við erum sífellt óánægðar með sjálfar okkar af því við náum sjaldan því takmarki að líta út eins og renglulegur stráklingur.
Það er fallegt að vera feit, sjáið bara þessar fallegu feitu konur á myndinni hér fyrir neðan leika sér í baðinu og njóta þess að láta vatnið leika um sína bústnu rassa og bollubrjóst, svo stoltar af þrýstnum líkömum sínum.

Þessi mynd er listaverk eftir Jean Honore Fragonard og hangir í ekki ómerkari listasafni en sjálfu Louvre safninu í París. Jean, fannst þessar konur fagrar , svo fagrar, að hann málaði ódauðlega mynd af þeim.

Mér finnst þær líka fagrar og ég ætla mér að vera bústin og falleg áfram eins og þær.  Vera sjálf eins og lítið listaverk.

 

 

scan 001  Bathers


Kettlinga krútt

Zorro Zorro og söskende

 

Ég er farin að hugsa fyrir arftaka Títós, þó mér finnist í dag að enginn köttur geti komið í staðiinn fyrir hann. En þar sem ekki er hægt að fá balinese ketti eins og Tító er, hér á Íslandi leitaði ég til Kynjakatta.  Í samtökunum er ein kona sem mun koma til að rækta ragdoll ketti árið 2008 eða 2009 og ég bað hana að setja mig á lista hjá sér.

Ragdoll kettir eru síðhærðir, með himinblá augu,  eru með síamslitina þ.e. maska á andliti og sömu liti á eyrum, fótum og skotti, sumir eru með hvíta blesu og allir eru þeir með hvítar tær. 

Ég mun örugglega sjúkratryggja kettlinginn vel vegna bitrar reynslu af miklum fjárútlátum vegna nýrnagalla Títós, sem er til kominn vegna innræktunnar. Og ég ætla að ganga úr skugga um að ekki sé hætta á neinu þvílíku, áður en ég kaupi mér einn svona kettling fyrir heilar 90 þúsund krónur.

En ég mun aldrei skíra væntanlegan kettling Tító. Það er bara einn Tító í hjarta mér. Litli kettlingurinn verður mér trúlega jafn kær með tímanum og Tító er mér í dag,  en ég nefni hann öðru nafni til þess að skyggja ekki á minningu Títós míns, þegar þar að kemur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband