Leita í fréttum mbl.is

Ástaróður sælkerans

Augu þín eins og táldjúp, tindrandi veiðivötn
tunga þín sæt sem rósavín.

brjóst þín sykurhúðaðar svanabringur
með sultu toppum úr brómberjum.

skautið bleik skál með möndlu rís
með skvettu af smávegis aldinsafa.


Nafnið

'en orðstír deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.'

Hún lá endilöng á gangstéttinni í Bankastræti og skrifaði nafnið sitt á grasið við götukantinn.
Hún skrifaði með rauðu bleki svo nafnið væri vel sjáanlegt á grænu grasinu. Hún var ekki í neinum fötum en hafði vafið gamalli sæng utan um sig til þess að hylja nekt sína.
Hún var hálfhrædd um að einhver myndi amast við henni, þar sem hún lá á maganum þvert yfir gangveginn, eða saka hana um að fremja skemmdarverk með því að pára svona á grasið. En fólkið virtist ekki taka eftir henni, heldur steig hiklaust ofan á hana á hraðferð sinnni upp eða niður götuna
Hana var farið að verkja í bakið af því að vera svona fótum troðin en lét sig hafa það. Hún vissi sem var að hún varð að gera allt fyrir nafnið.
Þegar hún hafði lokið við að skrifa hálfa leið frá kvennaklósettinu niður að Lækjargötu tók hún sér smáhvíld og kveikti sér í sígarettu.
Hún saug áfergjulega að sér reykinn og leit yfir verk sitt.
Við augum hennar blasti kraftaverk og henni varð ljóst að Guð hafði stýrt hendi hennar, því á hverjum þeim stað sem hún hafði skrifað nafnið sitt uxu nú rauðar rósir.
Hún drap í sígarettunni og fleygði henni umhugsunarlaust í göturæsið. Svo hélt hún áfram að skrifa.
En nú þurfti hún að skrifa mun hraðar en áður því sólin var horfin, dökkir kólgubakkar voru að hrannast upp á himninum og það leit út fyrir rigningu.
Hún varð að ljúka verkinu áður en það byrjaði að rigna því líklega myndi gamla sængin sem hún notaði sem yfirhöfn gegnblotna ef það kæmi væta á hana.
Að lokum skrifaði hún síðasta stafinn. Verkið var fullkomnað og hún lagði frá sér pennann sigrihrósandi.
En þar sem hún sat þarna var hún skyndilega lostin skelfilegri hugsun, sem fyllti hana smátt og smátt nagandi óvissu.
Hún hafði ekki hugmynd um hvort rauða blekið sem hún hafði skrifað með væri vatnsekta.


Herm þú mér Ljóð dagsins á Ljóð.is 28. mars


Í augum sé ég angist,
von og þrá
og upp á veruleikans sýndarþil

varpast vitund er
ég veit ekki á nein skil.

Því spegill, spegill
herm þú mér,

- er ég til?


Eitt er þó víst ....

að það verður örugglega ekki eins erfitt hjá forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna.
mbl.is Erfitt framundan hjá lífeyrissjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæðing Venusar

Í safírblárri nóttinni hljómar
söngur vindanna.

Rósbleik hörpuskel ristir djúpt,
ránar fald.

Marbárur rísa og hníga í örum
hjartslætti sjávarins.

Röðulglóð lýsir hauður og haf
er lofnargyðjan
lyftist fullsköpuð úr skínandi djúpinu.

Getin af sævi
giftu-borin af perlumóður.

Nývöknuð veröldin nýtur í fyrsta sinni
Njarðar dóttur.


Mengun

Meinaðu neikvæðum minningum
að menga huga þinn.

 

Guðný Svava Strandberg


Náinn

Brástjörnur blíðar man ég
blika mót sjónum mínum,
bros geisla og glitrandi perlur,
al-gleymi af vörum þínum,

nálægð sem neistaði elding
er nam ég frá verund þinni,
nafn indælt sem ómfagur söngur
er yljar nú sálu minni.


Nonni

Brástjörnur bláar man ég
blika mót sjónum mínum.
Bros líkt og leiftrandi perlur
ljómaði á vörum þínum.

þín nálægð var neistandi elding
er nam ég frá vitund þinni.
Þitt nafn eins og ómfagur söngur
yljar helst sálu minni.

Guðný Svava Strandberg


Gleði og sorg

Hina sælustu gleði ertu ekki fær um að hljóta,

ef þú höndlar ekki sorgina.

 

 

 

Guðný Svava Strandberg


EKKI OKKAR SÖK

Svört er sól,
sviðin mannaból.
Fossar blóð í Fjandans
feigðarslóð.
Drynur jörð er Dauðinn tyllir tá
í draugalegri borg við Tígrisá.

Grætur barn, gáttir Heljar við.
Kross- Guðs-farar
lutu ei kristnum sið.
Lítill drengur líkn fékk ei
hjá þeim
sem limlestu og brenndu hans
skinn og bein.

Vér hjálpum þá- Það er hið - minnsta mál!
Hendur kaupum - gerum við hans sál.

Við sem erum Guðs útvalda þjóð!
    - Og ekki okkar sök
    - þótt renni blóð.

Drynur jörð er Dauðinn tyllir tá í
draugalegri borg við Tígrisá.

Guðný Svava Strandberg


mbl.is 28 féllu í sjálfsvígsárás í Bagdad
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband