Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Bolluveislan og 'Skín við sólu jökulskalli' þrykk og olía

Ég bauð krökkunum mínum í bollukaffi í dag. Ég var reyndar búin að lofa pönnukökum líka og ég skammast mín fyrir að segja það, að þegar til kom nennti ég ekki að baka þær. Krakkarnir voru hálf spældir, sérstaklega tengdasonurinn,

það lak af honum andlitið,


þegar ég sagði honum, að það yrðu engar pönnukökur eftir allt saman.

Bollurnar og mjólk með, yrðu að duga. Annars held ég að þau hafi öll farið í hálfgerða fýlu því enginn borðaði nema eina bollu.
'Letin í mér alltaf og ómerkilegheitin. lokka þau hingað með loforði um pönnsur og standa svo ekki við loforðið.
Annars er þetta svo sem mér líkt, en æ ég er alltaf svo þreytt eitthvað.'

Svo fékk ég rosamóral og útskýrði fyrir þeim að ég hefði ætlað að vera búin að baka pönnukökurnar löngu áður en þau komu og hita þær svo upp. Það væri alltaf best, en ég hefði gleymt því og nú væri  ómögulegt að standa bullsveitt yfir bakstrinum þegar þau væru komin, enda væri ég nýkomin úr baði.

þau fengju örugglega pönnukökur næst, þegar ég myndi eftir að baka þær fyrirfram, lofaði ég svo upp í ermina á mér.

Ég var svo að prófa myndavélina sem sonur minn ætlar að lána mér því mín myndavél er ómöguleg. allavega kann ég ekkert á hana og hún virkar bara alls ekki. 

Ég tók eina mynd af dóttur minni. Svo þegar ég leit á myndina skildi ég ekkert í því

að risastór bleik blaðra huldi megnið af myndinni. Krakkarnir sprungu úr hlátri þegar ég sagði í

undrunartón.

                                                              'Það er einhver bleik blaðra á myndinni'!!

DSC00005 Erla og bleika blaðran small
 'Hvað getur þetta verið'??


 'þetta er þumalputtinn á þér', sagði sonur minn þurrlega,       vitandi það, að ég er nú eins og ég er. 

'Mikið andskoti er ég vitlaus maður. Hver skyldi trúa því að ég hafi lært ljósmyndun og framköllun á einni önn í Myndlista og handíðaskólanum á sínum tíma. En svona fer þegar aldurinn færist yfir mann. Ójá og já.'

Við sátum þarna og spjölluðum þegar dóttir mín sagði allt í einu. 'Rosalega er fín myndin af fálkanum framan á Fréttablaðinu, þar sem hann er að éta fíl.'

'Éta fíl'!  Hrópaði ég,  'vá maður, hvernig í fjáranum gat hann ráðið niðurlögum heils fíls'? 

'Mamma', sagði dóttir mín rólega og leit á mig  eldsnöggu viðvörunar augnaráði. 'Hann er ekki að éta fíl, heldur fýl.' 

'Já, svoleiðis, það hlaut að vera', sagði ég og mér varð allt í einu svo ofboðslega heitt í framan að ég rauk út á svalir og opnaði  gluggann. 

Restin af bolluveislunni gekk þrautalaust fyrir sig og ég tók fullt af ljósmyndum af ,myndunum mínum. Ég var líka mjög stolt af því að aldrei þessu vant var allt mjög hreint og fínt hjá mér. Enda hafði ég tekið til á örskotsstundu  þ. e. a. s. hent mesta ruslinu inn í skápana og meira að segja sprayjað húsgagnabóni út í loftið til að fá góða lykt.
Svo þegar ég ætlaði að bæta aðeins við anganina og sprayja meira fann ég ekki helvítis brúsann. En skítt með það, þetta hlaut að duga.

Loks kvöddu krakkarnir með virktum og þökkuðu  fyrir mjólkina og meðlætið með kossi.
Ég var ekki lengi að rífa mig úr öllum fötunum þegar þau voru farin og klæða mig í heimagallann.  síðar silkináttbuxur  sem ég held mikið uppá og  bláa blússu sem er öll út í málningarslettum. Mér líður bara einfaldlega best í þessum fötum, þegar ég er svona ein með sjálfi mér og köttunum mínum.

Svo tók ég mjólkina af borðinu og ætlaði að setja hana inn í ísskáp svo hún súrnaði ekki. Það fyrsta sem blasti við augum mínum, þegar ég opnaði ísskápinn, var húsgagnabóns úðabrúsinn sem stóð í efstu hillunni þar sem mjólkin er vön að  vera. 

Set hér inn eina af myndunum mínum.

DSC0001234 Skín við sólu jökulskalli

  Hún heitir 'Skín við sólu jökulskalli'

 

 

 

 


Þrjú andlit Evu (Hugrof) Mixed media

 

 

scan0003 þrjú andlit Evu 1 small

 

Hugrof er röskun sem lýsir sér með því að einstaklingur upplifir mikla truflun á sjálfi sínu, minni eða meðvitund. Það felur í sér orsakir sálrænna erfiðleika, sem tengjast einhverjum hliðum á sjálfi einstaklingsins. Þrjár gerðir eru: 1. Óminni (amnesia). 2. Minnistap (fugue), og 3. Margklofinn persónuleiki (multiple personality disorder).

Þessi mynd mín er gerð með kvikmyndina Þrjú andlit Evu í huga,  sem var sýnd hér á landi fyrir tugum ára við  góða aðsókn og mikið umtal. Kvikmyndin fjallaði um líf konu sem hafði þrjá persónuleika, sem henni gekk illa að samræma hvor öðrum. Þetta var typisk Hollýwood kvikmynd þar sem heilbrigðasti persónuleiki sjúklingsins sigrar að lokum.

En í raun átti persónan í myndinni sér til raunverulega fyrrimynd. Það var kona sem við skulum kalla Önnu. Anna var með 32 persónuleika og saga hennar endaði ekki eins vel og í sögu persónunnar  Evu, í kvikmyndinni.

Oft klofnar persónuleiki manna við það að þeir verða fyrir miklum áföllum í lífinu, oftast nær í bernsku.
Í dag eru til lyf og einnig samtalsmeðferðir fyrir hendi, sem gera þessum sjúklingum kleyft að lifa þokkalega góðu lífi. En fyrr á  öldum nutu þeir vægast sagt  ekki velvildar og voru  oft  álitnir  andsettir. Þar af leiðandi urðu til margar óhugnanlegar sögur um þá sem þjáðust af klofnum persónuleika.
Ein frægasta sagan um tvíklofinn persónuleika er þó tvímælalaust, sagan af  Dr. Jekyll og Mr.Hyde.

Oft hefur geðklofa verið ruglað saman við tvískiptan eða margskiptan persónuleika. En hér er um tvo ólíka sjúkóma að ræða. Þar sem geðklofi einkennist af ranghugmyndum, ofsóknarkennd og á stundum mikilmennskubrjálæði. Sem betur fer geta geðklofa sjúklingar nú til dags flestir lifað góðu lífi með hjálp lyfja og samtalsmeðferða og geta allflestir stundað vinnu svo lengi sem þeir taka lyfin sín.

 

Það er mikilvægt að gæta vel að geðheilsunni með því að hugsa vel um sjálfan sig. Því enginn veit sína ævina fyrr en öll er og geðsjúkdómar gera oft ekki boð á undan sér.

 

Geðorð Geðræktar eru byggð á því sem einkennir farsælt fólk og eru þannig ábendingar til þeirra sem sækjast eftir velgengni og vellíðan í lífinu. Geðorðunum hefur verið dreift víða um land á undanförnum árum á veggspjöldum og póstkortum. Sumarið 2002 skrifaði Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, þáverandi verkefnisstjóri Geðræktar, neðantaldar greinar í Morgunblaðið um einstök geðorð undir merkjum Heilsunnar í brennidepli.

 

             Geðorðin tíu
 

1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara

2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir

4. Lærðu af mistökum þínum 5.

Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina

6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu 7.

Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig

8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína

10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast


Eins og sært dýr svarthvít ljósmynd af vatnslitamynd

Eins og sært dýr small

 

Eins og sært dýr

leitar inn í skóginn

til að deyja

flýr vitund mín

veruleikann

og vefur sjálfa sig örmum

handan þessa heims 

þar sem ennþá

er von.
 


Hjarnið lá yfir hrauninu eins og hrímhvít blúndusæng

Ég sit hérna með Tító minn í kjöltunni við tölvuna og blogga. Úti er allt á kafi í snjó og spáð er miklu frosti í Reykjavík á næstunni. Maður verður þá bara að búa sig vel svo kuldaboli bíti mann ekki alltof fast.

Það er enn einu sinni búið að breyta tímanum á sýningunni minni, af því að fyrir misskilning var tvíbókað í sýningarplássið. Ég fæ þá ekki húsið fyrr en í fyrsta lagi 14. apríl. En það er bara betra. Farið að vora og fleira fólk á ferli í bænum.

Ég get þá slappað betur af við að klára myndirnar mínar svo þær verði frambærilegar. Og gefið Tító og Gosa meiri tíma. Burstað þá og leikið við þá. Þeir voru eiginlega lagstir í andleg áföll vegna þess að ég skipti mér of lítið af þeim. Alltaf að mála og svoleiðis.
Ég var meira að segja farin að halda að Tító ætti ekki langt eftir ólifað. Hann lá alltaf í bælinu sínu og kom varla þó að ég kallaði á hann.  Hann hefur líka horast þó nokkuð.
Svo í dag eftir að ég vissi að ég hefði nógan tíma fram að sýningunni tók ég mér ærlegt tak og dekraði við vini mína í bak og fyrir. Burstaði þá og lék við þá og hélt á þeim í fanginu til þess að leyfa þeim að kíkja út um gluggann á snjókornin sem flögruðu hjá eins og hvítu fiðrildin.

Það var eins og við manninn mælt að  Tító hresstist allur við og hafði mjög gaman af að leika sér að pípuhreinsaranum sem ég dinglaði fyrir framan nefið á honum og allt í kringum hann. Það var eins og hann gengi í endurnýjun æsku sinnar 63 ára gamall kötturinn.

Og ég áttaði mig á því að í fánýtum eltingaleik mínum við glæstar vonir um framabraut,  hafði ég gleymt mínum bestu vinum, sem ekki einu sinni geta séð af mér þegar ég fer á klósettið.  

Ég ætla svo sannarlega að láta mér þetta að kenningu verða framvegis. 


Sem gimsteinar í kórónu landsins

DSC00018 Sem demantar í kórónu landsins small

Við dóttir mín brugðum okkur í bæinn á laugardaginn. Kíktum fyrst inn í flottu hönnunarbúðinni baka til í elsta húsi Reykjavíkur við Aðalstræti. Skórnir sem mig langaði svo í og kostuðu einar litlar 35 þúsund krónur voru seldir. Ekki svo að það skipti neinu mál, ég hefði aldrei haft efni á að kaupa þá hvort sem er Svo hefði ég heldur aldrei tímt að ganga í þeim, heldur sett þá upp á hillu sem stofuskraut.

Þar sem við erum þarna að skoða vörurnar, kemur ein afgreiðslustúlkan sem við höfðum talað mest við til okkar og segir. 'Fyrirgefðu, en ég get ekki annað en dáðst að þessari kápu sem þú ert í, má ég spyrja hvar þú fékkst hana'?  Ég áttaði mig í snarheitum á því að stúlkan átti ekki við mig, því ég var bara í gömlu leðurúlpunni minni. Það var dóttir mín sem var þessa heiðurs aðnjótandi að hljóta aðdáun afgreiðslustúlkunnar, enda kom upp úr dúrnum að hún var í kápu eftir einhvern frægan íslenskan fatahönnuð.
Ég hafði ekki hugmynd um að stelpan væri svona fín í tauinu þennan dag, hélt að hún væri bara í venjulegri mosagrænni 'popplín' stuttkápu. En popplín kápur voru mjög eftirsóttar þegar ég var ung og falleg.

Svo skelltum við okkur í Geysis húsið til þess að skoða sýningaraðstöðuna sem ég fæ á vegum Art-Iceland. Mér leist ekkert á þetta, það var dimmt og drungalegt þarna inni, enda er þetta veitingarstaður. Og það var bara einn ljóskastari sem lýstu upp stærstu myndina en hinar voru allar hjúpaðar hálfrökkri. Stóra upplýsta myndin var líka seld, en ekki sá ég fleiri seldar myndir.

 Ég kallaði í framreiðslustúlkuna og spurði hana um eigandann, en hann var ekki við. Ég sagði við stúlkuna að ég væri að fara að sýna þarna á staðnum í mars og mér litist illa á ljósleysið. 

Stúlkan var hin almennilegasta og lét mig hafa miða með gemsanúmeri eigandans og sagði að ég gæti hringt í hann á mánudaginn.  Ég vona bara til guðs að ég fái leyfi til að settar varði upp fleiri kastarar á myndirnar mínar.
Dimman þarna inni hafði svo þau áhrif á mig að ég er búin að liggja í svartsýniskasti í bælinu í allan dag. En ég kláraði þó að mála eina stóra mynd seint í gærkvöldi af snjóflóði.
Ég er svona að pæla í að setja þá mynd á upplýsta staðinn í sýningarplássinu, ef svo illa fer að ég fæ ekki fleiri kastara. En ég krossa bara fingurna.


Heimþrá (Brot)

scan0004 Stjarna

 

Þegar hrossin höfðu velt sér og kroppað um stund, tók Stjarna sig ein út úr og brokkaði niður að ánni. Hún stóð ekki mikið fyrir, þótt straumhörð væri, köld og hrokasund landanna milli. Brattabrekka tafði hana lítið , og hefur þó margur sporþungur klár tafist við hana. svitnað og runnið.  Heimþráin bar hana fljótt yfir, strokið beggja skauta byr.
Hún stefndi mun sunnar en leiðin liggur í áttina til hrossafjöldans heima og gleðinnar í afréttarfrelsinu , - og fallega folaldið horfna - . Hátt hnegg kvað við, aðeins eitt - og hún rásaði þegjandi vestur eftir,  yfir grjót og ása, mýrarflóa og fen.

 Þorgils gjallandi


Íshellir, 'gangnakofi' jólasveinanna sem þeir hvílast í, á leið sinni til og frá byggð

DSC00026  Horft úr úr íshelli  ,jpg

 

Hér hvílast þeir peyjarnir prúðu

er fjallabyggð sína flúðu

og ferðuðust mannheima til.

Um jólin þeir stunda þá iðju

að stelast í mannannna smiðju

og staldra þar aðeins við. 

 


'Í fjötrum'

PICT0023My pictures Fossinn í fjötrum

 

   Í fjötrum 

 

Í haustgulu kvöldskini

gengu elskendurnir

að fossinum.

 

Komdu, sagð´ann

og stökk út á stein

í miðri ólgandi ánni.

 

Komdu, sagð´ ann aftur,

biðjandi og rétti út höndina.

 

Hann stendur enn

einn á hálum steini.

Svellbólstruð áin.

 

Fossinn í fjötrum

- ísköldum fjötrum.


GALDRATUNGL

PICT00312 Galdratungl

 TUNGLIÐ, TUNGLIÐ, TAKTU MIG

 

Tunglið tunglið taktu mig

og berðu mig upp til skýja.

Hugurinn ber mig hálfa leið

í heimana nýja.

Mun þar vera margt að sjá

mörgu hefurðu sagt mér frá,

þegar þú leiðst um loftin blá

og leist til mín um rifin skjá.

Litla lipurtá. Litla lipurtá.

Komdu litla lipurtá langi þig að heyra.

Hvað mig dreymdi, hvað ég sá

og kannski sithvað fleira.

Ljáðu mér eyra. Ljáðu mér eyra.


Ég er með hríðir, því það er að fæðast þessi mynd eftir langvarandi verki

Jöklar munu hverfa

 

                         'Jöklar munu hverfa' 

En ég á eftir að vinna mjög mikið í henni. þetta er stór mynd sem ég vona að seljist, en það er nú meiningin að reyna að selja eitthvað á komandi sýningu. Það er ennþá of mikið rautt í myndinni og ég á eftir að bæta við gulu og fjólubláu. Svo er himininn heilmikill höfuðverkur, því ég er ekki ennþá viss um hvernig ég á að hafa hann á litinn. En þetta kemur allt saman.
Svo eru víst að koma jól og ætli maður verði þá ekki að taka pásu í þessu málarastússi. Ekki svo að segja að mikið verði um að vera hjá mér á jólunum. Við verðum líklega ein í mat á aðfangadagskvöld, sonur minn og ég. Barnabörnin koma ekki einu sinni í kaffi hvað þá meir. Foreldrar þeirra eru svo stressaðir að mér skilst að þau ætli helst ekki að halda jól. Hún ófrísk að fjórða barninu, það elsta 6 ára og sonur minn búinn að vera í ströngum prófum.

Ég held að dóttir mín og tengdasonur ætli norður yfir jólin, til foreldra hans svo ekki koma þau heldur til mín yfir jólin.

En ég ætla nú að skreppa í kaffi til systur minnar á jóladag og hafa það huggulegt þar. En á gamlaárskvöld verður fjör, þá er mér og minni fjölskyldu og bróður mínum boðið í mat og áramótapartý til systur okkar, eins og venjulega. 

Annars fór ég með Tító til dýralæknisins í dag, eina ferðina enn. Hann er bara fastagestur uppá Dýraspítala. Samt er ekki nema hálfur mánuður síðan hann fékk þriðja sterakúrinn í röð. En undanfarna daga hefur hann verið svo slappur, með ógleði og kastað upp og sofið mikið.
Gosi hefur  auðvitað notfært sér ástand Títós og legið í leyni fyrir honum við svaladyrnar þegar hann ætlar á kattaklósettið og stokkið svo á hann. Skrýtin þessi dýr að níðast á veikum vinum sínum. Það er sagt að náttúran sé svona grimm, enda hefur maður svo sem séð myndir af Tjörninni þar sem margir fuglar ráðast í einu á veikburða önd.
En ég hélt að gæludýr sem er dekrað við af mönnum, ættu að vera búin að losa sig við þetta 'óeðli'  Það var tekinn blóðprufa úr Tító og ég fæ að vita á morgun hvernig ástatt er með veiku nýrun hans. Svo fékk hann líka kröftuga sprautu til að hressa hann aðeins við.
Sprautan virkaði svo vel að síðan hann kom heim hefur hann hvað eftir annað farið uppá Gosa og riðlast á honum eins og honum sé borgað fyrir það. Hann er að hefna harma sinna og sýna að hann sé ennþá húsbóndinn á heimilinu.
Ég má þakka fyrir að vera ekki í læðulíki þegar hann lætur svona  greddulega. En svei mér þá, mér þykir svo vænt um Tító, að ég væri svo sem alveg til í að bregða yfir mig læðuhamnum, ef það gæti vakið gleði hans. Verst að ég lét gelda hann hér um árið. Allavega verða þetta gleðileg jól ef  hann Tító minn fær að lifa þau.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband