Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kvikmyndir

Nauðg-um-ferðarbrot

Það lá við að mér væri nauðgað í dag
þegar bíllinn fyrir aftan mig reyndi
að troða sér inn í púströrið hjá mér.

Lifandis skelfing er maður orðin þreyttur á umferðarþunganum í Reykjavík. Ég og vinkona mín vorum fyrir stuttu á leið heim úr vinnunni og það tók heilan klukkutíma að þokast bara eftir Hringbraut og Miklubraut.
Það lá við að bílarnir færu uppá hvern annan á leiðinni, svo hættulega stutt var á milli þeirra í endalausri röðinni, sem náði alla leið frá Háskólasvæðinu og upp í Breiðholt.
Er það kannski tóm steypa hjá mér að það kæmi betur út bæði fjárhagslega - og heilbrigðslega séð, ef járnbrautar eða sporvagnakerfi yrði komið á í Reykjavík, ég bara spyr?
Eitthvað hlýtur það alla vega að kosta okkur að þurfa sífellt að láta endurnýja malbikið á mestu umferðargötunum ár eftir ár því göturnar koma eins og gatasigti á hverju vori undan vetrinum.
Þær þola ekki allan þennan umferðarþunga.
Ég veit það ekki en mér finnst þetta vera eins og að pissa í skóinn sinn, eða þá einna líkast húsverkum sem aldrei taka enda og sem ég þoli alls ekki, að vera sífellt að malbika ofan á malbik.
Svo eru heldur ekki svo litlar framkvæmdirnar sem ráðist er í til þess að allir bílarnir komist nú örugglega leiðar sinnar, í formi allskonar brúa og boga sem bera við himinbláman og er hreinasta sjónmengun að því. 
Svo er tíminn líka alltof dýrmætur til þess að eyða honum í glórulausar bílferðir fram og til baka.
Það er svo margt annað skemmtilegt sem hægt væri að nýta tímann í.
Ekki bætir loftmengunin sem bíldruslurnar framleiða heldur úr skák.
Það er enda engin furða að mengunin sé mikil þar sem nánast hver einasti Reykvíkingur yfir 17 ára aldri á sinn eiginn bíl.
Einn franskur vinur minn sagði mér það að það væri ekki hægt að líkja því saman hversu umferðin væri minni í París heldur en í Reykjavík, sem er þó nokkrum milljónum manna fámennari borg.
Þess vegna held ég því fram að það sem okkur vantar mest hér í Reykjavík sé járnbrautarkerfi.
Þá gætu menn setið og slappað af á leiðinni í vinnuna í stað þess að vera með sífelldar áhyggjur af því hvort næsti bíll ætli að abbast eitthvað upp á þinn eiginn bíl með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.


Bóndinn getur orðið súr í bragði...

.. ef ei býðst honum súrmeti í munn.

Það er bóndadagurinn í dag eins og allir vita og Þorrinn byrjaður samkvæmt okkar gamla mánaðatali. 
Það er því um að gera að nýta Þorra gamla til þess að raða í sig bráðhollum súrmatnum, það er að segja ef maður hefur efni á þess konar lúxus eða þá lyst til.
Því okkar gamli þjóðlegi matur sem 'hélt þjóðinni gangandi í aldir' eins og segir í Morgunblaðinu er merkilegt nokk orðinn munaðarvara í dag.

Ber þar harðfiskinn hæst, eins og vera ber, á um fimm þúsund krónur kílóið, en hákarlinn fylgir fast á eftir, á krónur fjögur þúsund og sexhundruð kílóið, í bitum það er að segja.
Hvað ætli einn meðalstór hákarl leggi sig þá á í krónum talið í heilu lagi? Mér er spurn?


Það er ekki þar með sagt að mér þyki hákarl góður á bragðið þó hann sé dýr enda verður maður víst að venjast bragðinu, segja menn.
 

En þar sem alsiða er að drekka íslenskt brennivín með hákarli venst hann víst bara furðuvel að sögn fróðra manna og skyldi engan undra er til virkni brennivínsins þekkir.
En það ku að sögn geta valdið hinum furðulegustu skyn - og bragðvillum og meira að segja hinum neyðarlegustu hegðunarvillum líka.

Get ég þar trútt um talað og um vitnað, því eitt sinn er ég var á þjóðhátíð í Eyjum, er ég var mjög ung stúlka og undir allmiklum áhrifum af okkar fyrrnefnda brennivíni, át ég í óðagoti annað eyrað af sviðakjamma nokkrum. 

Hafði ég þó aldrei látið slíkt ljúfmeti inn fyrir mínar varir fyrr en þarna. Sökum þess að  mér hafði ætíð orðið hugsað til eyrnamergs  (sem mér hugnast ekki til átu) þegar sviðakjammar með eyrum og öllu öðru sem hausum tilheyra, lentu óvart á disknum mínum.

Varð mér ekki um sel er við söguna bættist daginn eftir, að þegar ég hafði lokið við að gæða mér á áðurnefndu eyra með bestu lyst, hefði ég hent öllum afgangnum af svo til óétnum sviðakjammanum inn um næsta opna og upplýsta glugga sem á vegi mínum varð.

Síðan þetta gerðist hef ég ekki getað horft framan í nokkurn ærlegan sviðahaus án þess að skammast mín alveg niður í tær.


Þorramatinn hef ég líka látið algerlega í friði eftir þetta og sömuleiðis passað mig á brennivíninu. 

En verði ykkur hinum að góðu.


Kynferðislegt ofbeldi plús heimilisofbeldi

Ég hef fylgst með umræðum á blogginu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum eftir þessar hræðilegu fréttir um það sem gerðist í Heyrnleysingjaskólanum.

Lagði reyndar sjálf inn smá innlegg varðandi þessi mál hér á blogginu.
það eru mörg ár liðin síðan þessir glæpir voru framdir í Heyrnleysingjaskólanum en á þeim tíma voru svona hlutir þaggaðir í Hel. En sem betur fer hefur vaxandi umræða um þessi málefni orðið til þess að æ fleiri börn, konur og menn þora að segja sögu sína.

Áður fyrr var oft litið svo á að skömmin væri þeirra sem lentu í höndum glæpamannanna en ekki öfugt en það viðhorf hefur breyst með vaxandi umfjöllun þessarra ógeðfelldu mála.
Ekki síst má Þakka Thelmu Ásdísardóttur fyrir það hugrekki að segja sögu sína að fordómar gegn þeim sem lent hafa í þessum ósköpum hafa hreinlega gufað upp.
Einnig hafa samtökin Blátt áfram haft sitt að segja varðandi þetta efni með því að opna umræðuna enn frekar, bæði með fræðslu og einnig sérstaklega 'blátt áfram' auglýsingum í fjölmiðlum.

En það er annað ofbeldi sem ekki hlýtur eins mikla umfjöllun og það er heimilisofbeldi.
Þar eru það alla jafnan konur sem verða fyrir allskonar misþyrmingum og andlegri niðurlægingu jafnvel áratug eftir áratug af hendi eiginmanna sinna eða sambýlismanna.
Oftar en ekki eru þær konur sem verða fyrir þessu glæpasamlega atferli, ekki færar um að brjóta sér leið út úr svona sjúkum samböndum, því ósjaldan eru þær einmitt fyrrverandi þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku.
Og því miður bitnar heimilsofbeldi einnig á börnum sem verða vitni að því beint eða óbeint.

Því hvert það barn sem elst upp við það að geta ekki sofnað í rúmi sínu vegna ótta við það, að á hverri stundu geti það átt von á því að heyra hróp, grát eða hávaða af völdum átaka berast inn til sín, verður jafnan fyrir óbætanlegum skaða í lífi sínu.

Því tel ég mikla þörf á að stofnuð verði samtök sem ná til og vekja athygli á þessum börnum og konum sem búa við stríðsástand á heimili sínu, stað sem annars ættu að vera þeirra griðastaður.


þess konar samtök gætu vonandi eytt þeirri skömm sem fylgir þolendum heimilisofbeldis og komið í veg fyrir að allt of mörg börn verði á einhvern hátt undir í lífinu og jafnframt hjálpað mæðrum þeirra til þess að koma sér á réttan kjöl að nýju.
Síðast en ekki síst mætti komast fyrir þá óhamingju sem ofbeldisfjölskyldur lenda oft í sem er enn frekari upplausn og ósætti innan fjölskyldunnar t.d. milli hinna ógæfusömu mæðra og enn ógæfusamari barna þeirra.

Varðandi þá sem beita ofbeldinu ættu einnig að vera til hjálparsamtök og held ég að vænlegast til árangurs í þeim efnum væri tólf spora kerfið. Það er að segja eftir að þessir gerendur hafa tekið út sína refsingu eða meðferð.


Freistingar fyrrverandi stórreykingakonu

Ég skoppaði út í búð í dag á nýju skaflajárnunum mínum,  nei annars mannbroddar heitir þetta víst. En ég hef svona síðustu ár of t verið eitthvað einkennilega hrædd við það að detta í snjó og hálku og fjárfesti því nýlega í þessum bráðnauðsynlegu en nauðaljótu mannbroddum.

Annars var svo sem engin hálka í dag en nóg var aftur á móti af sköflunum.

Satt að segja hafði ég ekki farið út úr húsi alla helgina heldur legið yfir því að teikna og lesa. Nú og svo náttúrulega tölvunni minni, sem Tító kötturinn minn hatar, af því hann heldur að ég elski hana heitar en hann.

Ég  notaði  tækifærið og heimsótti vinkonu mína á leiðinni heim úr Bónus. Hún bauð mér upp á kaffi sem ég þáði með þökkum. En þegar hún dró upp sígarettupakka og kveikti sér í einni var ég fljót að finna afsökun til þess að koma mér út.  Ég er ekki svona fanatísk heldur svona tæp.  Því þó að ég hafi hætt að reykja 10. október á afmælisdegi systkina minna, tvíburanna blessaðra,  þá má ég varla sjá sígarettu án þess að langa til að hrifsa hana til mín og svæla henni svo oní mig. Því hef ég passað vel upp á það að eiga aldrei sígarettur og líka að fara aldrei aftur inn í reykingakompuna í vinnunni.

Annars er ég búin að vera afskaplega dugleg í tóbaksbindinu en því miður hef ég líka verið iðin við það að narta í mat á milli mála. Mér varð það ljóst þegar ég brá mér á útsölu fljótlega eftir áramótin að þessi nýtilkomni ávani minn, hafði haft mjög svo óæskilegar afleiðingar í för með sér. Ég þurfti nebbnilega tveimur númerum stærra í fatnaði en áður.

En ég hugsaði með mér þarna í búðinni þegar það rann upp fyrir mér að ég hafði blásið svona út, að það væri miklu skárra að vera smá feit heldur en bráðfeig og keypti mér svo með góðri samvisku glæsilegan leðurjakka eins og mig hefur alltaf langað svo í. Ég hafði auðvitað efni á að kaupa svona flottan jakka, af því að ég var hætt að reykja. Ég keypti mér meira að segja tvær blússur og eina meiriháttar peysu líka,  í sömu búðinni.

Já það segir fljótt til sín að maður/kona hefur meiri peninga milli handanna þegar hætt er að reykja. Þess vegna flýtti ég mér út frá vinkonu minni í dag því ég hef engan áhuga á því

scan0026

að fara að reykja aftur með tilheyrandi bronkítis og jafnvel lungnabólgu og síðast en ekki síst blankheitum.

En við vinkona mín ætlum saman í bíó á morgun og ég ætla ekki með henni þegar hún fer út til þess að reykja í hléinu.

 ps. Ég byrja í líkamsrækt á miðvikudaginn.

  


'Víða hart í búi hjá smáfuglunum'

Ég rak augun í þessa fyrirsögn í Morgunblaðinu um það að smáfuglarnir okkar ættu bágt núna og það er víst satt og rétt að litlir fuglar séu svangir og kaldir núna í þessum snjó og harðindum.

En hvað með litlu mýsnar, ætli þær séu ekki líka svangar og kaldar?

Jú örugglega eru þær það, en með músagreyin gegnir bara allt öðru máli. Því ef mýs gerast svo fífldjarfar að leita á náðir okkar mannanna í þeirri fávísu von að við munum seðja hungur þeirra, þá bíður þeirra undantekningarlaust ekkert annað en miskunnarlaus dauðinn.

Svona er nú mannskepnan margskipt í eðli sínu. Við mennirnir erum aðeis góðir við þau dýr sem okkur eru þóknanleg.

En setjum nú sem svo að við bærum umhyggju fyrir músum jafnt sem fuglum. Þá gæti fréttin sem fylgdi fyrirsögninni hér að ofan hafa hljóðað á þessa leið.

 

                          Víða hart í búi hjá músunum

Þegar allt er hvítt yfir að líta er örðugra fyrir mýsnar að verða sér úti um fæðu og því um að gera að muna eftir þeim.
Það gerði hún Lea Hrund á Húsavík í dag og á myndinni sést hún vera að gefa músunum.
Að sögn fréttaritara Morgunblaðsins á Húsavík leið ekki á löngu þar til nokkrar þeirra voru farnir að gæða sér á fóðrinu.

 

Ég læt svo í lokin fljóta með ljóðið-

 

                         Gildran

 

                     Þau sækja á hug minn

                     svörtu augun

                     er spegluðu ótta

                     og angist dauðans.

                     Svo þreytt var hún orðin

                     og þjökuð af hræðslu

                     þó reyndi hún að synda

                     því hún elskaði lífið

                     og óttaðist dauðann.

 

                     Ég var tólf ára telpa 

                     sem trúði á hið góða.

 

                     - Í sveit þetta sumar.

 

                      Hún synti til dauða

                      þó svörtu augun

                      mig sárbændu um líf.

 

                      En ég mátti ekki hjálpa.

 

                      Þau sækja á hug minn

                      svörtu augun.

                      - Svörtu litlu músaraugun.

 


Mannhatarinn?

Angry

Það rann upp fyrir mér í dag þegar andskotans snjóbylurinn skall á

að ég er öllu fúsari til þess að gefa smáfuglunum brauð en mér

ókunnu fólki sem sveltur í útlöndum.

Mér finnst líka miklu huggulegra að knúsa kettina mína heldur

en útkámug ungabörn.


Þyrnirós eða hvað?

Hvernig í ósköpunum stendur á allri þessarri ofankomu og skítakulda? Virka þessi gróðurhúsaáhrif svona þrælöfugt eða hvað? Ef svo er verðum við öll beinfrosin áður en að því kemur að hitna fer í kolunum.

 

Þyrnirós og prinsinn og hvíti hesturinn

 

Kannski þetta verði bara eins og önnur útfærsla af ævintýrinu um Þyrnirós og við verðum öll í frystu formi í hundrað ár.

Eða allt þar til gróðurhúsaáhrifin koma eins og prinsinn á hvíta hestinum og bræða okkur með svo  heitum kossi að við vöknum til lífsins að nýju.

Það skyldi þó aldrei vera? 


« Fyrri síða

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband