Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ljóð

Lagið við ljóðið mitt 'Huggun' komið á bloggið mitt. Höfundur lags er Halldór Guðjónsson

Huggun

Þú kemur til mín
ósköp hægt og hljótt
er húmið dökka
sest um sefa minn.
Í hjarta mér
þá helköld ríkir nótt
en heit mín tár
sem falla á fölva kinn.
Þá lýsa mér þín augu
blíð og blá.
Svo björt og hrein
þar skín mér ástin þín.
Sem glæðir aftur
gleymda von og þrá.
Þú göfga litla hjartans, kisan mín.


Lag gert við ljóðið mitt 'Huggun', sem er um hann Tító minn

Ég fékk skemmtilega upphringingu frá ungum manni,  Halldóri nokkrum, náði ekki eftirnafninu. Hann sagðist hafa gert lag við ljóðið 'Huggun' , sem ég gerði um hann Tító minn og birti hér á blogginu mínu. Hann sagði að hann hefði gert lagið í febrúar því ég hefði birt ljóðið fyrst þá á blogginu.
Ég var náttúrulega búin að steingleyma því að ég hefði birt ljóðið hérna áður. Við töluðum heillengi saman, mest um dýrin okkar, en hann á bæði kött og hund. Ég sagði honum að það hefði verið gert lag við ljóð eftir mig áður, en það ljóð heitir 'Ský' og sá sem gerði lagið hefði sungið það með textanum mínum,  opinberlega. Það var einhver tónlistarkennari sem gerði það lag og hann hringdi í mig á sínum tíma til þess að segja mér frá þessu. Hann ætlaði að senda mér lagið með söng sínum, en það varð nú aldrei neitt af því. Ef þessi tónlistarkennari les þetta blogg, sendir hann mér kannski upptöku af sönglaginu 'Ský' eftir allt saman.
Halldór lofaði að senda mér lagið sitt við 'Huggun' og ætlar kannski líka að gera lag um Skýið. Hann spurði hvar hann gæti nálgast það og ég benti honum á það.
Svo gáfum við hvort öðru netföngin okkar og nú bíð ég spennt eftir laginu hans Halldórs, um Títólinginn minn.

Tító minn verður þá kannski ódauðlegur eftir allt saman, ef lagið verður þekkt. Jibbý, jibbý, jei! 


Ég tók mig til eitt sinn þegar mér ofbauð draslið heima hjá mér

scan0005

og málaði mynd af lítilli býflugu á viðarbút. Ég dáist svo að býflugum af því þær eru svo duglegar og vinnusamar og ég hefði ekkert á móti því að eiga svo sem eina, í súperstærð til þess að taka til heima hjá mér.
Ég skrifaði líka þekkt slagorð á viðarbútinn og hengdi hann svo upp á áberandi stað til þess að minna mig á að vera iðin við að halda öllu hreinu og fínu heima hjá mér.
Þetta slagorð hefur síðan verið mín einkunnarorð og leiðarljós í lífi mínu.

Svo í gær gerðist hræðilegt slys, þegar ég var að þurrka af viðar- rimlagardínunum. 

 

Myrkraverk á bak við tjöldin

Ég klessti kolbrjálað
flugukvikindi inn´í  gardínurimlunum,
þegar ég dró fyrir gluggann.
Ég frem mín myrkraverk, á bak við tjöldin.


Huggun

Þú kemur til mín
ósköp hægt og hljótt
er húmið dökka
sest um sefa minn.
Í hjarta mér
þá helköld ríkir nótt
en heit mín tár
sem falla á fölva kinn.
Þá lýsa mér þín augu
blíð og blá.
Svo björt og hrein
þar skín mér ástin þín.
Sem glæðir aftur
gleymda von og þrá.
Þú göfga litla hjartans,
kisan mín.

 

Tíó mínum hefur versnað undanfarið. Hann hefur legið mikið einn í bólinu sínu og eltir mig ekki lengur um allt. Það er eins og hann sé svo þreyttur og áhugalaus um allt. Hann sem alltaf fylgdi mér hvert fótmál liggur nú bara fyrir og dormar
Hann er líka svo skrýtinn í augunum eins og hann sé alltaf syfjaður og jafnvel þó að hann elti mig stundum fram í eldhús þegar hann heyrir mig opna ísskápinn þá borðar hann samt ekki heldur hangir bara yfir matarskálinni sinni með lokuð augun.
Svo í gærmorgun kastaði hann svo mikið upp og kúgaðist svo mikið. Svo gaf ég honum að borða aftur eftir klukkutíma og þá kastaði hann strax upp aftur, um leið og hann var búinn að borða.
Ég fór með hann upp á dýraspítala og dýralæknirinn gaf honum sterasprautu, B vítamín og sýklalyf og sagði mér að sjá til .
Tító er nú að verða níu ára í nóvember og dýralæknirinn sagði að heilbrigðir balinese kettir yrðu í mesta lagi 10 til 12 ára, en hann hefði náttúrulega aldrei verið heilbrigður með þessi veiku nýru sín og einhvern tíma yrðu allir að deyja, þó hann væri ekki alveg að fara nú á nóinu
Ég er eins og dofin og ég held að það séu  sálræn varnarviðbrögð mín. Ég get vart hugsað til þess að Tító fari frá mér en veit að það er rétt að, að því kemur eins og hjá öllum öðrum, að hann deyr. En þangað til ætla ég að njóta þess tíma sem hann er hjá mér, hann elsku Tító minn.


Komdu, komdu til mín, fljótt!

Eins og hungraður
munnur ungbarnsins
leitar eftir brjósti
móður sinnar,
reikar hugur minn
til þín.

Þú, sem ert þarna, úti,
- einhvers staðar,
- komdu!
Komdu til mín, fljótt!
Því enginn
kyssir varir mínar,
enginn gælir við andlit mitt.

Ég strýk hálfopnar
varir mínar mjúklega,
svo mjúklega
og kyssi hendur mínar ákaft,
svo ákaft,
sem þar værir þú.

Þú, sem ert þarna, úti,
- einhvers staðar,
- komdu!
Komdu til mín, fljótt!


Haust Ljóð og mynd, þrykk.

Gæsirnar
klufu loftið
í oddaflugi yfir fölbleikt engið
scan0007 small
og gullin lauf trjánna
svifu mjúklega til
jarðar
eins og dúnn
undan ljósum
væng.

Í djúpum skít

Ég missti andlitið
og er í djúpum skít.
Vantar gefins grímu
og góðan drullusokk.

Hugarfóstur

Þín ósögðu orð
eru þín ófæddu
hugarfóstur.
Ætlarðu að ljá
þeim líf,
eða láta eyða þeim?

Lýgur hann??

Sú staðreynd að risaeðlur ríktu hér á jörðu fyrir 65 milljónum ára er eitt út af fyrir sig næg sönnun þess að Guð sé ekki til og hafi þess vegna ekki getað skapað þær.
Enda er hvergi minnst á sköpun Guðs á risaeðlum í Biblíunni.
Jafnvel þó við göngum út frá því að Drottinn hafi ekki getað skapað risaeðlurnar sökum þess að hann var ekki kominn fram á sjónarsviðið þegar þær voru uppi,
er það þó að minnsta kosti ljóst að hann lýgur þegar hann segir í Bibíunni að hann hafi alltaf verið til.
Með því bætir hann gráu ofan á svart og brýtur eitt af sínum grundvallar boðorðum sem hljóðar svo;
'Þú skalt ekki ljúga'
En hver skapaði þá risaeðlurnar?
Augljóslega, einhver annar guð.
Drottinn hefur þá ýkt ansi skrautlega líka þegar hann hélt því fram að hann einn væri Guð og að við skyldum ekki aðra guði hafa.

þess vegna segi ég alltaf hreint út við Guð, þegar hann er að reyna að telja mér trú um að hann sé til, - að hann sé mesti lygalaupur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband