Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Endurfæðingin

Ég mætti gömlum manni á leið minni heim úr vinnu í dag. Hann var með hvítt alskegg og á höfði bar hann ljósgræna húfu, sem mér virtist í fyrstu vera skátahúfa.
Gat það verið að þessi aldni maður væri skáti? Hugsaði ég með sjálfri mér.
En við frekari umhugsun fannst mér það afar ólíkleg tilgáta, því ekki gat ég sett mér hann fyrir sjónir sitjandi við varðeld syngjandi skátasöngva, né marsérandi í skrúðgöngu á sautjánda júní í grenjandi rigningu. Hann var einfaldlega of aldurhniginn og feitur til þess að geta tekið þátt í þess konar ævintýrum.
Ég gaf honum nánari gætur, hvíta alskeggið, bústnar rauðar kinnarnar, það vantaði bara rauða húfu í stað þeirrar grænu til þess að hann gæti verið jólasveinn. Ég sló því föstu að sú væri raunin,hann hlyti að vera dulbúinn jólasveinn. Líklega var hann að frílysta sig hér í höfuðborginni og njóta þess að hverfa í fjöldann svona óeinkennisklæddur, nú þegar mesta jólaæðið var runnið af mannfólkinu, enda komið fram undir vor.
Ég leit enn einu sinni á öldunginn, nokkuð ánægð með þessa niðurstöðu mína, en samt fannst mér eins og eitthvað væri við hann sem passaði ekki alveg.
Gamli maðurinn var þegar betur var að gáð ekki nógu jólasveinalegur í hreyfingum, hann hafði frekar göngulag ungs manns og hann var nánast barnslegur í fasi. Og þessi ljósgræna húfa, græn eins og vorið...
Skyndilega varð mér ljóst hver hann var.
Hann var vorið sem árvisst rennur sitt æviskeið uns það háaldrað deyr í fyllingu tímans, til þess eins að endurfæðast sem hið unga græna vor og boða sólbjarta langa sumardaga

Eldurinn

Á miðjum veggnum yfir sófanum í stofunni hékk fallegt gat í gylltum ramma og inni í gatinu , gat að líta tóma dós undan grænum baunum frá Ora.
Börnunum á heimilinu fannst þessi baunadós einstaklega áhugarverð og langaði til þess að kanna hana nánar, e n það var alls ekki auðsótt mál, því foreldrar þeirra harðbönnuðu þeim að koma nálægt gatinu með baunadósinni, þar sem það væri þeirra hjartfólgnasta listaverk.
En þegar móðir barnanna var önnum kafin í eldhúsinu notuðu þau tækifærið. Hvert á fætur öðru tóku þau tilhlaup á stofugólfinu og stukku upp í gatið á veggnum. Síðan renndu þau sér ofan í baunadósina.
Þar niðri á botninum tóku við iðjagrænir vellir svo langt sem augað eygði, en út við sjóndeildarhringinn mátti sjá skógivaxnar hæðir þar sem vingjarnlegir indíánar bjuggu í rjóðri einu langt inni í skógarþykkninu.
Indíánarnir voru mjög gestrisinn þjóð og buðu börnin alltaf hjartanlega velkomin að eldstæði sínu og slógu ævinlega upp veglegri matarveislu þegar þau komu í heimsókn.
þegar máltíðinni lauk hófu indíánarnir jafnan æstan stríðsdans kringum eldinn vopnum búnir og fagurlega málaðir á berum gljáandi líkömum sínum. Þeir buðu börnunum ætíð í dansinn með sér og var hverju og einu þeirra fengið spjót í hendur, til þess að þau gætu tekið þátt í dansinum kringum logandi bálið.
Þau dönsuðu alsnakin eins og indíánarnir, sveifluðu spjótunum og sungu með þeim undarlegan seiðandi söng um löngu horfna tíma þegar allir menn áttu sér aðsetur við elda sem veittu þeim skjól fyrir nístandi kuldanum um nætur.
Eldurinn bægði einnig rándýrunum frá og við hann voru sagðar sögur af hatrömmum bardögum og frækilegum veiðiferðum og við eldinn var villibráðin matreidd og borinn fram.
En þegar dansinum lauk og indíánarir og börnin sátu þægilega þreytt við deyjandi eldinn og hvíldu spjótin á nöktum lærum sér brást það ekki að rödd úr öðrum heimi rauf þessa friðsælu stund. 'Krakkar hvað á það eiginlega að þýða að sitja þarna allsber á gólfinu?' 'Og enn og aftur eruð þið búin að stela kústsköftunum og stönginni af teppahreinsarnum' 'Skammist þið ykkar og klæðið ykkur og komið að borða eins og skot!'

POURQUOI PAS? hjá Sævari Karli

Við Katrín vinkona skelltum okkur á sýninguna hjá Sævari Karli á  laugardaginn klukkan tvö. Píanóleikurinn barst fra versluninni langt uppeftir Bankastrætinu og Sævar Karl stóð rétt innan við dyrnar  og heilsaði okkur með handabandi.
Sælar stelpur mínar sagði hann kumpánlega og ég notaði tækifærið og þakkaði honum fyrir boðið. Það var reyndar ekki búið að opna inná sýninguna svo við röltum um búðina og skoðuðum föt, að sjálfsögðu.
Ég sá þarna vandaðan tvíhnepptan rykfrakka sem var nákvæmlega eins og sá sem ég keypti í Edinborg fyrir 13 árum.  Ég var mjög ánægð með að uppgötva að  rykfrakkinn minn er þá ennþá hæstmóðins. En mér brá þegar ég leit á verðið,  tæpar 86 þúsund krónur kostaði flíkin aðeins.
Vá, ég er þá aldeilis flott að eiga svona dýrindis kápu.
Mín er alveg eins og ný í dag því akkúrat þegar ég var búin að festa kaup á henni, duttu rykfrakkar úr tísku í áraraðir.
Ég sem hendi aldrei fötum eftir að ég gerðist sek um það asnastrik eitt sinn þegar ég var að flytja, að fleygja öllum módelklæðnaðinum sem ég hafði sjálf teiknað og látið sauma á mig,  þegar ég var yngri, geymdi auðvitað kápuna frá Edinborg í  öll þessi ár. 
Dóttir mín var heldur ekkert smá brjáluð útí mig þegar ég sagði henni frá þessum hálfvitahætti mínum á sínum tíma.


Svo opnaði sýningin og frönsk Madame hélt ræðu á ensku. Allir fengu svo glas af freyðivíni,  nema ég og Katrín.
Ég held svei mér þá að þetta hafi verið eitthvað samsæri hjá framreiðslu stúlkunum. Í hvert skipti sem einhver þjónustan nálgaðist okkur með hlaðinn bakka af fleytifullum glösum sneri hún við á punktinum um leið og hún kom auga á okkur Katrínu þar sem við stóðum hlið við hlið og mændum löngunaraugum á  vínglösin.
Við blótuðum pent í lágum hljóðum og tautuðum í barm okkar. 'Varla erum við ósýnilegar?' ' Við sem höfum puntað okkur svo flott upp'  'Já og ég skarta meira að segja þessum forláta hatti', sagði ég móðguð.  En svo slógum við þessu upp í kæruleysi þó þetta væri vissulega skrýtið og nutum sýningarinnar. Við könnuðumst báðar við marga sýningargesti í sjón sem höfðu verið í MHÍ eða Listaháskólanum.  Ég kinkaði líka kolli til gamalla kennara minna sem voru þarna í heimspekilegum samræðum við einhverja lista gúrua.

Myndirnar á sýningunni voru tískuteikningar eftir franska listamenn. 'Traits trés mode'
Þetta voru mjög skemmtilegar myndir og sýningarskráin sagði að tískuteiknun gengi nú í gegnum einststaka endurnýjun.
'Við upphafið á nýju árþúsundi lauk stöðnun greinarinnar. Ritstjórar tímaritanna endurnýjuðu smekk manna fyrir ákveðnum grófleika og tilgerðarleysi sem stundum leitaði innblásturs til níunda áratugarins og sýndu kraftmiklar tískuteikningar sem náðu fljótt heimsathygli og töldust í fremstu röð.
Myndirnar hafa því prýtt forsíður margra tískublaða svo sem Elle, Voque, Madame, Wallpaper og fleiri.'
'Nýtt grafískt landslag er komið fram, með ímyndum sem eru á mörkum samtímatilistar, götulistar, ljósmyndunar og nýrrar tækni.  Að baki þessarar þróunar býr krefjandi listræn hefð sem gerir teikningu franskrar tísku í dag að sérstökum listrænum heimi í og af sjálfum sér.'
Við Katrín áttum góða stund þarna þó við værum skildar útundan af freyðivíns Elítunni og við urðum aldeilis upp með okkur þegar ljósmyndari bað um að fá að taka mynd af okkur og skrifaði niður nöfnin okkar.
Katrín sem venjulega hatar að láta mynda sig varð allt í einu grafalvarleg eins og hún væri við jarðarför  en ég afturámóti hrökk til baka í fyrirsætugírinn og gretti mig ógurlega framan, í myndavélina í algjörlega misheppnaðri tilraun til þess að brosa sætt.
Það eru alltaf teknar myndir af okkur Katrínu þegar við förum saman á sýningar en það er undarlegt að aðeins einu sinni hefur mynd af okkur verið birt.
Við kvöddum Sævar Karl með virktum og hann benti okkur á að það væru líka myndir í glugganum á versluninn.
Við skruppum svo í Smáralind í ákveðna verslun þar og keyptum okkur rauðvín og smá bjór til að bæta okkur upp freyðivíns skúffelsið á sýningunni. Við keyptum líka í matinn fyrir helgina og brunuðum svo heim til okkar ánægðar með daginn. 


Skriðjöklar Þrykk, blek, akrýl.

scan small 2033

Ég er...


Ég er
rósin
sem blómgast að hausti
ég er
unglingsins
elliglöp
ölið sem alkinn
ei smakkar
og ástin
sem kann bara rök
ég er
marglytta
í fjörunnar sandi
ég er
fjúkandi bylur
í sól
ég er
saga sem löngu er liðin
ég er
álfur
sem kom út úr hól.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband