Færsluflokkur: Bloggar
11.6.2008 | 12:42
Nornin
Óla hrökk upp með andfælum, hún hafði sofnað út frá sjónvarpinu að venju. Hún var ein í stofunni. Jónsi löngu farinn í háttinn án þess að hafa fyrir því að vekja hana. Hún var sársvöng enda í enn einum megrunarkúrnum og nú æpti magi hennar á eitthvað sætt, helst súkkulaði, hún var sjúk í súkkulaði. Hún varð að fá súkkulaði strax! Skítt með þennan vonlausa megrunarkúr, hugsaði hún ergileg.
Hún nennti ekki út í sjoppu svo henni datt í hug að vekja Jónsa eins og venjulega. Hann var ekki óvanur því að sendast fyrir hana þegar sætindalöngunin náði tökum á henni, en svo áttaði hún sig á því að komið var fram yfir miðnætti og löngu búið að loka helvítis sjoppunni á horninu.
Hún gæti náttúrulega pantað leigubíl og sent bílstjórann í einhverja næturbúllu eftir súkkulaði. Hún hafði gert það nokkrum sinnum, en nú lagði hún ekki í það, því stúlkan á stöðinni hafði verið svo dónaleg við hana síðast þegar hún hringdi. Hún hafði spurt hana í hæðnistón hvort leigubílstjórinn ætti virkilega bara að kaupa eitt súkkulaðistykki.
Óla hafði fokreiðst. Hvern fjandann var þessi glyðra að skipta sér af því hvað leigubílstjórarnir keyptu fyrir kúnnana? Það kom henni ekki nokkurn skapaðan hlut við. Hún hafði hellt sér yfir þessa óforskömmuðu stúlkukind og skellt svo á hana og nú þorði hún ekki fyrir sitt litla líf að hringja aftur.
Óla ranglaði fram í eldhús og leitaði í öllum skúffum og skápum að súkkulaði en þar var ekkert að finna. Það var ekki einu sinni til kakómalt eða smá súkkulaðbúðingur hvað þá meira. Hún var orðin ösku þreifandi ill út í Jónsa. Hún hafði vonað innst inni að hann hefði keypt súkkulaði handa henni. Hann gerði það stundum án þess að hún bæði hann um það, sérstaklega þegar hún var í megrun, svo fékk hann alltaf óbótaskammir þegar hún var búin að gleypa í sig góðgætið.
Þú vilt bara að ég sé feit sagði hún ætíð við hann eftir á ásamt ýmsu öðru miður fallegu og brast svo ævinlega í grát.
Jónsi vissi ekki lengur hvað sneri upp eða niður þegar kona hans átti í hlut og reyndi því alltaf að hegða sér eins og í spilamennsku og sagði oftast pass.
Óla heyrði eittvað þrusk fyrir aftan sig og sperrti eyrun. Þetta var auðvitað Jónsi að koma fram úr, til þess að fá sér nætursnarl. það voru fastir liðir eins og venjulega.
;Nei ertu vakandi elskan? Tafsaði Jónsi þvoglumæltur þegar andlit hans birtist fyrir hornið á ísskápnum. Ólu fannst þetta svo heimskulega spurt að henni datt ekki einu sinni til hugar að ansa honum.
;Ég er svo svangur;, muldraði Jónsi. ;Það eru nú fleiri', hreytti Óla, afundin út úr sér.
Jónsi hélt áfram. 'Það er svo undarlegt hvað ég verð alltaf matlystugur af þessum svefnpillum'
'Ég vakna undantekningarlaust eftir svona klukkutíma eða svo, svo glorhungraður að ég verð bara að fá mér eitthvað að éta; , tuldraði hann. Óla horfði á bónda sinn. Hann var ekki beint fyrir augað núna. Bara á nærbuxunum einum fata sem pokuðu einhvern veginn utan um hann rétt fyrir neðan ístruna. Bakið bogið eftir tugi ára erfiðisvinnu og æðahnútar á fótleggjunum og til að kóróna allt saman var hann vita tannlaus sem gerði það að verkum að nefið virtist enn stærra en venjulega.
Jónsi opnaði ísskápinn og beygði sig niður til að ná í mjólkina og Ólu langaði allt í einu til þess að sparka í rassgatið á honum Eitt þrumuskot og hlaupa svo eins og andskotinn í burtu, en hún sat á sér og hálfskammaðist sín. Var hún virkilega svona vond manneskja? Hugsaði hún skelfd.
;Ég er líka að drepast úr hungri;, mælti hún lágum rómi. Ha! Sagði Jónsi með hausinn á kafi inni í ísskápnum. 'Mig dreplangar svo í súkkulaði', æpti Óla. ;Hvað er þetta manneskja? ;Það er óþarfi að öskra svona. Þú vekur alla í húsinu með þessum látum´, svaraði Jónsi snöggur upp á lagið.
Af hverju keyptirðu ekkert súkkulaði handa mér?' Vældi Óla ásakandi um leið og Jónsi teygði sig eftir matarkexinu. Hu! Mér datt það ekki í hug', ansaði Jónsi. Þú spikfitnar af því', bætti hann svo við. Þú átt bara að fá þér mjólk og kex eins og ég, sagði hann rogginn um leið og hann snerist á hæl til að labba með bitann sinn upp í rúm.
Ólu langaði mest til að myrða bónda sinn með köldu blóði. Að hann skyldi segja þetta. Hann sem sjálfur var alltof feitur. Honum væri mátulegt að renna á rassgatið með helvítis mjólkina hugsaði hún í heift sinni.
Í sama bili glopraði Jónsi glasinu út úr höndum sér svo það skall í gólfið og innihaldið myndaði stóran poll fyrir framan ísskápinn.
Jónsa varð svo mikið um að honum skrikaði fótur í bleytunni. Hann æpti upp yfir sig um leið og hann missti jafnvægið og matarkexið og lenti á óæðri endanum í miðjum mjólkurpollinum.
Óla starði á Jónsa í forundran þar sem hann sat á gólfinu rennblautur eins og hundur af sundi dreginn, með kexið á floti í pollinum við hliðina á sér. Svo fór hún að hlægja. Hún hló tryllingslega. Benti á eiginmann sinn og hló. Þetta var gott á þig, gat hún loks stunið upp á milli hláturrokanna.
Svo hélt hún áfram að hlægja einkennilega holum hlátri. Andlitsdrættir hennar máðust út í rauðleitri þokumóðu og umbreyttust síðan í ófrýnilega grettu, svo rétt grillti í illúðlegar gular glyrnurnar.
Guðný Svava Strandberg
Bloggar | Breytt 24.6.2008 kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.6.2008 | 02:11
Tveir viðburðaríkir dagar í röð
Í gær sló ég blettinn við blokkina og tók það um fimm klukkutíma. Grasið var orðið svo loðið meðan ég var í Danmörku að sláttuvélin var alltaf að drepa á sér. Þurfti ég að sæta færis þegar karlkyns mannvera átti leið framhjá og biðja um hjálp til að starta vélinni aftur og aftur og aftur... Svo þurfti ég að slá kantana á beðunum með sláttuorfi og líka grasið meðfram allri girðingunni.
En mikið assgoti var bletturinn fallegur þegar ég var búin að slá hann
Trén sem ég keypti eru orðin ansi stór, sérstaklega aspirnar. Það hafði brotnað ein grein á reynitrénu og rétt lafði hún við tréð á nokkrum tægjum.
Ég hjúkraði trénu, setti vatnsheldan plástur utan um greinina og margvafði svo grisju utan um allt saman svo greinin héldist uppi.
Ég hafði gert svipað áður þegar birkikvisturinn brotnaði á einum stað og það brot greri vel.
Birkikvisturinn skartaði meira að segja fallegum hvítum blómum það sumarið. Fjölæru blómin prýða garðinn einnig mikið, túlípanar, hjartablóm, Himalajablágresi. burnirót, silfursóley, fjólur, valmúar og fl. og fl. Ég get verið reglulega stolt af garðinum sem ég hannaði og keypti allt í, ein, nema hengigullregnið, sem húsfélagið keypti. Það var meira að segja sagt á síðasta húsfundi að garðurinn væri okkar sómi.
Svo tók ég til í allri íbúðinn, öllum skápum meira að segja líka og gaf öndunum brauð, Já, gaf öndunum brauð, sagði ég. Það eru andahjón sem halda sig hérna við blokkina og ég traktera þau á heilu brauðsneiðunum trekk i trekk.
Þegar ég var búin að gefa þeim þrjár brauðsneiðar sem þau úðuðu í sig fór ég inn í stofu og hélt áfram að taka til. En eftir smástund heyrði ég ákaft, bra, bra, fyrir utan gluggann. Stóðu þá ekki andahjónin staðföstu rétt við blettinn og störðu upp í svalagluggann til mín í von um meira góðgæti. En þegar ég var tilbúin með meiri birgðir og ætlaði að kasta til þeirra hófu þau sig til flugs og hurfu fyrir hornið á næstu blokk, skammirnar þær arna.
Seinna um daginn þegar ég leit út um gluggann sá ég að svört og hvít læða sem ég kannast aðeins við, af því hún er skotin í Gosa, var að gæða sér á brauðinu á blettinum, að því er virtist með bestu lyst. Í miðjum klíðum var hún ónáðum með háu gargi í starra sem þóttist hafa allan rétt til þessa lostætis og skammaði hann kisu með mikilli frekju, sitjandi bísperrtur á einum af girðingarstaurunum.
Kisa lúskraðist í burtu og faldi sig inni i runnaþykkni, greinilega í veiðihug. Svo þegar starrinn settist hjá brauðmolunum rauk hún undan runnanum og ætlaði sér auljóslega eftir allt saman starrann sjálfan í matinn en ekki brauðdraslið, en starragreyið slapp með skrekkinn, sem betur fer.
Þá hafði kisa þóst hafa áhuga á brauðinu til þess að espa upp fuglana með þessari óvenjulegu hegðun sinni og ætlað sér allan tímann að sæta færis í runnunum til þess að veiða þá.
Kettir eru sko klókir finnst mér og það finnst örugglega fleirum held ég líka.
Þegar ég kom inn frá því að slá blettinn um kl. hálf tíu um kvöldið hringdi sonur minn í mig og óskaði mér til hamingju með að hafa eignast enn eitt barnabarnið , sem fæddist klukkan hálftíu um morguninn. 14 marka strák og allan kafloðinn!! Sagði hann?? Ég vona bara að hann hafi aðeins átt við höfuðhárið á barninu!
Þetta er fimmta barnabarnið mitt og svo er dóttir mín og tengdasonur eftir þegar þau eru búin að prufa það að búa í útlöndum, eða svo segja þau.
Í mögun vaknaði ég hálf átta og kláraði að taka til og brá mér svo í búðir og keypti mér æðisleg náttföt, eldrauð og flott. Ég skrapp líka aðeins í vínbúð og keypti smábjór. þar hitti ég fyrrverandi nemanda minn, sem er snillingur í myndlist og skutlaði hann mér heim í grenjandi rigningunni. Á leiðinni fræddi hann mig um leyndardóma ásatrúarnnar, en hann er eldheitur heiðingi og bætti Þórs nafninu við nafnið sitt, þegar hann gekk í ásatrúarsöfnuðinn. Svo er hann lika algjört séní í kollinum að öllu öðru leyti eins og allrir sannir snillingar auðvitað eru
Ég montaði mig af garðinum við hann og hann kom út úr jeppanum sínum þegar heim til mín var komið til þess að skoða dýrðina. Ég smellti kossi á kinnina á honum með þakklæti fyrir bíltúrinn og hann klappaði mér vinalega á bakið í staðinn og ók svo á brott með bjórbirgðir sínar, heim til sín, til þess að horfa á einhvern andskotans fótboltaleik!!
Í kvöld fór ég svo á kaffihús með vini mínum frá Danmerkurferðinni. Við fórum fyrst á Kaffi Viktor, en þar sem þar var varla nokkur sála færðum við okkur yfir á Café Paris.
Við fengum okkur Sviss Mocca, algjört nammi, namm og síðan sinn hvorn bjórinn og skáluðum fyrir velheppnaðri Danmerkurferð og kjöftuðum um stærðfræði, (en hann er algjör stærðfræðigúru), heimspeki og ljóðlist. Svo ætluðum við að færa okkur yfir á annan bar þar sem vinahópur hans heldur vanalega til, en ákváðum á síðustu stundu að fara að dúlla okkur heim.
Við ákváðum áður en við kvöddumst að fara svo fljótlega í bíó og sjá Beðmál í borginni.
Tító liggur íi fanginu á mér núna á meðan ég blogga og við erum orðin grútsyfjuð. Gosi er löngu sofnaður frammi í stofu, en Tító fer náttúrulega ekki uppí rúm fyrr en ég, hún mamma hans, drattast með barnið i bólið. Góða nótt öll og sofið rótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.6.2008 | 01:12
Súr-realismi
Sú sem ætlaði að sleppa,
er sú sem er græn á brá.
Þetta er lítil mynd af tveim konum að kyssast
og karli sem horfir á.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2008 | 22:16
Heimkoma
Þá er maður komin heim frá Danmörku úr yndislegri ferð í sól og hita allan tímann, allt upp í 24 gráður.
Ég er gengin upp að hnjám, þrátt fyrir óteljandi lestarferðir, eftir margskonar rannsóknarleiðangra í ýmsum þorpum í nágrenni Kaupmannahafnar, þar sem við skoðuðum bæði Kronborgar kastala og Frederiksborgar kastala. Í Kronborgarkastala paufaðist ég meira að segja upp óendanlegan hringstiga, alla leið upp í topp á turni, þrátt fyrir lungnabólguna. 'Ég get nú það sem ég ætla mér.'
Úr turninum sá út yfir alla Kaupmannahöfn og svo náttúrulega til Svíþjóðar. En frá Helsingör þar sem Kronborg er staðsett og yfir til Helsinborg hinum megin við sundið er styst á milli Danmerkur og Svíþjóðar. Svo stutt að gemsinn minn bauð mig meira að segja velkomna til Sverige.
Ég tók með mér hluta af Kronborgarkastala, af því ég tímdi ekki að kaupa mér minjagripi, stærðarinnar stein sem ég boraði með þó nokkurri fyrirhöfn upp úr steinlagðri gangstétt í kastalanum.
Ég var auðvitað logandi hrædd um að einhver öryggismyndavél væri á verði og ég yrði handtekin fyrir að stela konungbornum steini. En ég slapp sem betur fer - og þó, því það kom víst niður á þeim sem síst skyldi, því Holger den danske sem er grafinn í katakombunum undir kastalanum, sneri sér svo harkalega við í gröf sinni við þennan gjörning minn, að bröltið í honum olli víst jarðskjálfta hér á Íslandi???
Það er nebbnilega þa!! Erfitt að hafa stærðarinnar jarðskjálfta á samviskunni.
Svo kíktum við aðeins heim til Frederiks og Mary, krónprinsins og krónprinsessunnar að Fredensborg, en kjarkinn brast þegar við sáum lífverðina og létum við því nægja að sjá höllina að utan.
En mikið andskoti eru þau öll sæt, á myndunum, sem eru á annarri hverri blaðsíðu, af þessari litlu fjölskyldu í dönskum blöðum. Og Christian litli prins, verðandi ellefti, kóngur, er mega mikið krútt og ennþá minni, prinsessu systirin líka.
'Það er munur að vera konungborinn og vera líka svo heppinn að líta út eins og súpermodel', sagði einn ferðafélagi minn hálf súr í bragði.
Við skoðuðum einnig gamalt munkaklaustur og nýlistasafnið í Humlebæk, sem heitir Louisana safnið. Þar var æðisleg yfirlitssýning á verkum Zesanne og Giogamatte.
Við boðuðum ennfremur á útiveitingastað á bryggjusporðinum í einu þorpinu. Æðislega síld og fiskefrikadeller. Ungur og hungraður mávur fylgdist náið með borðhaldinu með sínum gulu glyrnum, frá einum bryggjustaurnum. Og í fyrsta skipti á ævinni vorkenndi ég mávi, svo ég fleygði til hans síldarbita og endaði með því að gefa honum mestallan matar afganginn hjá mér.
Borðfélagi minn bætti svo um betur og skenkti mávagerinu, sem birst hafði eins og hendi væri veifað, úr lausu lofti, alla kartöfluafgangana okkar.
Okkur fannst þetta auðvitað bráðskemmtilegt, en fannst samt soldið skrýtið að fólkið á borðunum í kring gaf okkur illt auga??
Mér fannst landslagið í Danmörku yndislegt eins og alltaf, stórkostlegir skógar með margvíslegum trjám, sem sum eru eins há og fjöll, blómstrandi sírenur, eldrautt blóðbeyki og gullsóparnir þarna voru ekki runnar eins og hér á landi, heldur hálfgerð tré. En rhodondren runnarnir með hvítum, bleikum og bláum blómum báru af. Svo inná milli skógarlundanna lágu friðsæl vötn umlukin bylgjandi hæðum.
Ekki mátti sleppa því að fara í Tívoli þegar við komum til Kaupmannahafnar og þar brá ég mér, með einum félaga mínum í rosalegan rússibana, (að mér fannst að minnsta kosti) og ég var svo hrædd að ég öskraði og gargaði eins og ungabarn með magakrampa.
Ferðaélaga mínum sem var af hinu sterkara kyni fannst víst ekki eins mikið til þessa rússibana koma eins og mér og dekstraði mig til að koma með sér í 'Killer rússíbanann,' þar sem maður þeytist um í háalofti, á hvolfi í óratíma, en ég sagði blákalt nei við þvi góða boði. Ég var búin að fá nóg adrenalín kikk í bili. Í lokin sprönguðum við um á Strikinu og götunum þar í kring og kíktum í búðir.
Í Köben snæddum við líka síðustu kvöldmátíðina í Danmörku, í 15 stiga hita , á útiveitingastað sem heitir Jensens böfhus
Við borðuðum úti í bókstaflegri merkingu á hverju kvöldi og eyddum svo síðustu stundum hvers kvölds, öll saman í sitthverjum sumarbústaðnum við 'ástir, söng og vín'!. En mikið déskoti bregður manni við að koma heim frá hinni gróðursælu, blómstrandi Danmörku og hingað heim í rigninguna síðastliðna nótt.
Mig langar óskaplega að flytja til Danmerkur í smátíma. Leigja út íbúðina mína uppí íbúð í yndislegu þorpi í nágrenni Kaupmannahafnar. En maður sér nú til, það er aldrei að vita hvað verður???
Bloggar | Breytt 1.6.2008 kl. 04:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2008 | 05:40
Söngvarinn (Ort við lagið' When a woman welcomes love', úr popp, salsa óperunni Carmen
Er ég leit í augu þín
einn dag um skamma hríð,
var sem tíminn hætti að tifa um stund,
með tár á hvarmi.
Ég man þá dul
sem dagur rynni nýr
og sál mín varð eitt með þér
og söng þínum.
Þú horfðir yfir hópinn sem safnast hafði um kring.
Þú horfðir yfir hópinn sem safnast hafð´í hring
og leist í augu min svo lengi, að lifnaði ást til þín.
Ég lifði eilífð þá, eða aðeins augnablik,
sem ennþá býr við innstu hjartarætur mínar.
Og ég veit, þó finnumst aldrei meir
á vegi okkar lífs, þá man ég þig.
Ég veit þó finnumst aldrei, á vegi okkar lífs,
þá man ég ætiíð þig og þetta augnablik.
Þú leist í augu mín svo lengi, að lifnaði - ást til þín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2008 | 09:31
Ég er döpur í dag
Eftir að hafa fengið upphringingu frá lækni í gær, sem sagði að það væru blettir í öðru lunganu mínu. Ég vissi svo sem að eitthvað væri að. Ég hef verið svo mæðin og svitnað svo ofboðslega við minnstu áreynslu, að það hefur beinlínis lekið af mér í dropatali. Svo rýkur hitinn upp öðru hvoru, allt upp í 38,5 stig. Matarlystin hefur líka verið óvenju léleg og mér er annaðhvort allt of heitt eða of kalt.
Ég hef fengið 7 sinnum lungnabólgu á undanförnum 5 árum og þær héldu áfram að koma þrátt fyrir að ég hætti að reykja 10.október 2006, þegar ég hætti eftir að hafa verið lögð inn á spítala með súrefnismettun niður í 85 %, svo ég þurfti að fá súrefni á spítalanum.
Nú á ég að fá, enn einn tvöfaldan sýklalyfjakúr og viku eftir að ég lýk honum á að taka röntgen myndir aftur af lungunum. Og ef að blettirnir verða ekki farnir þá, þarf að senda mig í sneiðmyndatöku til þess að athuga hvort þetta geti verið eitthvað annað og verra.
'Ég er hrædd', sagði ég við lækninn minn sem hringdi í mig. 'Ja, ég get ekki tekið það frá þér', sagði hann bara'
Það er nú það, en ég ætla samt til Danmerkur með vinum mínum á aðfaranótt mánudags.Svo verður maður bara að vona það besta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.5.2008 | 00:45
Bloggað fyrir svefninn
Ég hélt smá grillveislu fyrir son minn, dóttur og tengdason á sunnudaginn. Mér finnst gaman að grilla, þó að ekki eigi ég neitt grill, kaupi alltaf skyndigrill þegar ég grilla. Ég er svo logandi hrædd við að hafa gasgrill á svölunum, er smeyk um að það springi í loft upp og það kvíkni í íbúðinni. Svo logar alltaf, alltof of glatt í stórum kolagrillum, þess vegna nota ég þessi skyndigrill.
Ég var ekki byrjuð að grilla þegar krakkarnir komu, en kveikti í kolunum fljótlega og svo fengum við okkur bjór og skáluðum fyrir myndunum sem Erla Ósk dóttir mín og Rafn sonur minn höfðu gert og komið með, með sér, alveg að springa úr monti, til að sýna mömmu sinni.
Ég var alveg orðlaus þegar ég sá myndirnar. það lá við að ég færi í fýlu, því mér fannst þær svo miklu flottari en mínar myndir, samt hafa þau ekkert lært myndllist nema í grunnskólanum. En ég harkaði af mér og hrósaði þeim í hástert. Mikið andskoti eru þau góð í þessu hugsaði ég þræl öfundsjúk, en svo rann það upp fyrir mér að kannski hefðu þau erft einhver gen frá mér og þá lak fýlan af mér, sem reyndar staldraði bara við eitt augnablik.
Erla Ósk, sem er viðskiptafræðingur eins og kærastinn, ætlaði reyndar að verða gullsmiður eftir að hún úrskrifaðist úr menntaskóla. Hún hafði gert framúrskarandi hluti í málmsmíði í grunnskóla og erlendum kennurum sem heimsóttu skólann voru sýndir gripirnir hennar.
Ég fór með Erlu Ósk til Jens gullsmiðs á sínum tíma, en hann sagði að það væri enginn leið fyrir hana, til að komast nokkurs staðar að í gullsmíðanám.
Svo til þess að læra nú eitthvað fór hún í 'hallæri' í Háskóla Íslands og lærði þar fyrst ferðamálafræði og síðan viðskiptafræði. Svo þegar hún keypti íbúðina með kærastanum vantaði þau matarstell og þá brá hún sér á glernámskeið hjá Glit og bjó sér til matarstell.
Það var flott matarstellið, en aðrir hlutir og skrautdiskar sem hún gerði voru hreint út sagt, 'uniq' , svo yndislega fallegir og allt, allt öðruvísi en allt það sem aðrir glerlistamenn eru að gera. Hún hefur alveg einstakan stíl í verkum sínum. Já, Erla hefur svo sannarlega myndlistarhæfileika, ég man að þegar hún var fimm ára gat hún teiknað eftir fyrirmynd bangsa sem var nákvæmlega eins og fyrirmyndin.
Nú er hún að fara til Þýskalands bráðum með kærastanum til þess að vinna og kannski læra meira og ég spurði hana af hverju hún skellti sér ekki í hönnunarnám þar í landi, þar sem hún væri svona klár.
'Neihei, sagði hún, ég kæri mig ekkert um að fá minna í launaumslagið mitt'
Blessað barnið og ég sem er viss um að hún gæti orðið frægur hönnuður. Ég hugga mig við það að listin kalli á hana seinna í lífinu, annars er þetta hennar líf en ekki mitt.
Rafn sonur minn hefur alltaf verið listrænn og hugmyndaríkur. Þegar ég sá fyrir mér um tíma með því að gera myndir á túristaboli, kom hann alltaf með frábærar hugmyndir og krítiseraði myndirnar óspart og hann hafði alltaf rétt fyrir sér. Hann er eftirsóttur silkiprentari og fyrirtækin hafa slegist um hann og boðið í hann.
Einu sinni fékk hann alveg spes verkefni, en það var að prenta blómamynstur á kjólaefni úr silki, sem úr var saumaður kjóll fyrir tískusýningu sem haldin var í París.
Myndirnar hans eru líka fallegar og það leikur allt í höndunum á honum . Hann hannaði sér t.d. vínrekka úr plexigleri og smíðaði hann og hann er með óteljandi hugmyndir að allskonar húsgögnum sem hann langar að búa til.
Nú er hann líka orðinn forfallinn garðræktandi eins og ég og hefur eytt undanförnum vikum við að endurhanna garðinn við raðhúsið sitt.
Ég var með lambalærissneiðar í matinn og kartöflusalat með olívum og sóþurrkuðum tómötum, salat og grillaða tómata og hvítlaussósu. Ég sem varla get borðað lambakjöt af því ég fer alltaf að hugsa um litlu nýfæddu lömbin sem fæðast á vorin eins og t.d. núna, missti algjörlega lystina þegar ég sá að kjötið var ennþá hrátt. Og ekki bara mitt kjöt, heldur hjá öllum hinum líka. Ég skellti lambalæris sneiðunum á pönnu með olívuolíu í þrjár mínútar og þá voru þær orðnar fínar.
Ég ætlaði reyndar ekki að borða neitt kjöt, út af blessuðum saklausu lömbunum en slysaðist til að stinga upp í mig einum bita. Það var svo braðggott að ekki var aftur snúið og ég klaraði af disknum minum, svo ég stóð á blístri.
Ég hugsaði með mér til að bæta samviskuna, að lambið væri hvort sem er dautt og því væri allt í lagi að éta það, því það hefði enga hugmynd um það, að það hefði verið étið.
Samt datt mér í hug sagan sem ég myndskreytti 'Ævintýri í sveitinni' Í einum kaflanum fer smalinn úr Reykjavíkað leita að lambi sem týnst hafði og fann það, þar sem það hafði fest aðra afturlöppina í gaddavírsgirðingu. Hann losaði lambið og þar sem það var sært og gat ekki gengið bar hann það á herðunum langar leiðir heim í bæ. Nú voru allir á bænum voða góðir við litla særða lambið og það var gert að heimalning.
Svo rann upp gangnadagur og gangnamenn og þar á meðal stráksi fengu sérstaklega góðan mat áður en þeir lögðu upp í göngurnar, ilmandi nýja kjötsúpu. Strákur át með bestu lyst þar til það rann upp fyrir honum að þetta, sem hann var að borða, var ltla lambið vinur hans,sem hann hafði borið heim sært og veikt og hlúð að og gefið pela.
Við fengum okkur ís með heitri súkkulaðisósu í desert og kláruðum rauðvínið og bjórinn okkar, en Erla drakk bara botnfylli af rauðvíni, af því hún þurfti að keyra heim
En næst á dagskrá er að bregða sér til útlanda í smátíma og skvetta almennilega úr klaufunum.
Bloggar | Breytt 22.5.2008 kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.5.2008 | 00:46
Vinátta og friður eða Ying og Yang
Hve ég vildi óska að allir menn í heiminum ekki bara í landinu okkar væru eins góðir vinir eins og hann Tító minn og hann Gosi minn, sem hér lúra saman eins og þeir gera svo oft.
það berast sífellt hræðilegar fréttir utan úr heimi, eins og t.d. frá Austurríki, þar sem hver hörmungaratburðurinn rekur annan. Mannvonskan virðist oft ekki eiga sér nein takmörk.
Jarðskjálftar skekja Kína þar sem fólk liggur grafið undir rústum og á sér enga lífsvon og í Mjanmar eða Búrma voru nýlega hryllileg flóð þar sem tugþúsundir ef ekki hundruð þúsund manna létu lífið.
Hér heima er allt á niðurleið, kreppan farin að segja til sín og fólki sagt upp störfum í tugatali. Lóðir sem fólk hefur keypt er skilað og óseldir bílar hrannast upp.
Og borgarstjórnin okkar er í bullandi upplausn, því þar er hver höndin upp á móti annarri, enda hafa sjálfstæðismenn tapað miklu fylgi meðal borgarbúa.
En þó skein sólin í dag í Reykjavík og túlípanarnir úti í garði opnuðu krónur sínar mót sólinni, lífgjafa okkar allra. Hunangsflugurnar sveimuðu á milli þeirra á fullu við að safna hunangi og börnin léku sér á hjólunum sínum og hrópuðu og kölluðu glaðlega sín á milli, á pólsku.
Ég horfði á þau og hugsaði með mér, hve allt er breytingum undirorpið. það eru ekki nema svona rúmur áratugur síðan flestallir Íslendingar voru innbornir hér á landi. En í dag er mannflóran orðin litríkari. Börnin hér í hverfinu og fullorðna fólkið líka, er orðið alla vegana á litinn, hvítt, brúnt, gult og svart. Og það heyrir til undantekninga að sjá litla glókolla að leik, hvað þá rauðhausa.
En mér er nokk sama hvernig fólk er á litinn, það er innrætið sem skiptir mestu máli en ekki hörundsliturinn og sjálf á ég þrjú barnabörn sem eru asísk í móðurætt,. Ég sé þau bara alltof sjaldan og bráðum bætist meira að segja eitt barn við hjá þeirri fjölskyldu.
En svo á ég eitt barnabarna í viðbót, sonarson sem er ljóshærður og með þau bláustu augu sem ég hef á ævi minni séð.,( fyrir utan augun hans Tíós.) En öll barnabörnin mín standa samt hjarta mínu jafnnærri.
Dóttir mín og tengdasonur sem fara utan á næstunni til þess að víkka sjóndeildarhringinn munu ekki gefa mér barnbörn næstu tvö árin sagði dóttir mín. Ég hugsa stundum hvort 'heilaþvottur' minn á henni þegar hún var lítil telpa hafi dugað svona vel eða hvort allt sem hún hefur gert sé alfarið frá henni sjálfri komið?
Ég innrætti henni fyrst og fremst að mennta sig vel, fá sér góða vinnu, eignast eigið húsnæði og sjá heiminn og svo skyldi hún fyrst þar á eftir, fara að huga að barneignum.
Allt hefur þetta gengið eftir hjá henni og nú er komið að því að búa í útlöndum. Svo eru þau líka að fara í sumar í tveggja vikna frí til Parísar. Þau fóru sniðuglega að því, þar sem þau hafa íbúaskipti við Parísarbúa.
Já, allt gengur sinn vanagang í heiminum þrátt fyrir stríð og ógnaröld og ég er bráðum á leiðinni út í heim líka. þó að ekki fari ég langt, aðeins til Danmerkur, en þangað er alltaf jafngaman að koma. Ég hef ekki áhyggjur af þeim Tító og Gosa á meðan, því börnin mín ætla að skiptast á um að koma til þeirra, (svo þarf auðvitað að vökva blómin mín á meðan líka.)
En fyrst og fremst munu kislingarnir mínir gæta hvors annars á meðan ég er í burtu, leika sér í blómskrúðinu á svölunum og kúra sig að hvor öðrum meðan þeir bíða þess að 'mamma' komi heim.
Ó hve það er góð tilfinning, að einhver muni sakna manns þegar maður skreppur frá í smátíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.5.2008 | 21:03
Prom dress
**Dad makes prom dress out of
condoms**
About the time you thought
you had seen it all,
here's a 'safe sex' dress!
Pretty original,
to say the least
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Eldri færslur
- Desember 2014
- Apríl 2013
- Janúar 2013
- Nóvember 2012
- Ágúst 2012
- Október 2011
- Júní 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- September 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Nóvember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Júlí 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Tenglar
http:www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson, texti eftir Kerst
- http://
- Halldór Guðjónsson lagasmiður og Kerst textahöf. Flott lög eftir Halldór Guðjónsson og textar eftir Kerst
- http://
http://www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson og texti eftir Kerst
http://www.diadems.no/
Ragdoll kettir. En ég er búin að ákveða að fá mér svoleiðis kött þegar Tító minn er farinn. Þessi Xantos sem er í x gotinu verður væntanlegur forfaðir nýja kisans mín
- Ragdoll kettir Ég ætla að fá afkomanda Xantosar þegar Tító er farinn frá mér.
Tenglar
- http://
- Halldór Guðjónsson sem gerði lagið við ljóðið mitt ´ Huggun' og fleiri ljóð eftir mig Hann er góður
- Ljóð á Tíu þúsund tregawött Framúrstefnuleg ljóð
- Myndir Katrínar K. vinkonu Flottar ljósmyndir
- Myndir Rebekka Frábær og fræg
- Ljóð.is
- Allra veðra von
Bloggvinir
-
katrinsnaeholm
-
zordis
-
katlaa
-
jonaa
-
halkatla
-
ormurormur
-
martasmarta
-
steina
-
gudnyanna
-
zoti
-
ragjo
-
diesel
-
estersv
-
alit
-
toshiki
-
kaffi
-
svartfugl
-
jenni-1001
-
laufabraud
-
stormsker
-
svanurg
-
guru
-
ingo
-
lindagisla
-
bjorkv
-
prakkarinn
-
agny
-
bergruniris
-
raggibjarna
-
maple123
-
saethorhelgi
-
vglilja
-
johannbj
-
partners
-
vitinn
-
zeriaph
-
gudrunmagnea
-
birtabeib
-
iador
-
gudrunfanney1
-
ibb
-
kolgrimur
-
skjolid
-
bene
-
coke
-
hux
-
nonniblogg
-
heringi
-
hjolaferd
-
amason
-
joiragnars
-
steinibriem
-
rafdrottinn
-
siggith
-
vefritid
-
ljosmyndarinn
-
poppoli
-
perlaoghvolparnir
-
vitale
-
skordalsbrynja
-
lindalea
-
bidda
-
manisvans
-
scorpio
-
haddih
-
gattin
-
korntop
-
brahim
-
klarak
-
laugatun
-
konur
-
panama
-
sigurfang
-
joklamus
-
valdimarjohannesson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.5.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 195967
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar