Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
28.4.2009 | 07:45
Ilmurinn
Ég hallaði mér út um opinn svefnherbergis gluggann og starði tómlega út í auðan húsagarðinn.
Það var vor í lofti þennan laugardags eftirmiðdag, náttúran að vakna til lífsins og angan af grænu grasi barst að vitum mér. Ég ætlaði út að skemmta mér um kvöldið, samt var ég í þungu skapi.
Enn ein ömurleg helgin framundan hugsaði ég með sjálfri mér því ekki var það venjan að nokkur karlmaður liti tvisvar á mig þegar ég fór út á lífið.
Ég myndi örugglega enda ævina sem ellidauð piparjúnka. Engin von um börn né barnabörn að ekki sé minnst á syrgjandi eiginmann við dánarbeð mitt.
Ekki sála myndi fella tár þegar ég gæfi upp öndina og það yrði áreiðanlega ekki ein einasta minningargrein í Morgunblaðinu sem greindi frá minni gleðisnauðu ævi.
Það yrði jafnvel tilgangslaust að lesa dánarfregnina því ekki nokkur maður myndi hafa grænan grun um hver þessi skorpnaða persóna hefði verið sem fannst löngu eftir dauða sinn í niðurgrafinni kjallaraholu.
Líkast til yrði ég jörðuð á laun og presturinn einn manna viðstaddur útförina.
Ég var svo djúpt sokkin í þessa ömurlegu framtíðarsýn að ég sá enga glætu framundan í svartnættinu.
Ég hrökk upp úr þessum þönkum mínum við að ógurlegt öskur skar sundur myrkrið sem umlukti mig.
Mér varð það ljóst á einu augabragði að nú ég væri loksins dauð og að það væri Andskotinn sjálfur sem með þessum hætti væri að bjóða mig velkomna til síns heima í heitasta Helvíti.
Ég var sem lömuð af skelfingu en með ofurmannlegum kröftum tókst mér að hrista af mér doðruna og beina skelfdum sjónum mínum í þá átt sem hljóðin bárust úr.
Og mér til ævarandi sáluhjálpar komst ég að raun um að þessi skerandi vein áttu ekki upptök sín í barka Myrkrahöfðingjans heldur stöfuðu þau frá dulitlu sjónarspili sem átti sér stað í garðinum fyrir utan gluggann minn. Þarna á miðri grasflötinni var spikfeitur fressköttur að athafna sig blygðunarlaust við það að bíta breima læðu í hnakkadrambið, sitjandi klofvega yfir afturendanum á henni, auðsjáanlega með ákveðna athöfn í huga.
Ég fylgdist grannt með áframhaldandi uppákomu og þegar hún stóð sem hæst varð ég fyrir yfirnáttúrlegri hugljómum sem átti eftir að gjörbreyta allri ævi minni.
Ég áttaði mig á því í einni sjónhendingu að það myndi skipta sköpum fyrir mig ef ég bæri ilmvatn á háls mér aftanverðan, áður en ég færi út á lífið um kvöldið.
Bloggar | Breytt 19.6.2009 kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.4.2009 | 00:49
Eldurinn
Á miðjum veggnum yfir sófanum í stofunni hékk fallegt gat í gylltum ramma.
Í gatinu stóð tóm dós undan grænum baunum frá Ora.
Börnunum á heimilinu fannst gatið einstaklega áhugavert en foreldrar þeirra harðbönnuðu þeim að koma nálægt því þar sem það væri þeirra dýrmætasta listaverk.
En þegar móðir barnanna var önnum kafin eldhúsinu notuðu börnin oftast tækifærið.
Hvert á fætur öðru tóku þau tilhlaup á stofugólfinu og stukku upp í gatið.
Síðan renndu þau sér beinustu leið niður á botninn á baunadósinni.
Þar niðri tóku á móti þeim iðjagrænir vellir svo langt sem augað eygði og í skógivöxnum hæðunum út við sjóndeildarhringinn bjuggu vinir þeirra indíánarnir sem buðu börnin ætíð jafn velkomin að eldstæði sínu.
Indíánarnir slógu nefnilega alltaf upp veglegri veislu þegar börnin komu í heimsókn og þegar máltíðinni lauk var hverju og einu þeirra fengið spjót í hendur til þess að þau gætu tekið þátt í stríðsdansinum kringum logandi bálið.
Þau dönsuðu alsnakin eins og indíánarnir. Sveifluðu spjótunum og sungu með þeim undarlega seiðandi söngva um löngu horfna tíma þegar allir menn áttu sér aðsetur við elda sem veittu þeim skjól fyrir nístandi kuldanum um nætur.Eldurinn bægði einnig rándýrunum frá og við hann voru sagðar sögur af hatrömmum bardögum og frækilegum veiðiferðum og þar var villibráðin sömuleiðis matreidd og borin fram.
Þegar dansinum lauk og börnin og indíánarnir sátu þægilega þreytt við deyjandi bálið og hvíldu spjótin á nöktum lærum sér brást það aldrei að rödd úr öðrum heimi rauf þessa friðsælu stund.
'Krakkar hvað á það eiginlega að þýða að sitja þarna allsber á gólfinu?' 'Og enn og aftur eruð þið búin að stela kústsköftunum og stönginni af teppahreinsarnum!' 'Skammist ykkar og klæðið ykkur og komið svo að borða eins og skot!!'
Bloggar | Breytt 9.5.2009 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.4.2009 | 22:41
Í brjóstlíkneski af mér Ljóð.is 14. apríl
yfir fótspor
sem fetuð voru
á lífsins braut með þér.
Og undir köldum snjó
og klaka hulin
er kulnuð ást
í brjóstlíkneski af mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.4.2009 | 01:10
Gagnrýnin
Reykvíski álftaflokkurinn frumsýndi óvænt ballettinn Svanavatnið á Reykjavíkurtjörn síðastliðinn sunnudag.
Hlaut sýningin góðar undirtektir áhorfenda sem mestmegnis var fólk að gefa öndunum brauð.
Með eðlislægum þokka og óaðfinnanlegri tækni lyftu hinir tignarlegu svanir verkinu upp í hæstu hæðir svo unum var á að horfa.
Tónlistin við verkið var flutt af hinni feykivinsælu Stórsveit miðborgarinnar með gjallandi lúðrum lögreglubifreiða í bland við flaututóna strætisvagnanna og klingjandi klukknahljómum frá Dómkirkjunni.
Síðast en ekki síst myndaði hið hefðbundna grámóskumistur frá umferðinni í kvosinni hina fullkomnu umgjörð um þetta sígilda meistaraverk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.4.2009 | 12:07
Þessi heimur okkar er helvíti fyrir margar konur
Hvers eiga konur að gjalda, mér er spurn?
Konur eru giftar nauðugar, seldar til kynlífsþjónustu oft barnungar og stundum myrtar í kjölfarið, nú eða þá að það er bara dundað við að misnota þær kynferðislega heima fyrir af feðrum, öfum, bræðrum, frændum eða öðrum heimilisvinum, þær eru barðar sundur og saman af eiginmönnum sínum eða kýldar í klessu, ófáar eru drepnar með því að hellt er yfir þær sjóðandi olíu af tengdafólki sem er óánægt með heimamundinn er fékkst með þeim. þær eru slegnar í rot af húsbónda sínum og á meðan þær liggja í rotinu sparkar hann í brjóstin á þeim fullum með mjólk, svo þær fá lífshættulega eitrun í þau eftirá, þær eru grýttar í hel af óðum múg , umskornar 6 til 10 ára gamlar, ódeyfðar að sjálfsögðu, snípurinn er skorinn burt og einnig stór hluti skapabarmanna og sköpin síðan saumuð kyrfilega saman, sem eiginmaðurinn á svo að skera sundur og opna á brúðkaupsnóttina, en þessi meðferð er eingöngu gerð með það í huga að konan geti ekki notið ásta og verði því manni sínum trú, margar stúlkur deyja í kjölfar aðgerðarinnar úr blóðeitrun, þeim er haldið í gíslingu inni á heimilum sínum þar sem farið er með þær sem vinnuþræla í eigin húsum , þær fá ekki nein yfirráð yfir börnum sínum, eru reknar allslausar út af heimilinu ef kallinn ákveður að skilja við þær, niðurlægðar andlega á allan annan hátt t.d. með því að þær fá engin ráð yfir fjármálum heimilisins, fylgst er með ferðum þeirra, ef þær þá fá leyfi til þess að fara út á annað borð, þær fá ekki að velja sér sína eigin vini, er meinað að ganga í skóla, þær eru skyldaðar til þess að hylja hár sitt, andlit og allan líkama sinn fyrir öðrum en eiginmanninum, innrætt að þær séu heimskar, ljótar, feitar eða of gamlar
og í mörgum tilfellum einfaldlega myrtar til þess að 'verja heiður fjölskyldunnar'???
Og það liggur við að ég haldi því fram að það sé skásti kosturinn fyrir sumar konur. Þá losna þær alla vega frá þessu djöfla svínsrembu ægivaldi sem feðraveldið er og hefur verið um aldir alda. Og heimurinn horfir á og gerir ekki neitt. Einfaldlega af því að heiminum er stjórnað af körlum.
Myrti systur sína undir yfirskyni sæmdarmorðs" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 7.4.2009 kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.4.2009 | 00:07
Ástaróður sælkerans
Augu þín eins og táldjúp, tindrandi veiðivötn
tunga þín sæt sem rósavín.
brjóst þín sykurhúðaðar svanabringur
með sultu toppum úr brómberjum.
skautið bleik skál með möndlu rís
með skvettu af smávegis aldinsafa.
Bloggar | Breytt 13.4.2009 kl. 02:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.4.2009 | 16:53
Nafnið
'en orðstír deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.'
Hún lá endilöng á gangstéttinni í Bankastræti og skrifaði nafnið sitt á grasið við götukantinn.
Hún skrifaði með rauðu bleki svo nafnið væri vel sjáanlegt á grænu grasinu. Hún var ekki í neinum fötum en hafði vafið gamalli sæng utan um sig til þess að hylja nekt sína.
Hún var hálfhrædd um að einhver myndi amast við henni, þar sem hún lá á maganum þvert yfir gangveginn, eða saka hana um að fremja skemmdarverk með því að pára svona á grasið. En fólkið virtist ekki taka eftir henni, heldur steig hiklaust ofan á hana á hraðferð sinnni upp eða niður götuna
Hana var farið að verkja í bakið af því að vera svona fótum troðin en lét sig hafa það. Hún vissi sem var að hún varð að gera allt fyrir nafnið.
Þegar hún hafði lokið við að skrifa hálfa leið frá kvennaklósettinu niður að Lækjargötu tók hún sér smáhvíld og kveikti sér í sígarettu.
Hún saug áfergjulega að sér reykinn og leit yfir verk sitt.
Við augum hennar blasti kraftaverk og henni varð ljóst að Guð hafði stýrt hendi hennar, því á hverjum þeim stað sem hún hafði skrifað nafnið sitt uxu nú rauðar rósir.
Hún drap í sígarettunni og fleygði henni umhugsunarlaust í göturæsið. Svo hélt hún áfram að skrifa.
En nú þurfti hún að skrifa mun hraðar en áður því sólin var horfin, dökkir kólgubakkar voru að hrannast upp á himninum og það leit út fyrir rigningu.
Hún varð að ljúka verkinu áður en það byrjaði að rigna því líklega myndi gamla sængin sem hún notaði sem yfirhöfn gegnblotna ef það kæmi væta á hana.
Að lokum skrifaði hún síðasta stafinn. Verkið var fullkomnað og hún lagði frá sér pennann sigrihrósandi.
En þar sem hún sat þarna var hún skyndilega lostin skelfilegri hugsun, sem fyllti hana smátt og smátt nagandi óvissu.
Hún hafði ekki hugmynd um hvort rauða blekið sem hún hafði skrifað með væri vatnsekta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eldri færslur
- Desember 2014
- Apríl 2013
- Janúar 2013
- Nóvember 2012
- Ágúst 2012
- Október 2011
- Júní 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- September 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Nóvember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Júlí 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Tenglar
http:www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson, texti eftir Kerst
- http://
- Halldór Guðjónsson lagasmiður og Kerst textahöf. Flott lög eftir Halldór Guðjónsson og textar eftir Kerst
- http://
http://www.showcaseyourmusic.com/KerstGudjonsson
Lög eftir Halldór Guðjónsson og texti eftir Kerst
http://www.diadems.no/
Ragdoll kettir. En ég er búin að ákveða að fá mér svoleiðis kött þegar Tító minn er farinn. Þessi Xantos sem er í x gotinu verður væntanlegur forfaðir nýja kisans mín
- Ragdoll kettir Ég ætla að fá afkomanda Xantosar þegar Tító er farinn frá mér.
Tenglar
- http://
- Halldór Guðjónsson sem gerði lagið við ljóðið mitt ´ Huggun' og fleiri ljóð eftir mig Hann er góður
- Ljóð á Tíu þúsund tregawött Framúrstefnuleg ljóð
- Myndir Katrínar K. vinkonu Flottar ljósmyndir
- Myndir Rebekka Frábær og fræg
- Ljóð.is
- Allra veðra von
Bloggvinir
- katrinsnaeholm
- zordis
- katlaa
- jonaa
- halkatla
- ormurormur
- martasmarta
- steina
- gudnyanna
- zoti
- ragjo
- diesel
- estersv
- alit
- toshiki
- kaffi
- svartfugl
- jenni-1001
- laufabraud
- stormsker
- svanurg
- guru
- ingo
- lindagisla
- bjorkv
- prakkarinn
- agny
- bergruniris
- raggibjarna
- maple123
- saethorhelgi
- vglilja
- johannbj
- partners
- vitinn
- zeriaph
- gudrunmagnea
- birtabeib
- iador
- gudrunfanney1
- ibb
- kolgrimur
- skjolid
- bene
- coke
- hux
- nonniblogg
- heringi
- hjolaferd
- amason
- joiragnars
- steinibriem
- rafdrottinn
- siggith
- vefritid
- ljosmyndarinn
- poppoli
- perlaoghvolparnir
- vitale
- skordalsbrynja
- lindalea
- bidda
- manisvans
- scorpio
- haddih
- gattin
- korntop
- brahim
- klarak
- laugatun
- konur
- panama
- sigurfang
- joklamus
- valdimarjohannesson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tónlistarspilari
Af mbl.is
Íþróttir
- Víkingar náðu naumlega jafntefli
- Opnaði markareikninginn fyrir Íslendingafélagið
- Viktor talar og hlær í svefni
- Lítið sofinn en ekki illa sofinn
- Liverpool óstöðvandi í Meistaradeildinni
- Stórstjarna Frakka fór mikinn í öruggum sigri
- Valskonur fjarlægðust botnsvæðið
- Íslandsmeistararnir áfram á sigurbraut
- Annar sigur Þórsara gegn toppliðinu á fjórum dögum
- Lærisveinar Alfreðs áttu ekki roð í meistarana