Leita í fréttum mbl.is

Huggun

Þú kemur til mín
ósköp hægt og hljótt
er húmið dökka
sest um sefa minn.
Í hjarta mér
þá helköld ríkir nótt
en heit mín tár
sem falla á fölva kinn.
Þá lýsa mér þín augu
blíð og blá.
Svo björt og hrein
þar skín mér ástin þín.
Sem glæðir aftur
gleymda von og þrá.
Þú göfga litla hjartans,
kisan mín.

 

Tíó mínum hefur versnað undanfarið. Hann hefur legið mikið einn í bólinu sínu og eltir mig ekki lengur um allt. Það er eins og hann sé svo þreyttur og áhugalaus um allt. Hann sem alltaf fylgdi mér hvert fótmál liggur nú bara fyrir og dormar
Hann er líka svo skrýtinn í augunum eins og hann sé alltaf syfjaður og jafnvel þó að hann elti mig stundum fram í eldhús þegar hann heyrir mig opna ísskápinn þá borðar hann samt ekki heldur hangir bara yfir matarskálinni sinni með lokuð augun.
Svo í gærmorgun kastaði hann svo mikið upp og kúgaðist svo mikið. Svo gaf ég honum að borða aftur eftir klukkutíma og þá kastaði hann strax upp aftur, um leið og hann var búinn að borða.
Ég fór með hann upp á dýraspítala og dýralæknirinn gaf honum sterasprautu, B vítamín og sýklalyf og sagði mér að sjá til .
Tító er nú að verða níu ára í nóvember og dýralæknirinn sagði að heilbrigðir balinese kettir yrðu í mesta lagi 10 til 12 ára, en hann hefði náttúrulega aldrei verið heilbrigður með þessi veiku nýru sín og einhvern tíma yrðu allir að deyja, þó hann væri ekki alveg að fara nú á nóinu
Ég er eins og dofin og ég held að það séu  sálræn varnarviðbrögð mín. Ég get vart hugsað til þess að Tító fari frá mér en veit að það er rétt að, að því kemur eins og hjá öllum öðrum, að hann deyr. En þangað til ætla ég að njóta þess tíma sem hann er hjá mér, hann elsku Tító minn.


Skinfaxi heitir, er inn skíra dregur

scan0003

dag of dróttmögu,
hesta bestur
þykir með Hreiðgotum
ey lýsir mön of mari.


Gleðidagur

Ég fór með systur minni og vinkonu að horfa á Gay- Pride gönguna. Við plöntuðum okkur niður í Bankastræti og fylgdumst með þessari meiriháttar gleðigöngu. Þarna var mikið af fjölskyldufólki og alls konar fólki, fólki með sínum heittelskaða eða heittelskuðu og það var líka gaman að sjá að aldrei þessu vant var mikið af fólki með hunda af öllum  tegundum i miðbænum. Það var ekki síður gaman að skoða alla þessa fallegu hunda, heldur en mannfólkið og mér finnst það synd að oftast er bannað að vera með hunda í miðbænum.
Við systurnar hittum bróður okkar í Lækjargötu og hann var líka upprifinn og í góðu skapi eins og allir aðrir. Ekki spillti veðrið heldur fyrir, sól og sautján stiga hiti.

Það er frábært að Íslendingar séu svona jákvæðir í garð homma og lesbía, því víða í heiminum er fólk drepið fyrir að sinna kalli hjartans í sínum ástamálum.

Samkynhneigð hefur alltaf verið til og mun alltaf vera til. Samkynhneigð er heldur ekki bundin við mannkynið eitt, því mörg dæmi eru til um samkynhneigð dýr, bæði úti í náttúrunni og hjá tömdum dýrum.  Svo nærtækt dæmi sé tekið þá eru til  dæmis  margar samkynhneigðar endur á Tjörninni í Reykjavík. Ég bý líka sjálf með tveimur hommum, það eru kettirnir mínir tveir, sem eru báðir fress. Þeir elska hvor annan fölskvalaust, sofa stundum með vangana saman og þvo hvor öðrum hátt og lágt. Já og mynda sig til þess að makast hvor með öðrum og ef annar þeirra er eitthvað vansæll þá rýkur hinn til og huggar hann. Svo geta þeir slegist á milli, en allt í góðu samt.

Við skulum muna það að bæði menn og dýr eru ólík innbyrðis. Enginn er eins, sumir eru gagnkynhneigðir, aðrir tvíkynhneigðir og  enn aðrir samkynhneigðir. Við rúmumst öll undir litum regnbogans og þar er nóg pláss fyrir alla okkar ást og fyrir mismunandi kynhneigðir okkar. 

En því miður er enn til fólk sem lifir í fordómum gagnvart öðrum að þessu leyti og sorglegt að margt af þessu fólki telur sig trúa öðrum heitar, á Guð og Jesú sem boðaði ást og umburðarlyndi milli allra  manna. 

Ég veit þess dæmi að fólk sem hefur verið mjög trúhneigt í lífi sínu og sem hefur komið út úr skápnum seint á ævi sinni hefur verið útskúfað af meðbræðrum sínum og systrum í trúnni. Slíkt hefur jafnvel leitt til hinna hörmulegustu atburða svo sem sjálfsvíga þessa fólks sem fær ekki frið til þess að hlýða kalli hjarta síns.

Mér finnst það hroki og beinlínis rangt af þeim strangtrúuðu að dæma meðbræður sína fyrir þær kenndir sem þeim eru áskapaðar og halda samt stíft fram eigin ágæti og hreykja sér hærra en nokkrum manni er leyfilegt. Þetta fólk heldur því fram að þeir sem ekki trúa á Guð á sama forpokaða mátann og það sjálft, fari beint til Helvítis, en það sjálft aftur á móti beint til himna.  Höfum í huga það sem Jesús sagði, 'Dæmið ekki svo þér verðið ekki sjálfur dæmdur' 


Blues

Ég hef verið ansi blúsuð undanfarnar vikur. Hef varla haft mig í það að fara út úr húsi, eða á nokkur mannamót. það er eins og einhver andlegur doði sé yfir mér. Ég er búin að sækja um óteljandi vinnur en fæ enga ennþá. Ég hef heldur ekki haft mig uppí að gera neitt af viti eins og að mála mynd eða yrkja.
Aftur á móti hef ég verið dugleg hérna heima við, svo sem að taka til og endurbæta ýmislegt í íbúðinni minni. En það er ekki nóg. Svo í dag birti til því vinkona mín, mamma hennar og ég fórum saman á Magma, hönnunarsýninguna á Kjarvalsstöðum og kíktum líka inn á litla Kjarvalssýningu á staðnum.
Mér fannst margt skemmtilegt að sjá á hönnunarsýningunni, en það sem lyfti mér í hæstu hæðir var lítil mynd eftir meistara Kjarval. Þessi mynd var eins og opinberun, svo allt öðruvísi en allar aðrar myndir sem ég hef séð eftir meistarann og eru allar myndir hans þó  fullkomnar.
Það stóð við myndina að hún væri ókláruð, en mér fannst hún vera fullkomin. Mér finnst svo skrýtið að þegar ég sér mikil listaverk að þá bókstaflega drekk ég þau í mig með augunum. Ég finn greinilega tilfinninguna í augunum þegar augað nemur myndina og eins og sýgur hana í sig  og alveg upp í heila og þaðan dreifist upplifunin út um allan líkamann.
Þessu fylgir ólýsanleg unaðstilfinning og mér finnst eins og ég gangi inn í myndina og komist í einhvers konar ' rúss' eða sæluvímu. Nú þegar ég sit hér við tölvuna hugsa ég um þessa mynd og hversu mikla gleði og birtu hún veitti mér með látlausri fegurð sinni og ég ég fer að sofa fullviss um það, að það muni birta fljótlega til í lífi mínu líka. 

The Beach Life is Hot in Iceland

scan0001

Það væri munur ef strandlífið væri svona fjörugt hér á Íslandi eins og það er hjá þessum hvítabjörnum. Líklegt er að með vaxandi hita á jörðunni getum við mannfólkið  hér á landi skemmt okkur við sjóböð í hlýjum sjó í framtíðinni.
Aftur á móti má búast við því, þegar þar að kemur, að hvítabirnir verði útdauðir vegna bráðnunar á Grænlandsísnum. Og ekki bara þeir, heldur fjöldi annarra dýrategunda, ef svo heldur fram sem horfir, en vonandi tekst að snúa þessari óheillaþróun við svo bæði menn og skepnur geti notið lífsins á plánetunni okkar, Jörð.


Á þetta virkilega að vera frétt??

Ég hefði skilið það, að  rokið hefði verið með það í fjölmiðla, ef að Kevin hefði heitið því að veita drengjunum sínum óeðlilegt uppeldi. Það hefði aldeilis orðið saga til næsta bæjar!  En hann ætlar bara að  reyna að gera það sama og allir aðrir foreldrar, að veita börnunum sínum eðlilegt uppeldi.

Hvað er eiginlega svona fréttnæmt við það??

Þessi frétt er svona álíka hálfvitaleg eins og greint hefði verið frá því, að Federline hefði heitið því að gefa drengjunum sínum ætan mat. En þetta þykir kannski stórfrétt í Hollýwúddinni.


mbl.is Federline ætlar að veita drengjunum eðlilegt uppeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komdu, komdu til mín, fljótt!

Eins og hungraður
munnur ungbarnsins
leitar eftir brjósti
móður sinnar,
reikar hugur minn
til þín.

Þú, sem ert þarna, úti,
- einhvers staðar,
- komdu!
Komdu til mín, fljótt!
Því enginn
kyssir varir mínar,
enginn gælir við andlit mitt.

Ég strýk hálfopnar
varir mínar mjúklega,
svo mjúklega
og kyssi hendur mínar ákaft,
svo ákaft,
sem þar værir þú.

Þú, sem ert þarna, úti,
- einhvers staðar,
- komdu!
Komdu til mín, fljótt!


Ég er búin að standa á haus undanfarna daga

Ég dúklagði loksins þvottahúsið af mikilli list og lagði gúmmígólfista meðfram veggjunum. Ég tók bara einn vegg í einu þegar ég límdi listana á og vaskaði svo upp á milli, en ég hafði ekki vaskað upp í marga daga.
Svo málaði ég og blettaði þrjá stofuveggi, tvíþvoði stofugólfið, tók baðherbergið í gegn og þrjú herbergi algerlega, þurrkaði af,  pússaði gluggana, dúklagði svalirnar, þvoði þrjár þvottavélar, braut saman þvott og bauð svo fólki í kaffiboð.
Ég var með súkkulaðitertu og jarðarberjatertu og svo  kex og snakk. Sysir mín og systurdætur komu í kaffi og báðir synir mínir, ein tengdadóttir og þrjú lítil barnabörn. Dóttir mín og tengdasonur voru því miður fjarri góðu gamni, því þau eru að frílysta sig á málaskóla í Þýskalandi.
Krakkarnir voru voða hrifnir af Tító eins og venjulega, en hann faldi sig bak við tölvuna til þess að fá að vera í friði fyrir þeim. Hann veit af biturri reynslu að þau klípa í skottið á honum. Gosi graðnagli sást hvergi, eftir að krakkarnir komu í hús, en ég gekk beint að honum í hans uppáhalds felustað , á milli tveggja hægindastóla í stofunni, þar sem hann kúrði skíthræddur. Hann skaust í burtu þegar ég ætlaði að grípa í hnakkadrambið á honum og þaut  rakleitt fram í eldhús og faldi sig inni í opnum neðri skáp. Ég gat loksins dregið hann út og skutlaði svo honum og Tító upp í rúm og sagði þeim að fara bara og leggja sig .
Svo lokaði ég dyrunum að svefnherberginu og læsti þá inni. Þeir voru náttúrulega guðslifandi fegnir að sleppa svona billega frá börnunum og kúrðu sig alsælir niður í rúmið mitt.
Það var hasa fjör í boðinu og mikið spjallað og hlegið. Börnin voru upptekin við  að leika sér með dótið sem ég keypti einu sinni á tombólu hjá einhverjum krökkum, spes handa þeim til að dunda sér við þegar þau koma í heimsókn til mín. Nú man ég það, akkúrat þegar ég er að skrifa þetta, systir mín gaf mér lítinn konfektkassa þegar hún kom. Ég get varla beðið eftir því að gæða mér á innihaldinu þegar ég er búin að blogga.
Það sem stendur uppúr á deginum er samt björgun úr lífsháska sem ég framkvæmdi. Ég var úti á svölum þegar allir voru farnir og opnaði einn gluggan til þess að anda að mér útiloftinu og pústa út. Þegar ég svo lokaði  glugganum heyrði ég ofboðslegarn hávaða sem mér fannst berast utan úr garðinum í næstu blokk.
Ég hélt að einhver væri að slá grasið þar, en svo tók ég eftir því að Gosi graðnagli var allur orðinn upptendraður, hann starði á gluggann og mjálmgelti eins og kettir gera þegar þeir eru í vígahug. Þá rann loks upp fyrir mér ljós, ég hlaut að hafa hálfklesst hunangsflugu á milli glugga og fals þegar ég lokaði vindúinu. Ég opnaði gluggann varlega, jú mikið rétt þarna sat þessi elska í gluggafalsinu, svaka hlussa, feit og loðin.
Ég fór næstum með nefið niður að henni með öndina í hálsinum, til að gá hvort hún væri kannski milli heims og helju, en sá þá sem betur fer að hún virtist ekki mikið særð. Það var samt skrýtið að sjá, að hún eins og andaði, ótt og títt, litli búkurinn gekk upp og niður og hún titraði öll. Ég sem hélt að hunangsflugur önduðu með húðinni.
Ég gaf henni samt nánari gætur, enn þá smá áhyggjufull um heilsufar hennar, en sem betur fer tók hún þá til að snyrta sig hátt og lágt. Hún neri saman löppunum og kippti í  hausinn á sér,  sem hafði eitthvað aflagast við slysið, snurfusaði svo vængina vandlega og kom þeim í samt lag og endaði svo á því að  púðra á sér nefið.
Gosi greyið var alveg að fara yfrum á taugum yfir að fá ekki að veiða flugutítluna svo ég rak hann í burtu með óbótaskömmum þegar hann gerði sig  liklegan til þess að stökkva. Hann mjálmaði hátt í mótmælaskyni en lúskraðist samt í burtu í sömu mund og litla hunangsflugan hóf sig á loft með glæsibrag og flaug á braut.
Ég horfði á eftir henni, brosandi og mér var gleði í huga yfir því að hafa bjargað duglegum og vinnusömum einstaklingi úr lífsháska. Þetta var tvímælalaust toppurinn á deginum, en ég er að pæla í  því að fjarlæga blómapottinn með rósunum innan við svalagluggann og setja hann á heppilegri stað.
Ykkur finnst það kannski skrýtið en ég hef oft hugsað með sjálfri mér að hunangsflugur væru svo krúttlegar, að ef þær væru á stærð við púðluhund gæti ég vel hugsað mér að eiga eina sem gæludýr.

Það eru aldeilis uppi á þeim typpin við Vatnajökul

- enda er náttúran alltaf söm við sig. Ætli þetta sé verslunarmannahelgar- fiðringur eins og hjá mörgu mannfólkinu?
mbl.is Ný jarðskjálftahrina við Upptyppinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki vaninn

að rómantíkin hverfi eins og dögg fyrir sólu, eftir að ástfangið fólk kemur niður af rósrauða skýinu sem einkennir öll sambönd í byrjun? þá á víst að taka við af ofurhrifningunni, tilfinningin að elska og virða maka sinn í blíðu og stríðu.
Því miður eru þeir fáir sem bera gæfu til þess að rækta gott hjónaband. Ég tala nú ekki um ef við bætist álag og stress, sem fylgir því að lifa lífi sínu frammi fyrir augum alheimsins.
Það er ekki það sama gæfa og gjörfileiki, það sýna því miður óteljandi skilnaðir og  margskonar áföll í lífi fallega og fræga fólksins í Hollywood.
Kannski Brad og Jennifer nái saman á ný, það er aldrei að vita.
mbl.is Brestir í sambandi Brads og Angelinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband