Færsluflokkur: Ferðalög
31.5.2008 | 22:16
Heimkoma
Þá er maður komin heim frá Danmörku úr yndislegri ferð í sól og hita allan tímann, allt upp í 24 gráður.
Ég er gengin upp að hnjám, þrátt fyrir óteljandi lestarferðir, eftir margskonar rannsóknarleiðangra í ýmsum þorpum í nágrenni Kaupmannahafnar, þar sem við skoðuðum bæði Kronborgar kastala og Frederiksborgar kastala. Í Kronborgarkastala paufaðist ég meira að segja upp óendanlegan hringstiga, alla leið upp í topp á turni, þrátt fyrir lungnabólguna. 'Ég get nú það sem ég ætla mér.'
Úr turninum sá út yfir alla Kaupmannahöfn og svo náttúrulega til Svíþjóðar. En frá Helsingör þar sem Kronborg er staðsett og yfir til Helsinborg hinum megin við sundið er styst á milli Danmerkur og Svíþjóðar. Svo stutt að gemsinn minn bauð mig meira að segja velkomna til Sverige.
Ég tók með mér hluta af Kronborgarkastala, af því ég tímdi ekki að kaupa mér minjagripi, stærðarinnar stein sem ég boraði með þó nokkurri fyrirhöfn upp úr steinlagðri gangstétt í kastalanum.
Ég var auðvitað logandi hrædd um að einhver öryggismyndavél væri á verði og ég yrði handtekin fyrir að stela konungbornum steini. En ég slapp sem betur fer - og þó, því það kom víst niður á þeim sem síst skyldi, því Holger den danske sem er grafinn í katakombunum undir kastalanum, sneri sér svo harkalega við í gröf sinni við þennan gjörning minn, að bröltið í honum olli víst jarðskjálfta hér á Íslandi???
Það er nebbnilega þa!! Erfitt að hafa stærðarinnar jarðskjálfta á samviskunni.
Svo kíktum við aðeins heim til Frederiks og Mary, krónprinsins og krónprinsessunnar að Fredensborg, en kjarkinn brast þegar við sáum lífverðina og létum við því nægja að sjá höllina að utan.
En mikið andskoti eru þau öll sæt, á myndunum, sem eru á annarri hverri blaðsíðu, af þessari litlu fjölskyldu í dönskum blöðum. Og Christian litli prins, verðandi ellefti, kóngur, er mega mikið krútt og ennþá minni, prinsessu systirin líka.
'Það er munur að vera konungborinn og vera líka svo heppinn að líta út eins og súpermodel', sagði einn ferðafélagi minn hálf súr í bragði.
Við skoðuðum einnig gamalt munkaklaustur og nýlistasafnið í Humlebæk, sem heitir Louisana safnið. Þar var æðisleg yfirlitssýning á verkum Zesanne og Giogamatte.
Við boðuðum ennfremur á útiveitingastað á bryggjusporðinum í einu þorpinu. Æðislega síld og fiskefrikadeller. Ungur og hungraður mávur fylgdist náið með borðhaldinu með sínum gulu glyrnum, frá einum bryggjustaurnum. Og í fyrsta skipti á ævinni vorkenndi ég mávi, svo ég fleygði til hans síldarbita og endaði með því að gefa honum mestallan matar afganginn hjá mér.
Borðfélagi minn bætti svo um betur og skenkti mávagerinu, sem birst hafði eins og hendi væri veifað, úr lausu lofti, alla kartöfluafgangana okkar.
Okkur fannst þetta auðvitað bráðskemmtilegt, en fannst samt soldið skrýtið að fólkið á borðunum í kring gaf okkur illt auga??
Mér fannst landslagið í Danmörku yndislegt eins og alltaf, stórkostlegir skógar með margvíslegum trjám, sem sum eru eins há og fjöll, blómstrandi sírenur, eldrautt blóðbeyki og gullsóparnir þarna voru ekki runnar eins og hér á landi, heldur hálfgerð tré. En rhodondren runnarnir með hvítum, bleikum og bláum blómum báru af. Svo inná milli skógarlundanna lágu friðsæl vötn umlukin bylgjandi hæðum.
Ekki mátti sleppa því að fara í Tívoli þegar við komum til Kaupmannahafnar og þar brá ég mér, með einum félaga mínum í rosalegan rússibana, (að mér fannst að minnsta kosti) og ég var svo hrædd að ég öskraði og gargaði eins og ungabarn með magakrampa.
Ferðaélaga mínum sem var af hinu sterkara kyni fannst víst ekki eins mikið til þessa rússibana koma eins og mér og dekstraði mig til að koma með sér í 'Killer rússíbanann,' þar sem maður þeytist um í háalofti, á hvolfi í óratíma, en ég sagði blákalt nei við þvi góða boði. Ég var búin að fá nóg adrenalín kikk í bili. Í lokin sprönguðum við um á Strikinu og götunum þar í kring og kíktum í búðir.
Í Köben snæddum við líka síðustu kvöldmátíðina í Danmörku, í 15 stiga hita , á útiveitingastað sem heitir Jensens böfhus
Við borðuðum úti í bókstaflegri merkingu á hverju kvöldi og eyddum svo síðustu stundum hvers kvölds, öll saman í sitthverjum sumarbústaðnum við 'ástir, söng og vín'!. En mikið déskoti bregður manni við að koma heim frá hinni gróðursælu, blómstrandi Danmörku og hingað heim í rigninguna síðastliðna nótt.
Mig langar óskaplega að flytja til Danmerkur í smátíma. Leigja út íbúðina mína uppí íbúð í yndislegu þorpi í nágrenni Kaupmannahafnar. En maður sér nú til, það er aldrei að vita hvað verður???
Ferðalög | Breytt 1.6.2008 kl. 04:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.5.2008 | 22:59
Sumarið er gengið í garð og þrír mánuðir í þjóðhátíð
Ég hef verið að fylgjast með býflugnadrottningu hér utan við húsið í nokkra daga. Hún er eins stór og kólibrífugl og ég held að hún sé örugglega að leita sér að hentugum stað fyrir búið sitt.
Ég horfði á hana út um opinn gluggann síðdegis þar sem hún sveimaði um garðinn, augljóslega í rannsóknarleiðangri. Hún var svo feit og falleg og mikið mega krútt.
Ég vona bara að hún finni sér hentugan bústað til að verpa í og fjölga býflugnakyninu.
Það hefur líka verið mikið af þröstum undanfarið hér í garðinum, að leita sér að æti og mér sýnist þeir vera búnir að para sig.
Þegar sumar og sól gengur í garð þá tekur lífið og ástin völdin og þá langar mig á Þjóðhátíð.
Á Þjóðhátíð svífur ástin yfir vötnunum eða réttara sagt Daltjörninni, því allir eru svo ofboðslega rómantískir á Þjóðhátíð, að þeir geta vart litið framan í nokkra manneskju án þess að verða yfir sig ástfangnir.
Á Þjóðhátíð upplifa allir íbúar og gestir dalsins, hina dularfullu töfra ástarinnar og vináttunnar sem ræður ríkjum í þessari ljósumprýddu undraveröld í svo örfáa, en þó svo ógleymanlega daga, sem geymast í minningunni eins og helgidómur, innst í hjartastað.
Þjóðhátíð í Eyjum er einstök og þó ég hafi víða farið og margt séð þá hef ég aldrei upplifað neitt sem kemst í hálfkvisti við mína heittelskuðu Þjóðhátíð.
Logandi bál
Ást mín er logandi bál eins og brennan á þjóðhátíð í Eyjum.
Guðný Svava Strandberg.
Ágústnótt
Þú undurhlýja ágústnótt
ég ennþá um það dreymi
er inn í tjald
hann kom um kvöld
og kyssti mig í leyni.
þó liðin séu ár og öld
heil eilífð um það bil
þeim kossi
og hvarmaljósum tveim
gleymt kann ég ei né vil.
Því leiðir skildu á lífsins braut
hans lá um hafsins strauma
en ég sat heima og bað og beið
í bríma fornra drauma.
Guðný Svava Strandberg.
Ferðalög | Breytt 2.5.2008 kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.2.2008 | 00:53
Alla leið upp til Guðs!
Sonur minn var sendur einn með flugvél frá Vestmannaeyjum til
Reykjavíkur þegar hann var lítill drengur. Langamma hans, sem tók á
móti honum á áfangastað, spurði hann hvort flugvélin hefði ekki farið
voða hátt upp í loftið. 'Jú, alveg uppí himininn,' svaraði drengurinn
rogginn.
'Sástu Guð? Spurði langamman. Drengurinn játti því, ákaflega upp með
sér.
'Og talaðirðu við Hann? Spurði, gamla konan.
'Nei, flugvélin stoppaði ekki'. svaraði sá stutti.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mikið var eftir meira en mánaðar rigningu, þá verður líka notað tækifærið og farið í haustlitaferð á Þingvöll með dóttur minni, ef að mér verður batnað kvefið. Vona bara að það verði ekki öll lauf fokin af trjánum. Monta mig aðeins af dóttur minni, er hún ekki falleg á myndinni og tengdasonurinn myndarlegur?
Tító er kominn með sýkingu í öndunarfærin, nánar tiltekið í trýnið í þriðja sinn, síðan hann var settur á sterana. Hann byrjaði að hnerra einhver ósköp í gær og í dag var nefið á honum orðið eldrautt.
Þessir sterar eru víst gróðrarstía fyrir bakteríur segja dýralæknarnir. Svo nú er hann í þriðja sinn á stuttum tíma kominn á sýklalyf fyrir utan sterana. Annars líður hvorugu okkar vel því ég get ekki haft hann uppi í rúmi hjá mér, þar sem kattaofnæmið gaus upp hjá mér og ég gat eiginlega ekkert sofið fyrir kláða í nefinu og bara alls staðar.
Svo Tító og Gosi sofa frammi í stofu og ég ein í rúminu mínu. Ég var svo aum í gærkvöldi yfir að geta ekki haft Tító í fanginu að ég sofnaði með tárvota vanga, uhu, hu.
Tító er bæði veikur og sár út í mig því hann skilur ekki af hverju hann fær ekki að sofna uppí hjá mér. Gosi er ekki eins háður mér og Tító og hann sættir sig betur við þetta. En ég veit að með þessu áframhaldi hjá Tító mínum er það mikið til á mínu valdi hve lengi hann lifir. En ég vil ekki missa hannTító minn og mun koma fram gagnvart honum eins og hann sé manneskja varðand veikindi hans.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.7.2007 | 17:43
Mýmörg mý
Elísa Marie ömmustelpa sex ára var ofsalega hrifin af spröngurólunni og mátti varla vera að því að tala við ömmu sína. Annars virtist hún líka vera ansi hrifin af sjö ára gæja sem sveiflaði sér í spröngunni með miklum tilþrifum. Pabbi hennar trúði mér fyrir því að Elísa Marie væri samt þegar komin með kærasta fyrir, þó aldurinn væri aðeins sex ár. Unnustinn tilkynnti pabba hennar um daginn að hann væri strax búinn að stela fyrsta kossinum frá ungu stúlkunni .
Ég held að Elísa Marie ætli að verða mesta piltagull enda er hún gullfalleg og ég held meira að segja að stelpuskottið vita af því enda elskar hún að láta taka myndir af sér.
Daníel fjögra ára lagði ekki í róluna en dundaði við að mála vatnslitamyndir eins og amma gerir. Hann var með sniðuga aðferð við vatnslitunina sem ég ætla að stela frá honum. Hann dýfði ekki penslunum í vatn í krukku eins og ég geri, heldur sprautaði hann vatninu með vatnsbyssu á litina og setti svo penslana beint á blauta litina og málaði þannig. Ég er viss um að hann verður heimsfrægur framúrstefnu vatnslitamálari fyrir vikið.
Ég gat eiginlega ekket verið úti við þarna því loftið var svart af mýi og eftir að ein flugan lenti í auganu á mér og önnur inni í eyranu var ég mestan partinn inni við og sat heima meðan allir aðrir fóru út á vatn að veiða. Ég náði samt að stela einni blágresisplöntu áður en mýið gerði útaf við mig og sem á að fara niður í beð í garðinum heima.
Tító var ósköp feginn að sjá mig þegar ég kom heim enda má hann varla af mér sjá síðan ég kom heim frá Krít.
11.7.2007 | 13:21
'Ég er komin heim í heiðardalinn
Ég er komin heim með slitna skó' Krít var æðisleg, veðrið 32-33 stig, meiriháttar ferðafélagar og Gerður sem kom þessu öllu í kring var eins skemmtileg og ég hafði búist við og líka frábær leiðsögumaður.
Ég bjó í einbýlishúsi með sundlaug og bar, alveg rétt hjá og var í um fimm mínútna göngufæri frá húsinu hennar Gerðar þar sem ferðafélagarnir gistu.
Í hverju tré þarna í kring bjuggu milljón krybbur sem sungu mig í svefn á kvöldin og vöktu mig samviskusamlega á morgnanna, en næsti nágranni minn var froskur sem bjó á bak við stóra leirkrukku sem stóð í horni upp við húsið.
Síðan kom engispretta í heimsókn eitt kvöldið þegar við héldum pick-nick heima hjá mér. Heiða myndaði hana í bak og fyrir og fannst hún vera frábær fyrirsæta. Ég var alveg á nálum yfir nálægð engisprettunnar enda ástæða til, því þegar henni fór að leiðast fyrirsætubransinn tók hún sig til og stökk á mig.
Ég trylltist hreint og beint, öskraði og gargaði, hoppaði og hristi mig og æpti móðursýkislega. Ohh ég þoli þetta ekki, ég þoli þetta ekki!! Ég þarf varla að taka það fram að Heiða, Gerður og Siggi láku næstum niður af hlátri en sem betur fór gat Gerður samt bjargað aumingja engisprettunni. En það komu fleiri gestir þetta kvöld því einmana þúsundfætla kom einnig í teitið og hún var auðvitað mynduð líka í bak og fyrir. Semsagt þetta var geggjað partý sem verður lengi í minnum haft.
Hitinn var alveg mátulegur nema þegar við gengum brekkurnar, þá hefði hann mátt vera minni og það var mikið af brekkum.
Það var gaman að hitta asnana hennar Gerðar í eigin persónu enda fannst mér þeir vera einskonar sálufélagar mínir, sem og hænuna , hundana og kettina. Siggi var svo heppinn að einn kötturinn tók ástfóstri við hann og lúllaði hjá honum á hverju kvöldi meðan ég mátti sofa ein og Títólaus.
Gamli bærinn í Chania var yndislegur göturnar svo þröngar sumstaðar að varla meira en fjórar mannseskjur gátu mæst þar með góðu móti . Við rápuðum milli verslana og skoðuðum mannlífið og enduðum svo á því að borða kvöldverð á hafnarbakkanum og horfðum á sólina setjast.
Á milli borðann gegnu spikfeitir hundar og kettir sem voru svo matvandir að þeir hunsuðu flest allt sem við fleygðum til þeirra af örlæti okkar.
Við átum líka síðdegisverð í hæstu hæðum uppi á fjalli einu þar sem við skoðuðum eldgamalt þorp og enn eldri rústir sem Gerður sagði okkur að hétu Akropolis.
Við heimsóttum líka ótal fleiri þorp og eyddum einnig drjúgum tíma við sundlaugina í sólbaði eða dýfðum okkur aðeins í laugina. En laugin var vinsæl af fleirum en okkur því svölurnar flugu þarna rétt yfir vatnsborðinu og fengu ser vatnsopa og nokkrar kindur ráfuðu þarna í kring og dreyptu öðru hvoru á sundlaugarvatninu. Ég tek það fram að ég sjálf drakk ekki vatnið úr lauginni heldur rauðvín sem maddaman á barnum færði mér ásamt ostum og öðru góðgæti.
Þetta ferðalag var í einu orði sagt YNDISLEGT og ég á örugglega eftir að fara aftur til Krítar.
5.7.2007 | 16:06
Á Krít er sól og mikill hiti enda rennur af mér sviti
Ég er að leka niður úr hita og svita en það er samt æði að vera hérna. 32 stig í gær og álika í dag. Hér er mikið af hænum og ég er víst orðin ein af þeim segir minn ástkæri bróðir sem getur vart hugsað heila hugsun fyrir gagginu í okku hænunum þrem. Ég hef það svo gott að ég myndi ekki koma til baka ef Tító biði ekki eftir mér. Annars er Tító náttúrulega frægur hér á Krít alla vega borðuðum við í gær á restaurant sem heitir Tító, örugglega í hausinn á honum Tító mínum.
Við erum búin að borða uppá fjalli og niður við sjó og blaðra svo mikið að Siggi dó.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.6.2007 | 14:06
Bless í bili
26.6.2007 | 01:12
'Eins og brenndur snúður heim'?
Ég sit hérna við tölvuna við hliðina á galopnum vesturglugganum og glápi á sólarlagið með öðru auganu meðan ég blogga. Kettirnir mínir, Tító og Gosi hanga hálfir út um gluggann og glápa líka, ekki þó á sólarlagið, þeir eru ekki svo rómantískir kattarforsmánirnar, nei þeir hafa meiri áhuga á biðurkollufræjunum sem fjúka framhjá glugganum.
Tító hefur þó varan á sér, minnugur máva árásarinnar fyrir nokkrum dögum, því það situr vígalegur mávur á næsta ljósastaur. Þessi mávur dirfðist líka að hringsóla gargandi yfir mér úti í garði áðan, en settist svo á ljósastaurinn rétt hjá mér.
Ég var eiginlega hálfhrædd við hann og datt í hug í alvöru hvort hann myndi kannski leggja í það að ráðast á mig? Hann hafði nú ekki hugrekki til þess, enda eins gott fyrir hann því þó ég væri hrædd við hann, ætlaði ég að verjast í lengstu lög og hefna harma Títós líka.
Já, ég er nýkomin utan úr garði, var að vökva blómaræksnin eftir þennan sólríka dag. Mér finnst ansi heitt úti en þó er heitara en í Helvíti, þar sem leið mín liggur eftir fáeina daga. Ég sá það á netinu í morgun að þarna við Miðjarðarhafið á Krít, nálægt Chania, sem er áfangastaðurinn er 42 stiga hiti!
Það er nebbnilega það! Ég hef einu sinni verið í 43 stiga hita í Californiu fyrir þrjátíu árum, þegar ég var ung og fær í flestan sjó, en ég lagðist samt í rúmið þá, ásamt tveggja ára syni mínum sem steyptist allur út í eldrauðum hitabólum. Vegna þessarrar slæmu reynslu minnar aftur í grárri forneskju fékk ég náttúrulega hálfgert móðursýkiskast yfir því að ætla nú að ferðast í annan álíka suðupott á Krít og það þrjátíu árum eldri og hrumari, en þegar ég ung og hraust eins og fyrr segir, lenti í hitabylgjunni í USA .
Ég myndi örugglega ekki sleppa svona billega í þetta sinn, að þurfa bara að leggjast í rúmið. Nei ég var sjúr á því ég myndi þurfa að liggja í kistu, eftir örstutta dvöl á hinni sólríku Krít, sem sótsvart kolbrunnið lík, tilbúin til þess að láta skutla mér heim oní svala og kælandi moldina heima á Fróni.
Í þessum svartýnis hugleiðingum hringdi ég í bróður minn og sagði honum mínar farir ekki sléttar, en hann hló bara góðlátlega að mér. Sagði að hann hefði það eftir sínum öruggu heimildum að veðrið yrði komið niður í þægileg 32 stig þegar ég væri komin á áfangastað.
Svo ég er öllu rórri þó ég sé flughrædd líka og því verður stefnan tekin á Krít á fljúgandi 'fullri' ferð.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 02:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
17.5.2007 | 21:08
Frá Snæfellsnesi Vatnslitir og blek
Eldri færslur
- Desember 2014
- Apríl 2013
- Janúar 2013
- Nóvember 2012
- Ágúst 2012
- Október 2011
- Júní 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- September 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Nóvember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Júlí 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Tenglar
http:www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson, texti eftir Kerst
- http://
- Halldór Guðjónsson lagasmiður og Kerst textahöf. Flott lög eftir Halldór Guðjónsson og textar eftir Kerst
- http://
http://www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson og texti eftir Kerst
http://www.diadems.no/
Ragdoll kettir. En ég er búin að ákveða að fá mér svoleiðis kött þegar Tító minn er farinn. Þessi Xantos sem er í x gotinu verður væntanlegur forfaðir nýja kisans mín
- Ragdoll kettir Ég ætla að fá afkomanda Xantosar þegar Tító er farinn frá mér.
Tenglar
- http://
- Halldór Guðjónsson sem gerði lagið við ljóðið mitt ´ Huggun' og fleiri ljóð eftir mig Hann er góður
- Ljóð á Tíu þúsund tregawött Framúrstefnuleg ljóð
- Myndir Katrínar K. vinkonu Flottar ljósmyndir
- Myndir Rebekka Frábær og fræg
- Ljóð.is
- Allra veðra von
Bloggvinir
- katrinsnaeholm
- zordis
- katlaa
- jonaa
- halkatla
- ormurormur
- martasmarta
- steina
- gudnyanna
- zoti
- ragjo
- diesel
- estersv
- alit
- toshiki
- kaffi
- svartfugl
- jenni-1001
- laufabraud
- stormsker
- svanurg
- guru
- ingo
- lindagisla
- bjorkv
- prakkarinn
- agny
- bergruniris
- raggibjarna
- maple123
- saethorhelgi
- vglilja
- johannbj
- partners
- vitinn
- zeriaph
- gudrunmagnea
- birtabeib
- iador
- gudrunfanney1
- ibb
- kolgrimur
- skjolid
- bene
- coke
- hux
- nonniblogg
- heringi
- hjolaferd
- amason
- joiragnars
- steinibriem
- rafdrottinn
- siggith
- vefritid
- ljosmyndarinn
- poppoli
- perlaoghvolparnir
- vitale
- skordalsbrynja
- lindalea
- bidda
- manisvans
- scorpio
- haddih
- gattin
- korntop
- brahim
- klarak
- laugatun
- konur
- panama
- sigurfang
- joklamus
- valdimarjohannesson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar