Leita í fréttum mbl.is

Vöfflur með sultu og boðsmiði í leikhús fyrir tvo

Krakkarnir mínir komu hérna í vöfflukaffi í dag og sonur minn var svo æðislegur að gefa mér boðsmiða fyrir tvo í Borgarleikhúsið. Ég ætla að bjóða bestu vinkonu minni með, að sjá leikritið 'Viltu vinna milljón'? Ég hef heyrt að það sé skemmtilegt gamanleikrit.
Annars vildi ég sjálf gjarnan vinna milljón, því ég er almost gjaldþrota. Nei annars, ég lýg því, en alltaf bið ég um hærri og hærri yfirdrátt í bankanum. Og fæ hann jafnan umyrðalaust. Þetta gengur bara ekki lengur, ég bara verð að fá einhverja vinnu, jafnvel í bakaríi, svei mér þá!

Ég eyddi líka fleiri þúsundum króna, um leið og ég fékk útborgað, í myndlistarvörur. Þær eru grunsamlega dýrar. Það er ekki að furða að málverk séu dýr sum hver. 

Ég hélt smásýningu fyrir krakkana,  (krakkana segi ég, þetta er fullorðið fólk), á nýjustu myndunum mínum. Þeim fannst þær fínar, en dóttir mín sagði mér að mála fleiri jöklamyndir og myndir af konum með hatta, því þær væru flottastar hjá mér.  Ætli jöklar og konur með hatta eigi eitthvað sameiginlegt?? Já auðvitað, þið fattið örugglega hvað það er.

Sonur minn sem gaf mér miðann, borðaði bara eina vöfflu, þó sagði hann að þær væru góðar. Það er naumast að þú ert í aðhaldi sagði systir hans stríðnislega við hann.
Sonur minn jánkaði því ansi montinn með sig og sagðist vera búinn að missa átta kíló á einum mánuði. Nú!! Sagði ég, þú sagðir mér í gær að þú værir búinn að missa sjö kíló. Missirðu eitt kíló á dag? Auðvitað, sagði hann stoltur, ég er á svo stífu prógrammi. Ætli hann verði ekki horfinn fyrir jól með þessu áframhaldi, ég hugsa það. En mikið andsk... lítur strákurinn vel út, ætli hann sé bara ekki ástfanginn? Mig vantar svo að verða ástfangin, til að losna við svona...,  ja sleppum því annars.

Það er góða veðrið. Vindurinn gnauðar hér fyrir utan gluggann eins og vanalega. Kettirnir eru sofnaðir og ég ætla að fara að skríða uppí rúm til þeirra. Það er ekki amalegt að sofa á milli tveggja karldýra, jafnvel þó að þau séu bara steingeldir kettir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góða skemmtun í leikhúsinu, mig langar að fara að kíkja í leikhús. Kannski maður láti verða af því fyrir jól.

Ásdís Sigurðardóttir, 5.11.2007 kl. 21:26

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Jú Arna mín, maður verður bara að trúa því besta. Gangi þér vel, þú færð örugglega vinnu, þú ert svo ung kona. Munur en ég margföld amman.

En sem betur fer hef ég svo sem nóg að gera heima við myndlistina. Guði sé lof fyrir það. Já þetta var virkilega fallega gert af honum syni mínum að gefa mér þennan tvöfalda miða í leikhúsið. Ég hlakka mikið til að fara og punta mig upp og skemmta mér við að horfa á gamanleik. það er svo gott að hlæja, helst þangað til manni verður illt í maganum og grætur af hlátri.

Takk Ásdís mín, ég skemmti mér örugglega vel.

Svava frá Strandbergi , 6.11.2007 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband