Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Haust Ljóð og mynd, þrykk.

Gæsirnar
klufu loftið
í oddaflugi yfir fölbleikt engið
scan0007 small
og gullin lauf trjánna
svifu mjúklega til
jarðar
eins og dúnn
undan ljósum
væng.

Örlög?

Hugsanir okkar eru sú óþekkta stærð sem ákvarðar örlög okkar.

Ég sem hélt að það væri nóg loft í Húsvíkingum

og þeir þyrftu enga loftbelgi til þess að takast sjálfir á loft. Þeim myndi örugglega heldur ekki muna neitt um það  að kippa einhverjum ferðamönnum með sér í smá útsýnisflug.  Svo þessi kostnaður við loftbelgina er bara tóm tjara hjá þeim. Ég ætti að vita hvað ég er að tala um því ég er sjálf húsvísk í aðra ættina.
mbl.is Loftbelgsferðir og hvalaskoðun frá Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vá! Og mig sem dreymir stundum að ég hlaupi nakin um á almannafæri

og er ekki sagt að maður eigi að láta drauma sína rætast? Ég veit svei mér ekki hvort ég þori!
mbl.is Strípalingar handteknir í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera atvinnulaus og annað böl

Skelfing er ég orðin eitthvað lítil í mér vegna þess að bráðum er ég búin að vera atvinnulaus í hálft ár. Þetta bara gengur ekki lengur. Það liggur við að ég sé farin að læðast með veggjum. Andskotinn hafi það er ég svona hrikalega óframbærileg, eða hvað?
Ég mætti á vinnumiðlunarskrifstofuna í dag og fulltrúinn þar tjáði mér að horfurnar færu nú að glæðast með haustinu svo ég skyldi nú reyna að halda sönsum. Ég sagði henni að ég væri meira að segja að pæla í því að fara að vinna í bakaríi, (eins og maður myndi nú fitna af því)  Er ég þó nógu feit fyrir, því ég hef blátt áfram blásið út síðan ég hætti að reykja fyrir bráðum 10 mánuðum.

Ég er orðin svo innilega leið á sjálfri mér að ég nenni varla lengur að hugsa um garðinn hér við blokkina sem ég fæ borgað fyrir að slá. Ég hef hannað og lagt alla vinnu sjálf í þennan garð þó að ég eigi hann ekki ein og hann er orðinn mjög fallegur. Rósarunnarnir blómstra og birkitoppurinn skartar hvítum blómum. Fjölæru jurtirnar sem ég hef safnað hér og þar í nokkur ár, en þó aðallga þar, eru líka mikil prýði og sparnaðarauki, því nú þarf ekki lengur að kaupa eins mikið af sumarblómum. Aspirnar sem ég keypti pínulitlar eru orðnar mannhæðarháar og birkið vex hægt og rólega. Reynitréð blómstraði í fyrsta sinn í sumar og hreggstaðavíðirinn vex næstum eins hratt og baunagrasið hans Jóa. 

En eins og ég segi, þá er ég orðin svo leið á sjáfri mér út af atvinnuleysinu að öll gleðin við garðvinnuna er horfin. Meira að segja er ég hætt að hafa ánægju af því að sópa sígarettustubbunum af stéttinni og bílaplaninu sem sumir íbúar blokkarinna eru svo almennilegir að fleygja frá sér til þess að sjá mér nú fyrir almennilegri og nægri vinnu. þó bauð ég mig aldrei fram til þess að sópa upp sígarettum af stéttinni og bílaplaninu,  heldur aðeins að slá grasflötina og hirða um beðin.

Ég hef því satt að segja haft frekar takmarkaða gleði af stuppasópinu  á stéttinni og stuppbatínslunni af grasflötinni og hef oft bölvað með sjáfri mér yfir því hve sumir geta verið ótrúlega hirðulausir um umhverfi sitt. Ég hef þá stundum hugsað með mér hvort þessir sígarettustubba aðdáendur drepi ekki líka í sígarettunum á stofugólfinu hjá sér og að gaman væri nú að sjá umgengnina í íbúðunum þeirra svona yfirleitt.

Ég ætla samt að vona að þetta sinnuleysi mitt gangi yfir og vona að ég geti nú komið mér í það að slá um helgina. En stubbahrúgan fyrir framan aðaldyrnar á húsinu fær að vera í friði fyrir mér frmvegis, því ég er búin að fá nóg. Hún getur þá orðið verðugur minnisvarði um þá sem í húsinu búa fyrir mér. 


Það er verið að spila með tilfinningar okkar svipað og gert var með hundinn Lúkas

Er þessi hundur lifandi hákarlabeita?

 

120882

http://www.thepetitionsite.com/1/stop-dogs-being-used-as-shark-bait
Þetta er slóðin sem fylgdi þessari hryllilegu mynd sem ég sá á blogginu hennar Ásdísar bloggvinkonu.

Myndin er eins og þið sjáið af hundi sem virðist vera búið að festa stóran hákarlaöngul í, rétt fyrir ofan trýnið og í gegnum framhluta höfuðsins.
Fullyrt var á slóð þessari að lifandi óskila hundar væru notaðir sem hákarlabeitur og fólk beðið að setja undirskrift sína gegn þessarri óhæfu á þar til búinn reit á slóðinni.
Mér varð svo mikið um að sjá þessa mynd að ég komst við og var næstum búin að kasta upp. Um kvöldið gat ég ekki sofnað , fyrr en ég hafði beðið oft og lengi  til Guðs um að hann líknaði öllum þeim dýrum sem mennirnir væru svona grimmir við.
En svo benti dóttir mín mér á það í dag þegar ég sagði henni frá þessu, að þetta væri aðeins brella. Myndin væri örugglega photoshoppuð. Sagði hún mér líka að hún hefði fengið tölvupóst þar sem sagt var frá svokölluðum 'Bonzai kettlingum.' Væru litlir kettlingar settir í flöskur sem væru með opi í báðum endum svo hægt væri að næra þá og svo að úrgangur kæmist frá þeim. Kettlingarnir gætu auðvitað ekki vaxið eðlilega, þeir yrðu afmyndaðir í vexti eins og flaskan. Þetta var líka gabb sagði hún.
Ég skoðaði betur myndina af hundinum með krókinn í gegnum trýnið. Mér fannst það undarlegt að hundurinn var ekki einu sinni með múl og virtist ekkert berjast á móti þessarri kvalafullu meðferð með því að reyna að bíta manninn. Einnig var maðurinn sem hélt hundinum að því er ég best gat séð í grænum skurðlæknaslopp
Ennfremur var hundurinn ekki óskila hundur, því þegar betur er að gáð sést að hann er með ól um hálsinn.
Hvað gengur þeim til sem búa til svona fréttir, mér er stór spurn?  Svarið virðist vera augljóst, það er eins og með hundinn Lúkas sem hefur verið mikið talað um í fjölmiðlum, að ganga fram af fólki og hafa tilfinningar þess að leiksoppi með skipulagðum hætti.  Hafa mann hreinlega að fífli og víla ekki fyrir sér að hafa þó nokkuð fyrir þessu vítaverða athæfi. Ég á ekkert prenthæft orð um hvað mér finnst um svona hegðun.

 


Fáránleg lög í Ameríku

Ég rakst á gamalt eintak af Úrvali, tímariti fyrir alla sem nú er hætt að gefa út. Í blaðinu gat meðal annars að líta eftirfarandi lög í Ameríku, en ekki veit ég hvort þau eru ennþá í gildi.

Í Indíana má athuga alkóhólinnihald í andardrætti  bílstjóra gegn vilja hans vegna svohljóðandi laga
: 'Eftir að andardrátturinn yfirgefur líkamann hættir hann að vera eign þess sem hann kom frá.'

 Í Louisiana gilda sérstök lög sem leyfa að hver og einn megi verða eins hávaxinn og hann vill. 

Það er ólöglegt að synda á þurru landi í Santa Ana í Kaliforníu. 

Hundum er bannað með lögum að gelta eftir sex á kvöldin í Little Rock í Arkansas.

Það er bannað með lögum: að raka sig að degi til í Popular Blull í Missouri,

- að bera sápu á járnbrautarteina í Missisippi,

- að fara með svín inn í opinberar byggingar í st. Paul í Minnesota, 

- að vera með ís í formi í vösunum í Lexington í Kentucky, 

- að tala hátt í lautarferðum í Pennsylvaníu, 

- að ríða kameldýrum á þjóðvegum í Nevada, 

- að leggja gólfteppi á torginu í Savannah í Georgíu, 

- að trufla manneskju með því að hringja dyrabjöllu í New York, 

- í Los Angeles er barþjónum bannað að gefa viðskiptavinum sínum gæludýr, 

- í Massachusetts er bannað  að innheimta skuld, íklæddur grímubúningi.

 Hundum og köttum er bannað með lögum að slást í Barber í Norður - Karólínu. 

 Í Sterling í Colorado verða kettir að vera með afturljós til að mega ganga lausir.

  Það er óleyfilegt að stofna til hnefaleika við naut í Washington D. C.

 Lögum samkvæmt er óheimilt að láta bíla líkjast úlfum í Macomb í Illinois. 

 Samkvæmt lögum í Norfolk í Virginíu mega hænur ekki verpa fyrir klukkan átta á morgnana eða eftir fjögur síðdegis. 

 Það má ekki selja giftum manni áfengi án skriflegs leyfis eiginkonu hans í Cold Springs í Pennsylvaníu.

 

Í lokin:

Eiginmaðurinn situr og  starir  á  konu sína. Hún  horfir á móti  ekkert  alltof hrifin.
' Ég vona að þú sitjir ekki og hugsir um hvað ég sé að hugsa því mig langar virkilega ekkert  til að segja þér að ég sat einmitt og hugsaði hvað í veröldinni ég ætti að segja, ef þú spyrðir . 'Hvað ertu að hugsa?'


Sólarhringarnir mínir Acryllitir

 

 

 

 

 

 

 

scan0001

 Sólarhringarnir mínir líða einn af öðrum og fyrr en varir er komið haust og vetur. Það eru heitir og sólríkir dagar og ljúfar og bjartar nætur.
Í byrjun ágúst verður nóttin orðin aldimm og það birtir ekki fyrr en klukkan fjögur að morgni.  Í ágústbyrjun hefst  fjörið á þjóðhátíð í Eyjum þar sem sólarhringarnir renna saman í eitt samfellt ævintýri.  Bálið brennur á Fjósakletti og ástarblossarnir loga í ástföngnum hjörtum.
Ég hef farið á ótal þjóðhátíðar og hver og ein þeirra var líkt og einstök saga út af fyrir sig.
Oftast kom ástin, við sögu í þessum sögum, stundum heilög í ungum brjóstum, en einnig í meinum og sú er ástin heitust sem er bundin meinum. 'Er því best að unna ekki neinum',  segir vísan.
En ég er ekki á sama máli, því það er betra að hafa elskað og misst,  en að hafa aldrei elskað.
Enn trúi ég á ástina og að hún eigi eftir að verða á vegi mínum enn á ný. Kannski ekki endilega á þjóðhátíð úti í Eyjum, heldur allt eins bara úti í bakaríi eða í líkamsræktinni. Ég veit að ''hann er þarna úti einhvers staðar og bíður eins og ég.


Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband