Leita í fréttum mbl.is

Ilmurinn

Ég hallaði mér út um opinn svefnherbergis gluggann og starði tómlega út í auðan húsagarðinn.
Það var vor í lofti þennan laugardags eftirmiðdag, náttúran að vakna til lífsins og angan af grænu grasi barst að vitum mér. Ég ætlaði út að skemmta mér um kvöldið, samt var ég í þungu skapi.
Enn ein ömurleg helgin framundan hugsaði ég með sjálfri mér því ekki var það venjan að nokkur karlmaður liti tvisvar á mig þegar ég fór út á lífið.
Ég myndi örugglega enda ævina sem ellidauð piparjúnka. Engin von um börn né barnabörn að ekki sé minnst á syrgjandi eiginmann við dánarbeð mitt.
Ekki sála myndi fella tár þegar ég gæfi upp öndina og það yrði áreiðanlega ekki ein einasta minningargrein í Morgunblaðinu sem greindi frá minni gleðisnauðu ævi.
Það yrði jafnvel tilgangslaust að lesa dánarfregnina því ekki nokkur maður myndi hafa grænan grun um hver þessi skorpnaða persóna hefði verið sem fannst löngu eftir dauða sinn í niðurgrafinni kjallaraholu.
Líkast til yrði ég jörðuð á laun og presturinn einn manna viðstaddur útförina.

Ég var svo djúpt sokkin í þessa ömurlegu framtíðarsýn að ég sá enga glætu framundan í svartnættinu.
Ég hrökk upp úr þessum þönkum mínum við að ógurlegt öskur skar sundur myrkrið sem umlukti mig.
Mér varð það ljóst á einu augabragði að nú ég væri loksins dauð og að það væri Andskotinn sjálfur sem með þessum hætti væri að bjóða mig velkomna til síns heima í heitasta Helvíti.
Ég var sem lömuð af skelfingu en með ofurmannlegum kröftum tókst mér að hrista af mér doðruna og beina skelfdum sjónum mínum í þá átt sem hljóðin bárust úr.
Og mér til ævarandi sáluhjálpar komst ég að raun um að þessi skerandi vein áttu ekki upptök sín í barka Myrkrahöfðingjans heldur stöfuðu þau frá dulitlu sjónarspili sem átti sér stað í garðinum fyrir utan gluggann minn.  Þarna á miðri grasflötinni var spikfeitur fressköttur að athafna sig blygðunarlaust við það að bíta breima læðu í hnakkadrambið, sitjandi klofvega yfir afturendanum á henni, auðsjáanlega með ákveðna athöfn í huga.
Ég fylgdist grannt með áframhaldandi uppákomu og þegar hún stóð sem hæst varð ég fyrir yfirnáttúrlegri hugljómum sem átti eftir að gjörbreyta allri ævi minni.
Ég áttaði mig á því í einni sjónhendingu að það myndi skipta sköpum fyrir mig ef ég bæri ilmvatn á háls mér aftanverðan, áður en ég færi út á lífið um kvöldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilld.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 08:07

2 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Hahahaha

Ragnhildur Jónsdóttir, 28.4.2009 kl. 10:50

3 Smámynd: Hörður B Hjartarson

  Og virkaði ilmvatnið vel , jafnvel eða kannski betur en breimahljóðin í læðunni

Hörður B Hjartarson, 29.4.2009 kl. 03:13

4 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Segi það enn og segi það aftur, snilld.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 5.5.2009 kl. 17:52

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er snilldarleg saga a.m.k. fyrripartur en þú lætur okkur hinum eftir að giska hvort einhver fjallmyndarlegur, sprellfjörugur og vel upp alinn karlmaður hafi tapað blygðunarkenndinni og dýrinu í sér eftir að hafa orðið fyrir þessum magnaða seið.  Þér er mart til lista lagt Guðný!!!

Sigurður Þórðarson, 6.5.2009 kl. 22:33

6 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Þú ert snilldarpenni Guðný Svava

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 11.5.2009 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband