Leita í fréttum mbl.is

Bölmóður og barningur kalkaða einbúans

Íbúðin mín er nánast í niðurníðslu því það er svo er margt sem þarf að laga og dytta að.
Til dæmis hefur þvottahúsið mitt ekki borið sitt barr síðan Albanirnir á neðstu hæðinni stungu barkanum á þurrkaranum sínum í samband við loftræstikerfið.
Og þeir þurfa sko svo sannarlega að þvo því þeir búa þarna þrettán saman í fjögurra herbergja íbúð, bæði karlar, konur og börn.
Ég vildi óska að ég ætti svona stóra fjölskyldu þá kæmist kannski eitthvað í verk á mínu heimili.  
því það gerir mig eitthvað svo lata að búa svona ein og svo veitir mér heldur ekkert af smáhjálp með alla mína krankleika. 
Ég var einmitt að þvo sjálf þegar Albanirnir fengu þá hugljómun að loftræstiopið á þvottahúsinu hjá þeim væri sérhannað til þess að sía burt raka úr þvotta-þurrkurum
þessvegna var allt fullt af raka í mínu þvottahúsi, þegar drullan úr loftræstikerfinu puðraðist út og lak svo niður nýmálaða veggina og yfir allt draslið á hillunum í  brúnum leðjutaumum.  
Ég hefði þurft að fá áfallahjálp, ég sé það núna eftirá, þegar ég snemma morguninn eftir opnaði dyrnar til að líta eftir þvottinum.
Ég reyndi að tala við Albanina um þetta mál. Spurði hvort þeir væru ekki með tryggingu og svoleiðis.
En hvort sem tungumála erfiðleikum var um að kenna eða þrjósku beggja aðila, þá var ég gerð afturreka fyrir fullt og allt með erindi mitt, í þriðja skiptið sem ég dirfðist að banka uppá hjá þeim.
Sonur minn var svo vinsamlegur að taka niður veggföstu hillurnar og þvottasnúrurnar mínar.

Ég hringdi svo í málara og spurði hógværlega hversu mikið hann tæki fyrir að mála eitt ponsulítið þvottahús. Þrjátíu þúsund svaraði málarinn fyrir utan undirbúningsvinnu.
Mér var ekki lítið brugðið maður grípur ekki þrjátíu þúsund krónur upp af götu sinni, fyrir málun á einu þvottahúsi, sem var rétt nýbúið að mála.

Svo ég bar allt draslið úr þvottahúsinu, þvottakörfurnar og fleira dót sem þar hafði dagað uppi inní stofu. Svo fór ég að þrífa undir nýja málun á þvottahúsinu, alein og yfirgefin og kettirnir horfðu á, auðvitað, þeir þrífa ekkert nema sjálfa sig.

En þar sem ég er með kölkun í baki og mænuþrengsl hafa þrifin ekki gengið sem skyldi. Já og ég gleymdi að minnast á það að ég var líka svo óheppin að fá drep í sár á fæti sem er nú nýlega gróið eftir sjö mánaða sýklalyfjagjöf.
En hvað með það þetta gengur bara alls ekki nógu vel hjá mér.
þó er ég löngu búin að rífa burt gólflistann í þvottahúsinu svo hægt sé að skipta um gólfdúk. En þá kom í ljós að þar undir var fullt af lími sem ég er búin að vera að dunda mér við í rólegheitum að skrapa af og bursta svo flötinn á eftir með stálbursta.
Steinrykið var ekki beint heppilegt fyrir lungun mín þar sem ég er nýbúin að vera á spítala með lungnabólgu en það verður bara að hafa það. Bakið heimtaði líka alltaf sterk verkjalyf eftir hverja törn. 

Og enn sé ég ekki fyrir endan á þvottahúsinu. það á eftir að þrífa meira, mála, festa hillur, festa lítið borð, skera til og líma á gólfdúk, setja nýja gólflista og nýjan vask.
Og alltaf er draslið úr þvottahúsinu mér til ama í stofunni því ég nenni ekki að vera að bera það sífellt fram og til baka.
En ef allt gengur að óskum verð ég kannski búin að þessu fyrir næstu jól, hver veit?


Svo kom að því að það þurfti nauðsynlega að olíubera parketið í stofunni og alrýminu. En það hefur ekki enn komist í verk þar sem ég þekki engan sem getur borið húsgögnin inn í eitt herbergið á meðan.
En parketið er farið að springa eftir endilöngu af ofþornun, meira að segja yfir þröskuldana.
Ég er svona að hugleiða að leigja mér búslóðaflutningamenn til þess að flytja til húsgögnin fyrir mig.

 

                           Ég er farin að kalka bæði hausnum í og hrygg
                           því húki mest í bælinu og þar eins og skata ligg.
                           Hugsanirnar út og suður hringla í kolli mér.
                           Þó held ég-að mitt nafn sé-Svava og sendi kveðju þér
.
                                            


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Vildi að ég gæti hjálpað þér.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 9.2.2007 kl. 23:12

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

þakka þér fyrir það Heimir.

Svava frá Strandbergi , 9.2.2007 kl. 23:13

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef þungar áhyggjur af því að enginn nenni að bera kistuna mína til grafar þegar þar að kemur. Ætli ég verði þá bara ekki að gera það sjálfur. Það verður samt erfitt því ég er kominn með heiladrep á lokastigi og myndi áreiðanlega aldrei finna gröf mína og jafnvel álpast bara ofan í þína gröf í staðinn.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.2.2007 kl. 23:32

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Vertu velkomin. Við getum kannski sungið Tveir draugar sitja á dauðs manns kistu hæ hó hæ og ein rommflaska með!!

Svava frá Strandbergi , 9.2.2007 kl. 23:38

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

n

Svava frá Strandbergi , 9.2.2007 kl. 23:39

6 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þenkjú very mutsh, vessgú!

Svava frá Strandbergi , 9.2.2007 kl. 23:40

7 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 9.2.2007 kl. 23:44

8 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Svava frá Strandbergi , 9.2.2007 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband