Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ljóð

Góða nótt

'Dvel ég í draumahöll
og dagana lofa.
Litlar mýs um löndin öll
liggja nú og sofa'.

     Góða nótt og sofið rótt

               í alla nótt.
 


Í djúpinu

Í dimmbláu djúpinu
dvelur vitund mín

eins og loftbólur
lyftast hugsanir mínar

eins og flugfiskar
fljúga hugsanir mínar

hátt -  upp úr dimmbláu djúpinu.


Faðir vor


Nú! Er hann dáinn?
Sagði ég,
rólega yfirveguð
þegar fregnin barst mér.
Undrandi á rósemd minni
en fann samt
einhvern
torkennilegan titring
fyrir brjóstinu,
eins og þar
væri ofurlítill fugl
að taka síðustu andvörpin
einn í búrinu sínu
í ysta horni stofunnar.
Oftast með breitt yfir það
af því
tíst hans var svo truflandi.
Tár mín féllu,
runnu heit
eitt og eitt
niður vanga mína
og hugur minn spurði
óþægilegrar spurningar-

'Af hverju leyfðirðu honum aldrei
að fljúga um í stofunni hjá þér?


Æskuástin mín heita og söngvakeppnin í kvöld

Ég horfði á söngvakeppnina í kvöld og þegar ljóshærði strákurinn söng, mig minnir að hann hafi verið annar í röðinni þá fékk ég sting í hjartað. Hann minnti mig svo á æskuástina mína sem ég fékk aldrei að njóta, að hluta til vegna eigin heimsku en einnig vegna þess að hann lést þegar hann var aðeins átján ára gamall.
Hann var fimmtán ára og ég sautján þegar við hittumst fyrst á sveitaballi og það  var ást við fyrstu sýn hjá okkur báðum.
Hann var svo fallegur með ljósa hárið sitt og bláu augun en þó var það brosið hans sem prýddi hann mest, því þegar hann brosti þá ljómaði hann upp og tennurnar hans voru eins  og röð af  mjallahvítum  perlum.
En við vorum bæði svo feimin að illa gekk fyrir okkur að ná saman. Við vönguðum samt öðru hvoru á böllum þegar hann þorði að bjóða mér upp en þegar dansinn var á enda var vandræðagangurinn á okkur svo mikill að hvorugt þorði að fylgja hinu, eftir að síðasta dansinum lauk.
En á endanum mannaði hann sig þó upp í að biðja mig að hitta sig eitt föstudagskvöldið niðri á  gamla Hressó.
En ég þetta erkifífl sem ég var hegðaði mér óafsakanlega illa og ég skil ekki enn þann dag í dag af hverju.  Ég sveik hann og mætti ekki niðrá Hressó,  því í einhverju bríaríi vangaði ég annan strák á balli í millitíðinni og ég þorði ekki  fyrir mitt litla líf að fara á stefnumótið við vin minn.
Já ég var svo sannarlega ung og vitlaus.

Enda gat hann ekki fyrirgefið mér í  tvö löng ár. En þó vissum við bæði að við vorum ástfangin af hvort öðru upp fyrir haus. En ég var of huglaus til  biðja hann fyrirgefningar og hélt líka að það myndi ekki þýða neitt fyrir mig. Hann hefndi sín líka rækilega á  mér og  sló sér upp með bestu vinkonum mínum, beint fyrir framan nefið á mér og horfði þá oft storkandi á mig.  Ég reyndi að láta hann halda að mér stæði á sama og borgaði í sömu mynt og daðraði við vini hans. En oft mættust augu okkar úti á dansgólfinu þegar við vorum í fangi einvers annars eða annarrar.

Það var ekki fyrr en ég hitti minn tilvonandi eiginmann að ég jafnaði mig á þessu, að ég hélt.
Við kærastinn héldum okkur mikið út af fyrir okkur og fórum lítið  út í marga mánuði.
En daginn sem við trúlofuðum okkur fórum við á ball um kvöldið.

Meðan kærastinn var að kaupa okkur drykki kom vinurinn minn fyrrverandi. Hann gekk beint strik til mín þar sem ég sat í sófa við barinn og bauð mér upp í dans. Ég var svo hissa að ég var sem  lömuð og þegar ég dansaði við hann fann ég sömu töfrana á ný sem enn neistuðu á milli okkar. Hann hvíslaði í eyra mér.
'Hvar hefurðu verið allan þennan tíma'?
En ég gat með engu móti svarað því ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð lengur, svo lauk þessum alltof stutta dansi og hann fylgdi mér til baka til sætis í sófanum, en stóð sjálfur þar sem ekki var pláss fyrir fleiri.

Kærastinn minn var ekki enn kominn til baka með drykkina okkar og strákurinn sem sat við hliðina á mér í sófanum fór að gera sér dælt við mig og lagði handlegginn utan um mig axlir mér.
Þetta þoldi vinurinn minn ekki, hann rauk upp og hrópaði á strákinn.
´Láttu hana vera, hún er mín!'
Þá stóð ég upp og gekk á brott,  gekk í burtu  með blæðandi hjarta, frá honum sem ég fann að ég elskaði heitt, en ég elskaði líka kærastann minn.

Þetta eina ár sem leið frá þessu kvöldi og þar til vinurinn minn dó, hittumst við oft fyrir tilviljun, ég var þá með kærastanum mínum,  en hann með einhverri annarri stúlku og í hvert skipti áttum við  erfitt með að slíta augun hvort af öðru. Augu okkar leituðu ætíð uppi augu hvors annars eins og seglar og alltaf var jafn sárt að sjá hann með annarri stúlku og  sífellt  nagaði efinn mig svo nístandi sár.

Það stendur mér enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum kvöldið sem mér var sagt að vinurinn minn væri dáinn, það var verslunarmannahelgi og  hann hefði fundist látinn uppi í brekku í Þórsmörk. Hann varð aðeins átján ára gamall, elsku æskuástin mín.

Ég var svo frosin að ég gat ekki grátið en ég man að ég hugsaði, þetta átti að fara svona, hann var ekki ætlaður mér í þessum heimi.

Í dag er ég löngu skilin við manninn minn því hjónabandið var ekki hamingjusamt en þessi leið var mér ætluð og ég þakka Guði fyrir börnin mín þrjú og barnabörnin fjögur. 

Enn ennþá minnist ég æskuástarinnar minnr heitu og ég trúi því að við hittumst aftur hinu megin við gröf og dauða.

                                               Náinn

                                           Brástjörnur blikandi man ég
                                      bros eins og ljómandi perlur
                                      nánd líkt og neistandi elding
                                      nafn er var ómfagur söngur

.

                                                                     Heart Heart

 


Gamalt ljóð á nýjum belg

Stórmál e. Guðnýju Svövu Strandberg 8. júní, 2006 : í Almennt og Íslensk ljóð. 0 komment

Aðalmálið er
að hafa eitthvað
til málanna að leggja

og það er mitt hjartans mál
að ekki verði mikið mál
að leysa vandamál
varðandi málefni
og stefnumál
flokksins

eða máls málanna

sem er bundið mál

því tók ég til máls
um mál málanna
meðal málsmetandi manna


gerður var góður rómur að máli mínu
enda er ég rómuð fyrir
að vera vel máli farin
og hafa sannfærandi málróm

kvisast hefur út orðrómur um það
að málið sé í höfn

enda er það málið

er það mál manna
að ég hafi alfarið tekið málin í mínar hendur

og þar með leyst málið

- sem er mjög gott mál



Guðný Svava Strandberg


Herm þú mér

Í augum sé ég angist
von og þrá
og bak við veruleikans sýndarþil
- ert þú!
Sem ég á enga vegu skil.

Svo spegill, spegill herm þú mér
-  er ég  til?


Orðspor

Orðin sem okku fóru á milli
sporuðu út samband okkar.


Ást ljóð

Ást mín er logandi bál
eins og brennan á þjóðhátíð í Eyjum.

 

Hvað er ást og hvað er losti? hefur kærleikurinn betri kosti?

Hvað ég vildi óska að ég væri ástfangin upp fyrir haus. Væri alveg á herðablöðunum af ást. Blindfull af ást. Væri úti að aka af ást. Sæi ekki sólina fyrir ást. Ást, ást, ást snemma að morgni....
.
Andsk... væl er þetta í mér annars. Er ég ekki búin með minn ástarkvóta? Eða hvað?
Eða er ég kannski bara of vandlát? Eða verð  ég kannski alltaf ástfangin af þeim sem ekki eru á lausu, eða eru með lausa skrúfu? Kannski ég sé sjálf með lausa skrúfu ?
Kannski er líka bara best að búa ein og geta gert allt sem manni sýnist án þess að þurfa að taka tillit til annarra? Hvað þá að þurfa að þrífa eftir aðra.
  Ég verð að viðurkenna að það fer ofboðslega í taugarnar á mér hjá blessuðum karlmönnunum að þeir skilja nánast alltaf klósettsetuna eftir opna. Pissa jafnvel stundum útfyrir.
Mér fannst það  því helví. frumlegt hjá mínum fyrrverandi heittelskaða kærasta þegar hann leysti það vandamál með því að festa ílangan holan járnsívalning í typpisstærð með löngum járnstöngum við reiðhjólsstýri. Setti svo haka á allt heila batteríið sem smellpössuðu til að sitja ofan á klósettbrúninni og stilla apparatið af.
Þetta  pissustýri lagði hann á sig að smíða algjörlega fyrir mig, því sjálfum var honum skítsama þó hann pissaði út fyrir þar sem það var ég sem þreif.
Þetta kalla ég kærleika í sinni tærustu mynd.

Þetta pissustýri virkaði annars ekki nógu vel til lengdar því þegar hann hallaði sér fram á stýrið til að pissa  hvíldi þungi hans sem var allmikiill á alltof veigalitlum punktum eða hinum fyrrnefndu hökum. Svo þetta endaði með því að hann mölbraut klósettið og datt sjálfur á hausinn oní skálina.

 
Þannig fór um þetta kærleiksverk hans til mín og var okkur báðum illa brugðið. Nokkru síðar leystist samband okkar upp í frumeindir sínar og við fórum sitt í hvora áttina.  Hann tók allt sitt hafurtask með sér en gleymdi viljandi pissustýrinu enda var það gjöf hans til mín eins og fyrr segir.
Pissustýrið hangir nú upp á krók í þvottahúsinu tilbúið til þess að gegna sínu hlutverki ef svo ólíklega skyldi vilja til að ég yrði ástfangin á ný og færi út í sambúð aftur.


Óskastund

Í stjörnu
skini
stríðrar nætur
blikar
minning þín
tærblátt
ljós
snertir
blíðlega
vanga minn.
Stjörnur tindra
tifa
og deyja.
Óskastund
-er nú

Ég er...


Ég er
rósin
sem blómgast að hausti
ég er
unglingsins
elliglöp
ölið sem alkinn
ei smakkar
og ástin
sem kann bara rök
ég er
marglytta
í fjörunnar sandi
ég er
fjúkandi bylur
í sól
ég er
saga sem löngu er liðin
ég er
álfur
sem kom út úr hól.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband