Leita í fréttum mbl.is

Kjarvalsmálið

Ég hef fylgst svolítið með þessu Kjarvalsmáli þar sem afkomendur Kjarvals heitins leita leiða til þess að fá sinn réttmæta arf.

Ég segi það já, því ég hélt í fávisku minni að lögum samkvæmt mætti enginn gera börn sín algerlega arflaus.

En það á greinilega ekki við þegar um mikla listamenn og háar fjárhæðir eru að ræða. Að ég tali nú ekki um þegar um þjóðararf, afsakið borgararf er að ræða.

Því ljóst er að það var Reykjavíkurborg sem hlaut þessa geysiverðmætu gjöf en ekki landið allt. 

Mér skilst að Kjarval hafi gefið verk sín til borgarinnar árið 1968 en á því ári var hann að því er mér er sagt á geðdeild Borgarspítalans þáverandi.

 Hvernig stendur á því að í svona mikilsverðu máli skuli hafa verið tekið mark á því að maður sem ekki var með fullum sönsum gefi frá sér aleigu sína og það ekki neina venjulega 'aleigu'   heldur dýrmætan fjársjóð?

Mér finnst það svolítið undarlegt því í þessu þjóðfélagi er undir flestum kringumstæðum ekki mikið mark tekið á þeim mönnum sem eru orðnir eitthvað andlega skertir. 

En gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri. 

 


Ástarnótt

Dagurinn er stuttur nú í skammdeginu. Hann hefur eflaust annað þarfara að gera en staldra við hér hjá okkur mannfólkinu enda dvelur hann löngum í faðmi heitrar nætur.

Ástarnótt

Ljósvængjaður
leggur dagurinn
lönd undir væng
og flýgur
til ástafundar
í faðmi
heitrar nætur.
Ljósvængjaður
leggur
dagurinn
lönd undir væng
og flýgur
til ástafunda
í faðmi heitrar nætur.


Hvað verður um skjólstæðinga Byrgisins?

Mig langar til þess að gera athugasemdir við það sem Hjörtur Guðmundsson skrifar á bloggi sínu í dag í sambandi við mál Byrgisins.

Hann segir m. a.
"Jón Arnar segir að tillitsleysi við vistmenn og starfsmenn Byrgisins virðist takmarkalaust og menn virðist ekkert sjá jákvætt í því svartnætti sem nú ríkir. Gengdarlaust áreiti á vistmenn og starfsmenn hafi valdið ómetanlegum skaða''

Ég verð nú að segja að ég sé sammála Jóni Erni að vissu leyti.
Það er að segja ef ekkert hefur verið gert til þess að tryggja vistmönnum Byrgisins fæði og húsaskjól á meðan mál forstöðumannsins er rannsakað.

Ef svo er ekki endurtekur sig eflaust harmleikurinn frá því að Byrgið var flutt úr Rockville og fjölda vistmanna var úthýst beint á götuna.

Ríkið var ekkert að pæla í því hvað yrði um þetta fólk þá og flest allir sem láta sig svona mál varða vita, að megnið af þeim sem lentu þá á götunni eru ekki á lífi í dag.

Ríkið var alla vega vondi kallinn í það sinn, eða skipta mannslíf kannski ekki neinu máli?
Eða var þessu fólki bara ekki viðbjargandi að dómi þeirra sem að því stóðu að svipta það sínu síðasta og eina skjóli og von um betra líf?

Hver ber sökina á dauða þessa ógæfusama fólks?

Hvað sem segja má um Guðmund forstöðumann Byrgisins þá veit ég þó með vissu að góðir hlutir hafa líka gerst í Byrginu.
Þar hafa alkóhólistar snúið baki við Bakkusi og byrjað nýtt líf yfirleitt með hjálp trúarinnar.

Og þó vitað sé að bókstafstrú sem ekki er öllum að skapi hafi verið boðuð í Byrginu þá virðist einmitt hún oft vera eina úrræðið þegar mál órreiðufólks eru komin í þrot.

Hvað verður um skjólstæðinga Byrgisins nú? Þurfa þeir e.t.v. að gjalda fyrir sök forstöðumannsins með lífi sínu?


Jól

Ert þú - í raun og veru - sonur Guðs?

spyr fréttamaðurinn í sjónvarpinu

Jesúm Krist.

Það eru þín orð, svarar Frelsarinn,

með bros á vör.

 

Jólatréð er sofnað

það hallast ískyggilega

á aðra hliðina

og mér flýgur í hug 

- hvort það

hafi líka stolist í sherryið

sem var falið í þvottavélinni

á jólanótt.

Rauð könguló er snyrtilega bundin um topp þess

en gulir götuvitar

lýsa dauflega á slútandi greinum.

 

Úti sitja hrafnar

á ljósastaurunum

krunkandi

eftir feita hangikjötinu

sem við hentum í ruslið

á aðfangadagskvöld.

 

Á svörtum himni

skín einmana - óljós

- stjarna? 


Ástríða

Við
hlaðborð
ástríðunnar
úr uppsprettu
unaðar
fleytti ég
rjómanum
af ást þinni
er rann ljúflega
niður.

Sérstöku börnin á Blálandi. Skrifað vegna uppsagnar allra kennara Fjölmenntar Túngötu 7. Endurhæfingarskóla fyrir fólk með geðraskanir og seinni tíma heilaskaða.

Einu sinni var kóngsríki sem hét Bláland og þar ríktu náttúrulega kóngur og drottning. Kóngshjónin áttu fjölda barna, eða um það bil þrjúhundruð þúsund börn og það er hreint ekki svo lítið.
Kóngshjónunum gekk ekki vel að sinna öllum þessum barnaskara svo þau tóku það til bragðs að láta erfiðustu börnin vera útundan.
En flest börn kóngs og drottningar voru þó svo undurfalleg, greind og góð og að sjálfsögðu voru það uppáhaldsbörnin þeirra.
Uppáhaldsbörnin gengu auðvitað í skóla og allir voru sérstaklega þægilegir við þau
og eðlilega voru þau látin koma fram opinberlega með foreldrum sínum.
En sum önnur börn kóngshjónanna voru líka falleg og góð, þrátt fyrir að þau væru dálítið %u2018 fátæk í anda%u2019, eins og einhver hafði orðað það fyrir svo óralöngu.
Þessi börn fengu líka að ganga í skóla eins og uppáhaldsbörnin og flest allir voru frekar þægilegir við þau, eða næstum jafn þægilegir og við uppáhaldsbörnin.
En kóngshjónin áttu fleiri börn og það voru svo sannarlega erfið börn, en samt svo undarlega ólík innbyrðis.
Það var bara eitt sem þau áttu sameiginlegt.
Þau voru öll svo sérstök.
En þar sem þau voru óneitanlega erfiðust af kóngsbörnunum lentu þau skiljanlega í því hlutverki að vera höfð útundan.
Þau fengu ekki einu sinni að ganga í skóla. Samt gátu þau vel lært, þó ekki hefðu margir trú á því.
En sem betur fer fyrir sérstöku börnin hafði víðförult fólk tekið eftir því á
ferðalögum sínum um önnur kóngsríki að þar voru til sérstakir skólar fyrir svona börn.
Svo víðförla fólkið tók sig til og stofnaði þannig skóla fyrir sérstöku börnin á Blálandi.
Kóngur og drottning voru ekki beint hrifin af þessu framtaki en létu þó í byrjun nokkra smápeninga af hendi rakna til skólans.
En eftir því sem árin liðu dró úr peningagjöfunum. Og að lokum fékk Sérstaki skólinn ekki einn einasta eyri frá kóngshjónunum, því þeim fannst þessi skóli vera einum
of kostnaðarsamur.

Það voru svo mörg önnur fjárfrek verkefni sem arðvænlegra var að setja peningana í.

Það hafði til dæmis tekið drjúgan toll úr fjárhirslunni að koma böndum á vatnadrekann víðfræga sem átti sér bæli í ógnardjúpu gljúfri uppi undir Háuhnjúkum, tignarlegustu fjöllunum í kóngsríkinu.
En fróðir menn höfðu fundið það út að hægt væri að hafa nytjar af honum yrði böndum komið á hann.
Því var nú svo komið að vatnadrekinn var vanmáttugur og örmagna. Hann hafði verið fjötraður niður af fjölda útlendra riddara sem drifið hafði að úr öllum áttum til þess að taka þátt í þessum hættulega hildarleik.

Það hafði einnig verið mjög aðkallandi að láta skrifa bók um kóngshjónin og þjónanna þeirra, til þess að ekki gleymdist hve fjarskalega mikilvæg þau öll væru fyrir kóngsríkið.
Þetta varð svo vönduð bók. Kápan var gerð úr sérvalinni nautshúð og með gullstöfum framan á. En blöðin innan í bókinni voru úr hvítu kálfsskinni og svo undurmjúk viðkomu eins og krónublöð á hinni fegurstu rós.
Og nú var þessi sérstaki skóli enn að kalla eftir fé.


Kóngur ákvað að láta kanna málið, því hann dauðsá eftir aurunum sem höfðu farið í þennan skóla.
Þess vegna skipaði hann rannsakanda til þess að athuga starfsemi Sérstaka skólans. Svo væri barasta hægur vandi að leggja skólann niður svo lítið bæri á.
Kóngurinn var ánægður með þetta ráðabrugg sitt og ákvað að gleyma því að öll börnin hans ættu rétt á því að fá að læra.
Rannsakandinn rannsakaði alla starfsemi Sérstaka skólans og talaði meira að segja við skólastjórann og kennarana.
En kóngur var ekki jafn ánægður með niðurstöðuna. Sérstaki skólinn kom allt of vel út til þess að hægt væri að leggja hann niður.
En þá datt honum dálítið í hug.
Hann kallaði til sín Menningardísina í Máttarborgum og lét þau boð út ganga að hér
eftir réði hún öllu um menntamál kóngsríkisins.
Menningardísin vissi að nú þurfti hún vel að duga. Ekki gat hún skrökvað því til að
rannsakandinn hefði leitt í ljós að Sérstaki skólinn væri ómögulegur skóli.
En þá kom henni snjallræði í hug. Hún sagði að hún hefði verið slegin skyndilegri lesblindu þegar hún ætlaði að kynna sér skýrsluna um þennan vandræða skóla
Af þeim sökum hefði hún engar upplýsingar um stöðu mála þar á bæ og því væri ekkert hægt að gera fyrir þessa skólastofnun.

Þetta fannst öllum vera góð niðurstaða sem skýrði það fullkomlega að Sérstaki skólinn væri með öllu óþarfur.

En ekki get ég skýrt það hvers vegna þeim kóngshjónum fæddist eftir þetta sífellt fleiri sérstök börn.

Guðný Svava Strandberg.

Höfundur kennir við Fjölmennt.


Áætlað er að 300 milljónasti Bandaríkjamaðurinn fæðist á þriðjudag

Nú velta menn vöngum yfir því í Ameríkunni hvort þrjúhundruðmilljónasti Ameríkaninn verði stelpa eða strákur og svo sem ekkert undarlegt við það.  Alltaf spennandi hvort kynið það verður þegar barn er í vændum og ég tala nú ekki um þegar um svona fjarskalega mikilvægt barn er að ræða. 

Hitt finnst mér stórskrýtið að Kanarnir skuli líka vera að pæla því í hvort þrjúhundruðmilljónasti Ameríkaninn verði innfæddur eða aðfluttur. 

Hvernig aðfluttur? 

Ófætt, aðflutt barn,  fætt sem Bandaríkjamaður??  Ég gat bara ómögulega áttað mig á samhenginu í  þessu.

En svo rann upp fyrir mér ljós. Ófæddi 300milljónasti Ameríkaninn getur náttúrlega verið aðfluttur ef hann er af erlendum uppruna og getinn í öðru landi en Bandaríkjunum en flytur á fósturstigi  (ásamt og inni í   móður sinni náttúrulega)  til Bandaríkjanna og er svo lúsheppinn að fæðast þar  sem þessi þrjúhundruðmilljónasti ameríski ríkisborgari.  

 Ég vona aftur á móti að 300milljónasti Bandaríkjamaðurinn verði innfæddur ekta Ameríkani. 

Það er að segja,  einn orginal ekta  Sioux Indjáni.


Sálarmorð, grimmilegur dómur kveðin upp af dómara frá hinum myrku miðöldum

Átján ára gamall drengur frá Asíuríki einu og sem er með dvalarleyfi á Íslandi hefur fengið þann þyngsta dóm sem nokkur maður getur fengið. Eftir að hafa tekið út refsingu sína í fangelsi er hann gerður útlægur frá fjöskyldu sinni í 10 ár með því að vera vísað af landi brott.

Ég er ekki að mæla því ofbeldi bót sem hann gerðist sekur um þ.e. líkamsárás og kynferðisglæp síður en svo.  En hvers vegna var ekki hægt að gera drengnum skylt að sæta einskonar skilorði þannig að hann væri undir eftirliti á einhvern hátt?

 Jafnvel  hefði verið hægt að bjóða honum aðstoð í formi meðferðarúræðis gegn ofbeldishneigð.

 Drengurinn á föður,  móður og systkini hér á landi. Enn fremur kærustu sem gengur með barn þeirra þó þau séu að vísu búin að slíta samvistum. 

 Hugsar sá grimmdarseggur eða seggir sem kváðu upp þennan dæmalausa dóm nokkuð út í það að dómurinn kemur niður á heilli fjölskyldu og ófæddu barni?  Dómurinn veldur því vafalaust miklum fjölskylduharmleik.

 Maður gæti haldið að við lifðum á hinum myrku miðöldum miðað við þennan miskunnarlausa dóm.

Mér finnst líka óréttlátt og bera keim af rasisma að menn séu beittir þessari grimmd .  Og það eingöngu sökum þess að þeir eru ekki af okkar frábæra íslenska kynstofni og hafa ekki borið gæfu til þess að fæðast á þessu útvalda landi okkar .

 Ef átján ára gamall Íslendingur hefði framið þennan glæp og tekið út sína refsingu í kjölfarið.  Hefði verið óhugsandi að hann hefði í ofanálag verið gerður útlægur og með því slitinn úr öllum  tengslum við  fjölskyldu sína.

Mér finnst þessi dómur vera enn verri en kynferðisglæpurinn sem drengurinn var dæmdur fyrir.

Þessi dómur er jafn níðþungur að mínu mati sem væri hann dauðadómur og hann er sannkallað sálarmorð á fjölda ættingja hins dæmda unglings.

 Íslenskt réttarfar ætti svo sannarlega að skammast sín.

 

 

  

 


Ómar Ragnarsson, kostulegur??

Kappinn er jú kostulegur maður

en kameran er vopn í höndum hans.

Hann keyrir hana í kaf á Hálsalóni

og kollurinn verður minnisvarði hans.


´Imagine' Nokkur orð um páfaklúðrið.

Það er ekkert undarlegt að Múslimar skyldu hafa vera reiðir páfa vegna ummæla hans um Islam enda þótt reiði þeirra virðist eitthvað vera að sjatna.

Enda ber það vott um ótrúlegan hroka að ætla sín eigin trúarbrögð fremri öðrum æðri trúarbrögðum. Því kjarni þeirra allra er hinn sami.

Eða eins og vís maður eða kona sagði eitt sinn. Ef þú ætlar upp á tind fjallsins skiptir ekki máli hvort þú leggur á fjallið úr norðri, suðri, austri eða vestri. Allar leiðirnar liggja upp á tindinn.

Og það að páfi skula vitna í 15. aldar texta sýnir einnig í hnotskurn stöðnum og stöðu hinnar katólsku kirkju í heiminum í dag. Í þessum 15. aldar texta segir eitthvað á þá leið að ekkert nema illt hafi komið frá trúarbrögðum Islams.

En hvernig væri fyrir Kristna menn að líta aðeins í eigin barm? Kristin trú hefur verið boðuð með eldi og brennisteini allt síðan á dögum krossfaranna. Þeir notuðu svo sannarlega sverðið í þágu Kristinnar trúar ekki síður en fylgjendur Múhammeðs spámanns nota sín sverð í þágu sinnar trúar.

Og hvernig var það ekki með Inkanna sem voru brytjaðir niður og menning þeirra eyðilögð til þess að komast yfir Inkagullið? Inkarnir voru réttdræpir í augum Kristinna manna þar sem Inkarnir voru aðeins heiðingjar og þess vegna einskis virði, en gullið þeirra var eftirsóknarvert.

Við skulum ekki heldur gleyma spánska rannsóknarréttinum sem pyntaði 'trúvillinga' allt til dauða á hryllilegasta hátt. Né heldur hvernig kirkjan níddist á konum öldum saman.

Eða er einhver búin að gleyma nornabrennunum?

Konur voru jafnvel brenndar á báli fyrir það eitt að kunna að lesa, hvað þá meir.

Og ekki hefur skírlífi katólskra presta haft neitt gott í för með sér svo vitað sé.

Heldur jafnvel þvert á móti, því það vita allir sem fylgjast með heimsmálunum að óteljandi katólskir prestar og biskupar hafa níðst á börnum úti í hinum stóra heimi.

Enda virðist vera ákveðin kvenfyrirlitning í þeirri stefnu að prestar megi ekki konu kenna.

Það er eins og konan sé einhver óhrein vera, svo mikið óæðri körlum að þeir saurgist af nánum

kynnum við þær.

Og enn berast Kristnir menn á banaspjótum og er þar nærtækasta dæmið trúarbragðastríðið á Írlandi. Þar berjast hatramlega tveir hópar innan sömu trúar sem eiga það sameiginlegt að trúa á Jesúm Krist sem boðaði frið á jörð.

Já það er satt sem segir í texta Bubba Morthens 

                                          'Það fossar blóð í Frelsarans slóð' 

 

Mannkynið hefur alrei borið gæfu til þess að fylgja neinum trúarbrögðum svo vel fari. Þau hafa verið afskræmd og leidd á villigötur af mönnunum sjálfum.

Þess vegna væri affarasælast fyrir mannkynið að leggja niður öll trúarbrögð þar til mennirnir komast á það þroskastig að geta meðtekið og fylgt í einu og öllu innsta kjarna þeirra.

Eða hvað söng ekki John Lennon í sínu ódauðlega lagi?

Og hvenig væri að pæla svolítið í því sem hann segir þar?

Imagine

Imagine there's no countries

It isn't hard to do

Nothing to kill or die for

And no religion too

Imagine all the people

Living life in peace...

You may say I'm a dreamer

But I'm not the only one

I hope someday you'll join us

And the world will be as one

Imagine no possessions

I wonder if you can

No need for greed or hunger

A brotherhood of man

Imagine all the people

Sharing all the world...

You may say I'm a dreamer

But I'm not the only one

I hope someday you'll join us

And the world will be as one


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband