Leita í fréttum mbl.is

Bolluveislan og 'Skín við sólu jökulskalli' þrykk og olía

Ég bauð krökkunum mínum í bollukaffi í dag. Ég var reyndar búin að lofa pönnukökum líka og ég skammast mín fyrir að segja það, að þegar til kom nennti ég ekki að baka þær. Krakkarnir voru hálf spældir, sérstaklega tengdasonurinn,

það lak af honum andlitið,


þegar ég sagði honum, að það yrðu engar pönnukökur eftir allt saman.

Bollurnar og mjólk með, yrðu að duga. Annars held ég að þau hafi öll farið í hálfgerða fýlu því enginn borðaði nema eina bollu.
'Letin í mér alltaf og ómerkilegheitin. lokka þau hingað með loforði um pönnsur og standa svo ekki við loforðið.
Annars er þetta svo sem mér líkt, en æ ég er alltaf svo þreytt eitthvað.'

Svo fékk ég rosamóral og útskýrði fyrir þeim að ég hefði ætlað að vera búin að baka pönnukökurnar löngu áður en þau komu og hita þær svo upp. Það væri alltaf best, en ég hefði gleymt því og nú væri  ómögulegt að standa bullsveitt yfir bakstrinum þegar þau væru komin, enda væri ég nýkomin úr baði.

þau fengju örugglega pönnukökur næst, þegar ég myndi eftir að baka þær fyrirfram, lofaði ég svo upp í ermina á mér.

Ég var svo að prófa myndavélina sem sonur minn ætlar að lána mér því mín myndavél er ómöguleg. allavega kann ég ekkert á hana og hún virkar bara alls ekki. 

Ég tók eina mynd af dóttur minni. Svo þegar ég leit á myndina skildi ég ekkert í því

að risastór bleik blaðra huldi megnið af myndinni. Krakkarnir sprungu úr hlátri þegar ég sagði í

undrunartón.

                                                              'Það er einhver bleik blaðra á myndinni'!!

DSC00005 Erla og bleika blaðran small
 'Hvað getur þetta verið'??


 'þetta er þumalputtinn á þér', sagði sonur minn þurrlega,       vitandi það, að ég er nú eins og ég er. 

'Mikið andskoti er ég vitlaus maður. Hver skyldi trúa því að ég hafi lært ljósmyndun og framköllun á einni önn í Myndlista og handíðaskólanum á sínum tíma. En svona fer þegar aldurinn færist yfir mann. Ójá og já.'

Við sátum þarna og spjölluðum þegar dóttir mín sagði allt í einu. 'Rosalega er fín myndin af fálkanum framan á Fréttablaðinu, þar sem hann er að éta fíl.'

'Éta fíl'!  Hrópaði ég,  'vá maður, hvernig í fjáranum gat hann ráðið niðurlögum heils fíls'? 

'Mamma', sagði dóttir mín rólega og leit á mig  eldsnöggu viðvörunar augnaráði. 'Hann er ekki að éta fíl, heldur fýl.' 

'Já, svoleiðis, það hlaut að vera', sagði ég og mér varð allt í einu svo ofboðslega heitt í framan að ég rauk út á svalir og opnaði  gluggann. 

Restin af bolluveislunni gekk þrautalaust fyrir sig og ég tók fullt af ljósmyndum af ,myndunum mínum. Ég var líka mjög stolt af því að aldrei þessu vant var allt mjög hreint og fínt hjá mér. Enda hafði ég tekið til á örskotsstundu  þ. e. a. s. hent mesta ruslinu inn í skápana og meira að segja sprayjað húsgagnabóni út í loftið til að fá góða lykt.
Svo þegar ég ætlaði að bæta aðeins við anganina og sprayja meira fann ég ekki helvítis brúsann. En skítt með það, þetta hlaut að duga.

Loks kvöddu krakkarnir með virktum og þökkuðu  fyrir mjólkina og meðlætið með kossi.
Ég var ekki lengi að rífa mig úr öllum fötunum þegar þau voru farin og klæða mig í heimagallann.  síðar silkináttbuxur  sem ég held mikið uppá og  bláa blússu sem er öll út í málningarslettum. Mér líður bara einfaldlega best í þessum fötum, þegar ég er svona ein með sjálfi mér og köttunum mínum.

Svo tók ég mjólkina af borðinu og ætlaði að setja hana inn í ísskáp svo hún súrnaði ekki. Það fyrsta sem blasti við augum mínum, þegar ég opnaði ísskápinn, var húsgagnabóns úðabrúsinn sem stóð í efstu hillunni þar sem mjólkin er vön að  vera. 

Set hér inn eina af myndunum mínum.

DSC0001234 Skín við sólu jökulskalli

  Hún heitir 'Skín við sólu jökulskalli'

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þau fá pönnsur næst þegar þau koma það er ég vissum. Þessi mynd er mjög falleg

Kristín Katla Árnadóttir, 4.2.2008 kl. 09:58

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Takk Katla mín

Svava frá Strandbergi , 4.2.2008 kl. 10:06

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er nú aldeilis skemmtilegt blogg a la Svava. Gaman að heyra frá þér svona hressilega.  Falleg mynd að vanda.  Mikið skil ég þig með innifötin, ég byrja alltaf á því að skipta um föt þegar ég kem heim. Hér á að baka bollur í dag, húsbandið gefur ekkert eftir og það er bara gott.  Kveðja...

Ásdís Sigurðardóttir, 4.2.2008 kl. 13:21

4 Smámynd: www.zordis.com

Börnin eiga að sjálfsögðu að njóta þín, hver vill pönnsur sem á svona yndislega skemmtilega og skrítna móður!!!!

www.zordis.com, 4.2.2008 kl. 21:33

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Takk Zordís mín, ég vona að þau geri það.

Svava frá Strandbergi , 4.2.2008 kl. 22:09

6 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Leit við til að bolla þig bara svona pínu oggo lítið 

Skemmtileg frásögn.

Marta B Helgadóttir, 4.2.2008 kl. 23:33

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Góð heimsókn á góðum degi!  Bolla, bolla, bank, bank.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 5.2.2008 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband