Leita í fréttum mbl.is

POURQUOI PAS? hjá Sævari Karli

Við Katrín vinkona skelltum okkur á sýninguna hjá Sævari Karli á  laugardaginn klukkan tvö. Píanóleikurinn barst fra versluninni langt uppeftir Bankastrætinu og Sævar Karl stóð rétt innan við dyrnar  og heilsaði okkur með handabandi.
Sælar stelpur mínar sagði hann kumpánlega og ég notaði tækifærið og þakkaði honum fyrir boðið. Það var reyndar ekki búið að opna inná sýninguna svo við röltum um búðina og skoðuðum föt, að sjálfsögðu.
Ég sá þarna vandaðan tvíhnepptan rykfrakka sem var nákvæmlega eins og sá sem ég keypti í Edinborg fyrir 13 árum.  Ég var mjög ánægð með að uppgötva að  rykfrakkinn minn er þá ennþá hæstmóðins. En mér brá þegar ég leit á verðið,  tæpar 86 þúsund krónur kostaði flíkin aðeins.
Vá, ég er þá aldeilis flott að eiga svona dýrindis kápu.
Mín er alveg eins og ný í dag því akkúrat þegar ég var búin að festa kaup á henni, duttu rykfrakkar úr tísku í áraraðir.
Ég sem hendi aldrei fötum eftir að ég gerðist sek um það asnastrik eitt sinn þegar ég var að flytja, að fleygja öllum módelklæðnaðinum sem ég hafði sjálf teiknað og látið sauma á mig,  þegar ég var yngri, geymdi auðvitað kápuna frá Edinborg í  öll þessi ár. 
Dóttir mín var heldur ekkert smá brjáluð útí mig þegar ég sagði henni frá þessum hálfvitahætti mínum á sínum tíma.


Svo opnaði sýningin og frönsk Madame hélt ræðu á ensku. Allir fengu svo glas af freyðivíni,  nema ég og Katrín.
Ég held svei mér þá að þetta hafi verið eitthvað samsæri hjá framreiðslu stúlkunum. Í hvert skipti sem einhver þjónustan nálgaðist okkur með hlaðinn bakka af fleytifullum glösum sneri hún við á punktinum um leið og hún kom auga á okkur Katrínu þar sem við stóðum hlið við hlið og mændum löngunaraugum á  vínglösin.
Við blótuðum pent í lágum hljóðum og tautuðum í barm okkar. 'Varla erum við ósýnilegar?' ' Við sem höfum puntað okkur svo flott upp'  'Já og ég skarta meira að segja þessum forláta hatti', sagði ég móðguð.  En svo slógum við þessu upp í kæruleysi þó þetta væri vissulega skrýtið og nutum sýningarinnar. Við könnuðumst báðar við marga sýningargesti í sjón sem höfðu verið í MHÍ eða Listaháskólanum.  Ég kinkaði líka kolli til gamalla kennara minna sem voru þarna í heimspekilegum samræðum við einhverja lista gúrua.

Myndirnar á sýningunni voru tískuteikningar eftir franska listamenn. 'Traits trés mode'
Þetta voru mjög skemmtilegar myndir og sýningarskráin sagði að tískuteiknun gengi nú í gegnum einststaka endurnýjun.
'Við upphafið á nýju árþúsundi lauk stöðnun greinarinnar. Ritstjórar tímaritanna endurnýjuðu smekk manna fyrir ákveðnum grófleika og tilgerðarleysi sem stundum leitaði innblásturs til níunda áratugarins og sýndu kraftmiklar tískuteikningar sem náðu fljótt heimsathygli og töldust í fremstu röð.
Myndirnar hafa því prýtt forsíður margra tískublaða svo sem Elle, Voque, Madame, Wallpaper og fleiri.'
'Nýtt grafískt landslag er komið fram, með ímyndum sem eru á mörkum samtímatilistar, götulistar, ljósmyndunar og nýrrar tækni.  Að baki þessarar þróunar býr krefjandi listræn hefð sem gerir teikningu franskrar tísku í dag að sérstökum listrænum heimi í og af sjálfum sér.'
Við Katrín áttum góða stund þarna þó við værum skildar útundan af freyðivíns Elítunni og við urðum aldeilis upp með okkur þegar ljósmyndari bað um að fá að taka mynd af okkur og skrifaði niður nöfnin okkar.
Katrín sem venjulega hatar að láta mynda sig varð allt í einu grafalvarleg eins og hún væri við jarðarför  en ég afturámóti hrökk til baka í fyrirsætugírinn og gretti mig ógurlega framan, í myndavélina í algjörlega misheppnaðri tilraun til þess að brosa sætt.
Það eru alltaf teknar myndir af okkur Katrínu þegar við förum saman á sýningar en það er undarlegt að aðeins einu sinni hefur mynd af okkur verið birt.
Við kvöddum Sævar Karl með virktum og hann benti okkur á að það væru líka myndir í glugganum á versluninn.
Við skruppum svo í Smáralind í ákveðna verslun þar og keyptum okkur rauðvín og smá bjór til að bæta okkur upp freyðivíns skúffelsið á sýningunni. Við keyptum líka í matinn fyrir helgina og brunuðum svo heim til okkar ánægðar með daginn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Notalegur dagur hjá ykkur vinkonum!  Ég hefði nú verið pínu spæld að fá ekki freyðivín, tala nú ekki um ef þetta var kampavín / Cava en þið gerðuð rétt otókuð stemminguna heim.

www.zordis.com, 1.4.2007 kl. 07:17

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég kaupi fötinn mín alltaf hjá Sævari Karli enda á ég peninga eins og skít.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.4.2007 kl. 12:24

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já og þú hefur einfaldan smekk.  Velur aðeins það  besta .

Svava frá Strandbergi , 1.4.2007 kl. 17:07

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég hefði nú bara kallað á dömurnar og fengið minn skammt, er ekki nógu pen til þess að láta ganga fram hjá mér

Ásdís Sigurðardóttir, 1.4.2007 kl. 21:03

5 Smámynd: Agný

Hehumm... þú og vinkona þín hefðuð betur skilið siðapostula engilinn eftir heima...Þessi afgreiðslustúlka hefur pottþétt verið skyggn og séð þann sem sat á öxl þinn og ekki nema von að hún hafi snúið hið snarasta við..

Agný, 4.4.2007 kl. 02:07

6 Smámynd: Svava frá Strandbergi

þú meinar þá að Andskotinn sjálfur sem sat á hinni öxlinni hafi náttúrulega látið í minni pokann.

Svava frá Strandbergi , 4.4.2007 kl. 02:47

7 identicon

Myndirnar eru frábærar. Sendu mér email þitt, mitt er aegisson@btinternet.com.

Gunnar

G Aegisson (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband