Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Álög

Á miðnætti í Huliðsheimum
er álagastund.
Allt verður kyrrt og rótt 
og það er sem tíminn hverfi
inn í eitt óendanlega stutt
andartak
sem virðist líða hjá, áður
en það hefst.

Fossinn í gjánni fellur þegjandi
fram af bjargbrúninni
og áin streymir eftir farvegi sínum
hljóð eins og andardráttur
sofandi ungabarns.

Þyturinn í laufinu hægir á sér
og skógurinn er þögull
og þrunginn leyndardómum
sem leynast bak við sérhvert tré 
fullir ólgandi ástarþrár.

Og innan þessa eilífðaraugnabliks
og án þess að nokkur verði þess var
er þessi töfrum slungna stund liðin hjá.

Og allt er sem fyrr - en samt öðruvísi.

Líkt og náttúran sjálf sé að dansa í skóginum
íklædd dimmbláum, draumfögrum kjól.


Beinasna er þetta að bakka svona uppá tré

Annars hefðu svona lagaðir hlutir hvergi getað gerst nema á Íslandi því hér eru trén jú akkúrat mátuleg á stærð til þess að hægt sé að bakka uppá þau.
Fyrrverandi mágur minn sem býr í Californiu varð tíðrætt um trén á landinu okkar bláa þegar hann heimsótti okkur manninn minn til Íslands.
Við bjuggum þá uppá Skaga og þar er ekki mikið um stór tré alla vega kallaði Bob mágur öll trén sem hann sá þar, runna en ekki tré.
Á þessum tíma var skógræktar þáttur í sjónvarpinu og það fannst Bob í meira lagi einkennilegt sjónvarpsefni.
Hann kallaði þáttinn 'The Tree Show' og fylgdist ætíð andagtur með þegar sýnt var í shjówinu hvernig ætti að planta pínulitlum trjátítlum sem stóðu varla út út hnefa.
Við reyndum að sýna Bob eins mikið af nágrannasveitunum og tími var til. Meðal annars fórum við með hann í sight seeing tour vítt og breitt um Borgarfjörðinn.
Héldum við að eitthvað myndi honum líka betur við trjágróðurinn þar. En sú von fór fyrir lítið því eftir ferðina sagði hann við mig íhugull á svip.

'It must cost a lot, to pay the guy, who trawels around to cut down all the trees in the country' 

Þegar Bob var kominn aftur heim til Californiu sendi hann okkur bréf. Í því stóð m.a.

'When I came home there was a fullgrown Icelandic tree on the front lawn.
But when I let the dogs out one of them stepped on it and killed it.
I immediatly sent the dog to bed, without having any dinner at all'

                    Love. 

                     Bob


mbl.is Bakkað yfir tré á Skólavörðustíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er þrælmontin!!

scan0005

Í dag eru komnir fimm mánuðir síðan ég hætti að reykja. Ligga, ligga, lá!!
Mér finnst ég búin að  vera mjög dugleg og ég ætla að vera það áfram. Ég hætti að reykja af því að annars hefði ég hreinlega hrokkið uppaf. Ég var fjórum sinnum búin að fá lungnabólgu á tveim árum og samt mætti ég alltaf í vinnu þó ég væri svona veik. Meira að segja reykti ég eins og ekkert væri þó ég væri á  með bullandi lungnabólgu og með sterk sýklalyf við henni.

Já ég hegðaði mér eins og fífl! Algjört fífl!!
Ég pældi ekkert í því að hætta, þó hafði frænka mín sem mér þótti mjög vænt um dáið úr lungnakrabba vegna reykinga. En loks í fimmta sinn sem ég fékk lungnabólguna var hún svo skæð að ég var lögð inn á lungnadeild Landspítalans og var frá vinnu í fjórtán daga.
Ég þurfti meira að segja að fá súrefni þar sem ég lá í rúminu á sjúkrahúsinu böðuð í svita,  því súrefnismettunin í blóðinu var komin niður í 85%. Þetta var ekki glæsilegt!
Ég var dauðhrædd um að ég myndi þurfa að að dröslast með súrefniskút á eftir mér þegar ég gæti loks staðið í lappirnar aftur
En sem betur fer slapp ég við súrefniskútinn. Ég þakka Guði fyrir að ég skuli vera lifandi í dag. En þetta þurfti nú til að drepast næstum til þess að sjá alvöruna í þessu.

Nú fimm mánuðum seinna er mæðin horfin fyrir löngu síðan og súrefnismettun í blóðinu er komin upp í 97%.
Ég er ekki lengur bullsveitt ef ég hreyfi mig eitthvað og mér líður mun betur andlega. Nú kvarta börnin mín ekki undan reykingalykt hjá mér þegar þau koma í heimsókn, barnabörnunum er heldur ekki boðið uppá þá slæmu fyrirmynd að sjá ömmu reykja úti á svölum og blessaðir kettirnir mínir Tító og Gosi lifa við hreinna andrúmsloft á sínu heimili. Ég var oft með slæmt samviskubit að reykja yfir varnarlausum dýrunum.
Síðast en ekki síst hef ég meiri auraráð.

Ég hef að vísu fitnað aðeins en alls ekki mjög mikið og ég veit að það tekur svona ár að sigrast á auka kílóunum sem ég bætti á mig. Ég er líka búin að ákveða að fara í gönguferðir daglega með vinkonu minni til þess að halda mér við efnið og ég byrja aftur í líkamsrækt í næstu viku.
Fimm mánuði án reyks held ég upp á í dag og svo fer heimsóknafjöldinn á bloggsíðunni minni alveg að fylla fimmta þúsundið. Ég er alsæl.

ps Reykingakellingina teiknaði ég blindandi en ekki hjartað.


Asnakjálkinn Anderson í Amríkunni

Hann má þakka sínum sæla fyrir að vera ekki frá Eyjum þar sem ég fæddist og þar sem annar hver maður hefur viðurnefni. Eins og t.d. Ingimundur hundraðogellefu, Jón dynkur og Atli greifi svo nokkrir frægir séu nefndir. 
Á minni yndislegu Heimaey hefði Anderson örugglega verið kallaður Andy eldklof  
mbl.is Einn í fangelsi og annar á sjúkrahús eftir asnakjálkalæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ellilífeyrisþegar nánast með undanþágu?

Mér fannst það í hæsta máta furðulegt að manninum skyldi hafa verið talið það til tekna að hann var ellilífeyrisþegi.
Ætli það sé vegna þess að vitað er að gamla kynslóðin af körlum komst upp með flest allt af þessu tagi og þá á ég einmitt við sifjaspell og annað þvíumlíkt óeðli?
Eða kannski það hafi ekki verið talið taka því að koma gamla manninum í skilning um það með þungri refsingu að nútildags ríktu önnur og æðri gildi þar sem sifjaspell eru talin meðal alvarlegustu afbrota?

Eða eru þau það ekki?    Eða hvað?

Það væri fróðlegt að vita hvort öryrkjar séu einnig taldir svo fávísir og illa að sér í svona málum að þeir fengju sömuleiðis punkt fyrir það hjá dómstólum. Eins fáránlegt og það er nú að hugsa sem svo. 
Nú og svo má alltaf finna fleiri stéttir sem ættu rétt á málsbótum fyrir brot sín, ef vel er að gáð af væntanlegum verjendum.

því það eru alltaf fundnar til einhverjar óskiljanlegar málsbætur til handa gerendum kynferðisafbrota og nauðgana.
Það er löngu orðið tímabært að þyngja dóma í sifjaspella og nauðgunar málum.
því hvaða skilaboð gefa þessar léttvægu refsingar til afbrotamannana?
Þau skilaboð að þetta sé allt í lagi, því dómurinn verði aldrei svo þungur hvort sem er.
Það eru til lyf sem eiga að bæla niður þessa löngun til barna og nauðgana á konum. Ef vel ætti að vera ætti að dæma hvern einasta barnaníðing eða nauðgara til þess að taka þessi lyf og einnig til þess að vera alla sína æfi á skilorði.
því einu sinni barnaníðingur, alltaf barnaníðingur og börnin eru það dýrmætasta sem við eigum.


mbl.is Dæmdur í fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barnabarni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástríða


Við
hlaðborð
ástríðunnar
úr
uppsprettu
unaðar
fleytti ég
rjómanum
af ást þinni
er
rann ljúflega
niður.

Manndómsbrekkan þrykk og blek

Manndómsbrekkan

Ilmvatnið Prósaljóð

Ég hallaði mér út um opinn svefnherbergisgluggann og starði tómlega út í auðan húsagarðinn.
Ég var í þungu skapi. Enn ein ömurleg djammhelgin framundan því það var ekki venja að nokkur karlmaður liti tvisvar á mig þegar ég fór út að skemmta mér.
Ég myndi örugglega enda ævina sem ellidauð piparjúnka. Engin von um börn, hvað þá heldur barnabörn, að ekki sé minnst á syrgjandi eiginmann við mitt dánarbeð.
Ekki sála myndi fella tár þegar ég gæfi upp öndina og það yrði áreiðanlega ekki ein einasta minningargrein í Morgunblaðinu sem greindi frá minni gleðisnauðu ævi.
Það myndi jafnvel verða óframkvæmanlegt að lesa dánarfregnina, því ekki nokkur maður myndi hafa  grænan grun um hver ég hefði eiginlega verið.
Líkast til yrði ég jörðuð á laun og presturinn eini maðurinn við jarðarförina.

Ég var djúpt sokkin í þessa ógnvekjandi framtíðarsýn og sá enga glætu framundan í lífi mínu.
En ég kom skyndilega til sjálfrar mín þegar ógurlegt öskur skar sundur myrkrið sem umlukti mig.
Mér varð ljóst á einu augabragði að  nú væri ég loksins dauð og að  þetta væri Andskotinn sjálfur sem með þessum hætti væri að bjóða mig velkomna til sín í Neðra.
Ég var sem lömuð af skelfingu en með ofurmannlegum kröftum tókst mér að hrista af mér doðruna og beina skelfdum sjónum mínum í þá átt sem óhljóðin bárust úr. Og mér til ævarandi sáluhjálpar komst ég að raun um að þessi ógnvekjandi hvæsandi öskur voru ekki runnin úr barka Myrkrahöfðingjans heldur stöfuðu þau frá dulitlu sjónarspili sem átti sér stað í garðinum fyrir utan gluggann minn.

Þarna á miðri grasflötinni var spikfeitur fressköttur að athafna sig blygðunarlaust við það að bíta breima læðu í hnakkadrambið, auðsjáanlega með ákveðna athöfn í huga.
Ég fylgdist grannt með áframhaldandi uppákomu og þegar hún stóð sem hæst sló niður í huga mér yfirnáttúrlegri hugljómum sem átti eftir að gjörbreyta öllu lífi mínu.
Ég áttaði mig á því í einni sjónhendingu að það myndi skipta sköpum fyrir mig þetta kvöld að bera ilmvatn á háls minn aftanverðan, áður en ég færi út á lífið. 


Vitleysa er þetta..

að reka mann sem lifir sig svona gjörsamlega inn í starfið!!

Ég hefði nú haldið að það ætti frekar að telja honum það til tekna og gefa honum ríflega kauphækkun.

Það hlýtur að vera einhver misskilningur í gangi þarna. Það getur ekki annað verið.
mbl.is Blaðamaður Nyhedsavisen tók þátt í mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra ástin í lífinu, er hún til?

Er til eitthvað eins og stóra ástin í lífinu sem skyggir á öll önnur ástarsambönd? Og er stóra ástin endilega hin eina sanna ást?
Eða er hún kannski bara brjálæðisleg ástríða sem heltekur mann eins og nokkurs konar þráhyggja?
Ég veit það ekki en mér finnst eins og ég hafi bara átt eina stóra ást í þessu lífi.
Kannski dey ég áður en ég finn aðra eins og þó var þessi ást ekki alltaf bara ljúf og góð því stundum var hún eins og  stormur sem svipti undan manni fótunum og það var aldrei að vita hvort lendingin yrði mjúk eða hörð.  
En ég sakna hennar þó og ég minnist hans enn og þó var það ég sem yfirgaf hann. Samt get ég ekki gleymt. 

 

                                                         Þú varst...

                                  Þú varst stormur
                                         sem geisaði um nótt.
                                         Þú varst hvirfilbyls
                                         hringiðudans.
                                         Þú varst skýfall
                                         með ástríðuþrótt.

                                         Þú varst ástin
                                         í líkingu manns.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband