Leita í fréttum mbl.is

Smá fuglakreppa?

Ég var í frekar þungu skapi þegar ég gekk út i búð í dag til þess að kaupa í matinn.
En um það bil sem ég ætlaði að ganga inn i verslunina kom ég auga á lítinn fugl sem sat í reynitré þar skammt fyrir utan. Þetta var skógarþröstur svo ljómandi fallegur og rogginn með sig þó kalt væri í veðri.
Ég nam staðar við tréð og gaf mig á tal við litla fuglinn. Blístraði, eða réttara sagt reyndi að blístra nokkra tóna, en það heyrðist eiginlega ekkert í mér þar sem ég legg það ekki í vana minn að blístra. Þrösturinn lagði samt við hlustir, hallaði undir flatt og virtist áhugasamur um það sem ég hafði að segja. Ég gerði því aðra tilraun og nú gekk mér betur.

Ég spjallaði við skógarþröstinn dágóða stund og kærði mig kollótta þó fólk sem gekk framhjá gæfi mér hornauga. Þrösturinn horfði á mig sínum svörtu augum og tísti með spurnartóni. 'Þú átt víst ekki brauð?' 'Ég er svo svangur og kaldur þegar það er svona snjór yfir öllu'

Ég lofaði þrestinum að ég skyldi kaupa eitthvað handa honum í gogginn, flýtti mér inn í búðina og náði í snatri í það sem mig vantaði og svo auðvitað brauðið handa litla vininum.
En þegar ég kom út aftur, var skammdegismyrkrið skyndilega skollið á og þrösturinn á bak og burt. Líklega var hann floginn til næturstaðar smáfuglanna í skóginum í Fossvogsdal, því litlir fuglar fara ætíð að sofa um leið og það dimmir.
Ég varð fyrir miklum vonbrigðum og einnig öskuill út i fjárans myrkrið. En ég huggaði mig við það að þrösturinn yrði örugglega kominn á sinn stað við verslunina í bítið morguninn eftir. Ég hafði jú lofað honum mat og hann treysti því.
Svo ég opnaði pokann með fjölkorna brauðinu sem ég hafði keypt handa honum. Síðan muldi ég niður hverja brauðsneiðina á fætur annarri og stráði molunum allt í kringum reynitréð.
Mér var mun léttara um hjartarætur þegar ég gekk heim á leið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú þyrfti Mali the malicious að mæta á svæðið!

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.11.2008 kl. 14:56

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já, auðvitað og svo  Gosi graðnagli sem er mesta veiðikló. Hann reynir meira að segja að veiða hinar sverustu býflugur.  Ég næ samt alltaf að bjarga þeim frá honum. Skamma Gosa í burtu og skelli svo krukku undir flugukrúttið, renni blaði undir og sleppi þeim svo út um gluggann.

Ég ætti bágt með að fyrirgefa kisunnni minni ef hún veiddi fugl. En mannsepnan er skrýtin. Mér þótti dálítð vænt um að kisan mín hún Snotra sem ég átti einu sinni færði mér álltaf mýs. Hún lagði þær á eldhúsglófið hjá mér, Einn morguninn lágu tvær dauðar mýs á eldhúsgólfinu þegar ég kom fram. Ég lét Snotru aldrei sjá það að  ég henti 'matargjöfunum hennar út í tunnu.

Svava frá Strandbergi , 18.11.2008 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband