Leita í fréttum mbl.is

Hefði verið betra fyrir konuna sem fannst látin í íbúð sinni ef hún hefði verið Inúíti til forna?

Þegar ég las fréttina um gömlu konuna sem fannst látin í íbúð sinni varð mér hugsað til aldraðrar konu sem lá á sömu sjúkrastofu og ég þegar ég var ung stúlka.

Þessi kona var með krabbamein í nýrunum og fyrstu mánuðina sem ég lá á þessari stofu með henni var hún nokkuð hress. Gat sest upp í  rúminu og talað við okkur hinar sem lágum þarna með henni, sem og þá sem komu í heimsókn til hennar.

Em smátt og smátt fór að draga af henni og hún kvaldist mikið. Oft var það svo að við hinar konurnar gátum ekki sofið vegna hljóðanna í henni.  Æpti hún þá oft frávita af kvölum. 'Ég vil ekki deyja, ég vil ekki deyja'

þegar við  kvörtuðum (með vondri samvisku) undan því að það væri ekki nokkur leið að sofa vegna hávaðans í henni var henni rúllað í rúminu sínu út af stofunni og inn í annað herbergi.

Á endanum var hún orðin svo langt leidd að hún var meðvitundarlaus og þá var henni líka rúllað út af stofunni í rúminu sínu,  til þess að deyja. 

Ég átti erindi fram á gang skömmu seinna og átti þá leið fram hjá litlu kompunni þar sem hún lá ein og yfirgefin og beið  dauða síns Það var opið inn til hennar svo allir sem gengu þarna hjá gátu horft upp á dauðastríð hennar. Þetta var nú öll virðingin og tillitsemin sem henni var sýnd.

 Ég man að ég hugsaði þá með sjálfri mér að ég ætlaði ekki að deyja á sjúkrahúsi þegar þar að kæmi.

 Lærdómurinn sem mér finnst ég geta dregið af þessu er sá að það er öllum sama um þá sem eru gamlir og veikburða hvort sem þeir eru á sjúkrahúsi eða einir heima hjá sér.

 Það er eins og fólk hrökkvi aðeins við þegar svona fréttir berast eins og þessi, að gömul kona hafi fundist látin heima hjá sér og allir tala um það í nokkra daga að við þurfum að sýna meiri náungakærleika.  

Sumum bregður þó meira  en öðrum það er að segja þeim sem eiga aldraða móður eða föður sem búa ein og sem þau heimsækja sjaldan.

En svo gleymist þetta fjótlega í þessu hraðskreiða þjóðfélagi þar sem enginn má vera að því að sinna þeim öldruðu sem búa einir.

 Satt að segja held ég að eins og komið er fyrir öldruðum í þessu blessaða velferðar og útrásar samfélagi væri það miklu hreinlegra og betra fyrir gamla fólkið að við stigjum skrefið til fulls og  hefðum það einfaldlega eins og Inúítar hér áður fyrr sem skildu gamla fólkið eftir úti á ísnum þegar það var orðið öðrum til trafala.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband