Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Hamfarir á svölunum eina ferðina enn!

Ég hringdi í 112 í gærkvöldi af því ég sá að tvöfaldi glugginn á svölunum var við það að fjúka upp og ég og kettirnir vorum vægast sagt, mjög óróleg.  það var með herkjum að ég fengi aðstoð.  Löggudóninn sagði með ískaldri, norðangarra röddu, að það væri ekki í  verkahring lögreglunnar að gera við bilaða glugga. Helvítis löggan alltaf!  Ég varð alveg öskuþreifandi ill og tjáði honum, að ég hefði ekki getað lokað fjárans glugganum almennilega, síðan hann fauk upp í  fyrsta sinni. Þá hefði mér verið neitað um hjálp og ég hefði þurft að standa í stórræðum ein og  sjálf, kerlingarskarið, við það að þvinga aftur gluggann, með einum kústi og tveim moppum, í grenjandi rigningu og ofsaroki. Og ég hefði fengið lungnabólgu í kjölfarið. Nú væri ég með byrjandi blöðrubólgu og byði ekki í það að þurfa að standa í þessu helvítis veseni enn á ný.
Ég væri bara veik, gargaði ég á lögguandskotann og ég gæti hreinlega drepist ef ég þyrfti að taka mér sturtu aftur í ísköldu og rennandi blautu ofsaveðri.
'Nú ég skal sjá hvað ég get gert, tautaði löggufjandinn hinum megin á línunni og lagði svo á.

Svo leið og beið, en loks birtist einn ungur og rauðgallaður björgunarsveitarmaður. Hann var brosandi og sætur og ekkert nema almennilegheitin. Munur en lögguhelvítið! Björgunarsveitargæinn var ekki lengi að meta ástandið þegar hann sá gluggann svigna til og frá í vindhviðunum. Hann dró upp símann og kallaði í snarheitum á hjálp. Það endaði með því að  það þurfti ekki færri en þrjá unga og hörkumyndarlega  björgunarsveitarmenn  til þess að loka glugganum almennilega og notuðu þeir bæði límband,  einn kúst og tvær moppur til verksins. Þeir sögðu mér að glugginn hefði verið það sem kallað er kviklæstur. Það lá við og mig langaði helvíti mikið til þess, að kyssa þá alla í bak og fyrir, fyrir hjálpina, en lét duga að þakka þeim bara kærlega fyrir, í orðum. 'Það var nú lítið mál, til þess erum við', svöruðu þeir glaðlega um leið og þeir fóru út úr dyrunum.  Ég skal svo sannarlega styðja björgunarsveitirnar hér eftir.


'Nafnið' (Endurbirt prósaljóð)

'en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur.' Hún lá endilöng á gangstéttinni í Bankastræti og skrifaði nafnið sitt á grasið við götukantinn. Hún skrifaði með rauðu bleki svo nafnið væri vel sjáanlegt á grænu grasinu. Hún var ekki í neinum fötum en hafði vafið gamalli sæng utan um sig til þess að hylja nekt sína. Hún var hálfhrædd um að einhver myndi amast við henni, þar sem hún lá á maganum þvert yfir gangveginn, eða saka hana um að fremja skemmdarverk með því að pára svona á grasið. En fólkið virtist ekki taka eftir henni, heldur steig hiklaust ofan á hana á hraðferð sinnni upp eða niður götuna Hana var farið að verkja í bakið af því að vera svona fótum troðin en lét sig hafa það. Hún vissi sem var að hún varð að gera allt fyrir nafnið. Þegar hún hafði lokið við að skrifa hálfa leið frá kvennaklósettinu niður að Lækjargötu tók hún sér smáhvíld og kveikti sér í sígarettu. Hún saug áfergjulega að sér reykinn og leit yfir verk sitt. Við augum hennar blasti kraftaverk og henni varð ljóst að Guð hafði stýrt hendi hennar, því á hverjum þeim stað sem hún hafði skrifað nafnið sitt uxu nú rauðar rósir. Hún drap í sígarettunni og fleygði henni umhugsunarlaust í göturæsið. Svo hélt hún áfram að skrifa. En nú þurfti hún að skrifa mun hraðar en áður því sólin var horfin, dökkir kólgubakkar voru að hrannast upp á himninum og það leit út fyrir rigningu. Hún varð að ljúka verkinu áður en það byrjaði að rigna því líklega myndi gamla sængin sem hún notaði sem yfirhöfn gegnblotna ef það kæmi væta á hana. Að lokum skrifaði hún síðasta stafinn. Verkið var fullkomnað og hún lagði frá sér pennann sigrihrósandi. En þar sem hún sat þarna var hún skyndilega lostin skelfilegri hugsun, sem fyllti hana smátt og smátt nagandi óvissu. Hún hafði ekki hugmynd um hvort rauða blekið sem hún hafði skrifað með væri vatnsekta.

 

Guðný Svava Strandberg 


Ógnaröfl Please help me? Hvernig á þessi mynd að snúa og hvað sjáið þið út úr henni?

DSC00011 Ógnaröfl 3 small

Á hún að snúa svona?   Hvað sjáið þið út úr henni þá? Myndin er ekki svona ljós á litinn,

Er þetta mynd af sjóflóði úr fjallaskarði kannski? 

DSC010010 Ógnaröfl 2 small

Svona? Hvað sjáið þið þá út úr henni? 

Er þetta kannski mynd af brimi við ströndina? 

Eða svona kannski og af hverju er hún þá? 

Er þetta kannski snjóhengja að falla fram af veðurbörðum kletti? 

 


Bolluveislan og 'Skín við sólu jökulskalli' þrykk og olía

Ég bauð krökkunum mínum í bollukaffi í dag. Ég var reyndar búin að lofa pönnukökum líka og ég skammast mín fyrir að segja það, að þegar til kom nennti ég ekki að baka þær. Krakkarnir voru hálf spældir, sérstaklega tengdasonurinn,

það lak af honum andlitið,


þegar ég sagði honum, að það yrðu engar pönnukökur eftir allt saman.

Bollurnar og mjólk með, yrðu að duga. Annars held ég að þau hafi öll farið í hálfgerða fýlu því enginn borðaði nema eina bollu.
'Letin í mér alltaf og ómerkilegheitin. lokka þau hingað með loforði um pönnsur og standa svo ekki við loforðið.
Annars er þetta svo sem mér líkt, en æ ég er alltaf svo þreytt eitthvað.'

Svo fékk ég rosamóral og útskýrði fyrir þeim að ég hefði ætlað að vera búin að baka pönnukökurnar löngu áður en þau komu og hita þær svo upp. Það væri alltaf best, en ég hefði gleymt því og nú væri  ómögulegt að standa bullsveitt yfir bakstrinum þegar þau væru komin, enda væri ég nýkomin úr baði.

þau fengju örugglega pönnukökur næst, þegar ég myndi eftir að baka þær fyrirfram, lofaði ég svo upp í ermina á mér.

Ég var svo að prófa myndavélina sem sonur minn ætlar að lána mér því mín myndavél er ómöguleg. allavega kann ég ekkert á hana og hún virkar bara alls ekki. 

Ég tók eina mynd af dóttur minni. Svo þegar ég leit á myndina skildi ég ekkert í því

að risastór bleik blaðra huldi megnið af myndinni. Krakkarnir sprungu úr hlátri þegar ég sagði í

undrunartón.

                                                              'Það er einhver bleik blaðra á myndinni'!!

DSC00005 Erla og bleika blaðran small
 'Hvað getur þetta verið'??


 'þetta er þumalputtinn á þér', sagði sonur minn þurrlega,       vitandi það, að ég er nú eins og ég er. 

'Mikið andskoti er ég vitlaus maður. Hver skyldi trúa því að ég hafi lært ljósmyndun og framköllun á einni önn í Myndlista og handíðaskólanum á sínum tíma. En svona fer þegar aldurinn færist yfir mann. Ójá og já.'

Við sátum þarna og spjölluðum þegar dóttir mín sagði allt í einu. 'Rosalega er fín myndin af fálkanum framan á Fréttablaðinu, þar sem hann er að éta fíl.'

'Éta fíl'!  Hrópaði ég,  'vá maður, hvernig í fjáranum gat hann ráðið niðurlögum heils fíls'? 

'Mamma', sagði dóttir mín rólega og leit á mig  eldsnöggu viðvörunar augnaráði. 'Hann er ekki að éta fíl, heldur fýl.' 

'Já, svoleiðis, það hlaut að vera', sagði ég og mér varð allt í einu svo ofboðslega heitt í framan að ég rauk út á svalir og opnaði  gluggann. 

Restin af bolluveislunni gekk þrautalaust fyrir sig og ég tók fullt af ljósmyndum af ,myndunum mínum. Ég var líka mjög stolt af því að aldrei þessu vant var allt mjög hreint og fínt hjá mér. Enda hafði ég tekið til á örskotsstundu  þ. e. a. s. hent mesta ruslinu inn í skápana og meira að segja sprayjað húsgagnabóni út í loftið til að fá góða lykt.
Svo þegar ég ætlaði að bæta aðeins við anganina og sprayja meira fann ég ekki helvítis brúsann. En skítt með það, þetta hlaut að duga.

Loks kvöddu krakkarnir með virktum og þökkuðu  fyrir mjólkina og meðlætið með kossi.
Ég var ekki lengi að rífa mig úr öllum fötunum þegar þau voru farin og klæða mig í heimagallann.  síðar silkináttbuxur  sem ég held mikið uppá og  bláa blússu sem er öll út í málningarslettum. Mér líður bara einfaldlega best í þessum fötum, þegar ég er svona ein með sjálfi mér og köttunum mínum.

Svo tók ég mjólkina af borðinu og ætlaði að setja hana inn í ísskáp svo hún súrnaði ekki. Það fyrsta sem blasti við augum mínum, þegar ég opnaði ísskápinn, var húsgagnabóns úðabrúsinn sem stóð í efstu hillunni þar sem mjólkin er vön að  vera. 

Set hér inn eina af myndunum mínum.

DSC0001234 Skín við sólu jökulskalli

  Hún heitir 'Skín við sólu jökulskalli'

 

 

 

 


Þrjú andlit Evu (Hugrof) Mixed media

 

 

scan0003 þrjú andlit Evu 1 small

 

Hugrof er röskun sem lýsir sér með því að einstaklingur upplifir mikla truflun á sjálfi sínu, minni eða meðvitund. Það felur í sér orsakir sálrænna erfiðleika, sem tengjast einhverjum hliðum á sjálfi einstaklingsins. Þrjár gerðir eru: 1. Óminni (amnesia). 2. Minnistap (fugue), og 3. Margklofinn persónuleiki (multiple personality disorder).

Þessi mynd mín er gerð með kvikmyndina Þrjú andlit Evu í huga,  sem var sýnd hér á landi fyrir tugum ára við  góða aðsókn og mikið umtal. Kvikmyndin fjallaði um líf konu sem hafði þrjá persónuleika, sem henni gekk illa að samræma hvor öðrum. Þetta var typisk Hollýwood kvikmynd þar sem heilbrigðasti persónuleiki sjúklingsins sigrar að lokum.

En í raun átti persónan í myndinni sér til raunverulega fyrrimynd. Það var kona sem við skulum kalla Önnu. Anna var með 32 persónuleika og saga hennar endaði ekki eins vel og í sögu persónunnar  Evu, í kvikmyndinni.

Oft klofnar persónuleiki manna við það að þeir verða fyrir miklum áföllum í lífinu, oftast nær í bernsku.
Í dag eru til lyf og einnig samtalsmeðferðir fyrir hendi, sem gera þessum sjúklingum kleyft að lifa þokkalega góðu lífi. En fyrr á  öldum nutu þeir vægast sagt  ekki velvildar og voru  oft  álitnir  andsettir. Þar af leiðandi urðu til margar óhugnanlegar sögur um þá sem þjáðust af klofnum persónuleika.
Ein frægasta sagan um tvíklofinn persónuleika er þó tvímælalaust, sagan af  Dr. Jekyll og Mr.Hyde.

Oft hefur geðklofa verið ruglað saman við tvískiptan eða margskiptan persónuleika. En hér er um tvo ólíka sjúkóma að ræða. Þar sem geðklofi einkennist af ranghugmyndum, ofsóknarkennd og á stundum mikilmennskubrjálæði. Sem betur fer geta geðklofa sjúklingar nú til dags flestir lifað góðu lífi með hjálp lyfja og samtalsmeðferða og geta allflestir stundað vinnu svo lengi sem þeir taka lyfin sín.

 

Það er mikilvægt að gæta vel að geðheilsunni með því að hugsa vel um sjálfan sig. Því enginn veit sína ævina fyrr en öll er og geðsjúkdómar gera oft ekki boð á undan sér.

 

Geðorð Geðræktar eru byggð á því sem einkennir farsælt fólk og eru þannig ábendingar til þeirra sem sækjast eftir velgengni og vellíðan í lífinu. Geðorðunum hefur verið dreift víða um land á undanförnum árum á veggspjöldum og póstkortum. Sumarið 2002 skrifaði Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, þáverandi verkefnisstjóri Geðræktar, neðantaldar greinar í Morgunblaðið um einstök geðorð undir merkjum Heilsunnar í brennidepli.

 

             Geðorðin tíu
 

1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara

2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir

4. Lærðu af mistökum þínum 5.

Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina

6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu 7.

Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig

8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína

10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast


Eins og sært dýr svarthvít ljósmynd af vatnslitamynd

Eins og sært dýr small

 

Eins og sært dýr

leitar inn í skóginn

til að deyja

flýr vitund mín

veruleikann

og vefur sjálfa sig örmum

handan þessa heims 

þar sem ennþá

er von.
 


« Fyrri síða

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband