Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

'Víða hart í búi hjá smáfuglunum'

Ég rak augun í þessa fyrirsögn í Morgunblaðinu um það að smáfuglarnir okkar ættu bágt núna og það er víst satt og rétt að litlir fuglar séu svangir og kaldir núna í þessum snjó og harðindum.

En hvað með litlu mýsnar, ætli þær séu ekki líka svangar og kaldar?

Jú örugglega eru þær það, en með músagreyin gegnir bara allt öðru máli. Því ef mýs gerast svo fífldjarfar að leita á náðir okkar mannanna í þeirri fávísu von að við munum seðja hungur þeirra, þá bíður þeirra undantekningarlaust ekkert annað en miskunnarlaus dauðinn.

Svona er nú mannskepnan margskipt í eðli sínu. Við mennirnir erum aðeis góðir við þau dýr sem okkur eru þóknanleg.

En setjum nú sem svo að við bærum umhyggju fyrir músum jafnt sem fuglum. Þá gæti fréttin sem fylgdi fyrirsögninni hér að ofan hafa hljóðað á þessa leið.

 

                          Víða hart í búi hjá músunum

Þegar allt er hvítt yfir að líta er örðugra fyrir mýsnar að verða sér úti um fæðu og því um að gera að muna eftir þeim.
Það gerði hún Lea Hrund á Húsavík í dag og á myndinni sést hún vera að gefa músunum.
Að sögn fréttaritara Morgunblaðsins á Húsavík leið ekki á löngu þar til nokkrar þeirra voru farnir að gæða sér á fóðrinu.

 

Ég læt svo í lokin fljóta með ljóðið-

 

                         Gildran

 

                     Þau sækja á hug minn

                     svörtu augun

                     er spegluðu ótta

                     og angist dauðans.

                     Svo þreytt var hún orðin

                     og þjökuð af hræðslu

                     þó reyndi hún að synda

                     því hún elskaði lífið

                     og óttaðist dauðann.

 

                     Ég var tólf ára telpa 

                     sem trúði á hið góða.

 

                     - Í sveit þetta sumar.

 

                      Hún synti til dauða

                      þó svörtu augun

                      mig sárbændu um líf.

 

                      En ég mátti ekki hjálpa.

 

                      Þau sækja á hug minn

                      svörtu augun.

                      - Svörtu litlu músaraugun.

 


Ást, ást , ást, á laugardagskvöldi.

Ég kom mér makindalega fyrir í stofusófanum til þess að horfa á síðustu myndina í ríkissjónvarpinu í kvöld The End of the Affair eða Leiðarlok.

Ég verð að viðurkenna að ég grét eins og múkki yfir þessarri dásamlega rómantísku mynd og allri þessari ást. Þó læddust öðru hvoru að mér efasemdir um það hvort svona yfirnáttúrulega heit ást gæti verið til nema þá auðvitað í bókum og kvikmyndum eins og þessarri sem ég var að glápa á.

En svo komu kettirnir mínir Tító og Gosi upp í sófann til mín og fullvissuðu mig um það að heit ást væri svo sannarlega til í okkar veröld. Svo ég lét huggast, snýtti mínum rauða nebba og leyfði kislingunum að lúra í handarkrikunum og horfa með mér á það sem eftir var af myndinni. 

Svo þegar ég settist við tölvuna til að blogga um þessa góðu reynslu mína rak Tító náttúrulega upp sitt ógurlega vein því hann er svo afbrýðisamur út í tölvuna. Svo auðvitað endaði það með því eins og svo oft áður að ég varð að blogga með kafloðinn fresskött í kjöltunni, en sem elskar mig víst út af lífinu.

 scan0023

 TÍTÓ með stjörnur í augunum að horfa á mig.

Mér finnst það oft erfitt að blogga með Tító á hnjám mínum því hann er alls ekki fyrirferðarlítill.  En síðan ég sá fréttina í Ríkissjónvarpinu þar sem ljón faðmar að sér konuna sem það elskar, síðan hún bjargaði því illa höldnu úr sirkusi, þá  þakka ég Guði stundum fyrir það að Tító skuli bara vera köttur.


 


Útrýmum skömminni

Það er eitt atriði sem mig langar til að benda á í sambandi við þá áherslu sem lögð hefur verið á það, að þessi heyrnarlausu börn sem voru misnotuð af þeim sem þau áttu að treysta, hafi engum getað sagt frá vegna tjáskiptaerfiðleika.

það atriði er það, að tjáskiptaerfiðleikarnir eða heyrnarleysið hafi ekki skipt höfuðmáli í þessum sökum,

Því öll börn hvort sem þau eru heyrnarlaus eða ekki og sem misnotuð eru af þeim sem þau eiga að geta treyst t.d. sínum nánustu 'geta heldur ekki tjáð sig' um reynslu sína.

Alla vega hefur það verið reyndin fram á okkar daga.

Þetta er hinn sári sannleikur og er ég þó á engan hátt að gera lítið úr hinni ótrúlegri raun heyrnarlausu barnanna.

Börn sem verða fyrir kynferðislegri misnotkun af hendi sinna nánustu ættingja loka einfaldlega á svona hræðilega reynslu.

Þau gleyma henni á yfirborðinu sökum þess að annars gætu þau hreinlega ekki lifað af.

En þessi ógurlega lífsreynsla setur mark sitt á þau engu að síður sem getur komið fram í allskyns hegðunarröskunum og persónuleikaröskunum.

Þess vegna er svo óendanlega mikilvægt að allir þeir sem umgangast börn,  ekki bara kennarar eða aðrir opinberir starsmenn,  séu vakandi fyrir hvers konar neikvæðum breytingum á framkomu barnanna og frammistöðu þeirra, á hvaða vettvangi sem er.

Ég er ekki að mæla með neinni hysteríu en það er fyrir löngu kominn tími til, að útrýma þessarri skömm sem misnotkun á börnum er, en sem því miður hefur alltaf fylgt mannkyninu frá örófi alda, í skjóli bannhelginnar.


Samfylkingin hefur ekkert erindi í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum

Nú er óðum að styttast í kosningar aðeins rúmir 100 dagar 'to go' . Samfylkingin hefur látið í veðri vaka að hún hafi áhuga á ríkisstjórnar samstarfi með Sjálfstæðisflokknum.  En ég held að það myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir Samfylkinguna að stíga það spor því með tímanum myndi hún lenda í fyrrum hlutverki Framsóknar í stjórnarsamstarfinu.

Hún yrði í minnihluta í ríkisstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn myndi eins og í tíð Framsóknar einfaldlega verða áfram einráðir á valdastóli og valta yfir Samfylkinguna eins og Framsókn fyrrum.

Við ágætu landsmenn eigum það einfaldlega ekki skilið að fá aðra svipaða stjórnarsamsteypu og Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera allt of lengi við stjórnvölinn og tími til kominn að vinstrisinnaður flokkur fái tækifæri til þess að mynda ríkisstjórn. 

 Það væri miklu betri kostur fyrir Samfylkinguna að leita til einhverra þeirra minni flokkanna sem mest fylgi hafa á eftir henni til þess að mynda ríkisstjórn.


Mannhatarinn?

Angry

Það rann upp fyrir mér í dag þegar andskotans snjóbylurinn skall á

að ég er öllu fúsari til þess að gefa smáfuglunum brauð en mér

ókunnu fólki sem sveltur í útlöndum.

Mér finnst líka miklu huggulegra að knúsa kettina mína heldur

en útkámug ungabörn.


Þyrnirós eða hvað?

Hvernig í ósköpunum stendur á allri þessarri ofankomu og skítakulda? Virka þessi gróðurhúsaáhrif svona þrælöfugt eða hvað? Ef svo er verðum við öll beinfrosin áður en að því kemur að hitna fer í kolunum.

 

Þyrnirós og prinsinn og hvíti hesturinn

 

Kannski þetta verði bara eins og önnur útfærsla af ævintýrinu um Þyrnirós og við verðum öll í frystu formi í hundrað ár.

Eða allt þar til gróðurhúsaáhrifin koma eins og prinsinn á hvíta hestinum og bræða okkur með svo  heitum kossi að við vöknum til lífsins að nýju.

Það skyldi þó aldrei vera? 


Strandberg konungsættin í Bretlandi

Það er aldeilis nú eru tveir möguleikar á því að ég geti orðið drottinig eins og mig hefur alltaf dreymt um.

Í fyrsta lagi er bara að grafa það upp að einhvers staðar aftur í ættum tengist ég Edgari Æþeling sem Játvarður Englandskonungur tilnefndi sem eftirmann sinn árið 1066 og ef það gengur ekki upp er bara að kaupa minnsta ríki í heimi sem nú kvað vera til sölu. En þetta ríki er víst smá stálpallur staðsettur einhvers staðar undan ströndum Bretlandseyja.

 Annars er eitt í þessu getur bara ekki hvaða Íslendingur sem er og sem dettur það í hug, gert tilkall til bresku krúnunar? Erum við ekki öll komin út af alls konar kóngafígúrum sem flúðu hingað til Íslands á sínum tíma?

Ég þori að veðja að alla vega einn af þeim hefur verið náskyldur þessum Edgari.

 


EKKI OKKAR SÖK !

scan0019

Svört er sól sviðin mannaból

seytlar blóð

í Fjandans feigðarslóð.

Drynur jörð er Dauðinn tyllir tá

í draugalegri borg við Tígrisá.

 

Grætur barn gáttir Heljar við

Guðs - krossfarar lutu ei Kristnum sið.

Lítill drengur líkn fékk ei

hjá þeim

sem limlestu og brenndu hans

skinn og bein.

 

Vér hjálpum þá.- Það er hið

 - minnsta mál.

Hendur kaupum - gerum við  hans sál.

Við sem erum Guðs útvalda þjóð

- og ekki okkar sök

 - þótt renni blóð.

 

Drynur jörð er Dauðinn tyllir tá

í draugalegri borg við Tígrisá. 


Álfar, tröll (og sumarbúðir fyrir jólasveina.)

_scan0012Mikið fannst mér yndislegt að líta út um gluggann í morgun og sjá logndrífuna og alhvíta jörð.

það lá við að ég kæmist aftur í síðbúið jólaskap. Mér fannst þetta kjörið þrettándaveður ekki seinna að vænna að jólasnjórinn kæmi síðasta dag jóla á þrettándanum.

Ég settist svo við tölvuna og las fréttina um álfana og tröllin sem er nú boðið hæli á Stokkseyri þar sem eins og segir þrengir nú verulega að þeim í íslenskri náttúru vegna stóriðjuframkvæmdanna.

Mér finnst þetta verulega fallega gert að bjóða þessu vættum sem hafa búið með okkur í landinu frá upphafi húsaskjól. En jafnframt fannst mér það svolítið sorglegt að nú væri svo komið að Ísland væri orðið svo náttúrulaust vegna stóriðjunnar að ekki einu tröll eða huldufólk gæti lengur sinnt sinni náttúru í sína rétta umhverfi.

Heldur þyrfti að framleiða einskonar náttúrulíki og hafa til sýnis innandyra og bjóða þessum yfir- náttúrulegu löndum okkar að hafast þar við.

 Það var einnig tekið fram í fréttinni að álfar og huldufólk flyttust búferlum á nýársnótt. En mér vitandi gera þeir það einnig á þrettándanum. Svo það hlýtur að verða mikið fjör hjá þessum vinum okkar í nótt.

Kannski koma þeir við á einhverri þrettándabrennunni á leið sinni til nýrra húsakynna og taka þar þátt í söng og dansi og kveða með okkur ' Glottir tungl og hrín við hrönn og hratt flýr stund.'

 En nú finnst mér bara vanta að einhver góðhjartaður aðili taki sig til og stofni sumarbúðir fyrir jólasveina.

Mér finnst ekki veita af því að þeir fái einhvers staðar aðstöðu til þess að slappa af fyrir jólavertíðina þar sem hún er alltaf að lengjast. Því nú byrjar vinnutími jólasveina í október og þriggja mánaða jólatörn er anskoti mikið,  jafnvel fyrir jólasveina.


´Imagine' Nokkur orð um páfaklúðrið.

Það er ekkert undarlegt að Múslimar skyldu hafa vera reiðir páfa vegna ummæla hans um Islam enda þótt reiði þeirra virðist eitthvað vera að sjatna.

Enda ber það vott um ótrúlegan hroka að ætla sín eigin trúarbrögð fremri öðrum æðri trúarbrögðum. Því kjarni þeirra allra er hinn sami.

Eða eins og vís maður eða kona sagði eitt sinn. Ef þú ætlar upp á tind fjallsins skiptir ekki máli hvort þú leggur á fjallið úr norðri, suðri, austri eða vestri. Allar leiðirnar liggja upp á tindinn.

Og það að páfi skula vitna í 15. aldar texta sýnir einnig í hnotskurn stöðnum og stöðu hinnar katólsku kirkju í heiminum í dag. Í þessum 15. aldar texta segir eitthvað á þá leið að ekkert nema illt hafi komið frá trúarbrögðum Islams.

En hvernig væri fyrir Kristna menn að líta aðeins í eigin barm? Kristin trú hefur verið boðuð með eldi og brennisteini allt síðan á dögum krossfaranna. Þeir notuðu svo sannarlega sverðið í þágu Kristinnar trúar ekki síður en fylgjendur Múhammeðs spámanns nota sín sverð í þágu sinnar trúar.

Og hvernig var það ekki með Inkanna sem voru brytjaðir niður og menning þeirra eyðilögð til þess að komast yfir Inkagullið? Inkarnir voru réttdræpir í augum Kristinna manna þar sem Inkarnir voru aðeins heiðingjar og þess vegna einskis virði, en gullið þeirra var eftirsóknarvert.

Við skulum ekki heldur gleyma spánska rannsóknarréttinum sem pyntaði 'trúvillinga' allt til dauða á hryllilegasta hátt. Né heldur hvernig kirkjan níddist á konum öldum saman.

Eða er einhver búin að gleyma nornabrennunum?

Konur voru jafnvel brenndar á báli fyrir það eitt að kunna að lesa, hvað þá meir.

Og ekki hefur skírlífi katólskra presta haft neitt gott í för með sér svo vitað sé.

Heldur jafnvel þvert á móti, því það vita allir sem fylgjast með heimsmálunum að óteljandi katólskir prestar og biskupar hafa níðst á börnum úti í hinum stóra heimi.

Enda virðist vera ákveðin kvenfyrirlitning í þeirri stefnu að prestar megi ekki konu kenna.

Það er eins og konan sé einhver óhrein vera, svo mikið óæðri körlum að þeir saurgist af nánum

kynnum við þær.

Og enn berast Kristnir menn á banaspjótum og er þar nærtækasta dæmið trúarbragðastríðið á Írlandi. Þar berjast hatramlega tveir hópar innan sömu trúar sem eiga það sameiginlegt að trúa á Jesúm Krist sem boðaði frið á jörð.

Já það er satt sem segir í texta Bubba Morthens 

                                          'Það fossar blóð í Frelsarans slóð' 

 

Mannkynið hefur alrei borið gæfu til þess að fylgja neinum trúarbrögðum svo vel fari. Þau hafa verið afskræmd og leidd á villigötur af mönnunum sjálfum.

Þess vegna væri affarasælast fyrir mannkynið að leggja niður öll trúarbrögð þar til mennirnir komast á það þroskastig að geta meðtekið og fylgt í einu og öllu innsta kjarna þeirra.

Eða hvað söng ekki John Lennon í sínu ódauðlega lagi?

Og hvenig væri að pæla svolítið í því sem hann segir þar?

Imagine

Imagine there's no countries

It isn't hard to do

Nothing to kill or die for

And no religion too

Imagine all the people

Living life in peace...

You may say I'm a dreamer

But I'm not the only one

I hope someday you'll join us

And the world will be as one

Imagine no possessions

I wonder if you can

No need for greed or hunger

A brotherhood of man

Imagine all the people

Sharing all the world...

You may say I'm a dreamer

But I'm not the only one

I hope someday you'll join us

And the world will be as one


« Fyrri síða

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband