Leita í fréttum mbl.is

Blómabrjálæðið verður mér að bana

Ég keypt mér æðislega fallega alparós um daginn með tvílitum blómum. Hún er bæði með rauðbleik blóm og hvítbleik blóm með rauðum jöðrum. Ég setti hana inn í tölvuherbergi til þess að hafa blessaða blómadýrðina nálægt mér þegar ég væri í tölvunni, en þar eyði ég drjúgum tíma.
Ég passaði svo að vökva rósina mína reglulega því hún má aldrei þorna og svo passaði ég hana að sjálfsögðu líka fyrir Tító og Gosa sem finnast öll blóm mjög girnileg til átu.
Æðið gekk svo langt að þegar ég las það í blómabókinni minni að alparós þrífist best við lágan hita skrúfaði ég fyrir ofninn í tölvuherberginu.
Svo leið og beið og alltaf sat ég í þessum skítakulda við tölvuna svo yndislega alparósin mín mætti lifa  sem lengst.
Eftir viku fannst mér undarlegt hvað ég var orðin slöpp eitthvað, það bogaði sífellt af mér svitinn við minnstu hreyfingu. Ég hafði ekki við að þerra á mér ennið sem alltaf var rennandi blautt og stundum varð ég jafnvel að rífa mig úr öllu að ofan, þegar mér fyrirvaralaust varð alveg óbærilega heitt.
En það hafði lítið að segja því ég var ekki fyrr orðin allsber að ofan en ég var komin með kuldahroll niður eftir öllu bakinu. 
Ég skildi ekkert í þessu heilsufari og var ekki á það bætandi því bakverkurinn hafði tekið sig upp að nýju og leiddi sársaukinn niður í vinstri fót einsog áður.
Ég fór því á læknavaktina og dóttir mín blessuð keyrði mig því ég þori ekki fyrir mitt litla líf að keyra bíl í Reykjavík, því  það  litla sem ég lærði, lærði ég úti á landi.
Læknirinn sem var á vakt lét mig hafa parkódín forte þegar ég sýndi honum gamlan pakka sem heimilislæknirinn hafði eitt sinn skrifað uppá. En ég þurfti samt að útskýra vel fyrir henni að ég væri með kölkun í baki og eitthvern beinhnúð á einum hryggjarlið fyrir utan mænuþrengslin.
Ég sagði henni líka frá hitaköstunum og svitanum og að mér væri illt í augum og nefi og haus. Læknirinn var eitthvað óþolinmóður og leit á klukkuna vitandi að hundrað manns biðu frammi á biðstofu. Hún bankaði samt á kinnarnar á mér og skoðaði augun og skrifaði svo annan lyfseðil og rétti mér.
Ég sá að hún hafði skrifað uppá penicillin. Ég varð hálfvandræðaleg og tjáði henni að ég væri með ofnæmi fyrir penicillini,  þá nennti hún ekki að standa í þessu veseni  lengur og sagði mér að tala bara við heimilislækninn í fyrramálið.
Í nótt svaf ég svo sama og ekkert því ég var komin með hósta líka og svo nístandi blöðrubólgu ofan á allt saman og var hreint og beint að drepast. Mig dreymdi meira að segja að ég væri að kasta upp.
Þegar ég  svo vaknaði seint um síðir  rættist draumurinn alveg bókstaflega og ég rétt náði að komast inn á klósett til þess að losa mig við það litla sem í maganum var.
Ég var svo aum að ég hringdi í hjúkrunarfræðinginn á heilsugæslunni og sagði henni alla málavöxtu, að ég væri með bronkítis, kinnholubógu, hvarmabólgu og blöðrubólgu og bað hana um að skila því til heimilislæknisins að ég þyrfti sýklalyf.
Nei það gengur ekki, sagði hún, þú verður að fá tíma hjá honum á morgun eða fara bara á læknavaktina.
Það gengur víst, sagði ég móðursýkislega. Ég var á læknavaktinni í gær og ég er ekki á bíl og get ekkert farið þangað aftur, bætti ég við . Heimilislæknirinn getur alveg gert þetta. Ég get ekki beðið lengur, sagði ég dramatískri röddu og nú var ég komin með grátstafinn í kverkarnar af sjálfsvorkunn.
Jæja ég skal sjá hvað ég get gert, sagði  hjúkrunarfræðingurinn  sefandi.  En ég lofa engu, bætti hún við. Já þakka þér fyrir,  snökti ég  eins og  smábarn. 
En  læknirinn þarf að  láta  apótekið  vita að það  eigi að senda lyfin heim, röflaði ég áfram.
Allt í lagi ég hringi ef þetta gengur ekki,  sagði hjúkkan og lagði á, dauðfegin að losna við  þessa óþolandi manneskju úr símanum.
Seinnipartinn í dag komu svo lyfin með skilum frá mínum gamla góða heimilislækni. Í millitíðinni reyndi ég að blogga smá og þá rann upp fyrir mér ljós þar sem ég sat í jökulköldu herberginu. Þetta var allt andskotans alparósinni að kenna. Hún þurfti kulda til þess að lifa lengi og ég hafði auðvitað látið það eftir henni með þeim afleiðingum að ég sjálf var að drepast hægt og hægt .
Ég er að pæla í að hætta í þessu blómabrjálæði og fara að rækta plastblóm í staðinn sem þrífast víst ágætlega án þess að slökkt sé á ofnunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Hér sannast það að engin rós er án þyrna.

Ester Sveinbjarnardóttir, 4.4.2007 kl. 04:31

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Akkúrat.

Svava frá Strandbergi , 4.4.2007 kl. 04:44

3 Smámynd: Gúrúinn

Fölnar ein rós nú

í blómabrjálæði svo

önnur blómstri vel

Gúrúinn, 4.4.2007 kl. 09:10

4 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta er það sama hjá mér með bakið verkur niður í fót  og kölkun í bakinu þetta er ekki gott Guðný mín þetta er svakalega sárt

Kristín Katla Árnadóttir, 4.4.2007 kl. 09:52

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já þetta er SVAKALEGA sárt Kristín mín.

Svava frá Strandbergi , 4.4.2007 kl. 13:31

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er bara kalkaður í  höfðinu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.4.2007 kl. 01:41

7 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ertu þá ekki með svakalegan hausverk Nimbus?

Svava frá Strandbergi , 5.4.2007 kl. 01:54

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er með nimbus um höfuðið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.4.2007 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband