Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Ilmvatnið Prósaljóð

Ég hallaði mér út um opinn svefnherbergisgluggann og starði tómlega út í auðan húsagarðinn.
Ég var í þungu skapi. Enn ein ömurleg djammhelgin framundan því það var ekki venja að nokkur karlmaður liti tvisvar á mig þegar ég fór út að skemmta mér.
Ég myndi örugglega enda ævina sem ellidauð piparjúnka. Engin von um börn, hvað þá heldur barnabörn, að ekki sé minnst á syrgjandi eiginmann við mitt dánarbeð.
Ekki sála myndi fella tár þegar ég gæfi upp öndina og það yrði áreiðanlega ekki ein einasta minningargrein í Morgunblaðinu sem greindi frá minni gleðisnauðu ævi.
Það myndi jafnvel verða óframkvæmanlegt að lesa dánarfregnina, því ekki nokkur maður myndi hafa  grænan grun um hver ég hefði eiginlega verið.
Líkast til yrði ég jörðuð á laun og presturinn eini maðurinn við jarðarförina.

Ég var djúpt sokkin í þessa ógnvekjandi framtíðarsýn og sá enga glætu framundan í lífi mínu.
En ég kom skyndilega til sjálfrar mín þegar ógurlegt öskur skar sundur myrkrið sem umlukti mig.
Mér varð ljóst á einu augabragði að  nú væri ég loksins dauð og að  þetta væri Andskotinn sjálfur sem með þessum hætti væri að bjóða mig velkomna til sín í Neðra.
Ég var sem lömuð af skelfingu en með ofurmannlegum kröftum tókst mér að hrista af mér doðruna og beina skelfdum sjónum mínum í þá átt sem óhljóðin bárust úr. Og mér til ævarandi sáluhjálpar komst ég að raun um að þessi ógnvekjandi hvæsandi öskur voru ekki runnin úr barka Myrkrahöfðingjans heldur stöfuðu þau frá dulitlu sjónarspili sem átti sér stað í garðinum fyrir utan gluggann minn.

Þarna á miðri grasflötinni var spikfeitur fressköttur að athafna sig blygðunarlaust við það að bíta breima læðu í hnakkadrambið, auðsjáanlega með ákveðna athöfn í huga.
Ég fylgdist grannt með áframhaldandi uppákomu og þegar hún stóð sem hæst sló niður í huga mér yfirnáttúrlegri hugljómum sem átti eftir að gjörbreyta öllu lífi mínu.
Ég áttaði mig á því í einni sjónhendingu að það myndi skipta sköpum fyrir mig þetta kvöld að bera ilmvatn á háls minn aftanverðan, áður en ég færi út á lífið. 


Stóra ástin í lífinu, er hún til?

Er til eitthvað eins og stóra ástin í lífinu sem skyggir á öll önnur ástarsambönd? Og er stóra ástin endilega hin eina sanna ást?
Eða er hún kannski bara brjálæðisleg ástríða sem heltekur mann eins og nokkurs konar þráhyggja?
Ég veit það ekki en mér finnst eins og ég hafi bara átt eina stóra ást í þessu lífi.
Kannski dey ég áður en ég finn aðra eins og þó var þessi ást ekki alltaf bara ljúf og góð því stundum var hún eins og  stormur sem svipti undan manni fótunum og það var aldrei að vita hvort lendingin yrði mjúk eða hörð.  
En ég sakna hennar þó og ég minnist hans enn og þó var það ég sem yfirgaf hann. Samt get ég ekki gleymt. 

 

                                                         Þú varst...

                                  Þú varst stormur
                                         sem geisaði um nótt.
                                         Þú varst hvirfilbyls
                                         hringiðudans.
                                         Þú varst skýfall
                                         með ástríðuþrótt.

                                         Þú varst ástin
                                         í líkingu manns.


Nafnið


'en orðstír deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.'

Hún lá endilöng á gangstéttinni í Bankastræti og skrifaði nafnið sitt á grasið við götukantinn.
Hún skrifaði með rauðu bleki svo nafnið væri vel sjáanlegt á grænu grasinu. Hún var ekki í neinum fötum en hafði vafið gamalli sæng utan um sig til þess að hylja nekt sína.
Hún var hálfhrædd um að einhver myndi amast við henni, þar sem hún lá á maganum þvert yfir gangveginn, eða saka hana um að fremja skemmdarverk með því að pára svona á grasið. En fólkið virtist ekki taka eftir henni, heldur steig hiklaust ofan á hana á hraðferð sinnni upp eða niður götuna
Hana var farið að verkja í bakið af því að vera svona fótum troðin en lét sig hafa það. Hún vissi sem var að hún varð að gera allt fyrir nafnið.
Þegar hún hafði lokið við að skrifa hálfa leið frá kvennaklósettinu niður að Lækjargötu tók hún sér smáhvíld og kveikti sér í sígarettu.
Hún saug áfergjulega að sér reykinn og leit yfir verk sitt.
Við augum hennar blasti kraftaverk og henni varð ljóst að Guð hafði stýrt hendi hennar, því á hverjum þeim stað sem hún hafði skrifað nafnið sitt uxu nú rauðar rósir.
Hún drap í sígarettunni og fleygði henni umhugsunarlaust í göturæsið. Svo hélt hún áfram að skrifa.
En nú þurfti hún að skrifa mun hraðar en áður því sólin var horfin, dökkir kólgubakkar voru að hrannast upp á himninum og það leit út fyrir rigningu.
Hún varð að ljúka verkinu áður en það byrjaði að rigna því líklega myndi gamla sængin sem hún notaði sem yfirhöfn gegnblotna ef það kæmi væta á hana.
Að lokum skrifaði hún síðasta stafinn. Verkið var fullkomnað og hún lagði frá sér pennann sigrihrósandi.
En þar sem hún sat þarna var hún skyndilega lostin skelfilegri hugsun, sem fyllti hana smátt og smátt nagandi óvissu.
Hún hafði ekki hugmynd um hvort rauða blekið sem hún hafði skrifað með væri vatnsekta.


Stúlkan í græna kjólnum þrykk- og blek

tscan0010

 

 


Ég elska þig

      I Love You

           Heart

 When April bends above me
 And finds me fast asleep,
 Dust need not keep the secret
 A live heart died to keep.


When April tells the thrushes,
The meadow-larks will know,
And pipe the three words lightly
To all the winds that blow.

Above his roof the swallows,
In notes like far-blown rain,
Will tell the little sparrow
Beside his window-pane.

O sparrow, little sparrow,
When I am fast asleep,
Then tell my love the secret
That I have died to keep.

               Heart

  By Sara Teasdale 

 


Ég verð að fara að heimsækja hana Krúttu....

eins og ég kalla hana Katrínu vinkonu mína. Hún er nýorðin mamma í annað sinn og eignaðist lítinn son sem er örugglega jafn mikið krútt og hún mamma sín.
En ég hef bara því miður ekki ennþá séð litla og stóra krúttið síðan þau urðu mæðgin og litu hvort annað augum í fyrsta sinni.
Kristinn er eldri bróðir litla krúttsins og er að verða fjórtán ára sem er svolítið mikill munur á milli bræðra en það er bara fínt. Ég held nefnilega að Kristinn geti orðið fyrirtaks barnapía þegar fram líða stundir. Alla vega er hann mjög ábyrgðarfullur bróðir segir Katrín krútta mamma hans. Hann má líka vera það því það verður að passa litla krúttið mjög vel svo enginn steli honum, því mamma hans segir að hann sé svo fallegur að hún hafi aldrei séð annað eins.
Því trúi ég líka vel því Katrín krútta vinkona mín er ákaflega falleg kona svo litli krútti á ekki langt að sækja fríðleikann.
Mér finnst svo skrýtið að Katrín krútt sé nýbúin að eignast barn því mér finnst eins og það hafi verið í gær sem við endasentumst upp og niður skógivaxnar brekkurnar við Elliðavatn til þess að finna hentugan stað til þess að mála á. 
Endasentumst er kannski fullmikið sagt því við vorum með trönur og stóla og málningardót og nesti og myndavélar, já og okkur sjálfar.
Við vorum því orðnar ansi þreyttar þegar við loks römbuðum á dásamlegan stað út á ystu brún á smáhæð sem hallaði snarbratt niður að stóru og stæðilegu grenitré.
Við settum upp trönurnar og svo máluðum við og máluðum og máluðum eins og snarbrjálaðir listamenn. Myndirnar okkar voru samt mjög ólíkar þó þær væru af sama útsýninu, enda erum við Ka

trín mjög ólíkar hvor annarri.
Mér fannst Katrínar mynd miklu betri en mín þegar ég teygði mig út á hlið til þess að skoða hana. Varð mér svo mikið um þessa uppgötvun að ég kollsteyptist af mínum stóli og rúllaði síðan niður alla brekkuna þar til ég loks stöðvaðist á grenitrénu sem áður var minnst á.
Katrínu datt ekki til hugar að hjálpa mér enda var hún ekki vitund hrædd um mig. Það komst engin hræðsla að í  hennar fallega haus því hún hló svo mikið að þessarri skyndilegu rússíbana ferð minni fram af hæðarbrúninni.
Ég lét fall mitt mér að kenningu verða og hætti að mála en tók mynd af Katrínu krúttu í staðinn þar sem hún sat við trönurnar og málaði, auðvitað.

scan0037

Ljósmyndin varð allavega góð, svo góð að ég sættist á það að Katrín væri bara svona miklu klárari með olíulitina heldur en ég.
Það rann upp fyrir mér seinna af hverju myndin af Katrínu krúttu vinkonu minni varð svona góð.
Það var vegna þess eins og hún sagði mér seinna að þá var litla krúttið hennar þegar byrjað að vaxa inni í henni.
Sjáiði bara hvað myndin er flott eins og ég sagði. Svo verð ég bara að fara að drífa mig á næstu dögum að sjá litla krúttið hennar Katrínar vinkonu, krúttu minnar.

Grease Babies
http://members.shaw.ca/anabw/grease.htm


Kemst ég í 'Löggildingarpartýið' á DOMO?

Það er nú spurningin. Eða kemst ég yfirleitt á Hönnunarverðlauna afhendingu FíT í Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn kemur?
Ég er nebblilega komin með flensu aftur. Þetta er einhver andstyggðar sýking í nefi, augum og eyrum sem er víst að ganga. Ég var meira að segja svo slæm í eyrunum að ég er nú nánast heyrnarlaus og bróðir minn segir að það sé ferlega erfitt að tala við mig í síma þar sem ég segi oftast ha! Við öllu sem hann segir.
Ég er annars búin með einn skammt af sýklalyfjum sem ég kláraði í fyrradag.  En í dag var ég aftur orðin svo slöpp að það var eins og ég væri lömuð af þreytu svo ég lá í rúminu til klukkan að verða átta í kvöld.
Mér fannst eins og ég gæti hvorki hreyft legg né lið og mér flaug meira að segja í hug þar sem ég lá þarna í rúminu hreyfingarlaus hvort ég væri nú kannski loksins dauð.
Það var náttúrulega þessi illa innrætta flensa sem ekki var búin að ljúka sér af við mig sem olli þessu andsk.  ástandi.
Ég er því komin með dynjandi hausverk á ný og augun eru límd saman af einhverjum ´vibba' stýrum þegar ég vakna á morgnana og nebbinn er aftur orðinn fagurlega rósrauður á litinn.
Svo þess vegna er ég aftur komin á sýklalyf, tvöfaldan skammt meira að segja fyrstu þrjá dagana svo það er smávon að ég verði búin að ná mér á föstudaginn og komist á  verðlaunaafhendinguna.
Það verða léttar veitingar í boði en maður getur svo sem nælt sér í fleiri en eitt 'létt' glas, sérstakega ef ætlunin er að poppa inn á DOMO á eftir.
Þá er bara eftir að láta sér batna og bjóða svo einhverri vinkonu með í fagnaðinn. 
Mér veitir sko ekki af að komast út á meðal manna því fyrir utan afmælið hans sonarsonar míns um daginn hef ég mestan part hangið heima yfir Tító og troðið í hann sterum og sýklalyfjum.
Tító er bara allur að koma til af lyfjagjöfinni en því miður þarf hann víst að vera á þessum ólukku sterum það sem hann á eftir ólifað.
 Aumingja elsku kallinn minn en ég vil allt til vinna til þess að halda honum sem lengst hjá mér.
Annars veit ég ekki hve lengi hann verður góður til heilsunnar með hjálp steranna.  En er á meðan er.
Samt verð ég að viðurkenna að ég er farin að líta í kringum mig eftir arftaka Títós og held ég að sniðugast sé að fá sér Maine Coon kettling. Maine Coon kettir verða risastórir af köttum að vera eða eins og smá hundar. Þeir eru mjög blíðir og eru oft kallaði 'The gentle giants.' Það er meira að segja hægt að venja þá á ól og fara út að ganga með þá.
En nú er best að koma sér í bólið með Tító og Gosa og reyna að sofa eitthvað úr sér ansvítans sýkinguna. 
 
   


'Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga'

c_my_documents_my_scans_2007-02_feb_scanblom0007_130564_130826Þrykkmynd        

 Ég hlakka svo til þegar vorgyðjan kemur dansandi yfir stræti og torg og kyssir trén í borginni svo brenn heitum kossi að þau opna feimnislega litlu brumhnappana og skrýðast sínum fegursta skrúða.

Og blómin sem hafa sofið á sitt græna eyra undir ís og snjó vakna af löngum vetrardvala, teygja höfuð sín upp úr moldinni, gul og rauð og blá, mót gullnum geislum sólarinnar og blómstra hvort í kapp við annað.
Og vorgyðjan brosir til þeirra,  beygir sig niður og segir. Sæl þið litfögru blóm! Eruð þið komin til að fagna mér? 


Hún dáist að umbúðunum en hirðir ekki um innihaldið

Þetta er nú meiri yfirborðsmennskan Jennifer Lopes dáist mjög að stíl og tískuskyni Viktoríu Beckham en minnist ekki einu orði á útlit hennar að öðru leyti.  GetLost


 Hvað þá það sem undir býr eða sálartetrið eins og mannkosti eða hvort hún hafi eitthvert vit inni í sínum 'hárlengda-kolli', en slíkt skiptir víst minnstu máli hvort eð er hjá 'stjörnunum.' í Hollywood.
þessi orð Jennifer´s  segja annars allt sem segja þarf um útlitsdýrkunina sem tröllríður ekki bara Hollywood heldur einnig öllum heiminum.   Shocking


Mér finnst það svo sem fínt að líta sæmilega út og vera þokkalega til fara. En að það teldist mér helst til tekna að vera einhver glansfígúra myndi mér finnast vera þungur áfellisdómur.
Ég vil vera metin fyrir hvers konar persónu ég hef að geyma en ekki fyrir ytri umbúðir.
Það verður enginn ánægður við morgunverðar borðið þegar hann kemst að því að eggið hans er bara skurnin tóm.   Crying


mbl.is JLo bætist í hóp aðdáenda Beckham-hjónanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sindrandi neistar frá Guðanna sól

Mér er gleði í huga því litla ljósið hann Jónatan Davíð sonarsonur minn varð tveggja ára í dag.
Fjölskylda og vinir voru samankomnir í afmælinu til þess að fagna þessum merkis áfanga og allir sungu afmælissönginn tvisvar áður en Jónatan Davíð blés á kertin með hjálp pabba síns.
Elísa Marie systir hans 5 ára, fékk líka gjöf þó hún ætti ekki afmæli og Daníel bróðir hennar 4 ára sömuleiðis.
Elísa Marie var í bleikum kjól og dansaði um allt gólfið í stofunni eins og balletdansmær. Hún æfir íþróttir og er orðin svo liðug að hún kemst bæði í splitt og spíkat.
Langt er orðið síðan ég gat sýnt svona snilldartakta.
Ég hef náttúrulega mikinn metnað fyrir Elísu Maries hönd og ég sé hana í anda dansa á sviði í Þjóðleikhúsinu þegar hún hefur aldur til sem primaballerina. Svo söng hún líka afmælissönginn eins og engill. Hún gæti þessvegna allt eins orðið óperu díva.
Daníel settist í sófann hjá mér og sýndi mér stoltur machintos bílaflotann sinn, alls 5 bíla sem hann keyrði fram og til baka og upp og niður sófabakið í allskonar beygjum og krókaleiðum á hvínandi hraða.
Hann verður örugglega heimsfræg kappaksturshetja og vinnur stóra sigra. Kannski hann verði næsti heimsmeistari í kappakstri.
Jónatan Davíð afmælisbarnið vildi koma til ömmu og sannaði að hann er klókur í því að raða misstórum plasthringjum í næstum því réttri röð upp á staut. Svo klappaði hann saman lófunum af hreykni yfir dugnaði sínum.
Mamma hans sagði mér að hann hefði meira að segja nefnt Elísu Marie systur sína með nafni um daginn.
Ég er klár á því að Jónatan Davíð er snillingur þó hann sé fæddur með Downs heilkenni. Og svo er hann lítill engill líka.
Jónatan Davíð verður ef til vill ekki kappaksturshetja eða ballettdansari en ég trúi því að  hann verði samt sem áður þarfur þjóðfélagsþegn á einhverju sviði.
Og eitt er pottþétt og mikilvægast. Ég veit að hann verður alltaf hamingjusamari en flestir aðrir. 
Samt olli fæðing hans, sem átti að verða okkur öllum í fjölskyldunni gleðiefni, sorg á sínum tíma.
Var eiginlega hálfgert reiðarslag. Sérstaklega þó fyrir móður hans og föður en þau eiga samt, Guði sé lof, tvö heilbrigð börn fyrir.
En við trúum því að hver einstaklingur sem fæðist hér á jörð hafi fyrirfram ákveðið hlutverk og þjóni sérstökum tilgangi. 
Sorgin yfir fæðingu Jónatans Davíðs snerist því upp í gleði og sátt í hjörtum okkar.  
Sátt við lífið sem birtist okkur í svo margvíslegan myndum líkt og sindrandi neistar frá Guðanna sól og lýsa okkur leiðina heim.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband