Leita í fréttum mbl.is

Sérstöku börnin á Blálandi. Skrifað vegna uppsagnar allra kennara Fjölmenntar Túngötu 7. Endurhæfingarskóla fyrir fólk með geðraskanir og seinni tíma heilaskaða.

Einu sinni var kóngsríki sem hét Bláland og þar ríktu náttúrulega kóngur og drottning. Kóngshjónin áttu fjölda barna, eða um það bil þrjúhundruð þúsund börn og það er hreint ekki svo lítið.
Kóngshjónunum gekk ekki vel að sinna öllum þessum barnaskara svo þau tóku það til bragðs að láta erfiðustu börnin vera útundan.
En flest börn kóngs og drottningar voru þó svo undurfalleg, greind og góð og að sjálfsögðu voru það uppáhaldsbörnin þeirra.
Uppáhaldsbörnin gengu auðvitað í skóla og allir voru sérstaklega þægilegir við þau
og eðlilega voru þau látin koma fram opinberlega með foreldrum sínum.
En sum önnur börn kóngshjónanna voru líka falleg og góð, þrátt fyrir að þau væru dálítið %u2018 fátæk í anda%u2019, eins og einhver hafði orðað það fyrir svo óralöngu.
Þessi börn fengu líka að ganga í skóla eins og uppáhaldsbörnin og flest allir voru frekar þægilegir við þau, eða næstum jafn þægilegir og við uppáhaldsbörnin.
En kóngshjónin áttu fleiri börn og það voru svo sannarlega erfið börn, en samt svo undarlega ólík innbyrðis.
Það var bara eitt sem þau áttu sameiginlegt.
Þau voru öll svo sérstök.
En þar sem þau voru óneitanlega erfiðust af kóngsbörnunum lentu þau skiljanlega í því hlutverki að vera höfð útundan.
Þau fengu ekki einu sinni að ganga í skóla. Samt gátu þau vel lært, þó ekki hefðu margir trú á því.
En sem betur fer fyrir sérstöku börnin hafði víðförult fólk tekið eftir því á
ferðalögum sínum um önnur kóngsríki að þar voru til sérstakir skólar fyrir svona börn.
Svo víðförla fólkið tók sig til og stofnaði þannig skóla fyrir sérstöku börnin á Blálandi.
Kóngur og drottning voru ekki beint hrifin af þessu framtaki en létu þó í byrjun nokkra smápeninga af hendi rakna til skólans.
En eftir því sem árin liðu dró úr peningagjöfunum. Og að lokum fékk Sérstaki skólinn ekki einn einasta eyri frá kóngshjónunum, því þeim fannst þessi skóli vera einum
of kostnaðarsamur.

Það voru svo mörg önnur fjárfrek verkefni sem arðvænlegra var að setja peningana í.

Það hafði til dæmis tekið drjúgan toll úr fjárhirslunni að koma böndum á vatnadrekann víðfræga sem átti sér bæli í ógnardjúpu gljúfri uppi undir Háuhnjúkum, tignarlegustu fjöllunum í kóngsríkinu.
En fróðir menn höfðu fundið það út að hægt væri að hafa nytjar af honum yrði böndum komið á hann.
Því var nú svo komið að vatnadrekinn var vanmáttugur og örmagna. Hann hafði verið fjötraður niður af fjölda útlendra riddara sem drifið hafði að úr öllum áttum til þess að taka þátt í þessum hættulega hildarleik.

Það hafði einnig verið mjög aðkallandi að láta skrifa bók um kóngshjónin og þjónanna þeirra, til þess að ekki gleymdist hve fjarskalega mikilvæg þau öll væru fyrir kóngsríkið.
Þetta varð svo vönduð bók. Kápan var gerð úr sérvalinni nautshúð og með gullstöfum framan á. En blöðin innan í bókinni voru úr hvítu kálfsskinni og svo undurmjúk viðkomu eins og krónublöð á hinni fegurstu rós.
Og nú var þessi sérstaki skóli enn að kalla eftir fé.


Kóngur ákvað að láta kanna málið, því hann dauðsá eftir aurunum sem höfðu farið í þennan skóla.
Þess vegna skipaði hann rannsakanda til þess að athuga starfsemi Sérstaka skólans. Svo væri barasta hægur vandi að leggja skólann niður svo lítið bæri á.
Kóngurinn var ánægður með þetta ráðabrugg sitt og ákvað að gleyma því að öll börnin hans ættu rétt á því að fá að læra.
Rannsakandinn rannsakaði alla starfsemi Sérstaka skólans og talaði meira að segja við skólastjórann og kennarana.
En kóngur var ekki jafn ánægður með niðurstöðuna. Sérstaki skólinn kom allt of vel út til þess að hægt væri að leggja hann niður.
En þá datt honum dálítið í hug.
Hann kallaði til sín Menningardísina í Máttarborgum og lét þau boð út ganga að hér
eftir réði hún öllu um menntamál kóngsríkisins.
Menningardísin vissi að nú þurfti hún vel að duga. Ekki gat hún skrökvað því til að
rannsakandinn hefði leitt í ljós að Sérstaki skólinn væri ómögulegur skóli.
En þá kom henni snjallræði í hug. Hún sagði að hún hefði verið slegin skyndilegri lesblindu þegar hún ætlaði að kynna sér skýrsluna um þennan vandræða skóla
Af þeim sökum hefði hún engar upplýsingar um stöðu mála þar á bæ og því væri ekkert hægt að gera fyrir þessa skólastofnun.

Þetta fannst öllum vera góð niðurstaða sem skýrði það fullkomlega að Sérstaki skólinn væri með öllu óþarfur.

En ekki get ég skýrt það hvers vegna þeim kóngshjónum fæddist eftir þetta sífellt fleiri sérstök börn.

Guðný Svava Strandberg.

Höfundur kennir við Fjölmennt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

og A - hluti ríkissjóðs rekinn með yfir 100.000.000.000 hagnaði..

Sveinn Arnarsson, 7.11.2006 kl. 03:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband