Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Í djúpum skít

Ég missti andlitið
og er í djúpum skít.
Vantar gefins grímu
og góðan drullusokk.

Mýmörg mý

Ég kíkti uppí sumarbústað við Úlfljótsvatn sem sonur minn og fjölskylda voru með um helgina. Ég hef aldrei komið þarna áður og mér finnst það undarlegt að endalaust uppgötvar maður áður ókannaðar slóðir á suðurlandi.
Elísa Marie ömmustelpa sex ára var ofsalega hrifin af spröngurólunni og mátti varla vera að því að tala við ömmu sína. Annars virtist hún líka vera ansi hrifin af sjö ára gæja sem sveiflaði sér í spröngunni með miklum tilþrifum. Pabbi hennar trúði mér fyrir því að Elísa Marie væri samt þegar komin með kærasta fyrir, þó aldurinn væri aðeins sex ár. Unnustinn tilkynnti pabba hennar  um daginn að hann væri strax búinn að stela fyrsta kossinum frá ungu stúlkunni .
Ég held að Elísa Marie ætli að verða mesta piltagull enda er hún gullfalleg og ég held meira að segja að stelpuskottið vita af því enda elskar hún að láta taka myndir af sér.
Daníel fjögra ára lagði ekki í róluna en dundaði við að mála vatnslitamyndir eins og amma gerir. Hann var með sniðuga aðferð við vatnslitunina sem ég ætla að stela frá honum. Hann dýfði ekki penslunum í vatn í krukku eins og ég geri,  heldur sprautaði hann vatninu með vatnsbyssu á litina og setti svo penslana beint á blauta litina og málaði þannig. Ég er viss um að hann verður heimsfrægur framúrstefnu vatnslitamálari fyrir vikið.
Ég gat eiginlega ekket verið úti við þarna því loftið var svart af mýi og eftir að ein flugan lenti í auganu á mér og önnur inni í eyranu var ég mestan partinn inni við og sat heima meðan allir aðrir fóru út á vatn að veiða. Ég náði samt að stela einni blágresisplöntu áður en mýið gerði útaf við mig og sem á að fara niður í beð í garðinum heima.
Tító var ósköp feginn að sjá mig þegar ég kom heim enda má hann varla af mér sjá síðan ég kom heim frá Krít.


Ja hver andskotinn, bara lögreglubíll sendur hingað heim að húsinu!

Jæja! Maður er ekki fyrr komin heim frá útlöndum, en hér í stigaganginum upphefjast vandræði og hávaðarifrildi . Það er ekki vegna heimkomu minnar, guði sé lof fyrir það ,  heldur er ný fjölskylda flutt hér í stigaganginn. Ég var í flugvélinni á leið til Íslands síðustu laugardagsnótt og þá voru víst heljar læti hjá þessu sama fólki að því er mér var sagt.
Ég hitti þessa fjölskyldu þ.e.a.s. húsbóndann og konu hans hér fyrir utan húsið áður en ég fór til Krítar Þá voru þau að flytja inn og ég bauð þau velkomin í stigaganginn.
Í kvöld sat ég svo og horfði á imbakassann og heyrði þá rosalegan hávaða berast  af neðri hæðinni, skammir, öskur og grát. Ég hélt að fólkið niðri væri að horfa á einhvern hasarþátt í  sjónvarpinu og hefði það bara svona hátt stillt.
En sú var því miður ekki raunin, því fyrr en varði var kominn hér merktur lögreglubíll upp að dyrum.
Lögreglumennirnir fóru inn í húsið og töluðu við ólátaseggina.  Ég heyrði konu gráta inni í íbúðinni og vorkenndi henni einhver ósköp. Samt er ég ergileg yfir því að eitthvert óreglufólk sé flutt hér inn, því í þessum stigagangi hefur verið blessunarlega rólegt hingað til.
Annars hef ég verið að  pæla í  því að flytja í nokkuð langan tíma, áður en þessi vandræði komu til,  á jarðhæð með sérgarði í tví eða þríbýlishúsi. Líklega er kominn tími til að kýla á það.

'Ég er komin heim í heiðardalinn

Ég er komin heim með slitna skó' Krít var æðisleg, veðrið 32-33 stig, meiriháttar ferðafélagar og Gerður sem kom þessu öllu í kring var eins skemmtileg og ég hafði búist við og líka frábær leiðsögumaður.
Ég bjó í einbýlishúsi með sundlaug og bar, alveg rétt hjá og var í um fimm mínútna göngufæri frá húsinu hennar Gerðar þar sem ferðafélagarnir gistu.
Í hverju tré þarna í kring bjuggu milljón krybbur sem sungu mig í svefn á kvöldin og vöktu mig samviskusamlega á morgnanna, en næsti nágranni minn var froskur sem bjó á bak við stóra leirkrukku sem stóð í horni upp við húsið.
Síðan kom engispretta í heimsókn eitt kvöldið þegar við héldum pick-nick heima hjá mér. Heiða myndaði hana í bak og fyrir og fannst hún vera frábær fyrirsæta. Ég var alveg á nálum yfir nálægð engisprettunnar enda ástæða til, því þegar henni fór að leiðast fyrirsætubransinn tók hún sig til og stökk á mig.
Ég trylltist hreint og beint, öskraði og gargaði, hoppaði og hristi mig og æpti móðursýkislega. Ohh ég þoli þetta ekki, ég þoli þetta ekki!! Ég þarf varla að taka það fram að Heiða, Gerður og Siggi láku næstum niður af hlátri en  sem betur fór gat Gerður samt bjargað aumingja engisprettunni. En það komu fleiri gestir þetta kvöld því einmana þúsundfætla kom einnig í teitið og hún var auðvitað mynduð líka í bak og fyrir. Semsagt þetta var geggjað partý sem verður lengi í minnum haft.
Hitinn var alveg mátulegur nema þegar við gengum brekkurnar, þá hefði hann mátt vera minni og það var mikið af brekkum.
Það var gaman að hitta  asnana hennar  Gerðar  í  eigin  persónu  enda fannst mér þeir vera einskonar sálufélagar mínir,  sem og  hænuna , hundana og  kettina.  Siggi  var svo  heppinn að  einn  kötturinn tók  ástfóstri  við hann og lúllaði hjá honum á hverju kvöldi meðan ég mátti sofa  ein og Títólaus.
Gamli bærinn í Chania var yndislegur göturnar svo þröngar sumstaðar að varla meira en fjórar mannseskjur gátu mæst þar með góðu móti . Við rápuðum milli verslana og skoðuðum mannlífið og enduðum svo á því að borða kvöldverð á hafnarbakkanum og horfðum á sólina setjast.
Á milli borðann gegnu spikfeitir hundar og kettir sem voru svo matvandir að þeir hunsuðu flest allt sem við fleygðum til þeirra af örlæti okkar.
Við átum líka síðdegisverð í hæstu hæðum uppi á fjalli einu þar sem við skoðuðum eldgamalt þorp og enn eldri rústir sem Gerður sagði okkur að hétu Akropolis.
Við heimsóttum líka ótal fleiri þorp og eyddum  einnig drjúgum tíma við sundlaugina í sólbaði eða dýfðum okkur aðeins í laugina. En laugin var vinsæl af fleirum en okkur því svölurnar flugu þarna rétt yfir vatnsborðinu og fengu ser vatnsopa og nokkrar kindur ráfuðu þarna í kring og dreyptu öðru hvoru á sundlaugarvatninu. Ég tek það fram að ég sjálf drakk ekki vatnið úr lauginni heldur rauðvín sem maddaman á barnum færði mér ásamt ostum og öðru góðgæti.
Þetta ferðalag var í einu orði sagt  YNDISLEGT  og ég á örugglega eftir að fara aftur til Krítar.


Á Krít er sól og mikill hiti enda rennur af mér sviti

Ég er að leka niður úr hita og svita en það er samt æði að vera hérna. 32 stig í gær og álika í dag. Hér er mikið af hænum og ég er víst orðin ein af þeim segir minn ástkæri bróðir sem getur vart hugsað heila hugsun fyrir gagginu í okku hænunum þrem. Ég hef það svo gott að ég  myndi ekki koma til baka ef Tító biði ekki eftir mér. Annars er Tító  náttúrulega frægur hér á Krít alla vega borðuðum við í gær á restaurant sem heitir Tító, örugglega í hausinn á  honum Tító mínum.

Við erum búin að borða uppá fjalli og niður við sjó og blaðra svo mikið að Siggi dó.


« Fyrri síða

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband