Leita í fréttum mbl.is

Eldurinn

Á miðjum veggnum yfir sófanum í stofunni hékk fallegt gat í gylltum ramma.
Í gatinu stóð tóm dós undan grænum baunum frá Ora.
Börnunum á heimilinu fannst gatið einstaklega áhugavert en foreldrar þeirra harðbönnuðu þeim að koma nálægt því þar sem það væri þeirra dýrmætasta listaverk.

En þegar móðir barnanna var önnum kafin eldhúsinu notuðu börnin oftast tækifærið.

Hvert á fætur öðru tóku þau tilhlaup á stofugólfinu og stukku upp í gatið.
Síðan renndu þau sér beinustu leið niður á botninn á baunadósinni.

Þar niðri tóku á móti þeim iðjagrænir vellir svo langt sem augað eygði og í skógivöxnum hæðunum út við sjóndeildarhringinn bjuggu vinir þeirra indíánarnir sem buðu börnin ætíð jafn velkomin að eldstæði sínu.
Indíánarnir slógu nefnilega alltaf upp veglegri veislu þegar börnin komu í heimsókn og þegar máltíðinni lauk var hverju og einu þeirra fengið spjót í hendur til þess að þau gætu tekið þátt í stríðsdansinum kringum logandi bálið.

Þau dönsuðu alsnakin eins og indíánarnir. Sveifluðu spjótunum og sungu með þeim undarlega seiðandi söngva um löngu horfna tíma þegar allir menn áttu sér aðsetur við elda sem veittu þeim skjól fyrir nístandi kuldanum um nætur.Eldurinn bægði einnig rándýrunum frá og við hann voru sagðar sögur af hatrömmum bardögum og frækilegum veiðiferðum og þar var villibráðin sömuleiðis matreidd og borin fram.

Þegar dansinum lauk og börnin og indíánarnir sátu þægilega þreytt við deyjandi bálið og hvíldu spjótin á nöktum lærum sér brást það aldrei að rödd úr öðrum heimi rauf þessa friðsælu stund.

'Krakkar hvað á það eiginlega að þýða að sitja þarna allsber á gólfinu?' 'Og enn og aftur eruð þið búin að stela kústsköftunum og stönginni af teppahreinsarnum!' 'Skammist ykkar og klæðið ykkur og komið svo að borða eins og skot!!'


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

"Lítið er ungs manns gaman" og ""Litlu verður vöggur feginn"                    Sagan þín er ein af birtingarmyndum ofangreindra orðtaka.

Mér finnst alltaf jafn gaman að skoða myndirnar þínar og stundum þegar ég skoða þær aftur sé ég eitthvað nýtt. Kannski eins og börnin sem renndu sér ofan í baunadósina.  Takk

Sigurður Þórðarson, 22.4.2009 kl. 00:21

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Sömuleiðis takk Sigurður. Já, ung börn með sitt mikla ímyndunarafl upplifa í leikjum sínum hin ótrúlegustu ævintýri. Ævintýri sem fylgja þeim sem yndislegar minningar alla þeirra ævi.

Svava frá Strandbergi , 22.4.2009 kl. 11:48

3 Smámynd: Hörður B Hjartarson

    Svava! Enn get ég ekki sent þér skilaboð , sama vandamál með disdis hér á blogginu . Gleðilegt sumar , takk fyrir veturinn

Hörður B Hjartarson, 22.4.2009 kl. 19:45

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Hvernig skilaboð meinarðu, Hörður?  Gleðilegt sumar til þín líka og takk fyrir veturinn.

Svava frá Strandbergi , 23.4.2009 kl. 00:24

5 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Mikið afskaplega er þetta skemmtileg saga, og raunveruleg, þetta minnir mann á að maður vill stundum gleyma að börnin fara stundum yfir í annan heim í huganum, og við jafnvel skömmumst vegna einherra gjörða þeirra,, sem við skiljum ekki, vegna gleymsku okkar.

Bestu, og innilegar hveðjur.

SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 23.4.2009 kl. 00:54

6 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Takk fyrir innlitið Sigfús og Tryggvi og bestu kveðjur til ykkar. Það er satt að börnin fara yfir í annan heim í leikjum sínum og í sakleysi sínu gera þau oft eitthvað það í leiknum sem þeim fullorðnu finnst ósiðlegt.

Reyndar á þessi saga sér rætur í bernskuminningum um ímyndar leiki okkar þriggja systikinana.

Svava frá Strandbergi , 23.4.2009 kl. 01:49

7 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Takk fyrir það Guðný.

Það var einmitt það sem mér datt í hug, að þú hefðir spunnið þessa sögu út frá einhverju í þinni minningu, og það hefur þú gert, heldur betur vel.

Kveðja: SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 23.4.2009 kl. 07:55

8 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þakka þér fyrir, Sigfús.

Kveðja

Guðný Svava

Svava frá Strandbergi , 23.4.2009 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband