Leita í fréttum mbl.is

Ég hugsa of mikið

 

 

DSC000081 Vatnaliljur 3

Ég hugsa of mikið
um það
sem ég má ekki hugsa
og hugsa um af hverju
ég hugsa
svo mikið um það
ég hugsa að ég verði
að hugsa um
að hætta að hugsa

-eða- ég hugsa -það.

 

Guðný Svava Strandberg. 

 

 

Ég var eitthvað slöpp í morgun, ætlaði bara ekki að geta farið á fætur fyrir þreytu. Þess vegna lá ég  áfram í rúminu eins og skata og mókti og hugsaði líka, dálítið mikið, þangað til, (ég skammast mín fyrir að segja frá því), klukkan hálf fjögur um eftirmiðdaginn, þegar systir mín hringdi og boðaði komu sína. 

Ég fékk  reyndar, tvær heimsóknir, fyrst kom systir mín og síðan kom dóttir mín óvænt í heimsókn, hún hafði verið á skíðum uppi í Bláfjöllum með bróður sínum, miðsyni mínum, en kærastinn hennar var að vinna. Hann vinnur við bókhald og er alltaf að vinna mikla eftirvinnu og oft um helgar.

Systir mín keypti af mér mynd, þessa sem er með færslunni um vorgyðjuna. Ég ætla með hana í innrömmun fyrir hana á mánudaginn því ég fæ afslátt, en ekki hún.
Ég er mjög ánægð með að systir mín hafi keypt þessa mynd og vona að hún finni henni góðan stað í nýja húsinu sínu.

Þegar systir mín var farin fórum við dóttir mín, aðeins út í búð,  því ég þurfti að kaupa smávegis inn. Ég var rosa skynsöm í fæðuvali til að byrja með, keypti vínber, tómata, banana, eplasafa og fleira heilsusamlegt, en svo rak ég augun í þær, Kókosbollurnar!, fjórar saman í glæru plastboxi. Og auðvitað keypti ég þær, því ég er sjúk í þetta sælgæti, svo sjúk, að ég borðaði þrjár í kvöldmatinn og drakk smá hvítvín með. Það er ekki furða að maður sé slappur í maganum að láta svona ofan í sig, en þær eru bara svo sjúúúklega góðar!

Síðan var ég að reyna að taka myndir af myndunum mínum og ætlaði að taka þær í dagsbirtu, úti á svölum, svo það kæmi ekki þessi hvíti glampi alltaf, en þá kunni ég ekki að taka flassið af og áður en ég vissi af voru batteríin búin. Þá voru góð ráð dýr, ég varð að fara út í sjoppu og kaupa batterí og hringja svo í miðson minn og fá leiðbeiningar með hvernig ég ætti að taka flassið af vélinni. Þessi sonur minn er mín helsta hjálparhella og leysir yfirleitt alltaf öll mín vandamál, enda tókst honum að kenna mér þetta í gegnum símann.

Svo tók ég Tító og Gosa og burstaði þá hátt og lágt með nýja burstanum sem dóttir mín gaf mér blessunin. Þetta er einhver undrabursti. Þegar ég bursta Tító sem er með löng hár,  liggur við að burstinn rýi hann inn að skinni, hárflygsurnar fljúga af í hrönnum og safnast saman í stóran haug fyrir neðan kollinn sem hann situr á meðan ég bursta hann. Og ruslafatan inni á baði verður hálffull þegar ég er búin að troða hárbunkanum ofan í hana. 

Samt er alltaf nóg hár eftir á Tító og hann elskar að láta bursta sig svona. Gosi er miklu fastheldnari á feldinn sinn. það fer varla nokkurt hár af honum þegar ég bursta hann með undraburstanum, en Gosi er líka snöggur á feldinn, en Gosi elskar samt líka að láta bursta sig eins og Tító. 

Það er svo fyndið að þeir stökkva alltaf báðir upp á kollinn þegar ég fer inn á bað í von um að fá burstun. Og svo reyna þeir að bola hvor öðrum í burtu með því að halla sér harkalega í átt hvor að öðrum, með þeim afleiðingum að annar þeirra dettur ofan af kollinum, oftast Gosi litli. En hann fær samt sinn tíma á eftir frekjudallinum og hefðarkettinum honum Tító, sem vill alltaf vera númer eitt í öllu.

Mér fannst ekkert varið í Spaugstofuna í kvöld og ekki heldur myndina sem kom á eftir. Mér finnst orðið lélegt efni stundum í sjónvarpinu, þess vegna hlakka ég til á mánudaginn þegar ég fæ afruglara frá Símanum og get valið mér myndir.

En ég hlakka samt enn meira til næsta miðvikudag klukkan átta um kvöldið því þá verðum við dóttir mín að koma okkur fyrir í sætum okkar í Íslensku óperunni til að horfa á La traviata. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Sæl og blessuð Svava mín.  "Ég hugsaði"  eftir lesturinn á grein þinni, að þér  líði bærilega núna? Veistu það Svava, þú ert listamaður  eins og sagt er, af Guðs náð. Svo einfalt er það í mínum huga.  Þú segir svo blátt áfram frá því sem gerist bæði í óbundnu og bundnu máli og mér sýnist án allra átaka og yfirlegu.  Þrátt fyrir ýmsa smá hnökra á lífinu skynja ég lífsþróttinn sem með þér býr og pistill þinn í dag féll eitthvað svo vel í mig og um leið breytti sýn minni á lífið, hvorki meira né minna.

Þakka þér innilega og gangi þér vel Svava mín. Kveðja.

Þorkell Sigurjónsson, 16.3.2008 kl. 16:14

2 Smámynd: www.zordis.com

Gott að þér líður betur!!!    3 Kókosbollur þú ert góð!  Hvernig var að skola þeim niður með hvítvíni?????

Ef þú sérð þér fært að kíkja til Þorlákshafnar á föstudaginn langa þá verð ég þar með kaffi og smá þakflísasýningu!

Knús inn í daginn.

www.zordis.com, 16.3.2008 kl. 17:39

3 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Frábært lítið ljóð.

Góða heilsu kelli mín! 

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 16.3.2008 kl. 22:31

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ja hérna, Keli. ég verð nú bara upp með mér yfir að þessi pistill minn hafi hvorki meira né minna en breytt sýn þinni á lífið. Takk kæri frændi.

Zordís, ertu á landinu! Í hvaða húsi í Þorlákshöfn verður sýningin á þakflísunum? Mig langar rosalega að koma ef ég fæ bílferð. Reyni að fá dóttur mína með á sýninguna.

Takk nafna. 

Svava frá Strandbergi , 16.3.2008 kl. 23:45

5 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Góðan dag Guðný mín flott ljóðið þitt ég vona að þú sért að lagast.

Kristín Katla Árnadóttir, 17.3.2008 kl. 10:34

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Yndisleg myndin...auðvitað mætir þú hjá Zordísi daginn langa á föstunni.

 Elska kókosbollur og hvítvín er ljúft á sérstökum stundum.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 17.3.2008 kl. 23:22

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Yndisleg mynd eftir yndislega konu, hafðu það gott um páskana elskukelg.  Njóttí líka La traviata í botn, hef heyrt að uppsetningin sé æði. 

        knús   og   kisurnar líka Child Basket Egg Painting Bunny

Ásdís Sigurðardóttir, 18.3.2008 kl. 15:31

8 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Danke shcön. Knús til ykkar

Svava frá Strandbergi , 19.3.2008 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband