Leita í fréttum mbl.is

Auðvitað er þetta karlremba og ekkert annað

Mér hefur ávallt fundist þessi siður ferlega fornaldarlegur, að feður fylgi dætrum sínum upp að altarinu, svona álíka eins og þegar unnustinn þurfti að biðja föðurinn um hönd dótturinnar.
Þetta er arfur frá feðraveldinu í einni sinni lúmskustu mynd, en samkvæmt því átti eiginmaðurinn ekki  einungis konu sína heldur réði hann einnig yfir dætrum sínum .

Og ekki nóg með það, bændur fyrr á öldum eignuðu sér oftast nær vinnukonurnar á heimilinu líka,  (sér til yndisauka.)  Og ef þær urðu barnshafandi voru þær gefnar einhverjum vinnumanninum, sem var mútað til þess  að taka þær að sér, með því að fá til eignar smájarðarskika upp til afdala.
Þess vegna eru óteljandi Íslendingar rangfeðraðir eins og allir vita.
Þess voru meira að segja dæmi, að ef systir húsfreyjunnar var til heimilis hjá hjónum, að húsbóndinn slægi eign sinni á hana líka og eignaðist með henni börn til jafns við eiginkonu sína.

Svo ráðstöfuðu þeir hjónabandi dætranna og ákváðu hverjum þær ættu að giftast. Einfaldlega vegna þess að þeir áttu þær með húð og hári, þar til þeir gáfu þær frá sér, verðandi eiginmanni þeirra til eignar og yfirráða eftir giftinguna.

Nú og ef að kallinn var dauður, voru það synir hans, bræður dætra hans sem tóku við völdum yfir systrum sínum einfaldlega vegna þess að þeir voru karlkyns.

Konum var ekki treyst fyrir sjálfum sér, þær voru einungis leiksoppar karlaveldisins. Ef þær áttu einhverjar eignir fyrir giftingu sína, töpuðu þær þeim alfarið til eiginmanns síns,  um leið og þær voru komnar í hnapphelduna. Og ekki nóg með það, heldur þurfti að gefa með þeim svo þær gengu betur út, svokallaðan  heimamund,  til þess að einhver almennilegur maður liti nú við þeim .

Húsbóndi þeirra og herra, eiginmaðurinn, eignaðist því ekki aðeins konu þegar hann kvæntist, konu sem var skyldug til þess að uppfylla hjónabandskyldur sínar, hvenær sem hennar æðri helmingi þóknaðist, hvort sem henni líkaði betur eða verr, heldur einnig allan hennar veraldlega auð, ef einhver var. Og þar eftir réðu hún akkúrat engu um fjármál sín og varð að biðja bónda sinn um leyfi ef hana langaði í einhvern bölvaðan óþarfa að hans mati. Og jafnvel þurfti hún að taka .því sem sjálfsögðum hlut að eiginmaðurinn snoppungaði hana, ef honum mislíkaði eitthvað við hana og þótti það ekkert tiltökumál.

Það var fjöldi annarra kvaða sem fylgdu því að vera gift kona. Það hefði t.d. verið óhugsandi hér á öldum áður, að konur sem voru í hjónabandi ferðuðust eitthvað að ráði án fylgdar karlmanns sér til halds og trausts og helst þurfti önnur kona að vera með í för til þess að fyllsta siðgæðis væri nú gætt.
Giftar konur máttu ennfremur ekki ganga með slegið hár og ef þær fóru í kirkju urðu þær að hylja hár sitt.
Þær máttu heldur ekki dansa á skemmtunum nema við sinn karl, með þeirri undantekningu þó, að einhver annar karlmaður bæði eiginmanninn um leyfi til þess að mega stíga dans við eiginkonuna .

Konur máttu eigi heldur kjósa í aldaraðir. Í raun voru konur almennt litlu rétthærri en þrælar.  Þær voru eiginlega bara eins og eitt af húsgögnunum á heimilinu. Húsgagn sem þjónaði herra sínum til borðs og sængur í bókstaflegri merkingu þess orðs og þrifu síðan skítinn eftir hann og alla aðra á heimilinu, fyrir nú utan það að neyðast kannski til þess, að þurfa að hlaða niður allt að 14 til 17 börnum. 

Þessir gömlu siðir minna óþægilega á stöðu múslímskra kvenna í heiminum í dag. Og því miður eru nokkrir  þessara siða enn viðhafðir í sumum ógæfu- hjónaböndum, þar sem eiginmaðurinn beitir konu sína andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Það var einmitt sýnt viðtal í Kastljósi um daginn,  við tvo sálfræðinga þar sem þeir ræddu um afleiðingar, gjörða,  þessara  varmáttugu karla, á allt líf kvenna þeirra og barna.

Konur sem berjast fyrir jafnrétti á öllum sviðum og sem vita hvað liggur að baki þessum sið, að faðirinn fylgi dóttur sinni upp að altarinu, ættu að leggja hann niður hið snarasta, þ.e.a.s. ef þær vilja vera samkvæmar sjálfri sér.

 


mbl.is Karlremba að feður fylgi dætrum að altarinu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Alveg sammála þessu, þessir gömlu siðir eru úreldir. Mér finnst að þeir sem eru að gifta sig ættu að velja sjálf sinn fylgdarmann eða konu í þessari athöfn, eða bara sleppa alveg þessari fylgd.

Marta B Helgadóttir, 22.9.2007 kl. 01:30

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Akkúrat.

Svava frá Strandbergi , 22.9.2007 kl. 01:34

3 Smámynd: www.zordis.com

Nýjir tímar varpa oft skugga á það gamla og fáranlega eins og þú bendir á.  Sannleikur í mörgu.  Ég er á því að við eigum að velja það fallega og koma því áfram í framtíð.

Þegar ég gifti mig fyrir 2 árum þá fanst mér yndislegt að ganga að altarinu með föður minn mér við hlið!  í RAUN var það fáránlegt í eiginlegri merkingu því hann var ekki að gefa mig.  Konu sem var búin að vera í sambúð í 7 ár (mín að testa fjallið) .....  Mér fanst bara svo æðislegt að fá pabba til að ganga með mér þessi síðustu spor sem Frk og nú æðisleg Frú.

Faðmlag til þín inn í daginn!

www.zordis.com, 22.9.2007 kl. 08:42

4 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Já ég er sammála þessu en þetta er víst gamall siður.

Kristín Katla Árnadóttir, 22.9.2007 kl. 11:07

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ef fyllsta jafnréttis milli foreldranna væri gætt mættu þau bæði fylgja dóttur sinni að altarinu. Ekki til að gefa hana heldur kveðja hana á táknrænan hátt eins og þú segir Arna.

Á maður að halda í gamla siði sem ríghalda í karlaveldið enn ganga algerlega framhjá móður brúðarinnar? 

Það er ekki alltaf gott að halda í gamla siði, bara siðanna vegna. Maður þarf að skoða hvað liggur að baki þeim og breyta þeim síðan svo þeir verði í takt við nútímann. Svo getur brúðuinn allt eins gengið ein upp að altarinu ef hún kýs það.  

Svava frá Strandbergi , 22.9.2007 kl. 11:46

6 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Sæl Svava og aðrir sem tjáð sig hafa hérna. Það vill svo skemmtilega til að dóttir mín var að gifta sig  10. ágúst s.l. en hún býr í Östersund Svíþjóð. Ekki varð ég var við að presturinn sem gifti gerði athugasemd og er hann ungur maður. Dóttir mín sem er 42 ára vissi sjálfsagt nákvæmlega hvað hún vildi, þegar hún bað mig föður sinn, að ganga inn kirkjugólfið með sér. Ekki datt mér í hug að það flokkaðist undir karlrembu. Kannski var ég ekki nógu víðsýnn til að biðja konu mína að gera það. En ansi hefði mér fundist það fruntalegt að neita einlægrar bónar dóttir minnar, að leiða hana að altarinu. Velti því fyrir mér ef konan tekur við þessu hlutverki í framtíðinni, hvað við karlarnir munum kalla það eftir nokkur ár, kannski kerlingarrembu? 

Þorkell Sigurjónsson, 22.9.2007 kl. 11:54

7 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Viðbót. Var ekki búinn að lesa þetta með að bæði hjónin fylgd dótturinni að altarinu, en það er ljómandi hugmynd.

Þorkell Sigurjónsson, 22.9.2007 kl. 11:56

8 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Til hamingju með dótturina Keli.

Svava frá Strandbergi , 22.9.2007 kl. 12:03

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En það vegur upp á móti þessari svívirðilegu karlrembu að margar dætur geta um síðir fylgt föður sínum til grafar!

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.9.2007 kl. 19:31

10 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já, satt er það Nimbus, en ekki gat t.d. Ragnheiður Brynjófsdóttir biskups fylgt föður sínum til grafar, heldur þvert á móti.

Svava frá Strandbergi , 22.9.2007 kl. 21:10

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En hún skrifaði ævisögu sína gegnum miðil fyrir nokkrum árum og skákaði kallfjandanum þar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.9.2007 kl. 22:57

12 Smámynd: halkatla

ég rakst á eina svona ótrúlega rangfeðrun í gömlu ættartöflu heimilisins, einhversstaðar aftan í ættum, þetta setti svo mikið drama í allt og heillaði mann, samt var þetta líka rosalega sorglegt. 

halkatla, 27.9.2007 kl. 19:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband