Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Bless í bili

Er að fara til Krítar á laugardaginn og á eftir að gera alveg helling. See you gæs later.

'Svartir listamenn heiðraðir'!

Ekki vissi ég að apartheit stefnan væri svona rótgróin í Hollywood. Hvað verður næst á dagskrá. Gulir, (Asíubúar) listamenn heiðraðir í Hollywood? Rauðskinnar,(indíánar) heiðraðir í Hollywood? Polynesíubúar heiðraðir í Hollywood? Þeir í Ástralíu ættu eftir þessu að dæma að heiðra sína Ástralíunegra á verðlaunahátíðum þar á bæ.
mbl.is Svartir listamenn heiðraðir í Hollywood
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Eins og brenndur snúður heim'?

Ég sit hérna við tölvuna við hliðina á galopnum vesturglugganum og glápi á sólarlagið með öðru auganu meðan ég blogga. Kettirnir mínir, Tító og Gosi hanga hálfir út um gluggann og glápa líka, ekki þó á sólarlagið, þeir eru ekki svo rómantískir kattarforsmánirnar, nei þeir hafa meiri áhuga á biðurkollufræjunum sem fjúka framhjá glugganum.
Tító hefur þó varan á sér, minnugur máva árásarinnar fyrir nokkrum dögum,  því það situr vígalegur mávur á næsta ljósastaur. Þessi mávur dirfðist líka að hringsóla gargandi yfir mér úti í garði áðan,  en settist  svo á ljósastaurinn rétt hjá mér.
Ég var eiginlega hálfhrædd við hann og datt í hug í alvöru hvort hann myndi kannski leggja í  það að ráðast á mig?  Hann hafði nú ekki hugrekki til þess, enda eins gott fyrir hann því þó ég væri hrædd við hann, ætlaði ég að verjast í lengstu lög og hefna harma Títós líka.

Já, ég er nýkomin utan úr garði, var að vökva blómaræksnin eftir þennan sólríka dag. Mér finnst ansi heitt úti en þó er heitara en í Helvíti,  þar sem leið mín liggur eftir fáeina daga. Ég sá það á netinu í morgun að þarna við Miðjarðarhafið á Krít, nálægt Chania, sem er áfangastaðurinn er 42 stiga hiti! 

Það er nebbnilega það! Ég hef einu sinni verið í 43 stiga hita í Californiu fyrir þrjátíu árum, þegar ég var ung og fær í flestan sjó, en ég lagðist samt í rúmið  þá, ásamt tveggja ára syni mínum sem steyptist allur út í eldrauðum hitabólum.  Vegna þessarrar slæmu reynslu minnar aftur í grárri forneskju fékk ég náttúrulega hálfgert móðursýkiskast yfir því að ætla nú að ferðast í annan álíka suðupott á Krít og það þrjátíu árum eldri og hrumari, en þegar ég ung og hraust eins og fyrr segir, lenti í hitabylgjunni í USA .
Ég myndi örugglega ekki sleppa svona billega í þetta sinn, að þurfa bara að leggjast í rúmið. Nei ég var sjúr á því ég myndi þurfa að liggja í kistu, eftir örstutta dvöl á hinni sólríku Krít, sem sótsvart kolbrunnið lík, tilbúin til þess að láta skutla mér heim oní svala og kælandi moldina heima á Fróni.

Í þessum svartýnis hugleiðingum hringdi ég í bróður minn og sagði honum mínar farir ekki sléttar, en hann hló bara góðlátlega að mér. Sagði að hann hefði það eftir sínum öruggu heimildum að veðrið yrði komið niður í þægileg 32 stig þegar ég væri komin á áfangastað. 

Svo ég er öllu rórri þó ég sé flughrædd líka og því verður stefnan tekin á Krít á fljúgandi 'fullri' ferð. 

 


   

  


Hvað er vinur?

Vinur er maður sem gefur þér kjark til að vera þú sjálfur þegar þú ert með honum.

 

                                           PAM BROWN, f. 1928 


Það er allt að fara til Andskotans!

Okkur er sagt og við erum vitni að því sjálf, að jörðin sé að fara í gegnum miklar loftslagsbreytingar, sem ef til vill gætu verið af mannavöldum. Við mengum alla jörðina eins og hún sé ruslahaugur og ekki bara lofthjúp pláneturnnar, heldur líka höfin og jarðveginn víðast hvar. Við dælum koltvísýringi út í andrúmsloftið, urðum sorp og allskonar eitraðan úrgang og dælum skolpi með úrgangi okkar og frárennsli frá allskonar verksmiðjum í ár, vötn og sjó.
Við þykjumst vera herrar jarðarinnar og getum þess vegna komið fram við hana eins og hún sé undirokuð ambátt okkar en ekki móðir okkar allra, sjálf móðir jörð. Hvers konar börn eru það sem óvirða móður sína svo svívirðilega eins og við mennirnir óvirðum móður okkar jörðina?
Og ekki aðeins óvirðum við hana, heldur ötum hana einnig auri og skít og eitrum fyrir henni svo hægt og hægt er hún að deyja í því formi sem við höfum þekkt hana hingað til.
Innan tíðar mun jörðin e.t. v. verða auð og tóm af okkar völdum  En það er ekki aðeins sjálf jörðin móðir okkar sem við komum illa fram við, heldur meðbræður okkar og systur. Við erum rasistar og margar þjóðir þar á meðal Íslendingar níðast á útlendum meðbræðrum sínum sem koma hingað til landsins okkar til þess að leita að betra lífi.
Sumar þjóðir fara einnig með hernaði á hendur hvor annarri og morðingjar og níðingar allskonar vaða uppi. En við látum ekki þar við sitja. Við sem vel flest teljum okkur vera siðmenntuð og trúa á Guð eða einhvern æðri mátt, komum ekki aðeins illa fram við meðbræður okkar mennina ,heldur einnig flest öll dýr
Hvar eru dýraverndarfélögin þegar kemur að meðferð á refum og minkum í loðdýrabúum? Þeir eru í búrum allt sitt llif sem er svo þröng að þeir geta vart snúið sér við og svo eru þeir drepnir til þess eins að þjóna hégómagirnd mannanna, aðallega kvenfólksins. Svo eru það kjúklingabúin, þar eru fuglarnir lokaðir inni allt sitt líf og fá aldrei að sjá sólina og síðan drepnir og étnir. Nautpeningsbúin t.d. í Bandaríkjunum þar sem kálfarnir eru á svo þröngum básum að þeir geta varla hreyft sig sitt stutta líf og fl. og fl.
Mér finnst siðferðið hjá mannfólkinu gagnvart dýrunum, eins og öllu öðru sem viðkemur jörðinn vera á afar lágu plani. Svo þykjumst við trúa á Guð, hann skapaði líka dýrin og ekki til þess að við færum svona illa með þau.
Mannkynið er orðið úrkynjað og gerir dýrin það líka t.d. með erfðabreytingum og ræktunum. Það liggur við að ég segi að best væri að jörðin eyddist að mestu í eldi, brennisteini og með skelfilegum flóðum í hamförum náttúruaflanna svo mannkynið þurfi að byrja aftur á byrjuninni á  nýrri steinöld.
Vonandi bærum við þá gæfu til  þess  að  gera ekki sömu mistökin á nýjan leik.


Ljótasti hundur heims!

Hann er eins ljótur og ufsagrýla hjá sjálfum Andskotanum! En mér finnst hann óttalegt krútt samt. Hann minnig mig svolítið á hunda steinstytturnar í  kvikmyndinni 'Ghost Busters' sem vöknuðu til  lífsins og urðu hinar  hræðilegustu ófreskjur. Hann er bara minni þessi, sem betur fer, en ekki vildi ég samt mæta honum í myrkri eða finna hann undir rúminu mínu um miðja niðadimma nótt í skammdeginu einhvern tímann.

 


mbl.is Ljótasti hundur heims krýndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugarfóstur

Þín ósögðu orð
eru þín ófæddu
hugarfóstur.
Ætlarðu að ljá
þeim líf,
eða láta eyða þeim?

Mávarnir reyndu að ráðast á Tító!

Ég hef aldrei vitað annað eins, Tító, innikisinn minn sat á útsýnispallinum sínum úti í opnum sólsvala glugganum hér uppi á þriðju hæð eins og svo oft áður. Ég hjálpaði honum upp á pallinn sinn af því hann er orðinn gamall og þreyttur og brá mér svo frá augnablik.
En skyndilega heyrði ég hræðslumjálm í Tító og rauk út á svalir. Þá var komið mávager fyrir utan gluggann, sjö mávar alls steyptu sér niður að glugganum sýnilega með það í huga að hafa Tító í kvöldmatinn. Hann var svo hræddur að hann forðaði sér niður á neðri pallinn fyrir neðan gluggann, meðan mávarnir flugu hvað eftir annað að glugganum. Það heyrðist ekki múkk í þeim meðan á árásinni stóð, þeir bara flugu þarna ógnandi hver af öðrum þétt  upp að glugganum þar sem Tító sat öruggur undir efri pallinum.
Ég fylgdist með þeim úr öðrum  glugga en þeir létu návist mína ekki á sig fá. Þeir hringsóluðu svona í fimmtán mínútur og alltaf aftur og aftur að glugganum þar sem Tító sat. Undir lokin voru þeir farnir að garga af ergelsi yfir að bráðin skyldi sleppa svona auðveldlega frá þeim og tíndust síðan burt einn af öðrum.
Það hafa tveir svartbakar eða sílamávar haldið til hérna á milli blokkanna í tæp tvö ár,  líklega vegna þess að bæði Bónus og  ein sjoppa er hér rétt hjá, en síðastliðið ár fór mávunum að fjölga og það er óhuggulegt að sjá þá allaf fljúga hér yfir og á milli húsanna.
Fyrir rúmu ári síðan sá ég svo furðulega sjón, tvo máva sem réðust á svartan kött við aðra blokk hér rétt hjá, en nær Bónus. Þeir steyptu sér niður að honum og gogguðu í bakið á honum. Kisa átti fótum  fjör að launa. Hún gerði sig eins lága í loftinu og hún mögulega gat og skaust svo eins og píla inn í þéttan runnagróður
Ég hélt þegar ég sá þetta atvik að ég yrði ekki eldri af undrun. En að mávarnir skyldu reyna að ráðast á Tító þar sem hann sat úti í opnum glugganum  hefði ég aldrei trúað fyrr en á reyndi.
Mikið lifandis ósköp hljóta fuglarnir að vera svangir. Þeir eru að breytast í ránfugla.
Það liggur við að ástandið sé orðið eins og í kvikmyndinni 'The Birds' eftir Alfred Hitchcock sem var sýnd fyrir óralöngu og var talin vera eitt af hans meistaraverkum.

Ég vorkenni mávunum og um daginn þegar ég sá í sjónvarpinu að verið var að eitra fyrir þá, varð mér að orði.'Mikið lifandis skelfing á þetta bágt' Þó hef ég hingað til hatað máva eftir að ég sá einn þeirra, fyrir tugum ára síðan tína upp heilu röðina af litlum andarungum sem voru líklega að fara í fyrsta sinn útá Tjörnina með móður sinn.  Andamamma gat lítið, nei ekkert að gert. hún gargaði bara og barði saman vængjunum meðan hún horfði á hvern ungann sinn á eftir öðrum enda  uppi í gini ófreskjunnar. 

En mér varð hugsað til þess eftir árás mávanna á Tító kisann minn, sem ég elska út af lífinu hve við mennirnir erum sjálf undarlegar skepnur. Við erum líka grimm eins og mávarnir og stundum eru gjörðir okkar einna líkastar því sem við séum hálf siðblind. Eins og t.d. að halda gæludýr sem við dekrum við, jafnvel þó þau séu í eðli sínu grimmari rándýr en mávarnir eru orðnir í dag.  Eins og reyndin er með kettina okkar,  Já og hundarnir eru líka rándýr í eðli sínu þó þeir séu svo tamdir að þeir veiða ekki nema undir stjórn mannsins. Hundar og kettir eru krútt þess vegna elskum við þau, en mávarnir eru í okkar augum illfygli vegna þess m. a. að þeir éta lítil krútt eins og  t.d. andarungana á Tjörninni. 

Við fyrirgefum köttunum þó þeir veiði fallegu litlu fuglana vegna þess að kettir eru hændir að manninum og eru blíðir og góðir við eiganda sinn, fyrir utan það að vera loðnir og mjúkir.

Hundar eru látnir veiða refi í Englandi og minka t.d. á Íslandi, refirnir eru ekki í náðinni af því þeir eru ekki tamdir og þeir stela fæðu frá okkur mönnunum. Minkarnir gera það líka því þeir veiða lax án þess einu sinni að borga fyrir það og drepa fugla sem okkur eru þóknanlegir af því við höfum annað hvort nytjar, eða yndi af þeim. 

Við mennirnir miðum allt út frá okkur sjálfum, drepum þau dýr sem okkur líkar ekki við eða þá að við drepum þau til þess að éta þau sjálfir.
 Mennirnir erum ekkert betri en mávarnir, við erum tækifærissinnar eins og þeir en því miður fyrir mávana þá trónum við á toppnum í dýraríkinu og ráðum þess vegna örlögum þeirra en þeir ekki okkar, eða við skulum rétt vona það.

 


Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband