Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
26.4.2007 | 23:50
Hvers vegna?? !!
Ósköp er maður eitthvað andlaus og þreyttur í dag. Ég þurfti að hlaupa á eftir strætó og rétt náði honum og ég sem er með bilað og bólgið hné.
Ég varð samt að ná strætónum því ég var að fara á fund niður í Ráðús, til að fá úthlutaðan tíma fyrir sýninguna okkar
Besti tíminn sem við getum fengið verður frá 29. ágúst til 14. sept. 2008.
Fimm af okkur sex eru búnar að samþykkja þetta, en ein þarf að hugsa málið, en meirihlutinn ræður venjulegast svo ætli þetta verði ekki úr.
Ég er búin að átta mig á því fyrir löngu síðan, að þessi síendurtekna berkjubólga og nefrennsli sem ég er með, er pottþétt ofnæmi fyrir köttunum mínum sem ég elska út af lífinu.
Ég svaf heldur sama og ekkert í nótt vegna óstöðvandi kláða í nefinu, var alveg viðþolslaus.
Lifandis skelfing er ég dofin yfir þessu, ég er ekki lengur reið yfir að geta líklega ekki átt kettina, mína bestu vini, áfram, ég er hreint og beint sinnulaus og öll dofin á sálinni.
Stundum hugsa ég að þetta lagist þó svo að ég viti að það geri það ekki, svo datt mér í hug í dag að leita til grasalæknis við fyrsta tækifæri .
Kannski það sé hægt að fá eitthvert töfraseyði gegn kattaofnæmi.
Annars er ég löngu komin á ofnæmislyf uppáskrifuð frá lækni en þau gera lítið gagn.
Hvað á ég að gera?
Ég get ekki hugsað mér að láta deyða 'börnin' mín eins og mér finnst kisarnir mínir vera. Ég bara brjálast held ég og er ég þó nógu klikkuð fyrir, svo sem.
Af hverju er lífið svona ósanngjarnt? Ég bý ein og er oft einmana, bestu vinirnir mínir og meðbúendur verða að fara frá mér, líklega deyja og ég verð að koma því í kring.
Hvernig er hægt að leggja þetta á mann?
Hvernig er hægt að fá ofnæmi fyrir verum sem maður elskar og er búin að eiga í níu ár? Verum sem treysta manni fullkomllega og eru algjörlega upp á mann komnar.
Sem taka á móti manni þegar maður kemur heim og fylgja manni hvert fótspor, meira að segja á klósettið og sem sækjast eftir því að kúra hjá manni með loppuna um hálsinn á manni.
Biðja um að láta taka sig upp eins og lítil börn og biðja mann að leika við sig,
Litlu börnin mín, eftir að mannabörnin mín urðu stór.
Góði Guð, ef þú ert þarna einhvers staðar uppi, getur þú þá sagt mér af hverju ég þurfti endilega að fá þetta ofnæmi? Geturðu læknað mig?
Huggun
Þú kemur til mín ósköp hægt og hljótt
er húmið dökka sest um sefa minn.
Í hjarta mér þá helköld ríkir nótt
en heit mín tár sem falla á fölva kinn.
Þá lýsa mér þín augu blið og blá
svo björt og hrein þar skín mér ástin þín.
Sem glæðir aftur gleymda von og þrá
Þú göfga litla hjartans kisan mín.
Vinir og fjölskylda | Breytt 20.5.2007 kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.3.2007 | 01:35
Skemmtilegt kvöld
Ég fór út að borða með vinkonu minni á American Style í kvöld svo skruppum við á Catalinu í Kópavogi og slöppuðum af yfir einu bjórglasi. Ég stóðst löngunina í sígarettu með ölinu og var bara ánægð með sjálfa mig.
En toppurinn á kvöldinu var að horfa á myndina Skilyrðislaus ást í sjónvarpinu. Þetta er með betri myndum sem ég hef séð. Nú er klukkan langt gengin tvö að nóttu til og ég er að skríða upp í rúm með Tító.
Góða nótt öllsömul og sofið rótt.
22.3.2007 | 01:20
Upplýsandi umræður milli Íslendinga og innflytjenda
það var mikið fjör á síðasta húsfundi og margt spjallað á íslensku, ensku, litháísku og pólsku. Albanarnir á neðstu hæðinni sem ollu mér þungum búsifjum þegar þeir puðruðu drullunni úr loftræstikerfinu yfir þvottahúsið mitt létu ekki sjá sig. þess vegna var engin albanska töluð á þessum fundi.
Við ræddum um nauðsyn þess að láta mála stigaganginn og teppaleggja og fleira.
það fussaði í litháísku konunni þegar við töluðum um að láta mála. það svo expensive láta mála, í Litháen fólk gera svona sjálft saman, sagði hún.
Það varð smá þögn við þessi orð konunnar en svo sagði formaðurinn þungur á brún. Og hver á svo með leyfi að labba á milli íbúða og fá fólk til þess að vera samtaka í því að mála sjálft the stigagang ? Ekki geri ég það, bætti hún svo við í fússi.
Allt í lagi, ég vera húsvörður. Ég gera þetta, sagði sú litáíska. Formaðurinn missti andlitið en leit samt spurnaraugum á okkur hin. Hverjir eru samþykkir þessu, spurði hún svo í uppgjafartón.
Allir réttu upp hendina og þar með kusum við fyrsta 'innflytjandann' í húsinu í þetta virðingarverða embætti.
það líka þarf laga the roof, sagði nýji formaðurinn. það leka hjá okkur efst uppi.
Jahá, hún ætlaði aldeilis að færa sig uppá skaftið, eyða bara öllu um efni fram um leið og hún var búin að taka við embættinu.
Jaá það verður náttúrulega að láta laga það. Fáum einhvern iðnaðarmann til að líta á þetta, önsuðum við.
Nei, nei allt í lagi maðurinn minn gera það. Gera hvað? Tala við iðnaðarmanninn.? Spurðum við eins og hálfvitar.
Nei hann maðurinn laga the roof, svaraði nýji formaðurinn. Það svo cheap gera það sjálf. Ekki láta gera það, expensive
Hann bara þarf vita hvar kaupa the stuff for the roof, bætti hún við.
Við samþykktum þetta auðvitað eins og skot náttúrulega gegn því að borga manninum eitthvað fyrir verkið.
Við vorum búin að átta okkur á því að innflytjendurnir sem bjuggu í blokkinni okkar vissu hvernig átti að fara að hlutunum. Okkur rámaði líka eitthvað í það að hér áður fyrr hefði fólk á Íslandi vitað það líka.
Ég minntist meira að segja á það með stolti að þegar ég var einbýlishúss eigandi á mínum yngri árum hefði ég sjálf múrað útidyratröppurnar og fleira og málað húsið mitt að utan upp undir þakskegg á annarri hæð.
Það þurfti líka að skipta um ljósarofa á ganginum og bauðst Pólverjinn til að taka það að sér gegn pay en auðvitað cheaper en the electrician.
Svo upplýsti hann okkur um það að hann væri búinn að leigja út íbúðina sína í stigaganginum og væri að flytja í aðra íbúð sem hann hefði keypt í Fossvogshverfi.
Helmingur umfjöllunar um innflytjendur á síðasta ári var hlutlaus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.3.2007 kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
18.3.2007 | 23:06
Garðyrkja og kraftaverk
Jæja þá er appelsínutréð farið að taka vaxtarkipp, líklega verður það orðið svo stórt þar næsta sumar að ég fái bara góða uppskeru. Mangótréð er ég ekki svo viss um ennþá, þar sem það sést ekki enn sem komið er, enda stutt síðan ég gróðursetti fræið. Ég er nú svo sem ekkert rosalega hrifin af mangóávöxtum þar sem þeir eru frekar bragðlausir. Aftur á móti eru þeir víst svo fullir af hollri fitu að það er bráðnauðsynlegt að geta tínt sér þá við og við.
Nóvemberkaktusinn er í fullum blóma og stóru plönturnar sem mamma kallaði alltaf skeiðblað skarta bleikrauðum blómaklösum. þær blómstruðu nú aldrei hjá henni blessaðri en ég er líka með svo extra græna fingur.
Annar fíkusinn er orðinn meira en mannhæðar hár og sá minni er bara orðinn ansi vöxtulegur.
Yukkan sem vaknaði upp frá dauðum á páskadag fyrir ellefu árum teygir sig nú langt upp fyrir hausinn á mér og mér þykir eiginlega vænna um hana en nokkuð annað plöntukyns í minni eigu.
Ég tók við henni úr höndum sonar míns árið 1996 því hann var hægt og sígandi á góðri leið með að drepa hana með ofvökvun. Björgunartilraunir mínar báru engan árangur og hún dó í höndunum á mér. Það var ekki tangur né tetur eftir af henni í pottinum daginn fyrir páskadag fyrir þessum 11 árum.
Svo þegar ég var að þvo gólfið var blómapotturinn eitthvað að flækjast fyrir mér og ég tyllti honum uppá ofn og ætlaði að henda honum daginn eftir.
Morguninn eftir á sjálfan páskadaginn gerðist svo kraftaverkið og ekki bara þetta venjulega með það að Jesú vaknaði upp frá dauðum.
Þegar ég rölti fram úr rúminu til þess að fá mér morgunmat rak ég augun í það að ég hafði gleymt pottinum með dauðu yukkunni uppi á ofninum. Ég ætlaði að taka blómapottinn með fram í eldhús og henda honum í ruslið en þegar ég leit ofan í pottinn sá ég kraftaverkið. Yukkan var lifnuð við.
Ég hoppaði hæð mína í loft upp af undrun og hrifningu og hrópaði á fyrrverandi sambýlismann minn. 'Bjössi! Bjössi! það hefur gerst kraftaverk!' Bjössi sem alltaf trúir öllu sem honum er sagt og sérstaklega ef honum er sagt frá kraftaverkum kom þetta kraftaverk með yukkuna ekkert á óvart. 'Elsku hjartasta Smyrðin mín, þetta er ekkert skrýtið því það er páskadagsmorgun, sagði hann
og fyrst Jesú gat risið upp frá dauðum á þessum degi þá geta blóm það auðvitað líka', bætti hann við.
'Annars er ég viss um að María mey hefur eitthvað komið nálægt þessu kraftaverki', tautaði hann í barm sér. En Bjössi heldur mikið uppá Maríu mey og hafði alltaf litla styttu af henni á náttborðinu hjá sér.
Ég hafði litlu yukkuna uppi á ofninum í smátíma meðan hún var að styrkjast eftir uppvakninguna en flutti hana svo út í litla garðinn minn á sólsvölunum hjá öllum hinum plöntunum, þar sem hún hefur dafnað vel æ síðan.
Á hverjum páskum eftir þetta hef ég búist við einhverju öðru kraftaverki en væntingar mínar hafa ekki ræst hingað til. En það er líklega alveg nóg og meira en flestir fá að upplifa að verða einu sinni vitni að kraftaverki á ævi sinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt 19.3.2007 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.3.2007 | 00:08
Sprenging!!
Vá maður!!
Ég skildi ekkert í því á sunnudaginn hvað ég var orðin rosalega vinsæl. Það voru komnar fleiri hundruð heimsóknir þegar ég leit á bloggið mitt. Ég var náttúrulega æðislega ánægð með mig en gat ómögulega skilið hvernig á þessarri skyndilegu aukningu stóð. En hugsaði svo með sjálri mér að ég væri bara svona assskoti skemmtilegur bloggari og það hefði náttúrulega spurst út. En samt fannst mér skrýtið hve fólk hefði verið samstíga í því að taka við sér og átta sig á skemmtilegheitum mínum.
Svo hringdi bróðir minn í mig og hrópaði á mig í símanum. 'Svava ertu búin að sjá Moggann í dag''? Nei, sagði ég og hjartað í mér hoppaði hæð sína af skelfingu. Hvað hefur nú skeð, hvað er eiginlega í gangi, ætli það sé nú loksins komin kjarnorkustyrjöld? Flaug í gegnum huga mér.
Bloggið þitt er í Mogganum´, æpti brósi móðursýkislega. Bloggið mitt? Sagði ég eins og hálfviti. ´Hvað áttu eiginlega við?'
'Nú þú veist að það eru stundum birt valin blogg í Mogganum', sagði bróðir minn og það gætti óþolinmæði í rödd hans yfir fáfræði minni. 'Það eru birtir úrdrættir úr þremur bloggum í dag, en þeir birta bara alla færsluna þína', sagði hann öfundsjúkur.
Jæja, það var aldeilis! Þarna var þá komin skýringin á vinsældum mínum.
Ég var hæstánægð þegar ég tékkaði á blogginu mínu rétt fyrir kl. tólf í gærkvöldi og sá að heimsóknirnar voru komnar upp í 485 og ég trónaði í 95. sæti á vinsældalistanum.
Í dag er ég hinsvegar aftur orðin ein af almúganum og er bara með tæplega 90 heimsóknir
En ég fékk allavega að prófa hvernig það er að vera vinsæl í hvorki meira né minna, en einn heil langan dag.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.2.2007 | 23:22
Ég verð að fara að heimsækja hana Krúttu....
eins og ég kalla hana Katrínu vinkonu mína. Hún er nýorðin mamma í annað sinn og eignaðist lítinn son sem er örugglega jafn mikið krútt og hún mamma sín.
En ég hef bara því miður ekki ennþá séð litla og stóra krúttið síðan þau urðu mæðgin og litu hvort annað augum í fyrsta sinni.
Kristinn er eldri bróðir litla krúttsins og er að verða fjórtán ára sem er svolítið mikill munur á milli bræðra en það er bara fínt. Ég held nefnilega að Kristinn geti orðið fyrirtaks barnapía þegar fram líða stundir. Alla vega er hann mjög ábyrgðarfullur bróðir segir Katrín krútta mamma hans. Hann má líka vera það því það verður að passa litla krúttið mjög vel svo enginn steli honum, því mamma hans segir að hann sé svo fallegur að hún hafi aldrei séð annað eins.
Því trúi ég líka vel því Katrín krútta vinkona mín er ákaflega falleg kona svo litli krútti á ekki langt að sækja fríðleikann.
Mér finnst svo skrýtið að Katrín krútt sé nýbúin að eignast barn því mér finnst eins og það hafi verið í gær sem við endasentumst upp og niður skógivaxnar brekkurnar við Elliðavatn til þess að finna hentugan stað til þess að mála á.
Endasentumst er kannski fullmikið sagt því við vorum með trönur og stóla og málningardót og nesti og myndavélar, já og okkur sjálfar.
Við vorum því orðnar ansi þreyttar þegar við loks römbuðum á dásamlegan stað út á ystu brún á smáhæð sem hallaði snarbratt niður að stóru og stæðilegu grenitré.
Við settum upp trönurnar og svo máluðum við og máluðum og máluðum eins og snarbrjálaðir listamenn. Myndirnar okkar voru samt mjög ólíkar þó þær væru af sama útsýninu, enda erum við Ka
trín mjög ólíkar hvor annarri.
Mér fannst Katrínar mynd miklu betri en mín þegar ég teygði mig út á hlið til þess að skoða hana. Varð mér svo mikið um þessa uppgötvun að ég kollsteyptist af mínum stóli og rúllaði síðan niður alla brekkuna þar til ég loks stöðvaðist á grenitrénu sem áður var minnst á.
Katrínu datt ekki til hugar að hjálpa mér enda var hún ekki vitund hrædd um mig. Það komst engin hræðsla að í hennar fallega haus því hún hló svo mikið að þessarri skyndilegu rússíbana ferð minni fram af hæðarbrúninni.
Ég lét fall mitt mér að kenningu verða og hætti að mála en tók mynd af Katrínu krúttu í staðinn þar sem hún sat við trönurnar og málaði, auðvitað.
Ljósmyndin varð allavega góð, svo góð að ég sættist á það að Katrín væri bara svona miklu klárari með olíulitina heldur en ég.
Það rann upp fyrir mér seinna af hverju myndin af Katrínu krúttu vinkonu minni varð svona góð.
Það var vegna þess eins og hún sagði mér seinna að þá var litla krúttið hennar þegar byrjað að vaxa inni í henni.
Sjáiði bara hvað myndin er flott eins og ég sagði. Svo verð ég bara að fara að drífa mig á næstu dögum að sjá litla krúttið hennar Katrínar vinkonu, krúttu minnar.
Grease Babies
http://members.shaw.ca/anabw/grease.htm
Vinir og fjölskylda | Breytt 15.2.2007 kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2007 | 00:29
Kemst ég í 'Löggildingarpartýið' á DOMO?
Það er nú spurningin. Eða kemst ég yfirleitt á Hönnunarverðlauna afhendingu FíT í Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn kemur?
Ég er nebblilega komin með flensu aftur. Þetta er einhver andstyggðar sýking í nefi, augum og eyrum sem er víst að ganga. Ég var meira að segja svo slæm í eyrunum að ég er nú nánast heyrnarlaus og bróðir minn segir að það sé ferlega erfitt að tala við mig í síma þar sem ég segi oftast ha! Við öllu sem hann segir.
Ég er annars búin með einn skammt af sýklalyfjum sem ég kláraði í fyrradag. En í dag var ég aftur orðin svo slöpp að það var eins og ég væri lömuð af þreytu svo ég lá í rúminu til klukkan að verða átta í kvöld.
Mér fannst eins og ég gæti hvorki hreyft legg né lið og mér flaug meira að segja í hug þar sem ég lá þarna í rúminu hreyfingarlaus hvort ég væri nú kannski loksins dauð.
Það var náttúrulega þessi illa innrætta flensa sem ekki var búin að ljúka sér af við mig sem olli þessu andsk. ástandi.
Ég er því komin með dynjandi hausverk á ný og augun eru límd saman af einhverjum ´vibba' stýrum þegar ég vakna á morgnana og nebbinn er aftur orðinn fagurlega rósrauður á litinn.
Svo þess vegna er ég aftur komin á sýklalyf, tvöfaldan skammt meira að segja fyrstu þrjá dagana svo það er smávon að ég verði búin að ná mér á föstudaginn og komist á verðlaunaafhendinguna.
Það verða léttar veitingar í boði en maður getur svo sem nælt sér í fleiri en eitt 'létt' glas, sérstakega ef ætlunin er að poppa inn á DOMO á eftir.
Þá er bara eftir að láta sér batna og bjóða svo einhverri vinkonu með í fagnaðinn.
Mér veitir sko ekki af að komast út á meðal manna því fyrir utan afmælið hans sonarsonar míns um daginn hef ég mestan part hangið heima yfir Tító og troðið í hann sterum og sýklalyfjum.
Tító er bara allur að koma til af lyfjagjöfinni en því miður þarf hann víst að vera á þessum ólukku sterum það sem hann á eftir ólifað.
Aumingja elsku kallinn minn en ég vil allt til vinna til þess að halda honum sem lengst hjá mér.
Annars veit ég ekki hve lengi hann verður góður til heilsunnar með hjálp steranna. En er á meðan er.
Samt verð ég að viðurkenna að ég er farin að líta í kringum mig eftir arftaka Títós og held ég að sniðugast sé að fá sér Maine Coon kettling. Maine Coon kettir verða risastórir af köttum að vera eða eins og smá hundar. Þeir eru mjög blíðir og eru oft kallaði 'The gentle giants.' Það er meira að segja hægt að venja þá á ól og fara út að ganga með þá.
En nú er best að koma sér í bólið með Tító og Gosa og reyna að sofa eitthvað úr sér ansvítans sýkinguna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2007 | 01:52
'Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga'
Þrykkmynd
Og blómin sem hafa sofið á sitt græna eyra undir ís og snjó vakna af löngum vetrardvala, teygja höfuð sín upp úr moldinni, gul og rauð og blá, mót gullnum geislum sólarinnar og blómstra hvort í kapp við annað.
Og vorgyðjan brosir til þeirra, beygir sig niður og segir. Sæl þið litfögru blóm! Eruð þið komin til að fagna mér?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.2.2007 | 00:11
Sindrandi neistar frá Guðanna sól
Mér er gleði í huga því litla ljósið hann Jónatan Davíð sonarsonur minn varð tveggja ára í dag.
Fjölskylda og vinir voru samankomnir í afmælinu til þess að fagna þessum merkis áfanga og allir sungu afmælissönginn tvisvar áður en Jónatan Davíð blés á kertin með hjálp pabba síns.
Elísa Marie systir hans 5 ára, fékk líka gjöf þó hún ætti ekki afmæli og Daníel bróðir hennar 4 ára sömuleiðis.
Elísa Marie var í bleikum kjól og dansaði um allt gólfið í stofunni eins og balletdansmær. Hún æfir íþróttir og er orðin svo liðug að hún kemst bæði í splitt og spíkat.
Langt er orðið síðan ég gat sýnt svona snilldartakta.
Ég hef náttúrulega mikinn metnað fyrir Elísu Maries hönd og ég sé hana í anda dansa á sviði í Þjóðleikhúsinu þegar hún hefur aldur til sem primaballerina. Svo söng hún líka afmælissönginn eins og engill. Hún gæti þessvegna allt eins orðið óperu díva.
Daníel settist í sófann hjá mér og sýndi mér stoltur machintos bílaflotann sinn, alls 5 bíla sem hann keyrði fram og til baka og upp og niður sófabakið í allskonar beygjum og krókaleiðum á hvínandi hraða.
Hann verður örugglega heimsfræg kappaksturshetja og vinnur stóra sigra. Kannski hann verði næsti heimsmeistari í kappakstri.
Jónatan Davíð afmælisbarnið vildi koma til ömmu og sannaði að hann er klókur í því að raða misstórum plasthringjum í næstum því réttri röð upp á staut. Svo klappaði hann saman lófunum af hreykni yfir dugnaði sínum.
Mamma hans sagði mér að hann hefði meira að segja nefnt Elísu Marie systur sína með nafni um daginn.
Ég er klár á því að Jónatan Davíð er snillingur þó hann sé fæddur með Downs heilkenni. Og svo er hann lítill engill líka.
Jónatan Davíð verður ef til vill ekki kappaksturshetja eða ballettdansari en ég trúi því að hann verði samt sem áður þarfur þjóðfélagsþegn á einhverju sviði.
Og eitt er pottþétt og mikilvægast. Ég veit að hann verður alltaf hamingjusamari en flestir aðrir.
Samt olli fæðing hans, sem átti að verða okkur öllum í fjölskyldunni gleðiefni, sorg á sínum tíma.
Var eiginlega hálfgert reiðarslag. Sérstaklega þó fyrir móður hans og föður en þau eiga samt, Guði sé lof, tvö heilbrigð börn fyrir.
En við trúum því að hver einstaklingur sem fæðist hér á jörð hafi fyrirfram ákveðið hlutverk og þjóni sérstökum tilgangi.
Sorgin yfir fæðingu Jónatans Davíðs snerist því upp í gleði og sátt í hjörtum okkar.
Sátt við lífið sem birtist okkur í svo margvíslegan myndum líkt og sindrandi neistar frá Guðanna sól og lýsa okkur leiðina heim.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2007 | 22:18
Æ ég veit það ekki...
Maður er bara orðin svo þreyttur á svona fréttum!!
Og svei mér þá, ég held bara að eina ráðið sé að hverfa aftur til miðaldarefsinga gegn þessum barnaníðingum
og þess vegna sé best að setja svona menn berrassaða í gapastokk.
Svo getur hver og einn valið um það hvort hann vilji gefa þeim þrumuskot í rassgatið eða einn velútilátinn 'gúmoren' á greppitrýnið.
Einnig mætti vel splæsa spældum fúleggjum á smettið á þeim eða þá ofþroskuðum út tútnuðum tómötum ef ekki vill betur til.
Láta þá dúsa svona í viku minnst og stinga þeim svo inn í þúúúúsund ár.
800 ára fangelsi fyrir kynferðislegar misþyrmingar á þrem börnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Eldri færslur
- Desember 2014
- Apríl 2013
- Janúar 2013
- Nóvember 2012
- Ágúst 2012
- Október 2011
- Júní 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- September 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Nóvember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Júlí 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Tenglar
http:www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson, texti eftir Kerst
- http://
- Halldór Guðjónsson lagasmiður og Kerst textahöf. Flott lög eftir Halldór Guðjónsson og textar eftir Kerst
- http://
http://www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson og texti eftir Kerst
http://www.diadems.no/
Ragdoll kettir. En ég er búin að ákveða að fá mér svoleiðis kött þegar Tító minn er farinn. Þessi Xantos sem er í x gotinu verður væntanlegur forfaðir nýja kisans mín
- Ragdoll kettir Ég ætla að fá afkomanda Xantosar þegar Tító er farinn frá mér.
Tenglar
- http://
- Halldór Guðjónsson sem gerði lagið við ljóðið mitt ´ Huggun' og fleiri ljóð eftir mig Hann er góður
- Ljóð á Tíu þúsund tregawött Framúrstefnuleg ljóð
- Myndir Katrínar K. vinkonu Flottar ljósmyndir
- Myndir Rebekka Frábær og fræg
- Ljóð.is
- Allra veðra von
Bloggvinir
- katrinsnaeholm
- zordis
- katlaa
- jonaa
- halkatla
- ormurormur
- martasmarta
- steina
- gudnyanna
- zoti
- ragjo
- diesel
- estersv
- alit
- toshiki
- kaffi
- svartfugl
- jenni-1001
- laufabraud
- stormsker
- svanurg
- guru
- ingo
- lindagisla
- bjorkv
- prakkarinn
- agny
- bergruniris
- raggibjarna
- maple123
- saethorhelgi
- vglilja
- johannbj
- partners
- vitinn
- zeriaph
- gudrunmagnea
- birtabeib
- iador
- gudrunfanney1
- ibb
- kolgrimur
- skjolid
- bene
- coke
- hux
- nonniblogg
- heringi
- hjolaferd
- amason
- joiragnars
- steinibriem
- rafdrottinn
- siggith
- vefritid
- ljosmyndarinn
- poppoli
- perlaoghvolparnir
- vitale
- skordalsbrynja
- lindalea
- bidda
- manisvans
- scorpio
- haddih
- gattin
- korntop
- brahim
- klarak
- laugatun
- konur
- panama
- sigurfang
- joklamus
- valdimarjohannesson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar