Leita í fréttum mbl.is

Dýrabælið

 

scan skissur 0017

                                          Tító

Ég hef átt dýr alla mína ævi og get ekki án þeirra verið. Dýrin eru sannir vinir og Gosi minn og Tító horfa oft á mig svo ástríku augnaráði , að halda mætti að þeir elskuðu mig út af lífinu. Gæludýrin okkar eru algjörlega upp á mennina komin og treysta okkur því fullkomlega til þess, að sjá vel um sig. Og það er mannvonska og ljótt ,að fara illa með þessa smælingja og vini okkar.

Öll dýr hafa mismunandi persónuleika og þar með hafa þau óneitanlega sál. Þau eru okkur náskyld í anda. eini munurinn er sá að sálir þeirra eru yngri en sálir okkar mannanna. Ég hef lesið það, að gæludýr og reyndar einnig húsdýr taki geysi mikið stökk í sálarþroska þegar þau lifi í svo nánu sambandi við manninn.

Þess vegna fæðast þessi dýr, sem frumstæðir menn í næsta lífi. Síðan þroskast sálir þeirra enn frekar eftir því sem þau lifa fleiri líf

það er ekkert til sem heitir skynlaus skepna, því öll æðri dýr hafa sál og sinn sérstaka persónuleika. Ég hef átt marga ketti og hunda um ævina og allir hafa þeir verið mismunandi karakterar. Það voru alltaf dýr á heimilinu hjá foreldrum mínum. Við áttum alltaf kött eða hund, gullhamstur áttum við einu sinni, 7 litla páfagauka líka og svo björguðum við mörgum villtum dýrum.

T.d. kom pabbi einu sinni heim að hausti með veika kríu. Hún bjó hjá okkur í þægilegum pappakassa undir eldavélinni og við mötuðum hana á ýsustrimlum. Einnig tókum við eitt sinn að okkur olíublauta önd sem var þvegin hátt og lágt og svo látin oní baðkarið hjá eldri bróður mínum sem var í freyðibaði, þeim báðum til mikillar skemmtunar, Bróðir minn lá á bólakafi oní baðkarinu en öndin synti alsæl um í froðunni á yfirborðinu. Mamma bjó svo um öndina fyrir nóttina í lokuðum pappakassa. En öndin braust út í skjóli myrkurs. Og þegar við fórum á fætur á sunnudagsmorgni, daginn eftir freyðibaðið, þa´sat öndin í miðri stórri grautarskál með sveskjugraut í, sem mamma hafði stillt út í eldhúsglugga, til kælingar og ætlaði að hafa í hádegismatinn.

Dúfu sem var eitthvað veik veittum við einnig húsaskskjól eina nótt meðan hún var að jafna sig. á veikndunum.  Reyndar var nú eldsti bróðir minn búinn að snúa hana úr hálsliðunum áður til þess að lina þjáningar hennar og fleygði henni svo útí tunnu. En þegar mamma fór næst út með rusl flaug dúfan upp úr ruslatunnunni upprisin. Svo þá urðum við náttúrulega að bjarga henni. Andarunga fundum við einu sinni niður við tjörn, villtan frá móður sinni. Við krakkarnir sinntum honum á daginn og ef við lögðumst uppí sófa með hann vildi hann alltaf kúra í hálsakoti okkar, En á nóttunni svaf hann hinsvegar undir stóra eyrnasneplinum á hvolpinum okkar. og voru þeir báðir alsælir með hvorn annan sem rekkjunaut.

Verum góð við dýrin, þau eiga það skilið


'Mér varð hugsað til þín, hvers mynd í hjarta ég geymi'

 

scan0051 Sorg

                            

                                                           Teiknað blindandi 

 

Langt er síðan sá ég hann
sannlega fríður var hann.
Allt sem prýða má einn mann
mest af lýðum bar hann.

Augun mín og augun þín
ó þá fögru steina.
Mitt er þitt og þitt er mitt.
Þú veist hvað ég meina.

Þó að kali heitur hver
hylji dali jökull ber.
Steinar tali og allt hvað er
aldrei skal ég gleyma þér.

 

Úr vísum Vatnsenda Rósu. 


Deilt með öðrum

scan0011 Epli

 

Vinir, félagar og elskendur líta ótakmarkaða verðleika okkar sömu augum og við sjálf. Þeir eru nánari okkur en aðrir, skilja best hvaða merkingu lífið hefur fyrir okkur, finna til með okkur eins og við sjálf, eru bundnir okkur jafnt í upphefð og niðurlægingu og leysa okkur úr álagafjötrum einsemdar.

 

Henry Alonzo Myers 

 

Sorgin getur annast sig sjálf, en ef þú vilt njóta gleðinnar til fulls, þarftu að fá einhvern til að deila henni með þér. 

 

Mark Twain (1835 1910) 


Það er bull að Breiðholtið sé eitthvað verra en önnur hverfi

 

DSCF2794 Blár jökull nr.1

                                          Blár jökull

 

Hér í Breiðholti búa um 20 til 25 þúsund manns og hér er flestalla daga allt með ró og spekt. Það er líka bull að útlendingar séu sí og æ til vandræða eins og sumir segja. Þeir innflytjendur sem ég hef kynnst hér í Breiðholti er allt sómafólk, en misjafn er sauður í mörgu fé segir gamalt máltæki og það er íslenskt máltæki en ekki útlent. Það segir okkur að íslenskt vandræðafólk hefur þrifist hér á landi fyrir daga innflytjendanna. sem nú til  dags er  kennt um flest það  sem  miður fer hér á landi.

Það er bölvaður rasismi í gangi hér á Íslandi og það er synd, því það er mesta blessun að fólk frá öðrum löndum  fáist til þess að blanda blóði við okkar útþynnta íslenska blóð, því Íslendingar eru jú alltof skyldir hvor öðrum eins og allir vita eftir aldalanga einangrun.

Slík innræktun kallar á ekkert annað en úrkynjun og vesaldóm, enda éta Íslendingar einna mest af 'gleðipillum' miðað við nágrannaþjóðir sínar. Við megum skammast okkar fyrir að þykjast vera hafin yfir það fólk sem hingað leitar í von um betra líf. Við megum líka skammast okkar fyrir  það að útlendingar vinna hér margir þau störf sem við þykjumst of fín til að gegna og það á smánarlaunum.

Svo erum við að monta okkur af vestur Íslendingum, þeir voru innflytjendur á sínum tíma í Vestur heimi, en okkur hættir til að gleyma því. Þeim hefur sem betur fer yfirleitt farnast vel og ég spái því að innflytjendur hér á landi eigi eftir að spjara  sig jafn vel og þeir. 

Og hvers vegna er alltaf talað um að það sé að byggjast upp eitthvað Harlem í Breiðholti? Eru þá ekki líka Harlem úti á landi á öllum þeim stöðum þar sem innflytjendur búa? Já, og ef við lítum okkur nær þá búa innflytjendur í fleiri hverfum í Reykjavík en bara í  Breiðholti.

Það er kominn tími til að við látum af þessum hroka okkar og tali um það að við séum öll af kóngum komin. Við skulum ekki gleyma því að í hverju skipi sem til Íslands kom fyrir 11 hundruð árum var meiriparturinn af mannskapnum vinnuhjú og þrælar. Ekki svo að skilja að vinnuhjú og þrælar hafi verið verra fólk en hvað annað, kannski bara betra. Og þetta fólk var sem betur fer meginuppistaðan í stofni íslensku þjóðarinnar, því þetta var vinnusamt fólk.

Og þrælar og vinnuhjú voru alls ekki af hinum hreina norska stofni sem við hreykjum okkur af að vera komin af, heldur var þessi mannskapur frá, svo dæmi séu tekin, Írlandi, Bretlandi, Hjaltlandseyjum, Orkneyjum og guð má vita hvaða fleiri stöðum, jú kannski Konstantínópel?. Það voru einnig þeldökkir menn sem fluttust hingað til lands seinna á öldum og ekki veit ég betur en að fyrrverandi forsætisráðherra okkar Davíð Oddsson sé kominn af Jamaica negra.

Svo má líka minnast á frönsku duggurnar hér á Íslandsmiðum og Fransmennina á þeim, hér voru líka þýsk skip og hollensk, ensk og norsk og portúgölsk. Og margir af þessum erlendu sjómönnum hér við Íslandsstrendur blönduðu blóði við 'íslenska´hrærigrautinn sem hér var fyrir,  því ekki voru það hreinræktaðir Norðmenn sem báru með sér hin brúnu augu og dökkbrúnt eða svart hár, eða hvað?

Og ég sé ekki betur en þessi samhræringur hafi bara tekist vel, því er ekki talað um að á Íslandi sé fallegt fólk? Alla vega er kvenfólkið okkar frægt fyrir fegurð um allan heim. Og ekki eru þær allar ljóshærðar fegurðardrottningarnar okkar og þær sem eru það eru flestar með litað hár. 

Það er gott að búa í Breiðholtinu og ekki hættulegra né verra fólk þar en nokkurs staðar annars staðar og það er ekki meira Harlem  hér en á Íslandi til forna. Og ekki yrði ég hissa á því  þó að með tíð og tíma verði blandaðir Breiðhyltingar allra manna og kvenna vænstir á voru guðsvolaða landi.


mbl.is Sex leitað vegna árásar í Breiðholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löggan lokaði á mig dyrunum

DSCF2789 Uppstilling í landslagi  2

Ein mynd til úr myndaröðinni 'Uppstilling í landslagi '

Ég ætlaði einmitt að koma við í Leifasjoppu á leiðinni til vinkonu minnar hérna í næsta húsi. Ég opnaði dyrnar en var rekin öfug út af vörpulegum lögreglumanni. Hann sagði ábúðarfullur að þeir væru að rannsaka mál. Ég spurði hvort það tæki langan tíma og hvort ég gæti ekki bara beðið á meðan, en ekki vildi hann samþykkja það. 

Þetta er annað ránið hjá honum Leifa á innan við tveim árum. Ég labbaði svo til vinkonu minnar og þar fylgdust við með þegar lögreglubíll og svo lögregla á mótorhjóli komu að sjoppunni.

Þetta rán var framið um hábjartan dag svo ég sé að það skiptir ekki máli hvenær maður er á ferðinni, en ég er alltaf hálf smeyk við að labba hérna göngustígana út í sjoppu á kvöldin.

En á sumrin þegar ég geng niður í Elliðaárdal er ég aldrei hrædd þar eru sem betur fer bara göngufólk og hundar að viðra sig í góða veðrinu. 

Við vinkonan skruppum saman í Bónus og ég var svo rausnarleg að kaupa heilsteiktan kjúkling í páskamatinn handa Tító og Gosa. Tító má aðeins borða matinn sem hann fær sérstaklega fyrir nýrnaveika ketti og svo kjúklinga  og hann elskar kjúklingakjöt. Það þýddi ekkert fyrir mig að geyma kjúklinginn fram að páskum, því nefin á Tító og Gosa eru  óbrigðul þegar kjúklingur er einhvers staðar nærri. Svo þeir eru búnir að fá fjórum sinnum kjúkling á diskinn sinn í dag. 

Tító heldur áfram að horast, þegar ég strýk honum bakið, finn ég fyrir hryggjarliðunum og mjaðmagrindinni. Dýralæknirinn sagði líka síðast að þó að hann hefði komið vel út úr síðustu rannsókn gæti hann samt hrunið innan eins mánaðar.

Ég keypti líka litlar páskaliljur í potti í Bónus og er búin að stilla þeim upp í stofunni ásamt fleira páskaskrauti. Og laukarnir sem ég setti niður úti á sólsvölunum eru að lifna. Fyrstu blöðin á einni dalíunni eru að gægjast upp úr moldinni. Meira að segja úti í garði sá ég í gær að túlípanarnir og krókusarnir eru að stinga upp kollinum. Þess vegna er vorhugur í mér og ég hlakka til þegar blómin springa út og ég get farið að dunda mér bæði á svölunum og í garðinum.

það er sama hvar ég stel afleggjara, hvort sem það er af inniblómum eða fjölærum blómum sem ég fæ leyfi til að taka af hjá vinum og vinkonum, allt lifnar og dafnar og mér finnst það yndislegt.

Mamma var svona eins og ég og hún átti sérlega fallegan garð og Sjonni sálugi frændi i Eyjum, pabbi hans Hectors, eða Kela, bloggvinar míns elskaði líka allan gróður og garðurinn hann var eitt sinn valinn fegursti garðurinn í Eyjum.

En því miður er Kalli frændi, sonarsonur Sjonna sáluga frænda, búinn að rústa verðlaunagarðinum og byggja stóran pall, en Kalli frændi keypti húsið hans afa síns. En svona er allt hverfult, en samt vona ég að þegar ég er farin að þá verði garðurinn hér við blokkina sem ég hannaði ein, mitt minnismerki. 


mbl.is Annað rán í Breiðholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er af sem áður var, en fyrir svona hundrað árum, eða um það bil...

hefði þessi drengur lært sína lexíu, því þá hefði nærbuxunum einfaldlega verið kippt alveg niður um hann og hann og hann rassskelltur, með vendi. Og það hefði þótt sjálfsagt. En allt er breytingum undirorpið, en þó held ég einna mest barnauppeldið, miðað við það sem maður hefur lesið  í gegnum tíðina.
Dæmi svo hver fyrir sig hvort nútímasiðir skila af sér prúðari ungmennum en í þá gömlu góðu daga?
Ég tek enga afstöðu, mér datt þetta bara svona í hug.

 


mbl.is Bannað að borða á nærbuxunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppstilling í landslagi Vatnslitir

DSCF2787 Uppstilling í landslagi

Ég ætla að vera með nokkrar svona vatnslitamyndir á sýningunni minni með olíuþrykkmyndunum.

Mér finnst þetta þema Uppstilling í landslagi svolítið skemmtilegt og óvenjulegtl

Ég ætla á sýninguna hjá Zordísi á föstudaginn langa og hlakka mikið til.

Gleðilega páska öll sömun. 


Ég hugsa of mikið

 

 

DSC000081 Vatnaliljur 3

Ég hugsa of mikið
um það
sem ég má ekki hugsa
og hugsa um af hverju
ég hugsa
svo mikið um það
ég hugsa að ég verði
að hugsa um
að hætta að hugsa

-eða- ég hugsa -það.

 

Guðný Svava Strandberg. 

 

 

Ég var eitthvað slöpp í morgun, ætlaði bara ekki að geta farið á fætur fyrir þreytu. Þess vegna lá ég  áfram í rúminu eins og skata og mókti og hugsaði líka, dálítið mikið, þangað til, (ég skammast mín fyrir að segja frá því), klukkan hálf fjögur um eftirmiðdaginn, þegar systir mín hringdi og boðaði komu sína. 

Ég fékk  reyndar, tvær heimsóknir, fyrst kom systir mín og síðan kom dóttir mín óvænt í heimsókn, hún hafði verið á skíðum uppi í Bláfjöllum með bróður sínum, miðsyni mínum, en kærastinn hennar var að vinna. Hann vinnur við bókhald og er alltaf að vinna mikla eftirvinnu og oft um helgar.

Systir mín keypti af mér mynd, þessa sem er með færslunni um vorgyðjuna. Ég ætla með hana í innrömmun fyrir hana á mánudaginn því ég fæ afslátt, en ekki hún.
Ég er mjög ánægð með að systir mín hafi keypt þessa mynd og vona að hún finni henni góðan stað í nýja húsinu sínu.

Þegar systir mín var farin fórum við dóttir mín, aðeins út í búð,  því ég þurfti að kaupa smávegis inn. Ég var rosa skynsöm í fæðuvali til að byrja með, keypti vínber, tómata, banana, eplasafa og fleira heilsusamlegt, en svo rak ég augun í þær, Kókosbollurnar!, fjórar saman í glæru plastboxi. Og auðvitað keypti ég þær, því ég er sjúk í þetta sælgæti, svo sjúk, að ég borðaði þrjár í kvöldmatinn og drakk smá hvítvín með. Það er ekki furða að maður sé slappur í maganum að láta svona ofan í sig, en þær eru bara svo sjúúúklega góðar!

Síðan var ég að reyna að taka myndir af myndunum mínum og ætlaði að taka þær í dagsbirtu, úti á svölum, svo það kæmi ekki þessi hvíti glampi alltaf, en þá kunni ég ekki að taka flassið af og áður en ég vissi af voru batteríin búin. Þá voru góð ráð dýr, ég varð að fara út í sjoppu og kaupa batterí og hringja svo í miðson minn og fá leiðbeiningar með hvernig ég ætti að taka flassið af vélinni. Þessi sonur minn er mín helsta hjálparhella og leysir yfirleitt alltaf öll mín vandamál, enda tókst honum að kenna mér þetta í gegnum símann.

Svo tók ég Tító og Gosa og burstaði þá hátt og lágt með nýja burstanum sem dóttir mín gaf mér blessunin. Þetta er einhver undrabursti. Þegar ég bursta Tító sem er með löng hár,  liggur við að burstinn rýi hann inn að skinni, hárflygsurnar fljúga af í hrönnum og safnast saman í stóran haug fyrir neðan kollinn sem hann situr á meðan ég bursta hann. Og ruslafatan inni á baði verður hálffull þegar ég er búin að troða hárbunkanum ofan í hana. 

Samt er alltaf nóg hár eftir á Tító og hann elskar að láta bursta sig svona. Gosi er miklu fastheldnari á feldinn sinn. það fer varla nokkurt hár af honum þegar ég bursta hann með undraburstanum, en Gosi er líka snöggur á feldinn, en Gosi elskar samt líka að láta bursta sig eins og Tító. 

Það er svo fyndið að þeir stökkva alltaf báðir upp á kollinn þegar ég fer inn á bað í von um að fá burstun. Og svo reyna þeir að bola hvor öðrum í burtu með því að halla sér harkalega í átt hvor að öðrum, með þeim afleiðingum að annar þeirra dettur ofan af kollinum, oftast Gosi litli. En hann fær samt sinn tíma á eftir frekjudallinum og hefðarkettinum honum Tító, sem vill alltaf vera númer eitt í öllu.

Mér fannst ekkert varið í Spaugstofuna í kvöld og ekki heldur myndina sem kom á eftir. Mér finnst orðið lélegt efni stundum í sjónvarpinu, þess vegna hlakka ég til á mánudaginn þegar ég fæ afruglara frá Símanum og get valið mér myndir.

En ég hlakka samt enn meira til næsta miðvikudag klukkan átta um kvöldið því þá verðum við dóttir mín að koma okkur fyrir í sætum okkar í Íslensku óperunni til að horfa á La traviata. 


Á Hannesarhól

Við rætur fjallsins er ofurlítill hóll
sem stendur í þeirri  meiningu
að hann - sé líka  - fjall
.

 

 

Guðný Svava Strandberg. 


mbl.is Höfundarréttur tekinn alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hélt ég væri að drepast

Ég er búin að vera lasin undanfarið, síðan ég vaknaði upp einn morgun með svo rosalegan verk fyrir brjóstinu að ég hélt ég væri að drepast. Sem betur fer var síminn á náttborðinu hjá mér og ég hringdi strax í 112.


Svo þegar sjúkratæknarnir  komu gat ég ekki hreyft mig til þess að opna útidyrnar . Þeir hringdu þá í mig og sögðust ætla að kalla á lögregluna til þess að brjóta rúðu í útidyrunum svo þeir kæmust inn. En löggan var  þá svo klók að hún fór bak við húsið og þá voru bakdyrnar sem betur fer opnar.
Þetta var lán í óláni því enginn var heima í allri blokkinni nema ég. Svo sem betur fer hafði ég svo gleymt að læsa dyrunum að íbúðinni minni.


Herbergið mitt fylltist því fljótlega af rauðklæddum mönnum sem flettu utan af mér blússunni  svo ég lá þarna hálfnakin og tóku svo hjartalínurit, gáfu mér morfín og súrefni og hvað eina.
Tító var öskureiður yfir þessum aðförum og ætlaði að verja mig fyrir köllunum með því að liggja utan um hálsinn á mér, en hann var rekinn fram á gang með harðri hendi þar sem hann æddi fram og til baka eins og ljón í búri . Hann minnti víst einna helst á áhyggjufullan tilvonandi föður. En Gosi var svo hræddur að hann faldi sig greyið. 

Svo var keyrt með blikkandi ljósum niður á  bráðamóttöku. þar var ég rannsökuð í bak og fyrir og gefið meira morfín og súrefni. Mér var farið að líða þrusuvel og vissi orðið hvorki í þennan heim né annan. Ég var þarna í eilífðartíma en ekki gátu læknarnir sagt með vissu hvort þetta væri hjartað mitt sem væri að bila, en sögðust þó ekki geta svarið fyrir það.

Svo var ég bara útskrifuð til þess að spítalinn þyrfti ekki að borga fyrir  allt heila klabbið og mér verður sendur reikningurinn. Nú svo er ég búin að fá boð um að mæta í áreynslupróf og magaspeglun. Ég sofna alltaf út frá þessum fjárans verk og vakna við hann á morgnana. Ég vona bara  til Guðs að þetta sé eitthvað í mallanum mínum, en ekki elsku hjartað mitt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband