Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Mávarnir reyndu að ráðast á Tító!

Ég hef aldrei vitað annað eins, Tító, innikisinn minn sat á útsýnispallinum sínum úti í opnum sólsvala glugganum hér uppi á þriðju hæð eins og svo oft áður. Ég hjálpaði honum upp á pallinn sinn af því hann er orðinn gamall og þreyttur og brá mér svo frá augnablik.
En skyndilega heyrði ég hræðslumjálm í Tító og rauk út á svalir. Þá var komið mávager fyrir utan gluggann, sjö mávar alls steyptu sér niður að glugganum sýnilega með það í huga að hafa Tító í kvöldmatinn. Hann var svo hræddur að hann forðaði sér niður á neðri pallinn fyrir neðan gluggann, meðan mávarnir flugu hvað eftir annað að glugganum. Það heyrðist ekki múkk í þeim meðan á árásinni stóð, þeir bara flugu þarna ógnandi hver af öðrum þétt  upp að glugganum þar sem Tító sat öruggur undir efri pallinum.
Ég fylgdist með þeim úr öðrum  glugga en þeir létu návist mína ekki á sig fá. Þeir hringsóluðu svona í fimmtán mínútur og alltaf aftur og aftur að glugganum þar sem Tító sat. Undir lokin voru þeir farnir að garga af ergelsi yfir að bráðin skyldi sleppa svona auðveldlega frá þeim og tíndust síðan burt einn af öðrum.
Það hafa tveir svartbakar eða sílamávar haldið til hérna á milli blokkanna í tæp tvö ár,  líklega vegna þess að bæði Bónus og  ein sjoppa er hér rétt hjá, en síðastliðið ár fór mávunum að fjölga og það er óhuggulegt að sjá þá allaf fljúga hér yfir og á milli húsanna.
Fyrir rúmu ári síðan sá ég svo furðulega sjón, tvo máva sem réðust á svartan kött við aðra blokk hér rétt hjá, en nær Bónus. Þeir steyptu sér niður að honum og gogguðu í bakið á honum. Kisa átti fótum  fjör að launa. Hún gerði sig eins lága í loftinu og hún mögulega gat og skaust svo eins og píla inn í þéttan runnagróður
Ég hélt þegar ég sá þetta atvik að ég yrði ekki eldri af undrun. En að mávarnir skyldu reyna að ráðast á Tító þar sem hann sat úti í opnum glugganum  hefði ég aldrei trúað fyrr en á reyndi.
Mikið lifandis ósköp hljóta fuglarnir að vera svangir. Þeir eru að breytast í ránfugla.
Það liggur við að ástandið sé orðið eins og í kvikmyndinni 'The Birds' eftir Alfred Hitchcock sem var sýnd fyrir óralöngu og var talin vera eitt af hans meistaraverkum.

Ég vorkenni mávunum og um daginn þegar ég sá í sjónvarpinu að verið var að eitra fyrir þá, varð mér að orði.'Mikið lifandis skelfing á þetta bágt' Þó hef ég hingað til hatað máva eftir að ég sá einn þeirra, fyrir tugum ára síðan tína upp heilu röðina af litlum andarungum sem voru líklega að fara í fyrsta sinn útá Tjörnina með móður sinn.  Andamamma gat lítið, nei ekkert að gert. hún gargaði bara og barði saman vængjunum meðan hún horfði á hvern ungann sinn á eftir öðrum enda  uppi í gini ófreskjunnar. 

En mér varð hugsað til þess eftir árás mávanna á Tító kisann minn, sem ég elska út af lífinu hve við mennirnir erum sjálf undarlegar skepnur. Við erum líka grimm eins og mávarnir og stundum eru gjörðir okkar einna líkastar því sem við séum hálf siðblind. Eins og t.d. að halda gæludýr sem við dekrum við, jafnvel þó þau séu í eðli sínu grimmari rándýr en mávarnir eru orðnir í dag.  Eins og reyndin er með kettina okkar,  Já og hundarnir eru líka rándýr í eðli sínu þó þeir séu svo tamdir að þeir veiða ekki nema undir stjórn mannsins. Hundar og kettir eru krútt þess vegna elskum við þau, en mávarnir eru í okkar augum illfygli vegna þess m. a. að þeir éta lítil krútt eins og  t.d. andarungana á Tjörninni. 

Við fyrirgefum köttunum þó þeir veiði fallegu litlu fuglana vegna þess að kettir eru hændir að manninum og eru blíðir og góðir við eiganda sinn, fyrir utan það að vera loðnir og mjúkir.

Hundar eru látnir veiða refi í Englandi og minka t.d. á Íslandi, refirnir eru ekki í náðinni af því þeir eru ekki tamdir og þeir stela fæðu frá okkur mönnunum. Minkarnir gera það líka því þeir veiða lax án þess einu sinni að borga fyrir það og drepa fugla sem okkur eru þóknanlegir af því við höfum annað hvort nytjar, eða yndi af þeim. 

Við mennirnir miðum allt út frá okkur sjálfum, drepum þau dýr sem okkur líkar ekki við eða þá að við drepum þau til þess að éta þau sjálfir.
 Mennirnir erum ekkert betri en mávarnir, við erum tækifærissinnar eins og þeir en því miður fyrir mávana þá trónum við á toppnum í dýraríkinu og ráðum þess vegna örlögum þeirra en þeir ekki okkar, eða við skulum rétt vona það.

 


Ég vil trúa á skrímslið. En ég hef gert uppgötvun aldarinnar!

image002scan0005  small

Mér finnst allar sögur um skrímsli, tröll, álfa, huldufólk, nykra og fleiri furðuverur svo heillandi. En ég hef ekki mikla trú á tilvist skrímslisins í Loch Ness þó ég trúi hálfpartinn á huldufólk og aðrar víddir, því það er svo margt sem við skynjum almennt ekki.
En skrímslið í Loch Ness tel ég vera þjóðsögu eina líkt og sagan um orminn í Skorradalsvatni. Mig minnir að hann hafi þannig  tilkomið að heimasætan á Grund, einum bænum í dalnum lagði orm á gull sitt og geymdi í smáskríni. Ormurinn óx hins vegar hratt og braust loks út úr skríninu og stefndi beint í vatnið þar sem hann hefur haldið til æ síðan.
Ég eyddi einu sumri við Skorradalsvatn þegar ég var 13 ára og ég man að þá trúði ég hálft í hvoru á tilvist ormsins í vatninu, því vatnið var bæði djúpt og dularfullt. Svo var það líka langt og mjótt eins og ormur.
Það er svipað með Lagarfljót en þar á að búa skrímslið, Lagarfljótsormurinn og það er skrýtið að Lagarfljót er einmitt líka svona langt og mjótt eins og Skorradalsvatn og Loch Ness vatnið.

Svona þjóðsögur og mýtur eru lífseigar af því þær krydda tilveruna og ekki er verra ef hægt er að hafa  einhverjar tekjur af þeim eins og raunin er með Loch Ness skrímslið.

Ég lærði anatomyu í Myndlista og handíðaskólanum og hef gaman af því að teikna mannslíkamann og nú þegar ég horfði á þessa frægu mynd af Nessý rann upp fyrir mér ljós.

Myndin er af mannshandlegg og hendi sem beygð er í  ákveðna stellingu til þess að líkjast sem mest einhvers konar höfði.
Ofanverð öxlin á manninum og  upphandleggurinn mótar búkinn á Nessý en framhandleggurinn hálsinn og höndin myndar höfuðið, að öðru leyti er maðurinn undir vatns yfirborðinu. Þetta er frekar þrekinn handleggur af stæltum karlmanni. Ljósmyndin af handleggnum og hendinni er tekinn þannig að ytri jaðar handarinnar vísar fram í myndina en ef vel er að gáð sést glitta í þumalfingurinn sem snýr inn í myndina frá áhorfandanum.


mbl.is Nessie eða otur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjuóskir í tilefni sjómannadagsins og gagnrýni á kvótakerfið.

Það mælti mín móðir
að mér skyldi kaupa
fagran flota skipa
fremstur gerast sægreifa.

Standa í brú og stjórna
stýra frystinökkva.
Brenna svo að bryggju
og brott með meiri kvóta.


Innilegar samúðarkveðjur

til fjölskyldu og aðstandenda, vegna andláts  Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur,
sannkallaðrar hetju. Megi Guð gefa ykkur styrk.

 

'veit ég, að geymast handar stærri undur,
þótt stórtré vor í byljum jarðar brotni,
bíður vor allra´um síðir Edenslundur.'


mbl.is Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Út úr heiminum'

Ég er búin að vera meira og minna uppdópuð og útúr heiminum af parkódín forte áti undanfarna daga vegna mænuþrengslanna. Maður fer bara að verða hræddur um að verða forfallinn, viðvarandi dópisti. En þetta stendur allt til bóta því ég talaði við taugaskurðlækninn eldsnemma í morgun og hann ætlar að skera mig upp, alla vega ætlar hann ekki að skera mig niður sem betur fer, hjúkk! Hvað ég er fegin!

Ég vona bara að ég fari ekki á hausinn við að þurfa að þiggja sjúkradagpeninga og missa atvinnuleysisbæturnar. Samt hef ég nú ekki svo miklar áhyggjur af því sökum þess að það hringdi í mig félagsráðgjafi í gær. Já, ég veit að það hljómar ótrúlega að félagsráðgjafi hafi hringt í mig því venjulega eru þeir mjög uppteknir og mega heavy erfitt að fá viðtal við þá.
En þessi var að tilkynna mér að  ég fengi úthlutaða ferðaþjónustu fatlaðra. Mikið var!!  Þá þarf maður ekki lengur að splæsa svona oft í leigubíla. Semsagt ég er opinberlega orðin fatlað fól, alla veganna þar til ég verð skorin, ef aðgerðin heppnast það er að segja, en auðvitað er ég bjartsýn.
Já, ég gleymdi aðalpointinu i þessu, þessu með óttann við það að fara á hausinn, ég má nefnilega alls ekki við þvi að fara á hausinn,  þar sem ég er svoddan klikkhaus fyrir.
Jæja, félagsráðgjafinn sagði að ég myndi fá félagslega aðstoð ef í hart færi fjárhagslega. Ég verð víst að kyngja stoltinu og segja já takk við því góða boði. Það er ekki á hverjum degi sem manni eru boðnir beinharðir peningar svona að fyrrabragði.

Svo sendi hún Ester bloggvinkona mín, mér reiki í gær. Það verður að duga, að senda mér það svona í pósti, þangað til ég skána svo mikið að ég komist niður tröppurnar onaf þriðju hæð og geti farið til hennar í eigin persónu. 

En Guðmundur góði og Heiða, kaffiboðið stendur á föstudaginn klukkan fjögur ef þið komist og líka bara ef þið viljið bara vera svo góð að horfa framhjá öllu draslinu og kattarhárunum út um allt. 

Já það er gott að eiga góða að. Systir mín elskuleg kom svo til mín í gær með  smá fæðubirgðir, svo ég er bara í góðum málum.

En nú ætla ég að fara að leggja mig aftur. 


Jæja, þá er ríkisstjórnin komin á koppinn ..

..og þá er bara að vona að hún geri eitthvað í hann.
En mikil skelfing er maður fegin að vera laus við Framsókn úr ríkisstjórninni. Ég vona bara til Guðs að Samfylkingin falli ekki í sömu gryfjuna og frammararnir og endi líka sem aftanívagn á limmósínu sjallana.
Ég er ánægð með að Jóhanna Sigurðardóttir hafi loks fengið sinn langþráða tíma og ég held bara að hún komi til með að gera góða hluti sem velferðarráðherra. Ekki veitir af að bæta hag barnafjölskyldna og lífeyrisþega.

Guðlaug Þór heilbrigðisráðherra er ég ekki jafn viss um að geri það eins gott í heilbrigðiskerfinu með fullri virðingu fyrir honum sem persónu. Það sópar að honum og ég vissi það um leið og ég sá hann í fyrsta sinn að þessi strákur ætti eftir að ná langt.
En ég er hrædd um að hann einkavæði  heilbrigðiskerfið og það fari á versta veg.
Vonandi endar það samt ekki með því að láglaunafólk missi allt sitt fyrir utan heilsuna, ef það veikist alvarlega,  eins og tíðkast í Amríkunni.

Þorgerður Katrín er náttúrulega eins og hinn hvíti stormsveipur í menntamálunum. Hún mætti  samt alveg huga betur að endurmenntun öryrkja og annars fatlaðs fólks til þess að koma því aftur út á vinnumarkaðinn.
Það myndi spara ríkinu stórfé fyrir utan það að bæta andlega og líkamlega heilsu  þeirra sem á þyrftu að halda.

Ingibjörg Sólrún sjálfur höfuðpaurinn í Samfylkingunni skín eins og sólstafur í gegnum góðviðrisský í sínu nýja hlutverki sem utanríkisráðfrú og ber nafn með rentu.
Ég vona svo sannarlega að hún hugi alvarlega  að  Evrópumálunum.  Það myndi kannski verða til þess að Ísland verði ekki lengur einna frægast fyrir það að vera það ríki, þar sem fæði og húsnæði er hvað dýrast í  hinum vestræna heimi. 

Geir H. Haarde hef ég lítið um að segja, annað en það, að ég hefði heldur viljað sjá Ingibjörgu í hans sæti og öfugt. Einnig finnst mér stórskrýtið að maður á hans aldri skuli svína svona á konunum í sínum flokki.  Hann er með sex ráðherra og þar af er ein kona.
Það hefði heldur betur verið rekið um ramakvein meðal karlanna í flokknum ef hann hefði fyrir utan sjálfan sig sem forsætisráðherra skipað konur í öll hin ráðherraembættin.

Það liggur við að í jafnréttismálum lifi Sjálfstæðisflokkurinn enn þá á steinöld og hananú!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband