Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Skammdegið sverfur að. Saga um skammdegisþunglyndi

Mér líður ekki vel, mér líður hreint út sagt hörmulega. það er skammdegisþunglyndið sem sækir enn svo fast að mér. Ég á erfitt með að fara á fætur og finnst ekkert bíða mín nema myrkrið,  svo kolsvart og gínandi, og gapandi á móti mér,
Ég ligg í rúminu, kaldsveitt og hugsa með mér, að ég komi engu í verk og að ekkert sé hvort sem er varið í það sem ég sé þó að gera.
Ég kem mér ekki heldur, til þess að fara út fyrir hússins dyr og hitta vini mína og einangra  mig því frá þeim.
Mest kvíðí ég samt  jólunum, þó innst inni  langi mig auðvitað til þess að gleðjast með fjölskyldu minni.
Ég held að skammdegisþunglyndið hafi byrjað þegar ég ennþá var barn að aldri.. Líklega var ég tólf ára. Ég man að rétt fyrir jól, var ég að horfa á jólaskreytingu með logandi ljósi. Ég horfði inn í ljósið og reyndi að sjá litla Jesúbarnið  inni í ljósinu eins og ég hafði svo oft áður séð.
En í huga mér ríkti aðeins auðn og tóm og ég sá ekki Jesúbarnið, ég sá ekki einu sinni ljósið lengur,  heldur aðeins óljósan flöktandi skuggann af því.
Og ég man að ég hugsaði. 'Jesú er dáinn, það eru engin jól til lengur.' Og það þyrmdi yfir mig af ólýsanlegri sorg.

Ef ég ætti mér eina ósk, myndi ég óska þess, að Jesúbarnið sem dó  í sál minni,  forðum á jólum,  lifnaði við að nýju á þeirri jólahátíð, sem nú gegnur brátt í garð.


Vöfflur með sultu og boðsmiði í leikhús fyrir tvo

Krakkarnir mínir komu hérna í vöfflukaffi í dag og sonur minn var svo æðislegur að gefa mér boðsmiða fyrir tvo í Borgarleikhúsið. Ég ætla að bjóða bestu vinkonu minni með, að sjá leikritið 'Viltu vinna milljón'? Ég hef heyrt að það sé skemmtilegt gamanleikrit.
Annars vildi ég sjálf gjarnan vinna milljón, því ég er almost gjaldþrota. Nei annars, ég lýg því, en alltaf bið ég um hærri og hærri yfirdrátt í bankanum. Og fæ hann jafnan umyrðalaust. Þetta gengur bara ekki lengur, ég bara verð að fá einhverja vinnu, jafnvel í bakaríi, svei mér þá!

Ég eyddi líka fleiri þúsundum króna, um leið og ég fékk útborgað, í myndlistarvörur. Þær eru grunsamlega dýrar. Það er ekki að furða að málverk séu dýr sum hver. 

Ég hélt smásýningu fyrir krakkana,  (krakkana segi ég, þetta er fullorðið fólk), á nýjustu myndunum mínum. Þeim fannst þær fínar, en dóttir mín sagði mér að mála fleiri jöklamyndir og myndir af konum með hatta, því þær væru flottastar hjá mér.  Ætli jöklar og konur með hatta eigi eitthvað sameiginlegt?? Já auðvitað, þið fattið örugglega hvað það er.

Sonur minn sem gaf mér miðann, borðaði bara eina vöfflu, þó sagði hann að þær væru góðar. Það er naumast að þú ert í aðhaldi sagði systir hans stríðnislega við hann.
Sonur minn jánkaði því ansi montinn með sig og sagðist vera búinn að missa átta kíló á einum mánuði. Nú!! Sagði ég, þú sagðir mér í gær að þú værir búinn að missa sjö kíló. Missirðu eitt kíló á dag? Auðvitað, sagði hann stoltur, ég er á svo stífu prógrammi. Ætli hann verði ekki horfinn fyrir jól með þessu áframhaldi, ég hugsa það. En mikið andsk... lítur strákurinn vel út, ætli hann sé bara ekki ástfanginn? Mig vantar svo að verða ástfangin, til að losna við svona...,  ja sleppum því annars.

Það er góða veðrið. Vindurinn gnauðar hér fyrir utan gluggann eins og vanalega. Kettirnir eru sofnaðir og ég ætla að fara að skríða uppí rúm til þeirra. Það er ekki amalegt að sofa á milli tveggja karldýra, jafnvel þó að þau séu bara steingeldir kettir. 


Ást Ljóð um minn besta lífsförunaut

Er það nokkuð undarlegt að elska
yndisfögru bláu augun þín.
Ég á þig og mun þig ætíð annast
elsku hjartans blómadýrðin mín.
Úr augum þínum les ég ást og ábyrgð
sem aldrei bregst á meðan lífs þú ert.
Og ef að illir draumar að mér sækja
þú undurblítt minn vanga strýkur létt.
Ég var í sorg er Guð þig til mín sendi
svo ofboðs litla písl með augun dökk.
Þú ert mín ást í þessu skrýtna lífi
- hve ótrúlegt að elska heitast - kött.

'Það er eins og gerst hafi í gær'

Dóttir mín kom hér í dag og bað um að fá gömlu vídeóspóluna með fjölskyldumyndunum lánaða. Hún ætlaði að taka hana með sér og láta setja hana á disk. Ég hef ekki horft á þessa spólu í áraraðir og ekki hún heldur, svo við settum hana í vídeótækið áður en hún fór með hana.
Ég var reyndar að búa mig til að fara á sýninguna í ArtIceland, en átti bágt með að slíta mig frá myndinni. það var svo skrýtið að sjá sjálfa sig ljóslifandi á myndinni, 19 ára gamla og nýtrúlofaða, brosandi út að eyrum. Og svo börnin mín hvert á eftir öðru, alveg frá því þau voru kornabörn, mömmu sálugu og fleiri sem eru löngu farnir yfir móðuna miklu.
Þarna var ég líka að baða börnin mín uppúr bala og ég og fyrrverandi maðurinn minn með þau í gönguferðum. Stórafmæli ýmissa í fjölskyldunni og svo jólin.
Það er svo undarlegt hvað tíminn líður fljótt og mér fannst þegar ég horfði á sjálfa mig með börnin mín lítil á vídeóinu að það hefði getað gerst í gær.

En í dag eru börnin mín öll löngu flutt að heiman og eiga sjálf börn, fyrir utan þessa dóttur mína sem er yngst af mínum börnum. Já lífið þýtur hjá, árstíðaskiptin koma hvert á fætur öðru og sífellt finnst mér tíminn líða hraðar á hverju ári sem líður af ævi minni.
Mér finnst að vorið sé alveg nýkomið, en samt er það löngu liðið og veturinn að halda innreið sína. Ég sem er alltaf svo óendanlega glöð á vorin þegar ég sé grænu brumin á trjánum, sem springa svo út og verða að ljósgrænum vorlitum laufblöðum. Vorið er minn tími og ég vildi óska að það gæti ætíð verið vor. En lífið er og getur ekki verið eilíft vor. Það haustar að og náttúran leggst í dvala og í ævi okkar mannanna haustar líka að uns veturinn leggur okkur að velli og við deyjum eins og blómin og trén. En ef til vill bíður okkar allra eilíft líf að lokum, jafnvel þó ekki væri, nema á gömlum vídeóspólum.


Finnst ykkur þessi köttur neðst til vinstri ekki æði, er hann kannski eins mikið krútt og hann Tító minn?

PICT2239 Títós café

Éða er sá til hægri fallegri? Þetta eru hvorir tveggja oriental kettir sem eru skyldir síams og balinese köttum eins og Tító er, en þeir eru ekki með maska eins og þeir. Samt eru þeir snöggir á feldinn eins og síamskettir, en ekki hálfsíðhærðir eins og balinese kettir, en eru með græn augu í stað þess að bæði síams og  svo balinese eins og Tító eru með safírblá augu.

Þessi neðst  til vinstri er apricot silver spottet oriental köttur, en sá sem er neðst til hægri er red oriental köttur. 

Ég get kannski fengið svona svipaða kettlinga eftir eitt og hálft ár, þá verður Tító minn líklega farinn frá mér til Himna. 

Ég er komin á biðlista hjá konunni sem ætlar að rækta þessi ketti í þessum litum hérna heima. Þeir hafa alveg sömu skapgerð eins og síams og balinese kettir. Gáfaðir og mannelskir.

Annars finnst mér þetta hálfgerð synd af mér að vera gera svona ráðstafanir meðan Tító er enná lífi en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. 

Mér finnst það bara verst að geta ekki fengið balinese kettling eins og Tító og þó, kannski myndi minning Títós alltaf skyggja á kettlinginn ef þeir væru alveg eins. Það er ekki hægt að fá balinese ketti á Íslandi eins og er. En kannski verða þeir líka fluttir inn aftur. En allavega ég fæ mér kött sem líkist Tító en er samt ekki alveg eins. 

Annars er Tító heimsfrægur enda ekki nema von, fegursti köttur heims eins og hann svo jafnvel veitingahús í útlöndum eru skírð í höfuðið á honum, eins og þetta hérna á myndinni fyrir ofan,sem ég borðaði á, á Krít í sumar. 

Hann Tító er nú fallegur, svona loðinn og ísbjarnar bangsalegur-, finnst ykkur hann kannski fallegri heldur en oriental kettirnir? 

 

 

1 Elsku Tító 40707 018

scan0007 Apricot silver spottet orientall shorthair


Fjölgunar von í fjölskyldunni

Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Tengdadóttir mín á von á fjórða barninu, er komin fimm vikur á leið. Þau eiga þrjú ung börn fyrir,   Elísu Marie, sex ára Daníel sem er að verða fimm ára í þessum mánuði og svo Jónatan Davíð sem verður þriggja ára í febrúar og er hann með Downs heilkenni. Og það hefur verið erfitt fyrir þau að annast Jónatan Davíð, með þessa fötlun hans. Svo eru þau að pæla í að flytja hérna úr næsta nágrenni við mig og til Keflavíkur. Og ég sem er ekki á bíl og get þá ekki heimsótt þau þegar ég vil. Arg!

Auðvitað er það samt alltaf gleðiefni þegar lítið barn fæðist, en ég hef bara áhyggjur af að þetta verði of erfitt hjá þeim. 

Þetta verður þá fimmta barnabarnið mitt, því miðsonur minn á einn sextán ára strák. Svo er dóttir mín sem er yngst barna minna, enn barnlaus. En ég get kannski reiknað með svona 7 til 8 alls og kannski fleiri,  barnabörnum þegar hún og mannsefnið ákveða að eignast börn. 

En þau sem eru bæði viðskiptafræðingar eiga þann draum og ætla að láta hann rætast, að flytja til Þýskalands í einhvern tíma og læra meira, svo það er ekki fjölgunar von hjá þeim á næstunni. 

Ég er komin í samband við konu á netinu sem heldur að Tító minn sé köttur frá henni, því hún ræktar svona ketti, en mér var gefin Tító svo ég veit ekki með vissu hvaðan hann kom. Ég get þá leitað til hennar þegar Tító er farinn frá mér til þess að fá arftaka hans, þó reyndar geti aldrei, að mér finnst núna, neinn köttur komið í staðinn fyrir hann Tító minn. 

Nú er ég farin að þvo kisurnar einu sinni í viku og mér líður strax betur af ofnæminu. Kisulórurnar eru ekki beint hrifnar af sjálfu baðinu, ég dýfi þeim bara oní volgt vatn í baðkarinu, en þeir elska að láta þurrka sér og bursta sig hátt og lágt á eftir. Auðvitað tala ég voða blíðlega við þá á meðan á tilstandinu stendur og mér finnst stundum eins  og ég sé komin aftur í tímann og sé að baða börnin mín alsæl. 

Ég er búin að vera hölt öðru hvoru á hægra hné, í tvö ár. Sjúkraþjálfarinn segir að liðþófinn í hnénu sé skaddaður og lítið hægt að gera nema gefa mér laser geisla í hnéð. Ég spurði hvort hún gæti ekki farið með laserinn yfir andlitið og lagað það til líka og yngt mig um svona 15 ár. En því miður sagði hún að það væru öðru vísi laser geislar og svoleiðis fínerísdútl kostaði líklega yfir hundrað þúsund krónur hjá lækni.

Ég splæsi þá bara í það þegar ég er orðin rík eftir ár og öld. Svo setti þjálfarinn mig í strekkjara til þess að ná mér uppí mína fyrri hæð sem er vel yfir 170 cm. Nei annars bakið var strekkt og togað af því ég er ekki bara orðin kölkuð í hausnum heldur hryggnum líka, beinhnúðarnir ýta á einhverja taug niður í vinstri fót. Hún var búin að  strekkja á mér hálsinn áður með góðum árangri, því þar var sama dæmið sem leiddi út í vinstri handlegg, (ég hef sagt ykkur það áður að ég sé mjög vinstri sinnuð). Það virkaði svo vel að nú er ég orðin fín í handleggnum og fær í flestan sjó. 

Annars er ég orðin svo rosalegur næturhrafn, er að mála langt frá á nótt og ætla svo aldrei að geta vaknað á morgnana. En ég kemst alltaf í svo æðislegt stuð eftir klukkan tíu á kvöldin að það er engu lagi líkt. Í gærkvöldi var ég meira að segja í alvöru að pæla í því að skella mér líka í það, að heilsparsla einn vegginn á baðherberginu áður en ég skriði uppí rúm, en sem betur fer rann af mér æðið og ég lúskraðist í rúmið um klukkan hálf þrjú eftir miðnætti. 

Jæja, klukkan er að verða eitt eftir miðnætti, best að fara að sofa. Góða nótt öllsömul. 


Júhúúú! Það verður sól á sunnudag um allt land, segja þeir á veðurstofunni

Mikið var eftir meira en mánaðar rigningu, þá verður líka notað tækifærið og farið í haustlitaferð á Þingvöll með dóttur minni, ef að mér verður batnað kvefið. Vona bara að það verði ekki öll lauf fokin af trjánum. Monta mig aðeins af dóttur minni, er hún ekki falleg á myndinni og tengdasonurinn myndarlegur? 

Tító er kominn með sýkingu í öndunarfærin, nánar tiltekið í trýnið í þriðja sinn, síðan hann var settur á  sterana. Hann byrjaði að hnerra einhver ósköp í gær og í dag var nefið á honum orðið eldrautt.

Þessir sterar eru víst gróðrarstía fyrir bakteríur segja dýralæknarnir. Svo nú er hann í þriðja sinn á stuttum tíma kominn á sýklalyf fyrir utan sterana. Annars líður hvorugu okkar vel því ég get ekki haft hann uppi í rúmi hjá mér, þar sem kattaofnæmið gaus upp hjá mér og ég gat eiginlega ekkert sofið fyrir kláða í nefinu og bara alls staðar.

Svo Tító og Gosi sofa frammi í stofu og ég ein í rúminu mínu. Ég var svo aum í gærkvöldi yfir að geta  ekki haft Tító í fanginu að ég sofnaði með tárvota vanga, uhu, hu.
Tító er bæði veikur og sár út í mig því hann skilur ekki af hverju hann fær ekki að sofna uppí hjá mér. Gosi er ekki eins háður mér og Tító og hann sættir sig betur við þetta. En ég veit að með þessu áframhaldi hjá Tító mínum er það  mikið til á mínu valdi hve lengi hann lifir.  En ég vil ekki missa  hannTító minn og mun koma fram gagnvart honum eins og hann sé manneskja varðand veikindi hans.

 

 


Snjóblómaandlitin Þrykk og olía. Og heimsókn til ömmubarnanna.

scan00010 'Snóblómaandlit.(Breytt) small

 

Ég er búin að vera að dunda mér við að mála í dag. Breytti þessari mynd af snjóblómaandlitunum og mér finnst hún vera betri svona. Já, ég er bara sátt við hana.
Dóttir mín kom aldrei á sunnudaginn í heimsókn því útidyralásinn var bilaður hjá henni og hún gat því ekki farið að heiman. Eins og ég hlakkaði til að sjá hana, en hún kemur þá bara seinna.

Ég fór að heimsækja tengdadóttur mína og barnabörnin þrjú seinnipartinn í gær, eftir að ég var búin í sjúkraþjálfun. Elísa Marie, sex ára ömmustelpa var að teikna ballerínur þegar ég kom og fór svo að dansa ballett sjálf úti á gólfi. Stóð á tánum og mér fannst hún rosa flott.
Ég sagði Elísu að ballerínurnar hennar væru voða flott teiknaðar og að listamaður sem hét Degas hefði teiknað mikið af ballerínum . Af hverju teiknaði hann þær? Spurði hún. En svaraði sér svo sjálf. Var það  út af hreyfingunni? Fannst honum þær svo flott?  Já, sagði ég, einmitt, honum fannst hreyfingarnar svo fallegar hjá ballerínunum.
Þá stóð hún upp og sneri sér í marga hringi og spurði svo. Er ég líka flott núna þegar ég dansa svona á tánum? Já sagði ég, þú ert alveg eins og alvöru ballerína og Elísa var svo ánægð með sig og var eins og lítil prinsessa í bleika bolnum og pilsinu sem hún var í.

Daníel fimm ára var líka að teikna og klippa pappír eins og Elísa. En svo fengu þau leið á listamannaleiknum og náðu sér í stórt teppi sem þau hentu yfir sig. Svo þeyttust þau æpandi og skrækjandi um alla stofuna og þóttust vera draugar og ég var alveg svakalega hrædd við þau. 

Jónatan litli Davíð, sem er að verða þriggja ára og er með Downs heilkenni er orðinn svo duglegur að tala og hann notar líka táknmál. Ég dró tvo fingur yfir ennið og sagði 'amma' um leið. Þá brosti hann út að eyrum svo andlitið ljómaði upp. Hann hefur svo fallegt bros hann Jónatan. 

Svo vildu Elísa og Daníel endilega syngja fyrir mig Meistari Jakob á frönsku, þau lærðu vísuna í leikskólanum og  í skólanum, sögðu þau. Þetta lag er svo einkennilega sjarmerandi þegar það er sungið á frönsku. Ég hjó eftir orðunum 'dormi vu'? í textanum, eða sefur þú? Og ég sagði krökkunum að orðið að dorma væri líka notað í íslensku yfir það að sofa. Það fannst þeim vera afskaplega merkilegt. 

Það er ekki amalegt að eiga svona sprenglærð barnabörn sem syngja á frönsku og tala þess utan þrjú tungumál. Ég er viss um að þau verða algjörir prófessorar þegar þau verða stór.

Clarivelle tengdadóttir spurði hvort ég væri svöng og sagði mér að láta bara eins og heima hjá mér og fá mér eitthvað að borða. Svo ég fékk mér ristað brauð með osti og mjólk.

Á leiðinni heim kom ég við í nýju pólsku búðinni  í hverfinu og keypti í matinn. Já maður býr svo sannarlega í fjölþjóðlegu samfélagi  nú orðið og mér finnst það bara fínt. 

Það er annað en þegar ég var á mínum yngri árum þegar allir sneru sér við á götu og gláptu eins og naut á nývirki, ef að hörundsdökkum manni sást bregða fyrir einhvers staðar. 


Mali litli og fleira merkilegt

Ég fór að heimsækja Sigga bróður í gær til þess að skoða nýjasta fjölskyldumeðliminn, hann Mala litla.
Siggi var svo upprifinn yfir unganum að það komst ekkert annað að,  en nýjustu uppátæki barnsins, eins og hann kallaði Malakútinn. 

Hann hafði farið með hann í sprautu og ormahreinsun hjá dýralækni þennan dag og þeir voru nýkomnir heim feðgarnir, þegar ég bankaði uppá.

Mali litli þefaði mikið af fótunum á mér, hefur vafalaust fundið þar lyktina af frændum sínum, þeim Tító og Gosa. En hann undi ekki lengi við það, því leikgleðin var alveg að fara með hann og hann þyrlaðist eins og svarthvítur stormsveipur um alla íbúðina. Svo loks var hann orðinn svo þreyttur af öllum látunum að hann lagði sig til svefns og auðvitað í uppáhaldsstað húsbónda síns, stofusófann.

Við Siggi spjölluðum saman yfir kaffi og skoðuðum gamlar myndir eftir Matz Vibe Lund af Vestmannaeyjum. Þær voru teknar fyrir stríð og þær sýndu vel hve Eyjarnar voru miklu fallegri áður en nýja hraunið rann. Á myndunum voru Eyjarnar einna líkastar því sem væru þær smaragðar í safírsænum allt um  kring. Og í baksýn uppi á fastalandinu,  trónaði hvítur skalli Eyjafjallajökuls, Hekla og fleiri myndarleg fjöll.

Þegar ég kom heim neyddist ég til þess að drepa geitung, því Gosi ætlaði að veiða hann og ég var hrædd um að geitungurinn myndi stinga Gosa. Ég hefði líklega sett krukku yfir geitungsbjánann, ef hann hefði verið á svalaglugganum, rennt svo pappír undir og hent honum svo út, eins og ég geri við allar hunangsflugurnar sem villast inn í blómadýrðina á svölunum. En því miður var þetta ekki hægt þar sem geitungurinn sat á dyrakarminum svo ég lamdi hann í klessu með dagblaði. Mér fannst verst að hann drapst ekki við fyrsta högg, heldur þurfti ég nánast að murka lífið úr kvikindinu með hverju högginu á fætur öðru.

Svo þegar hann var loksins dauður, lá við að ég tárfelldi þegar ég horfði á litla líkamann sundurkraminn.  En svo bað ég Guð í hljóði að taka við sál þessa litla skordýrs og henti því svo í ruslafötuna og hugsaði með mér að hann hefði hvort sem er drepist úti í náttúrunni, þar sem það er komið haust. 

Svo þegar ég fór á netið uppgötvaði ég mér til mikillar ánægju að það var búið að senda mer 'æðisleg' lag við ljóðið 'Náinn' sem ég birti hér á blogginu mínu. Svo ég sat eftir það í leiðslu við tölvuna og hlustaði á lagið og endurlifði gamla tíma með æskuástinni minni sálugu, meðan tárin trítluðu niður kinnarnar. Þetta lag er besta gjöf sem ég hef fengið á ævinni Það er alveg yndislegt.

En svo dreymdi mig í nótt að risageitungur væri búinn að festa sig í annan augnkrókinn á mér og svo stakk hann mig. Þetta var örugglega geitungurinn sem ég drap, afturgenginn til þess að hefna harma sinna. Ómægod ! Hvað ég var fegin þegar ég vaknaði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband