Leita í fréttum mbl.is

Mávarnir reyndu að ráðast á Tító!

Ég hef aldrei vitað annað eins, Tító, innikisinn minn sat á útsýnispallinum sínum úti í opnum sólsvala glugganum hér uppi á þriðju hæð eins og svo oft áður. Ég hjálpaði honum upp á pallinn sinn af því hann er orðinn gamall og þreyttur og brá mér svo frá augnablik.
En skyndilega heyrði ég hræðslumjálm í Tító og rauk út á svalir. Þá var komið mávager fyrir utan gluggann, sjö mávar alls steyptu sér niður að glugganum sýnilega með það í huga að hafa Tító í kvöldmatinn. Hann var svo hræddur að hann forðaði sér niður á neðri pallinn fyrir neðan gluggann, meðan mávarnir flugu hvað eftir annað að glugganum. Það heyrðist ekki múkk í þeim meðan á árásinni stóð, þeir bara flugu þarna ógnandi hver af öðrum þétt  upp að glugganum þar sem Tító sat öruggur undir efri pallinum.
Ég fylgdist með þeim úr öðrum  glugga en þeir létu návist mína ekki á sig fá. Þeir hringsóluðu svona í fimmtán mínútur og alltaf aftur og aftur að glugganum þar sem Tító sat. Undir lokin voru þeir farnir að garga af ergelsi yfir að bráðin skyldi sleppa svona auðveldlega frá þeim og tíndust síðan burt einn af öðrum.
Það hafa tveir svartbakar eða sílamávar haldið til hérna á milli blokkanna í tæp tvö ár,  líklega vegna þess að bæði Bónus og  ein sjoppa er hér rétt hjá, en síðastliðið ár fór mávunum að fjölga og það er óhuggulegt að sjá þá allaf fljúga hér yfir og á milli húsanna.
Fyrir rúmu ári síðan sá ég svo furðulega sjón, tvo máva sem réðust á svartan kött við aðra blokk hér rétt hjá, en nær Bónus. Þeir steyptu sér niður að honum og gogguðu í bakið á honum. Kisa átti fótum  fjör að launa. Hún gerði sig eins lága í loftinu og hún mögulega gat og skaust svo eins og píla inn í þéttan runnagróður
Ég hélt þegar ég sá þetta atvik að ég yrði ekki eldri af undrun. En að mávarnir skyldu reyna að ráðast á Tító þar sem hann sat úti í opnum glugganum  hefði ég aldrei trúað fyrr en á reyndi.
Mikið lifandis ósköp hljóta fuglarnir að vera svangir. Þeir eru að breytast í ránfugla.
Það liggur við að ástandið sé orðið eins og í kvikmyndinni 'The Birds' eftir Alfred Hitchcock sem var sýnd fyrir óralöngu og var talin vera eitt af hans meistaraverkum.

Ég vorkenni mávunum og um daginn þegar ég sá í sjónvarpinu að verið var að eitra fyrir þá, varð mér að orði.'Mikið lifandis skelfing á þetta bágt' Þó hef ég hingað til hatað máva eftir að ég sá einn þeirra, fyrir tugum ára síðan tína upp heilu röðina af litlum andarungum sem voru líklega að fara í fyrsta sinn útá Tjörnina með móður sinn.  Andamamma gat lítið, nei ekkert að gert. hún gargaði bara og barði saman vængjunum meðan hún horfði á hvern ungann sinn á eftir öðrum enda  uppi í gini ófreskjunnar. 

En mér varð hugsað til þess eftir árás mávanna á Tító kisann minn, sem ég elska út af lífinu hve við mennirnir erum sjálf undarlegar skepnur. Við erum líka grimm eins og mávarnir og stundum eru gjörðir okkar einna líkastar því sem við séum hálf siðblind. Eins og t.d. að halda gæludýr sem við dekrum við, jafnvel þó þau séu í eðli sínu grimmari rándýr en mávarnir eru orðnir í dag.  Eins og reyndin er með kettina okkar,  Já og hundarnir eru líka rándýr í eðli sínu þó þeir séu svo tamdir að þeir veiða ekki nema undir stjórn mannsins. Hundar og kettir eru krútt þess vegna elskum við þau, en mávarnir eru í okkar augum illfygli vegna þess m. a. að þeir éta lítil krútt eins og  t.d. andarungana á Tjörninni. 

Við fyrirgefum köttunum þó þeir veiði fallegu litlu fuglana vegna þess að kettir eru hændir að manninum og eru blíðir og góðir við eiganda sinn, fyrir utan það að vera loðnir og mjúkir.

Hundar eru látnir veiða refi í Englandi og minka t.d. á Íslandi, refirnir eru ekki í náðinni af því þeir eru ekki tamdir og þeir stela fæðu frá okkur mönnunum. Minkarnir gera það líka því þeir veiða lax án þess einu sinni að borga fyrir það og drepa fugla sem okkur eru þóknanlegir af því við höfum annað hvort nytjar, eða yndi af þeim. 

Við mennirnir miðum allt út frá okkur sjálfum, drepum þau dýr sem okkur líkar ekki við eða þá að við drepum þau til þess að éta þau sjálfir.
 Mennirnir erum ekkert betri en mávarnir, við erum tækifærissinnar eins og þeir en því miður fyrir mávana þá trónum við á toppnum í dýraríkinu og ráðum þess vegna örlögum þeirra en þeir ekki okkar, eða við skulum rétt vona það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

æ æ hræðileg saga. Finn til með kettinum. Þessi mávaplága er orðin ógurleg. Sé þeim líka fjölga í  mínu nágrenni bæði hér í fossvoginum og upp við Elliðavatn.

Var samt að horfa á þá um daginn í jákvæða skapinu og finnst þeir ansi fallegir.

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 21.6.2007 kl. 23:41

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Aumingja Tito, vona að honum líði vel núna. Mávarnir eru o.k. en ekki í of miklum mæli. Mér datt einmitt í hug myndin Birds þegar ég var að lesa þetta

Ásdís Sigurðardóttir, 21.6.2007 kl. 23:45

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Já þeir eru ansi fallegir greyin Ása Hildur.

Ásdís, Tító er búinn að taka gleði sína. 

Svava frá Strandbergi , 21.6.2007 kl. 23:54

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Jesús minn! Hvernig endar þetta Rafn? Já það verður svo sannarlega að bregðast við þessu.

Svava frá Strandbergi , 22.6.2007 kl. 01:04

5 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Máfarnir hafa ekkert æti, þeir eru óðir af hungri, eru ekki í sínu rétta umhverfi.  Gera eins og vesturfararnir forðum flytja sig búferlum til að eiga meiri möguleika á því að fá æti.  En skepnurnar sjá auðvitað ekki svo mikinn mun á 2ja ára snáða og smádýrum.  Þetta mál er grafalvarlegt, ég man eftir því að þegar ég var stelpa í sveit undir Eyjafjöllum, þá réðust máfarnir á lömbin þegar rollan var með þau í burðarliðnum og þau sem lifðu fengu sýkingu og veiki sem erfitt var að eiga við.  Þau bólgnuðu upp á öllum liðum og áttu erfitt með að ganga.

Ester Sveinbjarnardóttir, 22.6.2007 kl. 01:16

6 Smámynd: halkatla

þetta er rosalegt! það er eitthvað birds dæmi í gangi því að kisan mín er ennþá ofsótt af þröstum og maríerlum, Þeir hafa verið að vekja mig og gera ekki annað en að steypa sér yfir Kassöndr ef hún fer útí garð....  ég er svo hrædd um að hún veiði þá alla og þoli ekki þessa hegðun fuglanna. En aumingja litli Tító, þetta er alveg svakalegt, vonandi jafnar hann sig eftir mávaárásina

halkatla, 22.6.2007 kl. 01:17

7 Smámynd: halkatla

en ég vil nefna að mávarnir hérna fyrir austan eru alveg til fyrirmyndar,  þeir eru bara tignarlegir og yndislegir, en ég myndi sannarlega verða smeyk um minn kött ef þeir hegðuðu sér svona einsog skeði fyrir Tító.

halkatla, 22.6.2007 kl. 01:19

8 Smámynd: halkatla

afsakið þetta kommentaflóð en éghef eitthvað svo mikið að segja um fugla, það er nefninlega svo æðislegt að núna á hverju kvöldi þá er fjaran mín full af æðarkollum með unga, það eru svona að meðaltali 7-10 ungar á hverja kollu og ég hef ekki séð svona fjölda áður, mávarnir og þeir synda um saman.

halkatla, 22.6.2007 kl. 01:21

9 Smámynd: halkatla

ég var einu sinni að passa kött yfir sumar sem ég elskaði alveg og kelaði rosalega mikið við, en hann veiddi marga fugla á dag og hreinsaði upp alla andarunga sem komu við í fjörunni hræin voru síðan að finnast útum allt, en mér tókst að bjarga einum sem hann hafði komið með inn til að leika sér að. Sá litli ungi bjargaði eiginlega sumrinu, og ég fór með hann niður í fjöru og sá hann synda burt með mömmu sinni. Það voru alls 11 æðarkollur í fjörunni þegar ég kom með hann niðureftir og þær syntu allar útá sjó þegar þær sáu mig en ein sneri við og kom á móti okkur þegar hún heyrði í unganum og þau syntu svo saman tvö á braut. Svo náði ég að bjarga einum músarindli líka sem var laus að fljúga um heima þegar ég kom heim úr vinnunni einn daginn. Þetta var hrikalegt sumar, þessvegna er ég svona stressuð núna yfir því að þrestirnir hreinlega biðja Kassöndru að veiða sig....

p.s enn og aftur bið ég velvirðingar á kommentaflóði - og við sendum Tító rosa miklar stuðningskveðjur. 

halkatla, 22.6.2007 kl. 01:29

10 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Æi þetta er hræðileg saga elsku litliTító þinn já þetta er erfitt hjá máfunum núna.

Kristín Katla Árnadóttir, 22.6.2007 kl. 09:43

11 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Frábærar pælingar hér. Þetta er nákvæmlega eins og þú segir Guðný. Það eru mennirnir sem ráða goggunarröðinni. Mér þykja mávarnir fallegir, eins og reyndar allir fuglar. Og ég  elska bæði hunda og ketti. Ég er bara mikill dýravinur. Samt er þessi saga óhugguleg. Minnir einmitt á Birds. Það er eitthvað óeðlilegt í gangi þegar mávar eru farnir að elta allt sem hreyfist, börn og ketti þ.á.m.

Jóna Á. Gísladóttir, 22.6.2007 kl. 10:27

12 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Takk fyrir kommentin öll sömun. Anna Karen takk fyrir stuðningskveðjur til Títós Þú þarft alls ekki að biðjast velvirðingar fyrir kommentin þín, því mér finnst gaman að þeim. Undarlegt að mávarnir fyrir austan séu svona til fyrirmyndar og veiði ekki ungana eins og í Reykjavík. Ætli það sé eitthvað meira æti í sjónum fyrir austan. Krúttlegar sögur af því að bjarga fuglunum. Ég bjargaði einu sinni þrastarunga undan ketti og setti hann í gárabúrið og hafði gaukinn fyrir utan búr. Unginn var alltaf að kalla á mömmu sína og gaukurinn svaraði honum alltaf í voða blíðum tón sem ég hafði aldrei heyrt hjá honum áður. Seinna um daginn fór ég með búrið út í garð og hafði það opið, þá kom annað foreldrið mjög fljótlega og náði í ungann sinn og saman flugu þeir burtu. Ester hræðilegt að heyra um lömbin, ég vissi ekki að mávar ættu þetta til, En það er eitthvað að breytast hegðun litlu fuglana Anna Karen að steypa sér yfir kött nema þeir séu óvanir köttum á sínu yfirráðasvæði og eigi kannski hreiður í grenndinni eða ég bara veit það ekki. Já það er eins og frásögnin í kvikmyndinni Birds sé að verða að veruleika. En í gær vorkenndi ég mávunum svo mikið að ég var í alvöru að pæla í því að hend mat út til þeirra en fattaði svo að það væri auðvitað mesta óráð sem ég gæti gert. Grey fuglarnir að svelta svona já ég vorkenni þeim þó þeir hafi ætlað að drepa Tító því auðvitað eig a þeir bara bágt.

Svava frá Strandbergi , 22.6.2007 kl. 13:12

13 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Já það er svolítið flókið þetta með siðferði gagnvart dýrum. Eða bara siðferði er alltaf flókið :)

gerður rósa gunnarsdóttir, 23.6.2007 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Svava frá Strandbergi
Svava frá Strandbergi

Myndlistarmaður. Smellið á myndina til að sjá verð á skopmyndum sem og eftirprentunum úr galleryi.
Myndir á þessarri síðu eru verndaðar af höfundarrétti hjá Myndstef.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband