Færsluflokkur: Bloggar
28.3.2008 | 08:56
Dýrabælið
Tító
Ég hef átt dýr alla mína ævi og get ekki án þeirra verið. Dýrin eru sannir vinir og Gosi minn og Tító horfa oft á mig svo ástríku augnaráði , að halda mætti að þeir elskuðu mig út af lífinu. Gæludýrin okkar eru algjörlega upp á mennina komin og treysta okkur því fullkomlega til þess, að sjá vel um sig. Og það er mannvonska og ljótt ,að fara illa með þessa smælingja og vini okkar.
Öll dýr hafa mismunandi persónuleika og þar með hafa þau óneitanlega sál. Þau eru okkur náskyld í anda. eini munurinn er sá að sálir þeirra eru yngri en sálir okkar mannanna. Ég hef lesið það, að gæludýr og reyndar einnig húsdýr taki geysi mikið stökk í sálarþroska þegar þau lifi í svo nánu sambandi við manninn.
Þess vegna fæðast þessi dýr, sem frumstæðir menn í næsta lífi. Síðan þroskast sálir þeirra enn frekar eftir því sem þau lifa fleiri líf
það er ekkert til sem heitir skynlaus skepna, því öll æðri dýr hafa sál og sinn sérstaka persónuleika. Ég hef átt marga ketti og hunda um ævina og allir hafa þeir verið mismunandi karakterar. Það voru alltaf dýr á heimilinu hjá foreldrum mínum. Við áttum alltaf kött eða hund, gullhamstur áttum við einu sinni, 7 litla páfagauka líka og svo björguðum við mörgum villtum dýrum.
T.d. kom pabbi einu sinni heim að hausti með veika kríu. Hún bjó hjá okkur í þægilegum pappakassa undir eldavélinni og við mötuðum hana á ýsustrimlum. Einnig tókum við eitt sinn að okkur olíublauta önd sem var þvegin hátt og lágt og svo látin oní baðkarið hjá eldri bróður mínum sem var í freyðibaði, þeim báðum til mikillar skemmtunar, Bróðir minn lá á bólakafi oní baðkarinu en öndin synti alsæl um í froðunni á yfirborðinu. Mamma bjó svo um öndina fyrir nóttina í lokuðum pappakassa. En öndin braust út í skjóli myrkurs. Og þegar við fórum á fætur á sunnudagsmorgni, daginn eftir freyðibaðið, þa´sat öndin í miðri stórri grautarskál með sveskjugraut í, sem mamma hafði stillt út í eldhúsglugga, til kælingar og ætlaði að hafa í hádegismatinn.
Dúfu sem var eitthvað veik veittum við einnig húsaskskjól eina nótt meðan hún var að jafna sig. á veikndunum. Reyndar var nú eldsti bróðir minn búinn að snúa hana úr hálsliðunum áður til þess að lina þjáningar hennar og fleygði henni svo útí tunnu. En þegar mamma fór næst út með rusl flaug dúfan upp úr ruslatunnunni upprisin. Svo þá urðum við náttúrulega að bjarga henni. Andarunga fundum við einu sinni niður við tjörn, villtan frá móður sinni. Við krakkarnir sinntum honum á daginn og ef við lögðumst uppí sófa með hann vildi hann alltaf kúra í hálsakoti okkar, En á nóttunni svaf hann hinsvegar undir stóra eyrnasneplinum á hvolpinum okkar. og voru þeir báðir alsælir með hvorn annan sem rekkjunaut.
Verum góð við dýrin, þau eiga það skilið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.3.2008 | 09:40
Uppstilling í landslagi Vatnslitir
Ég ætla að vera með nokkrar svona vatnslitamyndir á sýningunni minni með olíuþrykkmyndunum.
Mér finnst þetta þema Uppstilling í landslagi svolítið skemmtilegt og óvenjulegtl
Ég ætla á sýninguna hjá Zordísi á föstudaginn langa og hlakka mikið til.
Gleðilega páska öll sömun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.3.2008 | 23:27
Ég hugsa of mikið
Ég hugsa of mikið
um það
sem ég má ekki hugsa
og hugsa um af hverju
ég hugsa
svo mikið um það
ég hugsa að ég verði
að hugsa um
að hætta að hugsa
-eða- ég hugsa -það.
Guðný Svava Strandberg.
Ég var eitthvað slöpp í morgun, ætlaði bara ekki að geta farið á fætur fyrir þreytu. Þess vegna lá ég áfram í rúminu eins og skata og mókti og hugsaði líka, dálítið mikið, þangað til, (ég skammast mín fyrir að segja frá því), klukkan hálf fjögur um eftirmiðdaginn, þegar systir mín hringdi og boðaði komu sína.
Ég fékk reyndar, tvær heimsóknir, fyrst kom systir mín og síðan kom dóttir mín óvænt í heimsókn, hún hafði verið á skíðum uppi í Bláfjöllum með bróður sínum, miðsyni mínum, en kærastinn hennar var að vinna. Hann vinnur við bókhald og er alltaf að vinna mikla eftirvinnu og oft um helgar.
Systir mín keypti af mér mynd, þessa sem er með færslunni um vorgyðjuna. Ég ætla með hana í innrömmun fyrir hana á mánudaginn því ég fæ afslátt, en ekki hún.
Ég er mjög ánægð með að systir mín hafi keypt þessa mynd og vona að hún finni henni góðan stað í nýja húsinu sínu.
Þegar systir mín var farin fórum við dóttir mín, aðeins út í búð, því ég þurfti að kaupa smávegis inn. Ég var rosa skynsöm í fæðuvali til að byrja með, keypti vínber, tómata, banana, eplasafa og fleira heilsusamlegt, en svo rak ég augun í þær, Kókosbollurnar!, fjórar saman í glæru plastboxi. Og auðvitað keypti ég þær, því ég er sjúk í þetta sælgæti, svo sjúk, að ég borðaði þrjár í kvöldmatinn og drakk smá hvítvín með. Það er ekki furða að maður sé slappur í maganum að láta svona ofan í sig, en þær eru bara svo sjúúúklega góðar!
Síðan var ég að reyna að taka myndir af myndunum mínum og ætlaði að taka þær í dagsbirtu, úti á svölum, svo það kæmi ekki þessi hvíti glampi alltaf, en þá kunni ég ekki að taka flassið af og áður en ég vissi af voru batteríin búin. Þá voru góð ráð dýr, ég varð að fara út í sjoppu og kaupa batterí og hringja svo í miðson minn og fá leiðbeiningar með hvernig ég ætti að taka flassið af vélinni. Þessi sonur minn er mín helsta hjálparhella og leysir yfirleitt alltaf öll mín vandamál, enda tókst honum að kenna mér þetta í gegnum símann.
Svo tók ég Tító og Gosa og burstaði þá hátt og lágt með nýja burstanum sem dóttir mín gaf mér blessunin. Þetta er einhver undrabursti. Þegar ég bursta Tító sem er með löng hár, liggur við að burstinn rýi hann inn að skinni, hárflygsurnar fljúga af í hrönnum og safnast saman í stóran haug fyrir neðan kollinn sem hann situr á meðan ég bursta hann. Og ruslafatan inni á baði verður hálffull þegar ég er búin að troða hárbunkanum ofan í hana.
Samt er alltaf nóg hár eftir á Tító og hann elskar að láta bursta sig svona. Gosi er miklu fastheldnari á feldinn sinn. það fer varla nokkurt hár af honum þegar ég bursta hann með undraburstanum, en Gosi er líka snöggur á feldinn, en Gosi elskar samt líka að láta bursta sig eins og Tító.
Það er svo fyndið að þeir stökkva alltaf báðir upp á kollinn þegar ég fer inn á bað í von um að fá burstun. Og svo reyna þeir að bola hvor öðrum í burtu með því að halla sér harkalega í átt hvor að öðrum, með þeim afleiðingum að annar þeirra dettur ofan af kollinum, oftast Gosi litli. En hann fær samt sinn tíma á eftir frekjudallinum og hefðarkettinum honum Tító, sem vill alltaf vera númer eitt í öllu.
Mér fannst ekkert varið í Spaugstofuna í kvöld og ekki heldur myndina sem kom á eftir. Mér finnst orðið lélegt efni stundum í sjónvarpinu, þess vegna hlakka ég til á mánudaginn þegar ég fæ afruglara frá Símanum og get valið mér myndir.
En ég hlakka samt enn meira til næsta miðvikudag klukkan átta um kvöldið því þá verðum við dóttir mín að koma okkur fyrir í sætum okkar í Íslensku óperunni til að horfa á La traviata.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.3.2008 | 14:16
Hélt ég væri að drepast
Ég er búin að vera lasin undanfarið, síðan ég vaknaði upp einn morgun með svo rosalegan verk fyrir brjóstinu að ég hélt ég væri að drepast. Sem betur fer var síminn á náttborðinu hjá mér og ég hringdi strax í 112.
Svo þegar sjúkratæknarnir komu gat ég ekki hreyft mig til þess að opna útidyrnar . Þeir hringdu þá í mig og sögðust ætla að kalla á lögregluna til þess að brjóta rúðu í útidyrunum svo þeir kæmust inn. En löggan var þá svo klók að hún fór bak við húsið og þá voru bakdyrnar sem betur fer opnar.
Þetta var lán í óláni því enginn var heima í allri blokkinni nema ég. Svo sem betur fer hafði ég svo gleymt að læsa dyrunum að íbúðinni minni.
Herbergið mitt fylltist því fljótlega af rauðklæddum mönnum sem flettu utan af mér blússunni svo ég lá þarna hálfnakin og tóku svo hjartalínurit, gáfu mér morfín og súrefni og hvað eina.
Tító var öskureiður yfir þessum aðförum og ætlaði að verja mig fyrir köllunum með því að liggja utan um hálsinn á mér, en hann var rekinn fram á gang með harðri hendi þar sem hann æddi fram og til baka eins og ljón í búri . Hann minnti víst einna helst á áhyggjufullan tilvonandi föður. En Gosi var svo hræddur að hann faldi sig greyið.
Svo var keyrt með blikkandi ljósum niður á bráðamóttöku. þar var ég rannsökuð í bak og fyrir og gefið meira morfín og súrefni. Mér var farið að líða þrusuvel og vissi orðið hvorki í þennan heim né annan. Ég var þarna í eilífðartíma en ekki gátu læknarnir sagt með vissu hvort þetta væri hjartað mitt sem væri að bila, en sögðust þó ekki geta svarið fyrir það.
Svo var ég bara útskrifuð til þess að spítalinn þyrfti ekki að borga fyrir allt heila klabbið og mér verður sendur reikningurinn. Nú svo er ég búin að fá boð um að mæta í áreynslupróf og magaspeglun. Ég sofna alltaf út frá þessum fjárans verk og vakna við hann á morgnana. Ég vona bara til Guðs að þetta sé eitthvað í mallanum mínum, en ekki elsku hjartað mitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.3.2008 | 00:31
Leiftur liðins tíma
Oft er það svo þegar maður lítur um öxl að maður sér að margt hefði mátt betur fara í lífinu. Vinir hafa komið og farið og svo á við um ástvini líka.
Hann Bjössi refur, sambýlismaður minn til 2ja ára og vinur í raun í 13 ár, er mér ofarlega í huga þessa dagana, nú þegar mér hefur af vissum orsökum liðið mjög illa.
Alltaf stóð hann eins og klettur við hliðina á mér á hverju sem gekk í lífi mínu og sá ætíð til þess að mér liði sem allra best.
Þó við bærum ekki gæfu til að búa lengur saman en í tvö ár, gat ég alltaf leitað til hans ef eitthvað bjátaði á og margt skemmtilegt brölluðum við
saman.
Eins og til dæmis þegar hann gerðist fyrirsæta hjá mér, nýkominn heim úr vinnunni, drullugur upp fyrir haus.
Ég kom mér fyrir liggjandi á gólfinu og sagði honum til. Á nokkrum myndanna vildi ég hafa hann sofandi og hann lék það óaðfinnanlega. Svo greiddi ég hárið á honum út og suður og sprayjaði það með hárlakki og smellti svo af og það urðu vægast sagt skemmtilegar myndir.
Ég ætlaði á sínum tíma að halda sýningu á Mokka á þessum myndum af Bjössa, undir þemanu Hláturinn lengir lífið, en einhvern veginn varð aldrei neitt af því.
Hann er 14 árum eldri en ég hann Bjössi refur, en samt er hann eins ungur í anda og nýsyndur andarungi á fögru vori.
Sífellt var hann í góðu skapi og tók lífinu létt, sagði margan brandarann og hló þá manna hæst að honum sjálfur, oft svo mikið að brandarinn varð algjörlega óskiljanlegur. Hann kom ekki orðunum út úr sér fyrir hlátri, en það var allt í góðu, því þá varð Bjössi refur, bara sjálfur aðalbrandarinn.
Hann kallaði mig alltaf, annað hvort, Elsku hjartasta blómadýrðin mín, eða þá Smyrðin mín. Og ég minnist alltaf hlýjunnar sem fylgdi þessum orðum hans.
Nú er Bjössi fluttur fyrir tveimur árum á elliheimilið í sinni heimabyggð í kauptúni á austurlandi, en við erum alltaf í símasambandi og hann er ennþá að segja brandara sína, núna í gegnum símann og hann hlær oft svo hátt að ég verð að halda tólinu langt frá eyranu meðan mestu rokurnar ganga yfir.
Bjössi trúir á Maríu Guðsmóður og hafði alltaf styttu af henni, sem ég gaf honum á náttborðinu sínu. Hann sagði mér oft að hann væri engill og hefði verið sendur til jarðarinnar til þess eins að gerast verndarengill minn og það væri hans eini tilgangur í þessu lífi og ég trúi honum alveg.
Lítil börn sem sáu Bjössa í fyrsta sinn, kannski nýfarin að ganga, staðnæmdust oft fyrst við hné hans og litu upp á andlit hans. Síðan skriðu þau upp í fang hans og steinsofnuðu svo upp við breiða brjóstið hans.
Daníel sonarsonur minn elskaði Bjössa og klifraði alltaf upp í fang hans og kallaði hann afa og það var ekki laust við að raunverulegi afinn, fyrrverandi maðurinn minn, væri afbrýðisamur eitt sinn þegar hann heyrði Daníel kalla Bjössa afa, í barnaafmæli hjá syni mínum.
Hann Bjössi refur, er og hefur verið, mér vinur í raun síðan við hittumst fyrst og enn get ég hallað mér upp að breiða brjóstinu hans í anda, þar sem hann er svo fjarri og heyrt hjartað hans slá. Hjartað hans sem er úr skíragulli eins og í öllum englum Guðs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.2.2008 | 15:32
Bænalestur, Bolavísur and The Boogie Man.

Ég var boðin í mat til systur minnar í gær. Svo þegar ég kom þar voru barnabörnin mín þrjú stödd þar. Guðjón sonur minn hafði komið óvænt með þau.
Það var voða gaman að hitta börnin. Ég hjálpaði Elísu með heimalærdóminn, hún er alveg orðin læs. En henni finnst reikningurinn ekki eins skemmtilegur.
Daníel litli var með magapest og ekki beint í essinu sínu. en var samt með bók í höndunum eins og venjulega, þó er hann bara fimm ára.
Ég man alltaf þegar hann sat á koppnum 2ja ára gamall með bók í hönd og sagðist vera að lesa. Mamma hans segir að hann verði alveg eins og Siggi frændi hans, bróðir minn, þ.e.a.s. bright! Heyrirðu það Siggi? Hann er einnig svolítið líkur þér þegar þú varst lítill.
Svo þegar börnin fóru að sofa, en þau gistu hjá Helgu frænku þessa nótt, þá átti amma að segja þeim sögur. Þau voru ekki með neinar bækur með sér svo ég spann upp tvær ævintýrasögur á nóninu.
Kannski ég sé efni í rithöfund eftir allt saman? Alla vega voru augu barnanna kringlótt af spenningi þegar þau hlustuðu á sögurnar mínar.
Svo las ég með þeim bænirnar. Við spenntum öll greipar og fórum með Faðirvorið og Láttu nú ljósið þitt, skína við rúmið mitt.
Þessi stund minnti mig á þegar ég var lítil, því mamma las alltaf bænirnar með okkur systkinunum. Ég man að ég skildi aldrei neitt í þessum 'skuldunautum' og hélt þess vegna að þetta væru bara venjuleg naut, eins og Boli, sem ég var ákaflega hrædd við.
Mamma sagði nefnilega stundum, ef ég var óþekk að Boli kæmi og tæki mig. Svo fór hún með vísuna um Bola til þess að leggja áherslu á orð sín. Boli, Boli bankar á dyr, með bandinu sínu langa. Láttu ekki hann Hólsbola, ná í þig Manga.
Boli and The Boogie Man í Bandaríkjunum eru frændur held ég.
Ég sagði börnunum ekkert frá Bola og ekki heldur Grýlu, enda voru þau svo þæg og góð. Svo er það ekki móðins í dag að segja börnum svona tröllasögur.
En ég minnist þess ekki að þessar sögur um Bola og Grýlu hafi gert mér neinn skaða, heldur þvert á móti virkuðu þær vel á óþekktina í mér, meðan ég var enn svo lítil að ég trúði þeim. Börnin voru fljót að sofna, þessi litlu ljós.
Við systir mín spjölluðum saman yfir sjónvarpinu og fengum okkur einn bjór. Svo komu kisurnar niður af efri hæðinni. Þau Ronja fríða, skógarköttur og Tobías bangsi.
Þau höfðu haft hægt um sig inni í einu herberginu, meðan þau heyrðu til barnanna. Kisurnar fengu mat og knús hjá mömmu sinni, svo fóru þær aftur upp, þar sem þær eru mjög ógestrisnar og kærðu sig ekki baun um mig.
það er munur en Tító. Í fyrradag var ég nýbúin að skipta á rúminu og hlakkaði til að fara að sofa í kattarhárslausu rúminu. En svo kom Tító og smeygði loppunni undir sængurhornið eins og vanalega, til þess að komast á sinn fasta stað upp við brjóstið á mér.
En ég ætlaði að njóta þess að vera laus við kattarhárin í nefinu í eina nótt og sagði honum að fara. Ég hef aldrei á ævi minni séð neina persónu svona innilega móðgaða. Tító snarsneri sér við og lagðist út á ystu brún á rúminu.
Ég reyndi að blíðka hann með því að strjúka honum bakið, en þá stóð hann eldsnöggt upp og þvoði blettinn sem ég hafði snert í snarheitum og lagðist svo niður aftur, enn fjær mér.
Ég prófaði að tala hann til og sagði honum, að koma þá. Togaði í hann og klappaði honum til skiptis, en hann sneri bara uppá sig og endaði svo með því að stökkva fram úr rúminu.
Þessa nótt svaf hann svo grútfúll í bælinu sínu frammi í stofu.
En nú erum við orðin sátt, því síðustu nótt, fékk ég hann með miklum eftirgangsmunum til þess að brjóta odd af oflæti sínu og langrækni og koma undir sængina hjá mér eins og vanalega.
Segið þið svo að dýr hafi ekki sál?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2008 | 11:31
Hamfarir á svölunum eina ferðina enn!
Ég hringdi í 112 í gærkvöldi af því ég sá að tvöfaldi glugginn á svölunum var við það að fjúka upp og ég og kettirnir vorum vægast sagt, mjög óróleg. það var með herkjum að ég fengi aðstoð. Löggudóninn sagði með ískaldri, norðangarra röddu, að það væri ekki í verkahring lögreglunnar að gera við bilaða glugga. Helvítis löggan alltaf! Ég varð alveg öskuþreifandi ill og tjáði honum, að ég hefði ekki getað lokað fjárans glugganum almennilega, síðan hann fauk upp í fyrsta sinni. Þá hefði mér verið neitað um hjálp og ég hefði þurft að standa í stórræðum ein og sjálf, kerlingarskarið, við það að þvinga aftur gluggann, með einum kústi og tveim moppum, í grenjandi rigningu og ofsaroki. Og ég hefði fengið lungnabólgu í kjölfarið. Nú væri ég með byrjandi blöðrubólgu og byði ekki í það að þurfa að standa í þessu helvítis veseni enn á ný.
Ég væri bara veik, gargaði ég á lögguandskotann og ég gæti hreinlega drepist ef ég þyrfti að taka mér sturtu aftur í ísköldu og rennandi blautu ofsaveðri.
'Nú ég skal sjá hvað ég get gert, tautaði löggufjandinn hinum megin á línunni og lagði svo á.
Svo leið og beið, en loks birtist einn ungur og rauðgallaður björgunarsveitarmaður. Hann var brosandi og sætur og ekkert nema almennilegheitin. Munur en lögguhelvítið! Björgunarsveitargæinn var ekki lengi að meta ástandið þegar hann sá gluggann svigna til og frá í vindhviðunum. Hann dró upp símann og kallaði í snarheitum á hjálp. Það endaði með því að það þurfti ekki færri en þrjá unga og hörkumyndarlega björgunarsveitarmenn til þess að loka glugganum almennilega og notuðu þeir bæði límband, einn kúst og tvær moppur til verksins. Þeir sögðu mér að glugginn hefði verið það sem kallað er kviklæstur. Það lá við og mig langaði helvíti mikið til þess, að kyssa þá alla í bak og fyrir, fyrir hjálpina, en lét duga að þakka þeim bara kærlega fyrir, í orðum. 'Það var nú lítið mál, til þess erum við', svöruðu þeir glaðlega um leið og þeir fóru út úr dyrunum. Ég skal svo sannarlega styðja björgunarsveitirnar hér eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
8.2.2008 | 00:04
'Nafnið' (Endurbirt prósaljóð)
'en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur.' Hún lá endilöng á gangstéttinni í Bankastræti og skrifaði nafnið sitt á grasið við götukantinn. Hún skrifaði með rauðu bleki svo nafnið væri vel sjáanlegt á grænu grasinu. Hún var ekki í neinum fötum en hafði vafið gamalli sæng utan um sig til þess að hylja nekt sína. Hún var hálfhrædd um að einhver myndi amast við henni, þar sem hún lá á maganum þvert yfir gangveginn, eða saka hana um að fremja skemmdarverk með því að pára svona á grasið. En fólkið virtist ekki taka eftir henni, heldur steig hiklaust ofan á hana á hraðferð sinnni upp eða niður götuna Hana var farið að verkja í bakið af því að vera svona fótum troðin en lét sig hafa það. Hún vissi sem var að hún varð að gera allt fyrir nafnið. Þegar hún hafði lokið við að skrifa hálfa leið frá kvennaklósettinu niður að Lækjargötu tók hún sér smáhvíld og kveikti sér í sígarettu. Hún saug áfergjulega að sér reykinn og leit yfir verk sitt. Við augum hennar blasti kraftaverk og henni varð ljóst að Guð hafði stýrt hendi hennar, því á hverjum þeim stað sem hún hafði skrifað nafnið sitt uxu nú rauðar rósir. Hún drap í sígarettunni og fleygði henni umhugsunarlaust í göturæsið. Svo hélt hún áfram að skrifa. En nú þurfti hún að skrifa mun hraðar en áður því sólin var horfin, dökkir kólgubakkar voru að hrannast upp á himninum og það leit út fyrir rigningu. Hún varð að ljúka verkinu áður en það byrjaði að rigna því líklega myndi gamla sængin sem hún notaði sem yfirhöfn gegnblotna ef það kæmi væta á hana. Að lokum skrifaði hún síðasta stafinn. Verkið var fullkomnað og hún lagði frá sér pennann sigrihrósandi. En þar sem hún sat þarna var hún skyndilega lostin skelfilegri hugsun, sem fyllti hana smátt og smátt nagandi óvissu. Hún hafði ekki hugmynd um hvort rauða blekið sem hún hafði skrifað með væri vatnsekta.
Guðný Svava Strandberg
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.2.2008 | 16:10
Ógnaröfl Please help me? Hvernig á þessi mynd að snúa og hvað sjáið þið út úr henni?
Á hún að snúa svona? Hvað sjáið þið út úr henni þá? Myndin er ekki svona ljós á litinn,
Er þetta mynd af sjóflóði úr fjallaskarði kannski?
Svona? Hvað sjáið þið þá út úr henni?
Er þetta kannski mynd af brimi við ströndina?
Eða svona kannski og af hverju er hún þá?
Er þetta kannski snjóhengja að falla fram af veðurbörðum kletti?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Eldri færslur
- Desember 2014
- Apríl 2013
- Janúar 2013
- Nóvember 2012
- Ágúst 2012
- Október 2011
- Júní 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- September 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Nóvember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Júlí 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Tenglar
http:www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson, texti eftir Kerst
- http://
- Halldór Guðjónsson lagasmiður og Kerst textahöf. Flott lög eftir Halldór Guðjónsson og textar eftir Kerst
- http://
http://www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson og texti eftir Kerst
http://www.diadems.no/
Ragdoll kettir. En ég er búin að ákveða að fá mér svoleiðis kött þegar Tító minn er farinn. Þessi Xantos sem er í x gotinu verður væntanlegur forfaðir nýja kisans mín
- Ragdoll kettir Ég ætla að fá afkomanda Xantosar þegar Tító er farinn frá mér.
Tenglar
- http://
- Halldór Guðjónsson sem gerði lagið við ljóðið mitt ´ Huggun' og fleiri ljóð eftir mig Hann er góður
- Ljóð á Tíu þúsund tregawött Framúrstefnuleg ljóð
- Myndir Katrínar K. vinkonu Flottar ljósmyndir
- Myndir Rebekka Frábær og fræg
- Ljóð.is
- Allra veðra von
Bloggvinir
-
katrinsnaeholm
-
zordis
-
katlaa
-
jonaa
-
halkatla
-
ormurormur
-
martasmarta
-
steina
-
gudnyanna
-
zoti
-
ragjo
-
diesel
-
estersv
-
alit
-
toshiki
-
kaffi
-
svartfugl
-
jenni-1001
-
laufabraud
-
stormsker
-
svanurg
-
guru
-
ingo
-
lindagisla
-
bjorkv
-
prakkarinn
-
agny
-
bergruniris
-
raggibjarna
-
maple123
-
saethorhelgi
-
vglilja
-
johannbj
-
partners
-
vitinn
-
zeriaph
-
gudrunmagnea
-
birtabeib
-
iador
-
gudrunfanney1
-
ibb
-
kolgrimur
-
skjolid
-
bene
-
coke
-
hux
-
nonniblogg
-
heringi
-
hjolaferd
-
amason
-
joiragnars
-
steinibriem
-
rafdrottinn
-
siggith
-
vefritid
-
ljosmyndarinn
-
poppoli
-
perlaoghvolparnir
-
vitale
-
skordalsbrynja
-
lindalea
-
bidda
-
manisvans
-
scorpio
-
haddih
-
gattin
-
korntop
-
brahim
-
klarak
-
laugatun
-
konur
-
panama
-
sigurfang
-
joklamus
-
valdimarjohannesson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.5.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar