Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Ég er gróin föst við tölvuna

Jæja, loksins þegar ég gat dröslað mér á lappir vegna verkkvíða útaf myndskreytingunum settist ég við tölvuna og hef varla staðið upp síðan.


Katrín, zoa, og zordís, ég er búin að senda umsókn um samsýningu í Ráðhúsininu fyrir okkur!


Ég sendi bara myndir með sem ég fann á heimasíðununum ykkar og minni og sagði að ef með þyrfti bærust fleiri síðar.

Vinkona mín sem er myndlistarmaður vill endilega vera með og ætlar að gerast bloggari bara þess vegna. Svo þá erum við orðnar fimm.

Þetta sendingardrasl er búið að taka allan daginn. Ég vona bara að það hafi skilað sér því ég var lika að senda myndskreytingarnar og þrjár myndir hafa ekki enn skilað sér til viðtakanda.

 En ég hringi í Ráðhúsið á morgun til að athuga hvort að umsóknin hefur skilað sér.

Well, nú verðum við bara að sjá til og verðum í sambandi áfram. 


Það er komið sumar!

Við dóttir mín fórum í bæinn í dag. Veðrið var svo gott að við gátum setið úti í sólinni fyrir utan Cafe París. Það er svo sannarlega komið sumar í dag,  enda sumardagurinn fyrsti. Vð tókum eftir því að trén á Austurvelli eru komin með pínulítil ljósgræn blöð.
Ég vissi það enda mætti ég vorinu hérna um daginn á förnum vegi með sína ljósgrænu húfu.
Við fengum okkur súkkulaði og vöfflur með rjóma og stúderuðum mannlífið enda svo margt um manninn á Cafe París að við þurftum að bíða næstum klukkutíma eftir reikningnum.
Við horfðum líka á Vally á Lækjartorgi þar sem hann lék listir sínar með kúnstugum tilþrifum við fögnuð viðstaddra og í Austurstræti sat gamall maður og spilaði á gítar og söng Bítlalög angurværri röddu. Það var semsagt bullandi líf í bænum  í dag, fyrir utan dánu húsin sem brunnu í gær, en vonandi verða þau endurbyggð en ekki byggðir einhverjir forljótir glerkassar á þessu stórmerkilega götuhorni. Einmitt þarna á horninu gerðust mörg æfnitýri hér áður fyrr þegar rúnturinn var og hét í þá gömlu góðu daga.
Þegar ég kom heim labbaði ég aðeins út í garð og þar er sumarið aldeilis komið á fullt. Laukarnir sem ég hafði svo mikið fyrir að gróðursetja í fyrrahaust eru farnir að gægjast uppúr moldinni hver af öðrum. Svo ég hlakka til að sjá þegar  túlípanar, hvítasunnuliljur, páskaliljur og krókusar fara að blómsta.  Þá get ég sagt um garðinn minn, ´ þar gala gaukar og spretta laukar'

Gleðilegt sumar öll sömul og takk fyrir veturinn. 


Faðir vor


Nú! Er hann dáinn?
Sagði ég,
rólega yfirveguð
þegar fregnin barst mér.
Undrandi á rósemd minni
en fann samt
einhvern
torkennilegan titring
fyrir brjóstinu,
eins og þar
væri ofurlítill fugl
að taka síðustu andvörpin
einn í búrinu sínu
í ysta horni stofunnar.
Oftast með breitt yfir það
af því
tíst hans var svo truflandi.
Tár mín féllu,
runnu heit
eitt og eitt
niður vanga mína
og hugur minn spurði
óþægilegrar spurningar-

'Af hverju leyfðirðu honum aldrei
að fljúga um í stofunni hjá þér?


Æskuástin mín heita og söngvakeppnin í kvöld

Ég horfði á söngvakeppnina í kvöld og þegar ljóshærði strákurinn söng, mig minnir að hann hafi verið annar í röðinni þá fékk ég sting í hjartað. Hann minnti mig svo á æskuástina mína sem ég fékk aldrei að njóta, að hluta til vegna eigin heimsku en einnig vegna þess að hann lést þegar hann var aðeins átján ára gamall.
Hann var fimmtán ára og ég sautján þegar við hittumst fyrst á sveitaballi og það  var ást við fyrstu sýn hjá okkur báðum.
Hann var svo fallegur með ljósa hárið sitt og bláu augun en þó var það brosið hans sem prýddi hann mest, því þegar hann brosti þá ljómaði hann upp og tennurnar hans voru eins  og röð af  mjallahvítum  perlum.
En við vorum bæði svo feimin að illa gekk fyrir okkur að ná saman. Við vönguðum samt öðru hvoru á böllum þegar hann þorði að bjóða mér upp en þegar dansinn var á enda var vandræðagangurinn á okkur svo mikill að hvorugt þorði að fylgja hinu, eftir að síðasta dansinum lauk.
En á endanum mannaði hann sig þó upp í að biðja mig að hitta sig eitt föstudagskvöldið niðri á  gamla Hressó.
En ég þetta erkifífl sem ég var hegðaði mér óafsakanlega illa og ég skil ekki enn þann dag í dag af hverju.  Ég sveik hann og mætti ekki niðrá Hressó,  því í einhverju bríaríi vangaði ég annan strák á balli í millitíðinni og ég þorði ekki  fyrir mitt litla líf að fara á stefnumótið við vin minn.
Já ég var svo sannarlega ung og vitlaus.

Enda gat hann ekki fyrirgefið mér í  tvö löng ár. En þó vissum við bæði að við vorum ástfangin af hvort öðru upp fyrir haus. En ég var of huglaus til  biðja hann fyrirgefningar og hélt líka að það myndi ekki þýða neitt fyrir mig. Hann hefndi sín líka rækilega á  mér og  sló sér upp með bestu vinkonum mínum, beint fyrir framan nefið á mér og horfði þá oft storkandi á mig.  Ég reyndi að láta hann halda að mér stæði á sama og borgaði í sömu mynt og daðraði við vini hans. En oft mættust augu okkar úti á dansgólfinu þegar við vorum í fangi einvers annars eða annarrar.

Það var ekki fyrr en ég hitti minn tilvonandi eiginmann að ég jafnaði mig á þessu, að ég hélt.
Við kærastinn héldum okkur mikið út af fyrir okkur og fórum lítið  út í marga mánuði.
En daginn sem við trúlofuðum okkur fórum við á ball um kvöldið.

Meðan kærastinn var að kaupa okkur drykki kom vinurinn minn fyrrverandi. Hann gekk beint strik til mín þar sem ég sat í sófa við barinn og bauð mér upp í dans. Ég var svo hissa að ég var sem  lömuð og þegar ég dansaði við hann fann ég sömu töfrana á ný sem enn neistuðu á milli okkar. Hann hvíslaði í eyra mér.
'Hvar hefurðu verið allan þennan tíma'?
En ég gat með engu móti svarað því ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð lengur, svo lauk þessum alltof stutta dansi og hann fylgdi mér til baka til sætis í sófanum, en stóð sjálfur þar sem ekki var pláss fyrir fleiri.

Kærastinn minn var ekki enn kominn til baka með drykkina okkar og strákurinn sem sat við hliðina á mér í sófanum fór að gera sér dælt við mig og lagði handlegginn utan um mig axlir mér.
Þetta þoldi vinurinn minn ekki, hann rauk upp og hrópaði á strákinn.
´Láttu hana vera, hún er mín!'
Þá stóð ég upp og gekk á brott,  gekk í burtu  með blæðandi hjarta, frá honum sem ég fann að ég elskaði heitt, en ég elskaði líka kærastann minn.

Þetta eina ár sem leið frá þessu kvöldi og þar til vinurinn minn dó, hittumst við oft fyrir tilviljun, ég var þá með kærastanum mínum,  en hann með einhverri annarri stúlku og í hvert skipti áttum við  erfitt með að slíta augun hvort af öðru. Augu okkar leituðu ætíð uppi augu hvors annars eins og seglar og alltaf var jafn sárt að sjá hann með annarri stúlku og  sífellt  nagaði efinn mig svo nístandi sár.

Það stendur mér enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum kvöldið sem mér var sagt að vinurinn minn væri dáinn, það var verslunarmannahelgi og  hann hefði fundist látinn uppi í brekku í Þórsmörk. Hann varð aðeins átján ára gamall, elsku æskuástin mín.

Ég var svo frosin að ég gat ekki grátið en ég man að ég hugsaði, þetta átti að fara svona, hann var ekki ætlaður mér í þessum heimi.

Í dag er ég löngu skilin við manninn minn því hjónabandið var ekki hamingjusamt en þessi leið var mér ætluð og ég þakka Guði fyrir börnin mín þrjú og barnabörnin fjögur. 

Enn ennþá minnist ég æskuástarinnar minnr heitu og ég trúi því að við hittumst aftur hinu megin við gröf og dauða.

                                               Náinn

                                           Brástjörnur blikandi man ég
                                      bros eins og ljómandi perlur
                                      nánd líkt og neistandi elding
                                      nafn er var ómfagur söngur

.

                                                                     Heart Heart

 


Eldurinn

Á miðjum veggnum yfir sófanum í stofunni hékk fallegt gat í gylltum ramma og inni í gatinu , gat að líta tóma dós undan grænum baunum frá Ora.
Börnunum á heimilinu fannst þessi baunadós einstaklega áhugarverð og langaði til þess að kanna hana nánar, e n það var alls ekki auðsótt mál, því foreldrar þeirra harðbönnuðu þeim að koma nálægt gatinu með baunadósinni, þar sem það væri þeirra hjartfólgnasta listaverk.
En þegar móðir barnanna var önnum kafin í eldhúsinu notuðu þau tækifærið. Hvert á fætur öðru tóku þau tilhlaup á stofugólfinu og stukku upp í gatið á veggnum. Síðan renndu þau sér ofan í baunadósina.
Þar niðri á botninum tóku við iðjagrænir vellir svo langt sem augað eygði, en út við sjóndeildarhringinn mátti sjá skógivaxnar hæðir þar sem vingjarnlegir indíánar bjuggu í rjóðri einu langt inni í skógarþykkninu.
Indíánarnir voru mjög gestrisinn þjóð og buðu börnin alltaf hjartanlega velkomin að eldstæði sínu og slógu ævinlega upp veglegri matarveislu þegar þau komu í heimsókn.
þegar máltíðinni lauk hófu indíánarnir jafnan æstan stríðsdans kringum eldinn vopnum búnir og fagurlega málaðir á berum gljáandi líkömum sínum. Þeir buðu börnunum ætíð í dansinn með sér og var hverju og einu þeirra fengið spjót í hendur, til þess að þau gætu tekið þátt í dansinum kringum logandi bálið.
Þau dönsuðu alsnakin eins og indíánarnir, sveifluðu spjótunum og sungu með þeim undarlegan seiðandi söng um löngu horfna tíma þegar allir menn áttu sér aðsetur við elda sem veittu þeim skjól fyrir nístandi kuldanum um nætur.
Eldurinn bægði einnig rándýrunum frá og við hann voru sagðar sögur af hatrömmum bardögum og frækilegum veiðiferðum og við eldinn var villibráðin matreidd og borinn fram.
En þegar dansinum lauk og indíánarir og börnin sátu þægilega þreytt við deyjandi eldinn og hvíldu spjótin á nöktum lærum sér brást það ekki að rödd úr öðrum heimi rauf þessa friðsælu stund. 'Krakkar hvað á það eiginlega að þýða að sitja þarna allsber á gólfinu?' 'Og enn og aftur eruð þið búin að stela kústsköftunum og stönginni af teppahreinsarnum' 'Skammist þið ykkar og klæðið ykkur og komið að borða eins og skot!'

Páskadagur

Þá er páskadagur liðinn með öllum sínum heilagleika og súkkulaðiáti.
Ég stútaði sjálf einu stóru páskaeggi í dag. það lá við að ég æti hitt páskaeggið sem ég hafði keypt líka,  en sat á mér.
Það páskaegg ætlaði ég af göfuglyndi mínu þremur litlum ömmubörnum sem ég átti von á í dag með mömmu sinni og pabba.
Krakkagreyin rifust um eggið sitt  þegar þau komu, enda ekki nema von að fá þrjú bara eitt egg til að skipta á milli sín þegar amma þeirra fékk eitt jafnstórt egg bara handa sjálfri sér.
En mamma þeirra vildi að þau fengju eitt egg saman enda var þetta svo sem mikið meira en nóg handa þessum píslum.
Það hefði kannski mátt segja það með góðum rökum að svona stórt páskaegg væri líka mikið meira en nóg handa mér en þegar maður er súkkulaðifíkill hlustar maður ekki á svoleiðis endemis bull.
Ég hegðaði mér allavega mikið  betur í ár en í fyrra, þá tókst mér að innbyrða af óviðjafnanlegri græðgi minni fimm,  segi og skrifa fimm stórum páskaeggjum sem ég ætlaði börnunum en sem enduðu öll einhvern veginn uppi í mér.
Loks þegar ég keypti sjötta páskaeggið stóðst ég freistinguna og blessuð börnin fengu það sem þeim bar.
Þetta var hin ágætasta stund hjá okkur í dag og systkini mín og systurdóttir heiðruðu mig með því að koma lika í heimsókn og fyrir utan páskaeggin voru étnar pönnukökur með rjóma og vínarterta meðan klassíkin hljómaði á geilaspilaranum.
Í kvöld glápti ég á imbakassann með rauðvínsglas í hönd með Tító og Gosa mér við hlið áður en ég tók mig til og bloggaði fyrir nóttina.
Góða nótt öllsömul.

Blómabrjálæðið verður mér að bana

Ég keypt mér æðislega fallega alparós um daginn með tvílitum blómum. Hún er bæði með rauðbleik blóm og hvítbleik blóm með rauðum jöðrum. Ég setti hana inn í tölvuherbergi til þess að hafa blessaða blómadýrðina nálægt mér þegar ég væri í tölvunni, en þar eyði ég drjúgum tíma.
Ég passaði svo að vökva rósina mína reglulega því hún má aldrei þorna og svo passaði ég hana að sjálfsögðu líka fyrir Tító og Gosa sem finnast öll blóm mjög girnileg til átu.
Æðið gekk svo langt að þegar ég las það í blómabókinni minni að alparós þrífist best við lágan hita skrúfaði ég fyrir ofninn í tölvuherberginu.
Svo leið og beið og alltaf sat ég í þessum skítakulda við tölvuna svo yndislega alparósin mín mætti lifa  sem lengst.
Eftir viku fannst mér undarlegt hvað ég var orðin slöpp eitthvað, það bogaði sífellt af mér svitinn við minnstu hreyfingu. Ég hafði ekki við að þerra á mér ennið sem alltaf var rennandi blautt og stundum varð ég jafnvel að rífa mig úr öllu að ofan, þegar mér fyrirvaralaust varð alveg óbærilega heitt.
En það hafði lítið að segja því ég var ekki fyrr orðin allsber að ofan en ég var komin með kuldahroll niður eftir öllu bakinu. 
Ég skildi ekkert í þessu heilsufari og var ekki á það bætandi því bakverkurinn hafði tekið sig upp að nýju og leiddi sársaukinn niður í vinstri fót einsog áður.
Ég fór því á læknavaktina og dóttir mín blessuð keyrði mig því ég þori ekki fyrir mitt litla líf að keyra bíl í Reykjavík, því  það  litla sem ég lærði, lærði ég úti á landi.
Læknirinn sem var á vakt lét mig hafa parkódín forte þegar ég sýndi honum gamlan pakka sem heimilislæknirinn hafði eitt sinn skrifað uppá. En ég þurfti samt að útskýra vel fyrir henni að ég væri með kölkun í baki og eitthvern beinhnúð á einum hryggjarlið fyrir utan mænuþrengslin.
Ég sagði henni líka frá hitaköstunum og svitanum og að mér væri illt í augum og nefi og haus. Læknirinn var eitthvað óþolinmóður og leit á klukkuna vitandi að hundrað manns biðu frammi á biðstofu. Hún bankaði samt á kinnarnar á mér og skoðaði augun og skrifaði svo annan lyfseðil og rétti mér.
Ég sá að hún hafði skrifað uppá penicillin. Ég varð hálfvandræðaleg og tjáði henni að ég væri með ofnæmi fyrir penicillini,  þá nennti hún ekki að standa í þessu veseni  lengur og sagði mér að tala bara við heimilislækninn í fyrramálið.
Í nótt svaf ég svo sama og ekkert því ég var komin með hósta líka og svo nístandi blöðrubólgu ofan á allt saman og var hreint og beint að drepast. Mig dreymdi meira að segja að ég væri að kasta upp.
Þegar ég  svo vaknaði seint um síðir  rættist draumurinn alveg bókstaflega og ég rétt náði að komast inn á klósett til þess að losa mig við það litla sem í maganum var.
Ég var svo aum að ég hringdi í hjúkrunarfræðinginn á heilsugæslunni og sagði henni alla málavöxtu, að ég væri með bronkítis, kinnholubógu, hvarmabólgu og blöðrubólgu og bað hana um að skila því til heimilislæknisins að ég þyrfti sýklalyf.
Nei það gengur ekki, sagði hún, þú verður að fá tíma hjá honum á morgun eða fara bara á læknavaktina.
Það gengur víst, sagði ég móðursýkislega. Ég var á læknavaktinni í gær og ég er ekki á bíl og get ekkert farið þangað aftur, bætti ég við . Heimilislæknirinn getur alveg gert þetta. Ég get ekki beðið lengur, sagði ég dramatískri röddu og nú var ég komin með grátstafinn í kverkarnar af sjálfsvorkunn.
Jæja ég skal sjá hvað ég get gert, sagði  hjúkrunarfræðingurinn  sefandi.  En ég lofa engu, bætti hún við. Já þakka þér fyrir,  snökti ég  eins og  smábarn. 
En  læknirinn þarf að  láta  apótekið  vita að það  eigi að senda lyfin heim, röflaði ég áfram.
Allt í lagi ég hringi ef þetta gengur ekki,  sagði hjúkkan og lagði á, dauðfegin að losna við  þessa óþolandi manneskju úr símanum.
Seinnipartinn í dag komu svo lyfin með skilum frá mínum gamla góða heimilislækni. Í millitíðinni reyndi ég að blogga smá og þá rann upp fyrir mér ljós þar sem ég sat í jökulköldu herberginu. Þetta var allt andskotans alparósinni að kenna. Hún þurfti kulda til þess að lifa lengi og ég hafði auðvitað látið það eftir henni með þeim afleiðingum að ég sjálf var að drepast hægt og hægt .
Ég er að pæla í að hætta í þessu blómabrjálæði og fara að rækta plastblóm í staðinn sem þrífast víst ágætlega án þess að slökkt sé á ofnunum.


Kötturinn bjargaði lífi mínu

 

 

 

Ég las um það í Mogganum um daginn að hundur í eigu einhverrar konu í Bandaríkjunum hefði bjargað lífi hennar þegar það stóð í henni eplabiti. Hundurinn felldi konuna í gólfið og hoppaði ofan á bringunni á henni þar til bitinn hrökk upp úr henni.
Þegar ég las þetta minntist ég þess þegar kötturinn minn hann Bambus sálugi bjargaði lífi mínu fyrir 11 árum.
Ég hafði hitað mér hafragraut um morguninn og fengið mér að borða en látið svo pottinn aftur á helluna en gleymt að slökkva á henni.
Ég var ennþá grútsyfjuð og  átti  frí í vinnunni svo ég lagði  mig aftur.  Ég rumskaði við það að mér fannst einhver strjúka mér um kinnina. É g hélt að þetta væri sambýlismaður minn sem væri að gæla við mig í svefninum og sofnaði ljúflega aftur.
En mér fannst skrýtið að hann lét ekki þar við sitja að strjúka mér einu sinni um vangann heldur gerði hann það hvað eftir annað.
Ég man að ég hugsaði í svefnrofunum. Voðaleg ást er þetta, það er ekki einu hægt að fá  frið þegar maður er dauðþreyttur og sofandi.
Það var ekki fyrr en ástmaðurinn klóraði mig fast í kinnina sem ég rauk upp ösku þreifandi ill og öskraði. Hver andskotinn er þetta eiginlega! Er ekki einu sinni hægt að leyfa manni að sofa í friði?
Ég leit beint í bláu augun hans Bambusar síamskattarins míns sem horfði á mig hálfhræddur en samt eitthvað áhyggjufullur á svip . Ég skildi ekkert í því að ég átti erfitt með andardrátt, en svo tók ég eftir að íbúðin var full af reyk.
Mig rámaði eitthvað í hafragrautinn og staulaðist fram í eldhús í reykjarkófinu og sá þá að það skíðlogaði upp úr helv... pottinum.
Ég man ekkert hvernig ég kom pottinum ofan í vaskinn til þess að slökkva eldinn þó ég brenndi mig á annarri hendinni við verkið.
Potturinn var ónýtur og eldhúsbekkurinn sviðinn og ég sá fram á þetta slys myndi kosta mig einhverja peninga svo ég hringdi í tryggingafélagið mitt.
Þar var mér tjáð að þar sem eldurinn hefði ekki læst sig í eldhúsinnréttinguna heldur aðeins sviðið hana ætti ég ekki rétt á neinum bótum. Nú voru góð ráð dýr. Hvernig átti ég að fá pening fyrir viðgerðunum?
Skyndilega fékk ég hugljómum þegar ég mundi eftir því að borgað var fyrir fréttaskot hjá DV. Þegar blaðamennirnir heyrðu að Bambus hefði bjargað lífi mínu með því að klóra mig í kinnina vildu þeir endilega koma og taka mynd af okkur.
Það fór því þannig að við Bambus trónuðum á forsíðu DV daginn eftir en því miður var þessi frétt ekki talin besta frétt vikunnar en fyrir hana fékk maður best borgað. Einhverja aura fékk ég þó og þá skammtíma frægð sem fylgdi  forsíðurfrétt á DV.

 

 

 

 

 

 

scanBambus small034


Skemmtilegt kvöld

Ég fór út að borða með vinkonu minni á American Style í kvöld svo skruppum við á Catalinu í Kópavogi og slöppuðum af yfir einu bjórglasi. Ég stóðst löngunina í sígarettu með ölinu og var bara ánægð með sjálfa mig.
En toppurinn á kvöldinu var að horfa á myndina Skilyrðislaus ást í sjónvarpinu. Þetta er með betri myndum sem ég hef séð. Nú er klukkan langt gengin tvö að nóttu til og ég er að skríða upp í rúm með Tító.
Góða nótt öllsömul og sofið rótt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband