Leita í fréttum mbl.is

'Bráðum koma blessuð jólin'

Fyrsta jólaauglýsingin var í sjónvarpinu í gær. Og mikið óskaplega hlakka ég til að glápa á allar þessar endalausu sjónvarpsauglýsingarnar sem koma í kjölfarið.

Fáðu þér nýtt eldhús fyrir jólin, parketleggðu stofuna fyrir jól, málaðu íbúðina fyrir jól, nýr bíll er nú nauðsynlegur fyrir jólin, - við lánum þér, flísaleggðu baðherbergið fyrir jól, kauptu þér nýja íbúð fyrir jól, eða bara hreinlega  nýtt hús, fáðu þér nýjan eiginmann fyrir jól, helst alveg nýja fjölskyldu. Æ, æ, æ, er ég nú alveg komin út fyrir efnið eða kannski bara alveg yfir um? 'Ég fer alltaf yfir um jólin', söng Laddi.

Hvað ætli það fari annars margir 'yfir' um jólin? Á krítarkortinu eða yfir strikið svona yfirleitt? Og þá meina ég bæði andlega og líkamlega.
Af hverju höldum við jólin á þann veg að minnast fæðingar Jesú með óhóflegri eyðslu og óheyrilegum munaði á alla kanta?
Hversu langt er merking jólanna ekki komin frá uppruna sínum. Hún er eins og afvegaleitt barn, á villigötum.
Ljósið í myrkrinu er orðið að eyðandi eldi sem æðir yfir lönd og höf og eirir engu því sem á vegi þess verður.
Skógareldur, sinueldur, sálareldur. Eitthvað sem við ráðum ekki við lengur. Árviss atburður sem margir kvíða, í stað þess að hlakka til. Því tómleikinn ræður ríkjum, Friðurinn er farinn, horfinn í flóðbylgju stjórnlausra innkaupaferða og óhóflegra átveisla.
Og í kjölfarið kemur óttinn, óttinn við það að vera ekki maður til þess að borga það, sem þú keyptir uppá krít, fyrir þessa heilögu hátíð kristinna manna.

Jólin eru liðin undir lok eins og Rómaveldi forðum, allavega hjá flestum þeim, sem hafa næstum því gleymt, hvers vegna við höldum jól. Og að lokum munum við ekki vita hvers vegna við höldum eiginlega jól, eða er það kannski þegar orðið þannig??

 

               Jól 

 

Ert þú - í raun og veru
- sonur Guðs?
Spyr fréttamaðurinn
í sjónvarpinu, Jesúm Krist.

Það eru þín orð,
svarar Frelsarinn, með bros á vör.

Jólatréð er sofnað,
það hallast ískyggilega á aðra hliðina
og mér flýgur í hug
- hvort það -
hafi líka stolist í sherryið
sem var falið í þvottavélinni
á jólanótt.

Rauð könguló er snyrtilega bundin
um topp þess
en gulir götuvitar lýsa dauflega
á slútandi greinum.

Úti sitja hrafnar á ljósastaurunum
krunkandi eftir feita hangikjötinu
sem við hentum í ruslið á aðfangadagskvöld.

Á svörtum himni skín einmana,
- óljós - stjarna??

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fjóla Æ.

Ég sá auglýsingu frá Garðlist 24. september þar sem þeir voru að benda fólki á hversu sniðugt það sé að fá fagmenn til að setja upp jólaljósin. Þannig að fyrsta jólaauglýsingin kom ekki í gær.

Annars finnast mér jólin frábær og hlakka mikið til þeirra og allra auglýsinganna.

Fjóla Æ., 4.10.2007 kl. 11:47

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ekki seinna vænna að lesa jólahugleiðingu núna...þessi er reyndar mjög tímabær!! Reyndar hlakka ég alltaf til jóla..hef undanfarin ár haldið afskaplega einföld og róleg jól. Troðfull af helgum jólanóttum litlum kertaljósum og nokkrum gjöfum ásamt góðri máltíð. Og hef hugsað mér að halda því áfram þó eflaust verði jólaboðin tekin með og meira borðað..en ég ætla ekki að láta sogast með einhverju sérhönnuðu jólabrjálæði kaupmanna og auglýsingastofa. Veit bara alveg hvernig ég vil hafa þetta. Punktur. Kannski ég hafi samt opið hús fyrir vini og vandamenn á aðventu með heitu kakói og piparkökum..og læt þau auðvitað borga inn..hahaha

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 4.10.2007 kl. 11:53

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er nú þeim gæðum gædd eins og mín fjölskylda að missa okkur ekki um jólin, ég hef alltaf reynt að halda þessum helga, rólega tón sem var um jól þegar ég var barn. Börnunum mínum líkar það vel og svona viljum við hafa þetta. Goður pistill hjá þér og örugglega þörf á að birta hann oftar fram að jólum.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.10.2007 kl. 13:28

4 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ég hlakka alltaf til jólanna en það sem þú ert segja er rétt með krítarkortin það er alveg ferlegt, eyðsla og aftur eyðsla. Svo er þetta allt og snemmt finnst mér að auglýsa jólin strax. 

Kristín Katla Árnadóttir, 4.10.2007 kl. 15:29

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já, það er gott að halda helg róleg jól eins og þegar maður var barn og horfa á kertaljósin. Jú og ekki spillir fyrir að borða jólamatinn. Hann er hluti af stemningunni. Það er best að hafa þetta svona í hófi og sleppa brjálæðinu.ég slekk alltaf á hljóðinu á sjónvarpinu, þegar auglýsingarnar flæða yfir skjáinn og ég sem vann eitt sinn sjálf á auglýsingastofu, he, he.

Svava frá Strandbergi , 4.10.2007 kl. 15:37

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Helvítis jólin alltaf!

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.10.2007 kl. 21:51

7 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Sigurður minn vertu stilltur, eins og þú manst orti ég kannski    "Heims um ból" í fyrra lífi.. Verð samt að viðurkenna hér, að ég er enginn aðdáandi jólanna þar sem hátíð ljós og friðar eins og sagt er, er afbökuð eins og Svava greinir svo snilldarlega frá í blogginu sínu..

Þorkell Sigurjónsson, 5.10.2007 kl. 00:08

8 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég ætla að bíða fram til jóla með að óska ykkur gleðilegra jóla.

Svava frá Strandbergi , 5.10.2007 kl. 03:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband